• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Grillaðar kryddlegnar kjúklingabringur og litríkt kúskús salat með pikkluðum vorlauk

mars 14, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

IMG_1448Lóan er komin. Hvort hún hafi orðið innligsa hérna í vetur og sé nýlega skriðin undan einhverjum skafli greyið eða hvort hún er nýkomin úr langflugi frá Afríku skiptir ekki öllu. Hún fannst og hún er mætt. Að ég tali nú ekki um blessaða dagsbirtuna sem varir nú langt fram yfir kvöldmatartíma! Hún er líka mætt. Þá er samkvæmt mínum bókum kominn tími til að draga út grillið. Þessi réttur er sannarlega ljúfur og vorlegur eins og vorboðinn ljúfi og bragðið af grilluðum marineruðum kjúklingabringunum og litríku kúskús salatinu smella saman. Pikklaður rauðlaukur er í miklu uppáhaldi hjá mér og ofsalega gott að nota hann út í svona salöt þar sem sterka lauk bragðið dofnar dálítið og laukurinn verður mjög gómsætur. Mæli sannarlega með því að elda þetta á einhverju komandi vorkvöldinu..

Kryddlegnar kjúklingabringur:

  • 3 meðalstórar kjúklingabringur, klofnar í tvennt svo úr verði tvö þunn stykki úr hverri bringu.
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk kóríander
  • 1 tsk þurrkað óreganó
  • 1 tsk gróft sjávarsalt
  • 1/2 tsk svartur nýmaðalur pipar
  • Börkur af ca. hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang

IMG_1444Aðferð: Öllu blandað saman í skál og hellt yfir bringurnar og nuddað vel inn í þær. Látið marinerast við stofuhita í 30 mínútur. Ef kjúklingurinn á að marinerast lengur þarf hann að vera í ísskáp. Grillið kjúklingabringurnar í um það bil 7 mínútur á hvorri hlið. Varist að ofelda þar sem þetta eru frekar þunn stykki.

Á meðan kjúklingabringurnar eru að marinerast er upplagt að búa til kúskús salatið.

IMG_1415Kúskús salat með pikkluðum rauðlauk:

  • 3-4 dl hreint kúskús, kryddað með paprikudufti, cummin, kóríander og sjávarsalti. Ca. 1 tsk af hverju. Kúskúsið svo eldað skv. leiðbeiningum á pakkanum.
  • 1 lítill rauðlaukur skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar.
  • 3 msk hvítvínsedik eða annað hvítt edik og örlítið salt
  • 8-10 þurrkaðar apríkósur
  • 1 lítill poki furuhnetur, ristaðar
  • 1/2 krukka hreinn fetaostur í vatni
  • 1/2-1 sítróna, safinn kreistur úr (fer eftir stærð, sítrónur eru mjög misjafnar)
  • 1 avocado skorið í teninga
  • 1 mangó skorið í teninga

IMG_1426Aðferð: Byrjið á að undirbúa pikklaða rauðlaukinn. Setjið þunnt skorinn laukinn í skál og hellið edikinu yfir ásamt smá salti. Leyfið þessu að liggja í ca. 30 mínútur og hrærið í lauknum af og til. Hann á að breyta aðeins um lit, verður eiginlega skærbleikur og aðeins mýkri.IMG_1417Kúskúsið er svo undirbúið, kryddað og eldað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Þá er að rista furuhneturnar, skera apríkósurnar, avocadoið og mangóið í litla bita og hella vökvanum af fetaostinum. Smakkið kúskúsið til með sítrónusafanum og kannski smá meira salti. Svo er öllu blandað saman og mangóinu og avocadoinu dreift yfir að lokum.IMG_1434Ég bar þetta fram með léttri jógúrtsósu sem passaði mjög vel við þetta. Hrærði saman sýrðan rjóma og ab mjólk til helminga. Kryddaði til með salti, pipar, cummin, orageno og örlitlu hunangi.IMG_1458

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Grillaðar kjúklingabringur, Kjúklingabringur uppskrift, Kúskús salar, Kúskús salat, Léttur kjúklingaréttur, Marinering á kjúklingabringur

Rösti ..

mars 13, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1404Rösti (borið fram: rrosscchhtí) er upprunalega svissneskur réttur sem samanstendur af rifnum kartöflum. Hann er oft borinn fram með góðum osti, kjöti, grænmeti eða t.d spældu eggi. Ég smakkaði þennan rétt fyrst í Sviss þegar ég var lítil stelpa. Ég er kannski með óeðlilega gott minni þegar kemur að mat, en ég man nánast eins og það hafi gerst í gær þegar við fjölskyldan fóru á svissneskan veitingastað í fallegum smábæ í Sviss sem leit út eins og á póstkorti, og fengum þar ómótstæðilega gott rösti. Síðan þá hef ég bara ekki fengið jafn gott rösti. Það er nefnilega smá kúnst að gera þennan kartöflurétt almennilega.. eftir smá rannsóknarvinnu ákvað ég að gera tilraun heima sem heppnaðist mjög vel. Ég myndi halda eftir þetta grúsk mitt, að lykillinn að því að gera gott rösti sé að léttsjóða kartöflurnar og leyfa þeim að kólna áður en þær eru rifnar niður og steiktar, og já eins og galdurinn að flestu sem er gott, steikja þær upp úr smjöri.

IMG_1406Ég sit einmitt oft uppi með kartöflur sem ég veit ekki hvað ég á að gera við vegna þess að við erum ekkert svo mikið kartöflufólk. Sonur minn er hins vegar forfallinn kartöflu aðdáandi og þess vegna elda ég þær handa honum af og til. Ég verð þó að viðurkenna að ég þarf oftar en ekki að henda kartöflum, sérstaklega ef ég kaupi heilan poka sem inniheldur tvö kíló af blessuðum jarðeplunum. Þetta er því alveg upplögð uppskrift ef þið eigið kartöflur í ísskápnum sem liggja undir skemmdum. Ég er allavega ekki hissa á vinsældum þessa réttar í Sviss og það er langt síðan ég hef eldað jafn ódýran og einfaldan mat sem naut jafn mikilla vinsælda og þessi réttur gerði! Hann sló algerlega í gegn á heimilinu og stendur vel fyrir sér sem kvöldmatur með góðu salati. Það má svo vel skipta kjötinu og ananasnum út fyrir hvaða grænmeti eða annað kjöt sem er. Þetta fer bara eftir því hvað er til í ísskápnum, um að gera að nota það sem til er.

Rösti (fyrir 3 sem aðalréttur):

  • 6 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 laukur
  • 2 msk smjör, salt og pipar
  • Góð skinka, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur.
  • Ananashringir
  • Rifinn bragðmikill ostur, svissneskur gruyére væri sennilega mest viðeigandi en þar sem erfitt er að fá hann notaði ég íslenska ostinn Tind. Mæli með honum.

IMG_1387Aðferð: Kartöflur settar í kalt léttsaltað vatn og suðan látin koma upp. Ég sauð kartöflurnar í sjö mínútur eftir að suðann kom upp (fer svolítið eftir stærð, þær eiga að vera næstum því mjúkar í gegn, samt ekki alveg). Þá eru þær settar á disk og leyft að kólna alveg. (Þetta er sniðugt að gera t.d að morgni og skella kartöflunum svo inn í ísskáp). Þegar kartöflurnar eru kaldar er ofn hitaður í 200 gráður. Kartöflurnar flysjaðar og svo rifnar með grófu rifjárni. Laukurinn er svo rifinn saman við. Saltað og piprað vel. Bræðið um 1 msk af smjöri á pönnu og hellið kartöflunum á pönnuna.

IMG_1390Mótið köku úr kartöflunum og leyfið að steikjast á meðalhita í um 10 mínútur. Alls ekki hafa of háan hita. Setjið því næst disk ofan á pönnuna og hvolfið kartöflukökunni á diskinn. Setjið aðeins meira smjör, ca. 1 tsk á pönnuna og leyfið að bráðna. Hellið kökunni svo aftur á pönnuna og steikið á hinni hliðinni. Raðið skinkunni, ananas og rifnum osti ofan á og stingið inn í ofn í u.þ.b 10 mínútur. Borið fram með góðu grænu salati og ef til vill smátt söxuðum vorlauk.IMG_1409

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur matur, Kartöflu uppskriftir, Kartöflur, Ódýr matur, Rifnar kartöflur, Rösti, Rösti uppskrift

Súkkulaði ganache krem á tvo vegu

mars 11, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_1378Við áttum sérdeilis góðan dag þennan mánudaginn þar sem lítil blómarós hún systurdóttir mín og guðdóttir varð eins árs í dag.  Ég tók mig til og bakaði nokkrar bollakökur fyrir afmælið. Móðirin bað sérstaklega um rósaskreyttar bollakökur eins og þessar hérna. Í staðin fyrir að gera súkkulaði kökur með vanillukremi gerði ég ekta vanillu bollakökur og setti ljósbleikt jarðarberja smjörkrem ofan á. Set inn uppskriftina af þeim á næstu dögum. Ég gat hins vegar ekki hætt þarna og fannst heldur freistandi að gera einhverjar fullorðins kökur líka. Fyrir valinu urðu súkkulaðibollakökur með súkkulaði ganache á tvo vegu. En það var nú aðallega af því ég gat ekki ákveðið hvernig ég vildi hafa ganache-inn.. Ég get verið svolítið óákveðin þegar kemur að svona hlutum. Sannkölluð súkkulaðisprengja en svo góð að það var eiginlega agalegt. IMG_1351

Ég gef hérna uppskrift að súkkulaði ganache sem ég notaði ofan á kökurnar. Þetta er afar einföld uppskrift með fáum hráefnum svo það er mikilvægt að nota virkilega gott súkkulaði í þetta 🙂 Útkoman er svo dásamlegt súkkulaðikrem að maður gæti næstum grátið. Það skemmtilega við svona ganache er líka að maður getur notaði hann á ýmsa vegu. T.d má hella honum yfir kökur meðan hann er ennþá mjúkur, láta hann stífna aðeins og smyrja honum eða sprauta á kökur og svo, það sem mér þótti allra sniðugast, þeyta hann. Þá verður hann aðeins ljósari og loftkenndur og frábær til að sprauta á bollakökur.

(Hér má finna uppskriftina að súkkulaði bollakökunum sem ég notaði)

IMG_1328Súkkulaði ganache krem (dugar á um 25-30 bollakökur):

  • 500 gr. súkkulaði (ég notaði 300 gr suðusúkkulaði og 200 gr 70% súkkulaði)
  • 3,5 dl rjómi
  • 1 tsk vanilluextract

Page_1Aðferð: Saxið súkkulaðið smátt og setjið í skál. Hellið rjómanum í pott og hitið að suðumarki. Ekki láta hann sjóða. Slökkvið undið þegar froða byrjar að myndast á rjómanum og þið sjáið að suðan er alveg að koma upp. Hellið rjómanum yfir súkkulaðið gegnum sigti. Látið standa í 2 mínútur óhreyft. Hrærið saman með sleikju. Byrjið að hræra í miðri skálinni með litlum hreyfingum. Þegar þið sjáið að súkkulaðið og rjóminn er byrjað að koma saman getið þið stækkað hreyfinguna og svo hrært alveg óhrædd og vasklega þar til kominn er fallegur glans á þykkt súkkulaðikremið. Bætið þá einni tsk af vanilluextract saman við. IMG_1344

Þá eruð þið komin með súkkulaði ganache. Á þessum tímapunkti er hægt að gera ýmislegt við kremið. Ég sett skálina inn í ísskáp í um 1 klst, eftir þann tíma hrærði ég vel upp í súkkulaðinu með sleikju og gat með góðu móti smurt því á bollakökurnar með litlum spaða. Ef súkkulaðið er enn of lint til að hægt sé að smyrja því þarf að kæla það í 15 mínútur í viðbót og athuga svo aftur. Það má þó ekki vera of lengi inni í ísskáp því þá verður það of stíft.

Page_1Eftir að hafa smurt ganache á allar kökurnar átti ég smá afgang. Ég skellti honum í hrærivélaskálina og þeytti í ca 2 mínútur þar til ég var komin með ljóst og loftkennd súkkulaði krem. (Á þessum tímapunkti væri hægt að setja andlitið ofan í skálina og anda að sér mestu súkkulaði dásamlegheitum sem þið hafið kynnst..ekki gera það samt). Ég setti þetta dásamlega létta krem því næst í sprautupoka og sprautaði lítil súkkulaði blóm ofan á bollakökurnar. Súkkulaði skrautkurlið sem ég notaði ofaná fékk ég í Kitchen Library Smáralindinni.IMG_1384

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar bollakökur uppskrift, Súkkulaði bollakökur, Súkkulaði bollakökur uppskrift, Súkkulaði ganache, Súkkulaði krem, Súkkulaði muffins, Þeyttur súkkulaði ganache

Svindl snúðar og annar óþarfi..

mars 10, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_1270

Það er nú meira hvað litlir ómerkilegir hlutir geta glatt mann. Lítið gleður vesæla eins og maðurinn sagði.. Ég ráfaði í rælni inn í Smáralindina um daginn, ein, svo ég gat staðið og skoðað og snert fullt af fínu dóti í nokkrum skemmtilegum búðum. Ég rakst til dæmis á þessar ofur fallegu pastellituðu löngu teskeiðar í Söstrene Grene. Ég gat ekki ákveðið hvaða litur mér þótti fallegastur svo ég tók sex stykki, eina í hverjum lit. Þær voru á 96 krónur stykkið. Það voru líka til skeiðar í skærum litum.. þessir pastellitir ásamt svörtum og hvítum áttu þó hug minn allann. Ég sé þær fyrir mér í deserta og sultur og ég er alveg pínu spennt að nota þessu gulu einhverntímann í lemon curd.. Já ég er voða veik fyrir löngum skeiðum. Þær eru svo praktískar! 😉

IMG_1273Skálina fékk ég í Kitchen Library sem er tiltölulega ný verslun í Smáralindinni. Ekki það ný samt að ég hef að minnsta kosti tvisvar gleymt stund og stað þarna inni. Skálin kostaði eitthvað um 600 kall. Nokkuð gott 🙂

IMG_1271Könnuna fékk ég líka í Kitchen library fyrir lítinn pening. Vantaði einmitt svona könnu fyrir súkkulaðisósu eða bara undir mjólk með kaffinu hversdags þegar sparistellið er ekki í notkun.

IMG_1266Já það er ekkert flókið að eyða og spreða. En það þarf nú ekki alltaf að vera dýrt til að gleðja mann:)

IMG_1260En ég ætla að setja hérna inn svindl snúða uppskriftina mína. Þetta er samt eiginlega ekki uppskrift heldur meira svona samsetning hráefna. Snúðarnir slá í alltaf gegn hjá stráknum mínum en hann kallar þá samt bollur einhverra hluta vegna… Snúðana er upplagt að baka og skella svo í frysti, taka út eftir þörfum og velgja aðeins í ofni. Þeir eru líka æðislegir á hvers kyns smárétta hlaðborði, svo litlir og sætir.

Einfaldir skinkusnúðar:

  • 2 pakkar frosið smjördeig (ég notaði Findus)
  • 1 stór pakki góð skinka, skorin í smáa teninga (ég nota Ali)
  • 1 poki rifinn pizza ostur
  • 4 msk dijon sinnep

Page_1Aðferð: Látið smjördeigið þiðna í ískáp yfir nótt eða á borði í 2 klst. Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Takið deigið úr öðrum  pakkanum og leggið plöturnar saman hlið við hlið (á lengri hliðina) á hveitistráð borð. Ýtið deiginu saman með fingrunum þannig að plöturnar festist saman. Fletjið deigið svo þunnt út og smyrjið með 2 msk af dijon sinnepi. Stráið helmingnum af skinkunni og ostinum yfir. Rúllið upp og skerið í ca. 1 cm þykkar sneiðar. Leggið á pappírsklædda bökunarplötu og bakið við 200 gráður í 12 mínútur. Endurtakið við hinn pakkann af smjördeiginu. IMG_1256

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldir skinkusnúðar, Skinkusnúðar, Skinkusnúðar uppskrift

Frískandi chia vatn

mars 6, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1214Ég er mjög ginkeypt fyrir allskonar hollustu vörum sem ég trúi statt og stöðugt að virki og eigi eftir að tryggja mér góða heilsu það sem eftir er! ..Eitt af þessu eru Chia fræ. Ég keypti stóran poka af þeim fyrir löngu síðan og satt best að segja hefur gengið frekar hægt á blessaðan pokann. Ég er búin að prófa að búa til chia grauta en áferðin er bara ekki að heilla mig, svo það er ekkert sem er að fara að gerast hér á hverjum morgni. Ég rakst svo á dögunum á þetta snilldar chia vatn hjá henni Angelu vinkonu minni á Oh she glows og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu spennt ég var að prófa. Síðan þá hef ég fengið mér nokkur glös og verð að segja að þetta er einstaklega hressandi drykkur sem er stútfullur af chia-fræja hollustu. Það er dásamlegt að byrja daginn á einu svona glasi og kreista safann úr einni sítrónu út í drykkinn. Angela bætti reyndar smá steviu-sætuefni út í drykkinn sem mætti vel gera. Mér fannst það samt algjör óþarfi.

Chia vatn:

  • 1 stórt vatnsglas (4 dl)
  • 1 msk chia fræ
  • Safi úr hálfri sítrónu.

Öllu blandað saman og látið standa í 5 mínútur. Hrært saman og drukkið strax. Þetta má líka blanda og setja í vatnsflösku og sötra á yfir daginn.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chia fræ uppskrift, Chia vatn, Sítrónu vatn, vatn

Lasagne alla Bolognese

mars 5, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1208Það kemur sífellt betur í ljós hversu mikilvægt það er að elda matinn sem við borðum frá grunni. Ég er reyndar vön því frá mínu æskuheimili að fjölbreyttur matur var alltaf á borðum og hann ætíð eldaður frá grunni. Unnar kjötvörur, pakkamatur og tilbúnir réttir heyrðu allavega til undantekninga og þannig er það ennþá. Það vefst því ekki mjög mikið fyrir mér nú þegar ég sé sjálf um mest alla eldamennsku að gera slíkt hið sama á mínu heimili. Að elda mat frá grunni er hvorki tímafrekt né flókið. Þetta er sennilega bara spurning um vana eins og með svo margt annað. Við þurfum svo ekkert að ræða hvað útkoman er miklu betri þegar við útbúum matinn sjálf og vitum nákvæmlega hvaða hráefni fór í hann.

Að venjast á að góðan og hollan mat sé auðvelt að elda heima við og að þekkja hvaða hráefni við notum í matinn, þykir mér vera eitt af því mikilvægasta sem ég kenni syni mínum. Við erum ekki á neinu sérstöku heilsufæði og erum svo heppin að vera ekki með ofnæmi eða þurfa að forðast einhverja fæðu svo við getum leikið okkur heilmikið með ýmis hráefni. Það er bara svo sorglegt þegar sjö ára börn þekkja ekki muninn á lauk og gulrót og vita ekki að það eru ekki til ”franska kartöflu tré”. Hafandi skrifað þetta vil ég taka fram að við erum ekki fullkomin og myndi ég seint halda því fram. Ég viðurkenni fúslega að einstaka pylsa og frönsk kartafla rata á okkar matardiska.. en það er líka undantekningin sem sannar regluna eins og einhver sagði.

IMG_1176Hafandi rausað þetta langar mig að gefa ykkur uppskrift að lasagna sem ég mallaði á dögunum. Þeir sem fylgjast með Eldhúsperlum á Facebook hafa eflaust séð þennan glænýja fagur rauða pott sem mér áskotnaðist á dögunum. Að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að elda bolognese sósuna sem fór í lasagnað í þessum potti og er ekki frá því að bragðið hafi verið allt annað og betra fyrir vikið. Þessi kjötsósa er frekar klassísk bolognese kjötsósa og mætti vel nota hana sem slíka út á spaghetti. Ég bjó hins vegar til lasagna úr henni að ósk sonarins.

Ég hef ekki tölu á því hversu margar útgáfur af bolognese sósum ég hef mallað gegnum tíðina. Allt frá því að steikja hakk á pönnu og hella yfir tilbúinni sósu úr krukku, yfir í að elda sósuna úr úrvals hráefni og leyfa henni að malla í margar klukkustundir. Mig hefur lengi dreymt um að gera þessa ítölsku kjötsósu frá Ragnari, The doctor in the kitchen. Hans útgáfa kemst sennilega nær hinni upprunalegu uppskrift að bolognese kjötsósu en mín uppskrift. Ef sú uppskrift er þá til. Annars er ég ekkert svo vel að mér í sögu ítalskra kjötsósa.. Ég hef þó komist að því að galdurinn að baki ómótstæðilegri kjötsósu er að setja rauðvín út í hana, oggupínulítinn matreiðslurjóma til að vega upp á móti sýrunni í tómötunu og leyfa henni svo að malla helst í tvær klukkustundir. Svo er auðvitað fullt annað hægt að gera til að hún verði góð. En þetta er svona einfalda leiðin og ég held ég geti bara sagt að hún svínvirkar!

Lasagne Bolognese (Fyrir 5-6):

  • 3-4 skallottu laukar
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 stór gulrót
  • 1 grein rósmarín (eða 1 tsk þurrkað)
  • 600 grömm hreint ungnautahakk
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 rauðvínsglas (2,5 dl)
  • 5 vel þroskaðir tómatar
  • 1 krukka hakkaðir tómatar (eða tvær dósir, ég nota þessa lífrænu í glerkrukkunni frá Sollu)
  • 1/2 dl matreiðslurjómi
  • Ólífuolía
  • Smakkað til með sjávarsalti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu hunangi, eða annari sætu
  • Ferskar lasagna plötur (eða þurrkaðar)
  • 1 stór dós kotasæla
  • 3 msk rifinn parmesan ostur
  • ca 1/4 tsk múskat
  • 2-3 lúkur rifinn ostur til að setja yfir í lokin

IMG_1181Aðferð: Steikið smátt saxaða gulrót, lauk og hvítlauk í um það bil 2 msk af ólífuolíu við meðalhita í um 2-3 mínútur. Hækkið þá hitann og setjið hakkið út á. Steikið þar til hakkið hefur brúnast. Bætið þá tómatpúrru og rósmarín út í og hellið rauðvíninu yfir. Leyfið því að sjóða niður og skrapið botninn á pottinum með sleifinni. Bætið út í söxuðum ferskum tómötum og tómötunum úr krukkunni, skolið krukkuna að innan með ca 2 dl af vatni og hellið því líka út í ásamt matreiðslurjómanum. IMG_1184Látið suðuna koma upp. Lækkið svo hitann og leyfið þessu að malla með lokinu á til hálfs í a.m.k 1,5 klst, helst 2 klst. Sósan þykknar og verður dásamlega góð við svona langa eldun. Smakkið til með salti og pipar og sætu ef ykkur finnst þurfa.

Page_1Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman kotasælu, múskat og 3 msk af parmesan osti. Setjið lasagnað saman þannig að á botninn í eldföstu móti fer smá kjötsósa, þá lasagna blöð, kotasæla og aftur kjötsósa. Endurtakið þar til allt er búið og endið á kotasælu og kjötsósu. Setjið dálítinn rifinn ost yfir og bakið við 170 gráður í um 25 mínútur (lengur ef þið notið þurrkaðar lasagna plötur). IMG_1192IMG_1198Berið fram með grænu salati, rauðvínsglasi og rifnum parmesan osti. Lokið augunum og þið farið beint til Ítalíu..

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bolognese sósa, Ítalskur matur, Ítölsk kjötsósa, Lasagna, Lasagna uppskrift

Kjúklingalæri með hunangs- sítrónu- og sinneps gljáa

mars 3, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1160Ég hef verið áskrifandi að tímaritinu Good Food í nokkur ár og haft mikið gaman að. Þetta tímarit er gefið út af BBC og hefur sannarlega afsannað þá kenningu að bretar séu lélegir kokkar. Ég ákvað þó núna um áramótin að hætta áskrift að blaðinu þar sem mér fannst uppskriftirnar orðnar heldur einsleitar og ég var bara eiginlega komin með leið á þessu blaði. Ég leita því núna logandi ljósum að nýju tímariti til að gerast áskrifandi að, því þó það sé gaman að fara út í bókabúð og velja sér matar tímarit jafnast ekkert á við að fá eitt brakandi nýtt sent í pósti einu sinni í mánuði. Það er auk þess ódýrara en að kaupa sér blað mánaðarlega. Ég er að hugsa um að gerast áskrifandi að einu uppáhalds tímaritinu mínu Bon Appetit, ætli ég láti ekki bara slag standa..

Ég var sumsé að fletta í gegnum gömul Good Food tímarit um helgina og rakst oftar en einu sinni á einhverskonar hunangs- sinneps- sítrónu ofnbakaða kjúklingabita. Það varð því úr að ég varð að elda eitthvað slíkt í kvöldmat á þessu bjarta og fallega sunnudagskvöldi. Rétturinn var alveg frábær og bragðið unaðslegt. Virkilega góður og fljótlegur réttur sem ég bar fram með grófri kartöflumús og góðu grænu salati.

Uppskrift:

  • 8 kjúklingalæri
  • 2 msk ólífuolía
  • 3 msk grófkorna sinnep
  • 2 msk hunang
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt (ca. 1 tsk gróft sjávarsalt) og piparIMG_1138

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Byrjið á að snyrta kjúklingalærin og skera frá umfram fitu. Setjið lærin í rennilása plastpoka. Setjið olíu, sinnep og hunang í skál. Rífið börkinn af 1/2 sítrónunni og kreistið allann safann úr henni út í skálina. Rífið hvítlauksrifið eða smátt saxið það saman við. Kryddið með salti og pipar. Hellið helmingnum af marineringunni yfir lærin í pokanum og veltið þeim vel upp úr vökvanum. Leyfið að standa við stofuhita í um 15 mínútur.

IMG_1140Hellið kjúklingalærunum í eldfast mót og látið skinn hliðina snúa niður. Setjið inn í ofn í 10 mínútur. Takið þá úr ofninum og snúið lærunum við. Hellið restinni af marineringunni yfir kjúklinginn og bakið í 20 mínútur til viðbótar. Ef til vill má auka hitann í 220 gráður undir lokin til að fá stökka húð á kjúklinginn. IMG_1166Berið fram með kartöflumús, salati og umfram sósunni sem kemur af kjúklingnum og marineringunni.. Þetta var alveg ofboðslega gott !

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótleg kjúklingauppskrift, Góður kjúklingaréttur, Hunangs kjúklingur, Kjúklingalæri uppskrift

Brokkolíbaka með geitaosti

febrúar 27, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1088Að gera böku getur verið góð skemmtun. Ég segi það aftur eins og við síðustu böku að bökur hafa ekki átt sérstaklega mikið erindi upp á mín eldhúsborð hingað til. Það er tilhugsunin um að gera flókið bökudeig og standa við að fletja það út með tilheyrandi hveitistráningu sem forðaði mér frá þessari iðju. Þetta er allavega ekki iðja sem ég myndi kjósa að gera á virkum degi þegar kvöldmatur þarf að vera kominn á borðið helst undir 30 mínútum. Engu að síður finnast mér bökur alveg einstaklega góður matur og þá sérstaklega grænmetisbökur. IMG_1080

Maður fær einmitt oft svo góðar bökur á hinum mörgu góðu grænmetisstöðum borgarinnar. Innblásturinn að þessari böku er einmitt komin frá einum slíkum þar sem ég fékk alveg einstaklega góða brokkolíböku um daginn og ég varð að búa til eitthvað svipað heima. Geitaosturinn gefur þessari böku alveg rosalega gott bragð og smá svona spari stemmingu. Honum má þó vel sleppa, eða nota t.d fetaost eða rjómaost í staðinn. Þetta er sama bökudeig og ég notaði í fyrrnefnda tómata- og spínatböku. Það er mjög einfalt að gera og þarf ekkert að fletja út.

Bökubotn:

  • 200 grömm gróft spelt eða heilhveiti
  • Salt á hnífsoddi og smá pipar
  • 80 grömm smjör, skorið í litla teninga
  • 1/2 dl heitt vatn (kannski minna, setjið smátt og smátt saman við)IMG_1046

Aðferð: Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Allt innihaldið í bökubotninn sett í skál og unnið saman með höndunum. Þegar það er komið saman er því þrýst í botninn og aðeins upp með hliðunum á eldföstu móti eða lausbotna bökuformi. Pikkað með gaffli hér og þar. Þetta er svo bakað í 10 mínútur. Tekið úr ofninum og hitinn lækkaður í um 160-170 gráður. Fer svolítið eftir hita á ofnum. Ég hef minn á 160 gráðum með blæstri.

IMG_1047Fylling:

  • 350 grömm brokkolí, skorið í fremur smáa bita
  • 2 vorlaukar smátt saxaðir
  • 5 egg
  • 2,5 dl matreiðslurjómi eða 1 peli kaffirjómi
  • 1 poki gratínostur
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1/2 tsk pipar
  • 1 msk dijon sinnep
  • 1/4 tsk muldar chilliflögur (red chilli flakes)
  • 50 gr geitaostur (má sleppa)

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn með dálitlu salti í meðalstórum potti. Skerið brokkolíið niður og setjið út í sjóðandi vatnið og sjóðið í um 3 mínútur. Hellið þá vatninu af og látið ískalt vatn buna á brokkolíið þannig að það snöggkólni. Sigtið vatnið frá, þerrið brokkolíið aðeins og setjið það svo í bökubotninn. Með þessari aðferð helst brokkolíið fallega grænt. Stráið svo söxuðum vorlauknum jafnt yfir bökubotninn.IMG_1051

IMG_1053Hrærið saman eggin, matreiðslurjóma, gratínost, salt, pipar, dijon sinnep og chilli flögur. Hellið yfir brokkolíið. Dreifið því næst geitaostinum jafnt yfir bökuna með teskeið. Bakið í 35 mínútur. Leyfið bökunni að kólna í um 10 mínútur áður en hún skorin. IMG_1082

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka með brokkolí, Baka með geitaosti, Brokkolí uppskriftir, Brokkolíbaka, Einföld baka, Einföld grænmetisbaka, Geitaostur, Grænmetisbaka, Spergikálsbaka

Ristaðar hnetur og möndlur með rósmarín kryddblöndu

febrúar 25, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1020Það er fátt eins huggulegt á góðu föstudagskvöldi en að fá nokkrar íðilfagrar og að ég tali nú ekki um skemmtilegar skvísur í eilítinn hvítvínsdreitil og spjall. Mér finnst um að gera að nota tækifærið þegar ég á vona á svona ánægjulegum heimsóknum að bjóða upp á eitthvað einfalt og gómsætt sem gott er að narta á meðan maður dreypir á góðu hvítvíni.. eða bara sódavatni.IMG_1041Ég bauð einmitt upp á þessar rósmarín ristuðu hnetur og möndlur um daginn á svona ”málfundi” ásamt smá ostum og svo auðvitað bollakökunum. Hneturnar eru virkilega einfaldar og góðar og það er hægt að nota hvaða hnetur sem er. Ég gæti alveg ímyndað mér að valhnetukjarnar og pekanhnetur kæmu líka vel út. Þetta er alveg passlega sætt/sterkt/salt með ljúfum rósmarínkeim og alveg upplagt til að gæða sér á með glasi af léttu víni, bjór eða kokteil.

Ristaðar hnetur og möndlur með rósmarín: (Breytt uppskrift frá Inu Garten)

  • 450 grömm hnetur (ég notaði cashew hnetur og möndlur)
  • 2 msk saxað ferskt rósmarín
  • 2 tsk gróft sjávarsalt (t.d Maldon eða Saltverk)
  • 2 tsk púðursykur
  • 1/2 tsk cayenne pipar
  • 2 msk smjörPage_1Aðferð: Ristið hneturnar og möndlurnar við miðlungshita þar til þið finnið góðan hnetuilm og hneturnar eru aðeins farnar að brúnast. Þetta er ekki gott að gera við háan hita því þá er hætta á að hneturnar brenni að utan og séu enn kaldar í miðjunni. Það viljum við ekki. Þegar hneturnar höfðu ristast tók ég pönnuna af hitanum og bjó til smá pláss á miðri pönnunni og setti strax 2 msk af smjöri á miðja pönnuna. Þegar það hafði bráðnað setti ég kryddin út í smjörið. Þá er öllu blandað vel saman þar til kryddin þekja hneturnar og þær verða gljáandi. Borið fram volgt eða stofuheitt. Page_2

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Möndlumix, Ristaðar hnetur, Rósmarín hnetur

Súkkulaði bollakökur með vanillusmjörkremi

febrúar 23, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_0997Ég er ekki þolinmóðasta týpan þegar kemur að bakstri. Tilhugsunin um að standa svo tímunum skiptir við að skreyta kökur, hnoða sykurmassa, skera út blóm og búa til kökur sem líta út eins og Versalakastalar, heillar mig ekki sérstaklega. Ég hef þó gaman að því að baka, ekki misskilja mig. Hef meira að segja vippað fram oftar en einu sinni kökum í afmæli sonar míns sem litu út eins og geimflaug og annarri sem leit út eins og lirfa. Það var mjög krúttlegt og skemmtilegt en tók samt ekki langan tíma í framkvæmd. Reyndin er nú líka sú að þó að kaka líti fallega út skiptir nú eiginlega mestu máli að hún sé bragðgóð. En mikið dáist ég að öllu fólkinu sem nennir að búa til þessi fallegu kökulistaverk fyrir okkur hin sem hafa ekki þolinmæðina í verkið.

Bollakökur eru einmitt þeim kosti gæddar að það þarf tiltölulega litla fyrirhöfn við að baka þær. Það er einnig frekar einfalt að skreyta þær þannig að allir haldi að maður sé mjög flinkur kökuskreytingarmeistari þegar maður kann samt eiginlega ekki neitt í kökuskreytingum. Ég fór í búðina Allt í köku fyrr í vetur og keypti mér nokkra hluti sem gera manni lífið auðveldara þegar kemur að því að skreyta bollakökur. Það þarf alls ekki mikinn búnað. Ég fékk mér nokkra einnota sprautupoka og einn stút númer 2D. Vopnuð þessu voru mér allir vegir færir og ekkert mál að búa til fallegar rósir á bollakökurnar.IMG_0980

Ég gef uppskrift að þessum ljúffengu súkkulaðibollakökum. Botninn er dökkur með miklu súkkulaðibragði, léttur í sér og alls ekki of sætur. Ofan á set ég ekta vanillusmjörkrem. Klassísk samsetning sem getur ekki klikkað.

Súkkulaðibollakökur: (um 30 stk, auðveldlega hægt að helminga uppskriftina)          Breytt uppskrift frá marthastewart.com.

  • 3/4 bolli kakóduft
  • 3/4 bolli sjóðandi heitt vatn
  • 300 gr. mjúkt smjör
  • 2 bollar sykur
  • 1 msk vanilluextract
  • 4 egg
  • 3 bollar hveiti eða fínmalað spelt (ég notaði speltið)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 bolli sýrður rjómi

Vanillusmjörkrem:

  • 300 grömm smjör
  • 400 grömm flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1 vanillustöng

Page_1Aðferð: Hitið ofninn í 170 gráður með blæstri. Byrjið á að blanda saman kakóduftinu og heita vatninu. Hrærið vel þar til áferðin verður slétt. Setjið til hliðar og leyfið aðeins að kólna. Setjið smjör, sykur og vanillu í hrærivélaskál og þeytið vel þar til smjörið verður ljóst og létt. Setjið eggin út í eitt í einu og hrærið vel á milli. Hellið þá kakóblöndunni út í og blandið vel saman. Blandið saman hveiti, lyfitdufti, matarsóda og salti og setjið út í hrærivélaskálina í smáum skömmtun ásamt sýrða rjómanum. Setjið í pappírsklædd bollakökuform þannig að formið fyllist að 3/4. Bakið í 18-20 mínútur. Kökurnar lyfta sér en síga örlítið saman þegar þær koma úr ofninum. Þær eru því alveg upplagðar til skreytinga.IMG_0976

Smjörkrem: Setjið smjörið í hrærivélaskál og þeytið á mesta hraða í 5 mínútur. Málið við þetta krem er að þeyta smjörið nógu lengi þar til það verður nánast alveg hvítt. Það þarf smá þolinmæði í þetta en það gerist á endanum. Þá er flórsykrinum, vanilluextractinu og kornunum úr einni vanillustöng bætt út í og þeytt vel saman í um 2 mínútur til viðbótar. Kremið verður mjög létt og meðfærilegt við þessa meðferð og haggast ekki eftir að því hefur verið sprautað á kökurnar. Þegar bollakökurnar hafa kólnað er kreminu sprautað á þær.IMG_0991

Ef gera á rósir er galdurinn að byrja rósina með því að sprauta beint niður á bollakökuna miðja og fara svo 2-3 hringi og enda yst á brúninni. Það eru örugglega til meiri rósasmjörkremssnillingar þarna úti en ég, en þetta þarf nú ekki að vera fullkomið. Ég get allavega lofað að bragðið er dásamlegt sama hvernig útlitið er
IMG_1000

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bollakökur, Gott smjörkrem, Smjörkrem, Súkkulaðibollakökur, Súkkulaðimuffins, Vanillusmjörkrem

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 17
  • Page 18
  • Page 19
  • Page 20
  • Page 21
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme