• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Glútenlaust granóla Gvendólínu

janúar 7, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4780Af hverju er svona gaman að gera eitthvað annað en það sem maður á að vera að gera? Núna til dæmis ætti ég að sitja við skriftir á lokaritgerðinni minni sem virðist í augnablikinu bara alls ekki ganga, allavega ekki nema á hraða óvenju hægfara snigils. Í gær fékk ég þá frábæru hugmynd um hádegisbil að nú væri fullkominn tími til að búa til granólað sem ég hef hugsað um svo lengi. Svo ég gerði það. Það góða var að það tók ekki meira en hálftíma og afraksturinn var eitthvað það allra besta granóla/múslí/morgunkorn sem ég hef smakkað. Svo tímanum var vel varið.

min_IMG_4794Ég fjárfesti nýlega í bókinni It´s all good eftir Gwyneth Paltrow (Gvendólínu) og hef lesið hana spjaldanna á milli á spjaldtölvunni, keypti sumsé ipad útgáfu sem mér þykir hin mesta snilld. Bókin er frábær, full af hollum og einföldum uppskriftum sem lofa allar afar góðu og ég hef iðað í skinninu að prófa. Fyrsta uppskriftin sem ég prófaði hitti allavega beint í mark! Mig hefur lengi langað að búa til granóla en hef alltaf hikað þar sem aðal uppistaðan eru oftast hafrar sem því miður fara ekki svo vel í mig. Þetta glútenlausa granóla þar sem aðal uppistaðan eru quiona flögur þótti mér því tilvalið að prófa og ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég hvet ykkur innilega og óhikað við að prófa þetta granóla og alls ekki vera hrædd við quinoa flögurnar þó þið hafið aldrei prófað þær. Þær fást í öllum heilsubúðum og sennilega í heilsurekkum einhverra matvöruverslana. Það er þess virði að gera sér ferð til að næla sér í þetta ofurholla og prótínríka góðgæti.

min_IMG_4792Guðdómlegt granóla Gvendólínu (Lítillega breytt uppskrift úr bókinni It´s all good):

  • 1/2 bolli ólífuolía (líka hægt að nota kókosolíu)
  • 1/2 bolli hlynsíróp (ég notaði aðeins minna en fannst þetta samt alveg nógu sætt)
  • 3 bollar quinoaflögur
  • 1 1/4 bolli gróft saxaðar valhnetur
  • 1 1/4 bolli gróft söxuð graskersfræ
  • 1 bolli þurrkaðar gráfíkjur, skornar í litla bita
  • 1 bolli þurrkuð trönuber (Gvendólína notar sveskjur)
  • Gott sjávarsalt (ég notaði um 1/2 tsk)

min_IMG_4777Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Pískið saman ólífuolíu og hlynsírópi. Bætið quinoaflögunum saman við og blandið vel saman. Hellið á pappírsklædda ofnplötu og dreifið vel úr. Stráið smá sjávarsalti yfir, bakið í 15 mínútur og hrærið einu sinni til tvisvar í á meðan. Takið úr ofninum og bætið restinni af hráefnunum saman við á plötuna og blandið vel saman.min_IMG_4781 Bætið e.t.v við örlitlu sjávarsalti í viðtbót. Bakið áfram í um 10 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg, setjið svo í stóra glerkrukku eða annað ílát og geymið lokað við stofuhita. min_IMG_4798Granólað er gott með grískri jógúrt, ab mjólk, hreinni jógúrt eða venjulegri mjólk. Uppáhaldið mitt er að hella yfir það smá möndlumjólk og borða í morgunmat.. eða eftirrétt. Ofsalega gott!min_IMG_4800

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Glútenlaust, Glútenlaust granóla, Gott granóla, Góð granóla uppskrift, Góður morgunmatur, Granóla, Múslí uppskrift

Kjúklingur með mozarella og tómötum..

janúar 5, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4759… og balsamikediki og vorlauk og ólífum. En þá er það líka upptalið. Svei mér þá hvað þetta var góð og hressandi máltíð eftir hverja stórsteikina á fætur annarri yfir hátíðarnar. Við Heimir vorum sammála um það á nýársdagskvöld þá eftir enn eina veisluna, að við værum sennilega búin að vera samfleytt södd síðan á þorláksmessu. Ég held að það sem geri líka blessaða jólahátíðina svona frábrugðna eðlilegu mataræði (svona fyrir utan reykt og saltað kjöt) sé allur sykurinn. Það er konfekt á hverju horni og eftirréttir verða eðlilegasti hlutur á eftir stórkostlegum veislumáltíðum. Sykurinn má ekki bara finna í eftirréttunum eða á kaffiborðinu heldur líka út á kartöflurnar,  út í sósuna, ofan á hamborgarhrygginn, saman við waldorfssalatið og svo væri lengi hægt að telja.

min_IMG_4761En það sem við áttum yndislega jólahátíð umvafin elskulegu fjölskyldunum okkar, stórsteikum og félögunum sykri og rjóma. Ég tek þó janúar og nýju ári fagnandi. Það er svo margt spennandi á dagskrá hjá okkur á þessu ári, nokkur stórafmæli, útskrift og tvær utanlandsferðir eru nú þegar á dagskrá svo það verður nóg að gera á næstu mánuðum. En að matnum. Kjúklingarétturinn sem ég set inn í dag er alveg einstaklega góður. Ég veit að ég segi oft að matur sé einfaldur og fljótlegur en það er líka af því ég meina það. Og þessi er hvorutveggja og líka ofboðslega bragðgóður, léttur í maga og eitthvað allt annað bragð en af jólamat. Prófið bara!min_IMG_4755

Kjúklingur með mozarella og tómötum:

  • 4 kjúklingabringur eða 8 úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5 vorlaukar
  • 2 kúlur ferskur mozarella ostur
  • 1 krukka svartar ólífur
  • 1 dl balsamikedik
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Ólífuolía

Aðferð: Kljúfið kjúklingabringurnar í tvennt ef þið notið þær. Kryddið kjúklinginn vel með salti og pipar og steikið þar til vel brúnaður og nánast eldaður í gegn. Færið kjúklinginn í eldfast mót og leggið sneið af mozarella osti ofan á hvern. Hitið grillið í ofninum. Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og saxið vorlaukinn smátt. Setjið tómatana, hvíta hlutann af vorlauknum og ólífurnar á pönnuna og steikið í stutta stund við háan hita. Hellið balsamikedikinu út á pönnuna og leyfið að sjóða aðeins niður í 1-2 mínútur. Hellið yfir kjúklinginn og mozarellaostinn. Setjið undir grillið í u.þ.b 5-7 mínútur eða þar til osturinn verður gullinbrúnn.min_IMG_4749 Stráið restinni af vorlauknum yfir og berið fram t.d með hrísgrjónum eða brauði.min_IMG_4767

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldir kjúklingaréttir, Fljótlegur kvöldmatur, Góður kjúklingaréttur, Hollur matur, Ítalskur kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur, Kjúklingur með mozarella

Sætur endir og jólakveðja..

desember 23, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

Það eru sennilega flestir löngu búnir að ákveða hvað á að vera í eftirrétt yfir jólahátíðina. En ef þið eruð ekki búin að því þá tók ég saman nokkra uppáhalds eftirrétti og sætmeti sem ég hef sett inn á síðuna á árinu. Fyrir utan það hvað það er nú bara alltaf gaman að skoða eftirrétti og láta sig dreyma.. Sumt af þessu myndi líka sóma sér vel með síðdegiskaffinu eða sem sætur endir á jóla brönsinum.

Ég óska ykkur kæru lesendur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári og vona að þið eigið gómsæta og notalega hátíð með fólkinu ykkar.

min_img_2834Ég hugsa að þetta sé einhver fallegasta kakan sem ég gerði á árinu. Berin gera hana sannarlega sumarlega en snjóandi flórsykur setur hana í smá jólafílíng. Hvít súkkulaðibaka með berjum myndi sannarlega sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er. Ég myndi þyggja sneið hvenær dags sem er..img_1730

Litlar súkkulaðikökur með blautum kjarna. Klassískur eftirréttur og það góða við hann er að hann má undirbúa með góðum fyrirvara og skella svo í ofn rétt áður en hann er borinn fram. Himneskar sætar syndir..min_img_3449Það er varla hægt að hugsa sér einfaldari eftirrétt en þennan og ég á ennþá eftir að hitta manneskju sem þykir þetta ekki gott. Marengsbomba með rjómasúkkulaðirúsínum, pipp súkkulaðisósu og ávöxtum. Hér er um að gera að nota það sem manni þykir sjálfum best og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.min_img_2635Ég luma ennþá á bláberjum í frystinum síðan í haust og get ekki beðið eftir að gera þessa ómótstæðilega góðu bláberjaböku með marengs. Fá hráefni og einstaklega ljúffeng útkoma. Einn af mínum uppáhalds eftirréttum.img_1666Dásamlega tiramisu. Ég veit ég sagði að bláberjabakan væri einn af mínum uppáhalds eftirréttur en í alvöru þá held ég að tiramisu nái hugsanlega að toppa hana. Þetta Toblerone Tiramisu er yndislega gott. Þeir sem halda að þeir séu ekki mikið fyrir tiramisu skipta um skoðun þegar þeir smakka þetta. Það er bara þannig. min_img_4201Döðluterta með jarðarberjarjóma og súkkulaðikremi. Það þarf svosum ekkert að vera að orðlengja neitt um þessa klassísku tertu sem hefur verið á borðum hjá okkur fjölskyldunni svo árum skiptir. Alltaf svo góð, bæði sem eftirréttur eða á kaffiborðið. img_0213Þessi einfalda súkkulaðimús er alltaf góð. Ég mæli með að bera hana fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum, hindber þykja mér best með henni. Eftirréttur sem flestum þykir góður!min_img_4176Fersk og létt en bráðnar í munni. Sítrónu blondína myndi sóma sér vel sem eftirréttur á eftir steikinni eða reyktu kjöti. Borin fram með þeyttum rjóma eða vanilluís og skreytt með jólalegum rifsberjum. Langar ykkur ekki í sneið?min_IMG_4696Voruð þið ekki örugglega búin að sjá jólaísinn í ár? Rjómaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum. Ég gat ekki gert listann án þess að hafa þennan með. min_img_2570Síðast en alls ekki síst. Brownie með rjómaosti og pipp súkkulaði. Ó hún er svo góð að maður gæti næstum grátið. Fólk sem hefur prófað er sannfært og nú er komið að þér.

Njótið jólanna kæru vinir! Ég hlakka til að deila enn fleiri uppskriftum með ykkur á nýju og spennandi ári 2014.

Filed Under: Eldhúsperlur

Jólarjómaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum

desember 18, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4695Eitt það skemmtilegasta og jólalegasta sem ég gerir fyrir jólin er að búa til jólaísinn. Þegar ég var lítil og hékk í svuntufaldinum á mömmu þótti mér svo miklu skemmtilegra að hjálpa henni að gera ísinn heldur en að baka smákökur. Ég beið spennt eftir ískvöldinu og mér fannst alveg ömurlegt ef ég missti af því, sem gerðist reyndar afar, afar sjaldan. Mamma hrærði eggin og sykurinn inni í búri í hávaðasömustu Kenwood hrærivél sem sögur fara af og rjóminn var þeyttur frammi í eldhúsi á meðan. Svo komst friðurinn á aftur og þegar öllum hráefnunum var blandað rólega saman varð úr dásamleg ísblanda sem breyttist svo í besta ís sem til er. min_IMG_4691Ég geri alltaf okkar hefðbundna jólaís sem samanstendur af sjerríi, muldum makkarónukökum og súkkulaði. Í ár ákvað ég að gera líka nýja tegund eftir að hafa fengið á heilann að piparkökur og Baileys hlyti bara að passa saman eins og hönd í hanska. Sem það gerir. Ísinn er einstaklega góður, hann er svo góður að þið verðið að prófa. Trúið mér. Ég nota alltaf sömu grunnuppskrift í ís sem samanstendur af 6 eggjum, 6 matskeiðum af sykri og hálfum líter af rjóma. Þetta er uppskriftin sem mamma kenndi mér og góð kona kenndi henni. Hún er einföld og virkar alveg þrusu vel.

Jólaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum:

  • 6 egg
  • 6 msk sykur
  • 1/2 líter rjómi
  • 200 gr piparkökur
  • 2 plötur Pipp súkkulaði með Irish cream (eða 200 gr gott rjómasúkkulaði eða karamellufyllt súkkulaði)
  • 1/2 – 1 dl Baileys (eftir smekk ég notaði alveg 1 dl, vildi finna Baileys bragð)

min_IMG_4684Aðferð: Myljið piparkökurnar frekar fínt, allt í lagi að hafa smá bita. Saxið súkkulaðið og þeytið rjómann. Þeytið eggin og sykurinn í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til mjög ljós og hafa margfaldast að stærð. Þetta tekur um 5 -7 mínútur. Gætið þess að þeyta eggin vel annars skilur ísinn sig þegar hann frýs. min_IMG_4686Blandið rjómanum varlega saman við eggjablönduna með sleikju ásamt Baileys, súkkulaðinu og piparkökunum (takið smá frá af piparkökunum til að dreifa yfir í lokin). Hrærið hægt og rólega þar til allt hefur blandast saman. Ég mæli eindregið með að smakka blönduna á þessum tímapunkti og athuga hvort þið viljið meira Baileys. min_IMG_4689Hellið í box eða form og frystið. Það þarf ekki að hræra í ísnum á meðan hann er að frjósa, einn af kostum þess að nota áfengi í ís er að það myndast mun minni ískristallar í ísnum. Ég tek þó fram að ísinn myndi ég ekki gefa börnum, sérstaklega ekki ef þið notið allt Baileys-ið. ..Það er líka til nóg af öðru góðu handa þeim og allt í lagi að fullorðna fólkið fái stundum fullorðins nammi. Takið ísinn úr frysti 15-20 mínútum áður en þið berið hann fram og njótið út í ystu æsar. Það eru nú einu sinni jólin!min_IMG_4696

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: besti jólaísinn, einfaldur ís, Fljótlegur eftirréttur, góður eftirréttur, ís með Baileys, Jólaís, Jólaís uppskrift, rjómaís

Léttur mangó chutney kjúklingur með möndluflögum og sætum kartöflum

desember 17, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_4679Á stuttum og annasömum dögum eins og núna síðustu dagana fyrir jól gefst lítill tími til eldamennsku. Það er þó þannig að þegar það er mikið að gera og allir frekar uppteknir er svo notalegt að setjast niður og borða kvöldmat, sem þarf bara alls ekki að vera svo flókið. Ég hef sótt mikið í léttar og bragðmiklar uppskriftir undanfarið. Eldaði til dæmis þessa tælensku kjúklingasúpu í gær og maður minn, hvað hún var góð. Einmitt það sem við þurftum á þessu dimma mánudagskvöldi. Um helgina eldaði ég svo þennan létta og bragðgóða mangó chutney kjúklingarétt. Ég mæli með að nota gott mangó chutney í réttinn. Geeta´s premium Mango chutney er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og fæst t.d í Hagkaup. Það er vel kryddað og ekki of sætt. Ég hef einnig rekist á svipað chutney í öðrum verslunum, svo um að gera að prófa sig áfram.

min_IMG_4681Léttur mangó chutney kjúklingur með möndluflögum og sætum kartöflum (fyrir 3-4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 1/2-1 sæt kartafla (fer eftir stærð)
  • 1 pressað hvítlauksrif
  • 1 tsk rifið engifer
  • 4-5 vænar msk mangó chutney (eða meira eftir smekk)
  • 1,5 dl vatn
  • 1 tsk kjúklingakraftur eða 1/2 mulinn kjúklingateningur
  • Handfylli af möndluflögum

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Skerið sætu kartöfluna í þunnar sneiðar og leggið í botninn á eldföstu móti. Leggið kjúklingabringurnar ofan á. Hrærið saman hvítlauk, engifer, mangó chutney, vatni og kjúklingakrafti og hellið yfir kjúklinginn. Bakið í 25 mínútur. Takið þá út og dreifið möndluflögunum yfir og bakið áfram í 5 mínútur. Berið fram með fersku salati og brosi á vör!min_IMG_4676

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttur, Kjúklingur með mango chutney, mangó kjúklingur

Heilsteiktur kjúklingur í bjórsoði með 20 hvítlauksrifjum

desember 10, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4667Ég ligg núna á nokkrum uppskriftum sem eiga það allar sameiginlegt að hafa verið eldaðar í myrkri og óspennandi eldhúsljósum og þeim fylgja myndir sem eiginlega eru ekki birtingarhæfar. Sem er synd því ég er mjög ánægð með uppskriftirnar. Ég læt mig því hafa það í þetta skiptið og birti hér mikla uppáhalds uppskrift með myndum sem ekki eru í uppáhaldi.

Heilsteiktur kjúklingur hittir alltaf í mark á mínu heimili. Það er varla til einfaldari matur og okkur þykir hann alveg ómótstæðilega góður. Þetta er líka svona matur sem tekur litla stund í undirbúningi, maður hendir inn í ofn og gleymir honum svo þar til klukkustund seinna. Ég ákvað að prófa á dögunum að elda kjúklinginn aðeins hægar en venjulega og hafði ofninn frekar lágt stilltan, auk þess hafði ég þéttan álpappír yfir og bragðgott soð í botninum á fatinu. Það má því eiginlega segja að kjúklingurinn hafi gufueldast við vægan hita fyrst um sinn í dásamlegri gufu af bjór, hvítlauk og sítrónum. Undir lok eldunartímans er hitinn svo hækkaður hressilega, álpappírinn tekinn af og kartöflum bætt í fatið. Þá myndast gullin og stökk húð á fuglinn og útkoman einhver safaríkasti og besti kjúklingur sem við höfðum smakkað. Kjúklingurinn er svo borinn fram með himnesku soðinu sem hægt væri að drekka með röri. Mér fannst alls ekki koma yfirgnæfandi hvítlauksbragð af soðinu, við svona hæga eldun verður hvítlaukurinn mjúkur og sætur og gefur soðinu og kjúklingnum ákaflega gott bragð sem passar svo einstaklega vel við bjórinn í soðinu.

Heilsteiktur kjúklingur í bjórsoði með 20 hvítlauksrifjum:

  • 1 heill vænn kjúklingur (1,5-1,7 kg)
  • Ólífuolía
  • Sjávarsalt, nýmalaður pipar og rósmarín
  • 1 sítróna
  • 1 stór laukur
  • 20 hvítlauksrif
  • 330 ml ljós bjór (einnig væri hægt að nota pilsner)
  • 3 dl kjúklingasoð (1/2 kjúklingateningur+3 dl heitt vatn)
  • 2 bökunarkartöflur
  • 1/2 – 1 sæt kartafla

Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður. Náið ykkur í stórt eldfast mót eða ofnskúffu. Hreinsið kjúklinginn og þerrið hann vel með eldhúspappír. Skerið laukinn í þykkar sneiðar og leggið í botninn á fatinu. Makið kjúklinginn með smávegis ólífuolíu og kryddið hann vel með salti og pipar, setjið hálfa sítrónu inn í kjúklinginn ásamt 2-3 hvílauksrifjum. Leggið kjúklinginn ofan á lauksneiðarnar. Dreifið hvítlauksrifjunum í fatið ásamt restinni af sítrónunni. Hellið bjórnum yfir ásamt kjúklingasoði.min_IMG_4653Leggið álpappír nú vel yfir fatið svo gufan sleppi ekki við eldun. Setjið kjúklinginn inn í ofn í 1 klst (eða þar til kjarnhiti í þykkasta hluta bringunnar er kominn í 60 gráður).

Takið kjúklinginn þá út og takið álpappírinn af. Hækkið ofnhitann í 220 gráður. Skerið kartöflurnar í teninga og dreifið í kringum kjúklinginn. Dreifið smávegis af ólífuolíu yfir og kryddið yfir allt saman með salti, pipar og rósmarín. Bakið áfram í 30 mínútur eða þar til hitinn í bringunni er kominn í 70 gráður. Takið kjúklinginn út og leyfið honum að jafna sig í 15 mínútur áður en hann er skorinn. min_IMG_4666

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góður kjúklingaréttur, Heill kjúklingur uppskrift, Hvernig á að elda heilan kjúkling, kjúklingur í ofni, Ofnbakaður kjúklingur, Steiktur kjúklingur

Smjördeigssnúðar með sultuðum rauðlauk og fetaosti

desember 6, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4584Það er svo ótrúlega einfalt og ljúffengt að búa til góðgæti úr smjördeigi og svei mér þá ef allt er ekki aðeins betra með þessu dásamleg deigi. Ég hef ekki tölu á hversu oft ég hef búið til skinkusnúða úr smjördeigi og að öðrum skinkusnúðum ólöstuðum þá eru smjördeigssnúðarnir feykilega vinsælir og klárast yfirleitt á ljóshraða. Þessir snúðar sem ég gef uppskrift að hér eru hættulega góðir og alveg fullkominn biti til að bjóða upp á t.d á smáréttaborði, með fordrykk eða góðum ísköldum jólabjór. Með því að steikja laukinn lengi við vægan hita verður hann sætur og góður, balsamikedikið skellir honum svo upp á aðeins hærra plan og svo smellpassar þetta við saltan og rjómakenndan fetaostinn. Hlutföllin sem ég gef eru alls ekki heilög og um að gera að smakka sig áfram ef þið viljið meira ediksbragð til dæmis.

min_IMG_4588Smjördeigssnúðar með sultuðum rauðlauk og fetaosti:

  • 2 pakkar frosið smjördeig, t.d Findus
  • Dijon Sinnep
  • 4-6 rauðlaukar (fer eftir stærð)
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1 msk smátt saxað ferskt timian eða 1 tsk þurrkað
  • 2 msk smjör
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar
  • 3 msk balsamikedik (eða meira eftir smekk)
  • 1 fetakubbur

min_IMG_4557Aðferð: Skerið laukinn í þunnar sneiðar, saxið hvítlaukinn smátt og saxið timían.min_IMG_4550 Hitið pönnu yfir meðalhita og bræðið smjörið. Bætið lauknum á pönnuna ásamt timían, saltið og piprið og steikið þar til laukurinn er orðinn vel mjúkur og hefur minnkað um ca. helming.Getur tekið um 20 mínútur. Bætið þá balsamikediki á pönnuna og blandið vel saman við laukinn. Leyfið edikinu að sjóða niður í 5 mínútur, gæti þurft að hækka aðeins hitann. Smakkið til með salti, pipar og ediki. IMG_4578Takið af hitanum og kælið aðeins þar til laukurinn er stofuheitur. Hitið ofninn á meðan í 180 gráður með blæstri annars 200 gráður. Takið smjördeigið úr öðrum pakkanum og leggið plöturnar saman þannig að þær skarist aðeins. Fletjið þær út á hveitistráðu borði. Smyrjið þunnu lagi af dijon sinnepi á smjördeigið, dreifið helmingnum af lauknum jafnt yfir og myljið helminginn af fetakubbnum yfir. Rúllið upp og skerið í ca. 1,5 cm þykkar sneiðar. IMG_4582Leggið á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið þar til gullinbrúnir og eldaðir í gegn, 12-14 mínútur. Kælið snúðana á grind og berið fram stofuheita.min_IMG_4590Ef snúðana á að frysta er ekkert mál að skella þeim í 180 gráðu heitan ofn í 5-10 mínútur og þá verða þeir eins og nýjir aftur.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bröns, Einfaldir smáréttir, Forréttir, Forréttur, Hugmyndir fyrir veislu, Smáréttir, Smjördeig, Smjördeigssnúðar, Snúðar, Sultaður rauðlaukur

Hnetusmjörskökur með sultutoppi

desember 2, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4644Ég ætlaði að nota titilinn ”Glútenlausar hnetusmjörskökur með sultutoppi” en hætti snarlega við því ég var svo hrædd um að þá héldu allir að þetta væru vondar kökur. Sem þær eru ekki. Orð sem enda á –skert eða –laust hljóma bara ekki vel. Samanber fituskert, sykurskert, fitulaust, hveitilaust, hef þó aldrei heyrt um hveitiskert bakkelsi, það væri nýtt. Nei þessi orð eiga það sameiginlegt að vera bara alls ekkert freistandi. Þó að desember sé kannski ekki sá tími sem fólk er mikið að spá í hvort að smákökur séu hveiti- sykur, mjöllausar eða skertar þá getur það varla verið annað en gott þegar kökur sem eru svona dásamlega góðar og auðveldar séu líka t.d með öllu lausar við hveiti og annað mjöl og lítið mál að skipta sykrinum út fyrir sætuefni. Möguleikarnir eru endalausir! Svo hlýtur það líka að vera plús að þurfa ekkert nema litla skál og matskeið til að búa þær til. Svoleiðis uppskriftir falla alltaf vel í kramið hjá mér og eru eiginlega alveg að slá í gegn núna á aðventunni, má ég minna á Nutella kökurnar?? Ef þið eruð hrifin af hnetusmjöri mæli ég með því að þið prófið þessar kökur hið snarasta. Fylgist vel með þeim í ofninum og passið bara að ofbaka þær ekki. Verið svo ekkert að spara sultuna ofan á. Namm.

min_IMG_4641Hnetusmjörskökur með sultutoppi:

  • 200 gr hreint hnetusmjör (t.d frá Sollu)
  • 2 egg
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 2 msk púðursykur (eða önnur sætuefni)
  • 2 msk hrásykur (eða önnu sætuefni)
  • 1 tsk vanilluextract eða 1/2 tsk vanilludropar
  • Góð sulta, ég notaði jarðarberjasultu.

Í staðin fyrir sultu mætti vel nota t.d Nutella… Um að gera að prófa sig áfram.

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri annars 180. Hrærið saman hnetusmjöri, eggjum, matarsóda, púðursykri, hrásykri og vanillu. Athugið að fyrst um sinn er auðvelt að hræra deigið, þegar það kemur saman verður erfiðara að hræra það og deigið mun virka þurrt og skrýtið. Það er eðlilegt. Hrærið bara þar til allt er komið saman. Mótið kúlur úr 1 msk af deiginu og setjið á bökunarplötu (ég nota svona litla ísskeið við verkið). Gerið holu í hverja köku t.d með vísifingri, gott að dýfa fingrinum í vatn eða smá olíu svo deigið festist ekki við.min_IMG_4628 Bakið í 8 mínútur. Takið út og ýtið aðeins aftur í holuna t.d með endanum á sleif. Setjið eina góða teskeið af sultu í hverja köku.min_IMG_4630Bakið áfram í 3 mínútur en fylgist vel með kökunum og passið að taka þær út áður en sultan fer að sjóða því þá lekur hún upp úr. min_IMG_4632Kælið á grind og njótið!min_IMG_4643

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: glútenfrír bakstur, Glútenlausar smákökur, Hnetusmjörskökur, jólasmákökur, Kökur með hnetusmjöri, LKL bakstur, LKL smákökur, Smákökur með hnetusmjöri

Tíu mínútna máltíð: Tortellini alla puttanesca

nóvember 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4621Það er ár og dagur eða svona því sem næst, síðan hér hefur verið pasta á borðum. Það var því kærkomin löngun í góðan og bragðmikinn pastarétt sem varð að veruleika á dögunum. Einn af uppáhalds pastaréttunum mínum er pasta alla puttanesca eða pasta gleðikonunnar eins og það þýðir svo skemmtilega á íslensku. Það er eiginlega allt í honum sem mér þykir gott: tómatar, hvítlaukur, chilli, capers, góð ólífuolía, ólífur og parmesan ostur. Ég hef áður birt uppskrift að svona pastarétti hérna á síðunni og það vill svo skemmtilega til að það var ein af fyrstu uppskriftunum og birtist 5. desember í fyrra. Þetta gæti því eitthvað tengst árstímanum þessi löngun mín í bragðmikla pastarétti. Áhugavert ekki satt? En jæja, ég gerði útgáfu af puttanesca tortellini í þetta skiptið og notaði ferskt pasta í réttinn sem gjörsamlega sló í gegn. Eldamennskan tók heldur ekki meira en 10 mínútur, sem hlýtur alltaf að alltaf að vera kostur. min_IMG_4615

Tortellini alla puttanesca fyrir 4:

  • 500 gr ferskt pasta, t.d tortellini
  • 3 msk góð ólífuolía
  • 1 rauðlaukur smátt skorinn
  • 2-3 hvítlauksrif, rifin eða smátt söxuð
  • 4 vel þroskaðir tómatar, skornir í teninga
  • 1 askja piccolo tómatar eða kirsuberjatómar
  • 3 msk kapers
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk eða 1/2 rauður chilli smátt saxaður
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang eða önnur sæta
  • 1-2 msk rjómi (má sleppa)
  • Salt og pipar
  • Nýrifinn ferskur parmesan ostur

Aðferð: Hitið olíuna á stórri pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þar til hann mýkist aðeins. Bætið þá öllum tómötunum út á og hækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur og kremjið kirsuberjatómatana aðeins með sleifinni. Bætið kapers, chilli, sítrónusafa, hunangi og rjóma út á og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, sigtið og hellið því svo út í sósuna og blandið vel saman. Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram. min_IMG_4623

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur pastaréttur, Ferskt pasta, Ferskt tortellini, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, pasta alla puttanesca, pasta uppskrift

Hafrakossar

nóvember 26, 2013 by helenagunnarsd 39 Comments

min_IMG_4360Ó þessir hafrakossar. Þegar Vikan hafði samband við mig og bað mig um að senda inn uppskriftir fyrir matgæðing vikunnar voru þessar dúllur fyrstar að koma upp í hugann. Þetta er svona næstum of gott til að vera satt og getur eiginlega ekki annað en slegið í gegn. Ég fékk hugmyndina að kökunum á síðunni sem bandarísku hjónin Kevin og Amanda halda úti. Þar má oft finna skemmtilegar uppskriftir, fallegar ljósmyndir og hugmyndir að hinu og þessu. Uppskriftirnar á síðunni eiga það hins vegar all flestar sameiginlegt að ekkert er til sparað í smjeri, sykri og öðru fíneríi svo þær flokkast algjörlega undir mat sem fólk ætti ekki að hafa oft á borðum. En maður minn, ef þú vilt gera vel við þig og þína og baka guðdómlegar kökur til að eiga á aðventunni, já þá eru þessar bara málið, ég lofa!

min_IMG_4358Hafrakossar (Breytt uppskrift frá www.kevinandamanda.com):

  • 250 gr mjúkt smjör við stofuhita
  • 2 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 1 egg
  • 2 tsk vanilluexract
  • 3 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk kanill
  • 6 dl haframjöl (ath ekki grófir hafrar)

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljós. Bætið egginu og vanillu út í og blandið vel saman við.

Hrærið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið út í smjörblönduna og hrærið létt saman. Bætið höfrunum út í og blandið þar til rétt svo komið saman. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á plötu, þrýstið aðeins ofan á hverja köku og bakið í 8-10 mínútur. Kælið á grind.

Krem:

  • 150 gr smjör
  • 250 gr flórsykur
  • 2 msk rjómi
  • 1 tsk vanilluextract

Aðferð: Þeytið allt vel saman og sprautið eða smyrjið á kældar kökurnar og leggið aðra köku ofan á. min_IMG_4359

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka fyrir jólin, Bestu smákökurnar, Hafrakökur, Hafrakossar, Haframjölskökur, Jólabakstur, jólasmákökur, Kökur með kremi, Smákökur, Uppáhalds smákökurnar

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 8
  • Page 9
  • Page 10
  • Page 11
  • Page 12
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme