Við fjölskyldan erum nýlega komin heim úr dásamlegu sumarfríi sem við eyddum á ferðalagi um Suður Evrópu. Hófum ferðina í Þýskalandi, keyrðum svo sem leið ná niðureftir til Ítalíu og Frakklands og enduðum svo á Spáni þar sem við sóluðum okkur og láum í leti í þrjár vikur. Samtals fimm vikna ævintýralega skemmtilegt frí sem hefði hreint ekki getað verið betra. Á leið okkar niður eftir til Spánar stefndum við að því stoppa í litlum bæjum en ekki á fjölförnum ferðamannastöðum og sáum ekki eftir þeirri ákvörðum. Við höfðum ekki mjög mikinn tíma á hverjum stað og það var því kærkomið að gista í litlum krúttlegum þorpum á frönsku og ítölsku rivíerunni þar sem ekki þurfti að bíða í bílaröðum eða rata um götur stórra borga. Gistinguna bókuðum við alla fyrirfram gegnum booking.com og hver einasta bókum stóðst upp á hár. Fyrstu nóttina gistum við í borginni Bolzano sem er í Suður Týról, svo lá leið okkar niður að Garda vatni í bæinn Sirmione. Þar á eftir keyrðum við niður á Rivíeru og gistum í smábænum Finale Ligure. Eftir það lá leiðin yfir landamærin til Frakklands og fyrsti viðkomustaður þar var Saint Maxine, svo Tarascon og að síðustu Argéles Sur Mer. Þá fórum við yfir landamærin til Spánar, til Barcelona og svo sem leið lá niður eftir til Alicante þar sem við hittum foreldra mína og héldum áfram suður í íbúðina þeirra. Ef ykkur langar að forvitnast meira um ferðina getið þið kíkt á instagram síðuna mína, finnið mig þar undir: helenagunnarsd, set þar inn allskonar myndir! Eins og gefur að skilja verandi á þessum stað, við matarkistu Miðjarðarhafsins var maturinn í ferðinni allri einstaklega góður. Einföld og framúrskarandi hráefni sem fengu ávalt njóta sín í hverjum rétti og allt bara eitthvað svo gott að það lá stundum við tárum hjá undirritaðri. Félagsskapurinn, umhverfið og sólin hafa mjög sennilega haft sitt að segja líka.
Uppskriftin sem fylgir að þessu sinni er ef til vill ekki sú sumarlegasta. Mér finnst svona góðgæti þó alltaf eiga við. Það er meira að segja nokkuð sniðugt að elda svona mat þegar manni langar helst að vera úti að leika og á meðan malla leggirnir án afskipta. Ég mæli hiklaust með þessu rétti sem er einn af mínum allra uppáhalds.
Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu (fyrir 3-4)
- 4 vænir lambaleggir (350-400 gr stykkið)
- 2 laukar
- 1 stór gulrót
- 2-4 hvítlauksrif
- 2 msk tómatpurré
- 3 dl rauðvín
- 6 dl vatn
- 2 msk nautakraftur (Ég nota fljótandi Oscar kraft)
- 1 msk fersk rósmarín, gróft saxað (eða 1 tsk þurrkað)
- 3 þurrkuð lárviðarlauf
- Smjör, sjávarsalt og svartur pipar
Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður. Kryddið kjötið vel með salti og pipar. Takið stóran pott, sem má fara í ofn og hitið á meðalháum hita á eldavél. Bræðið 1 msk af smjöri í pottinum, brúnið kjötið vel á öllum hliðum og takið það svo uppúr pottinu. Skerið grænmetið í frekar grófa teninga. Bræðið 1 msk í viðbót af smjöri í pottinum og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Setjið tómatpurré út í og steikið áfram. Hellið rauðvíninu yfir og skrapið vel botninn á pottinum. Leyfið að sjóða í 1 mínútu.
Hellið vatninu og kraftinum saman við. Setjið kjötið út í pottinn og setjið lok ofan á þannig að það sé örlítil rifa til að sleppa gufunni út. Hleypið suðunni upp og setjið svo inn í ofn í 90 mínútur. Takið þá lokið af pottinum, hækkið hitann í 200 gráður og leyfið að bakast áfram í 20 mínútur. Takið úr ofninum. Veiðið kjötbitana upp úr og geymið undir álpappír. Setjið pottinn á eldavélina, kveikið undir á háum hita og sjóðið sósuna niður þangað til að sósan er um það bil helmingi minni en var í upphafi eldunar.
Ef ykkur finnst sósan of þunn má þykkja hana með smá sósujafnara eða 2 tsk af hveiti stöppuðu saman við 1 msk af mjúku smjöri, pískað saman við sósuna á meðan hún sýður. Berið lambaleggina fram með góðri kartöflumús.
Skildu eftir svar