• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

eftirréttur

La mousse au chocolat – Hin fullkomna súkkulaðimús

desember 27, 2018 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_5449Ég kann ekki frönsku, bara svo það sé á hreinu. En þar sem eiginmaður minn var svo elskulegur að gefa mér nýlega The art of French cooking eftir Juliu Child hefur mig undanfarna daga dreymt um að tala frönsku. Bókin, sem er í tveimur bindum, er einstaklega fallega sett upp og uppskriftirnar bera allar franska titla, mér til mikillar gleði. Mikið óskaplega hljómar matur á frönsku fallega. Þessi frönsku ást mín hefur verið mér innblástur í eldhúsinu undanfarið þar sem einfaldleiki og klassík hefur svolítið ráðið ríkjum.

Í miðri franskri vímunni á dögunum datt ég svo inn á ákaflega girnilegt franskt matarblogg sem heitir Mais pourquoi est-ce que je vous raconte ça.. Dorian Cuisine.com. Þar má finna afar fallegar matarmyndir og uppskriftir sem flestar eru mjög einfaldar en alveg ofboðslega girnilegar. Það var einmitt þar sem ég rak augun í þessa súkkulaðimús.. og ég varð að prófa (svo var búið að þýða uppskriftina yfir á ensku svo ég þurfti ekki einu sinni google translate). Einfaldleikinn er í fyrirrúmi í þessari klassísku súkkulaðimús sem er draumi líkust svo góð er hún. Ef þið viljið slá í gegn í næsta matarboði er þessi sennilega lykillinn að því og ég held svei mér þá að hún sé örugglega besta mús sem ég hef smakkað.

La mousse au chocolat:

  • 240 gr dökkt súkkulaði (ég mæli með að nota suðusúkkulaði og gott 70% súkkulaði til helminga)
  • 60 gr smjör
  • 4 eggjarauður
  • 6 eggjahvítur
  • 60 gr sykur

Aðferð: Bræðið súkkulaðið og smjörið í potti yfir mjög vægum hita eða í skál yfir vatnsbaði. Takið af hitanum og hrærið eggjarauðunum saman við. Hrærið vel með sleif þannig að allt blandist vel saman. Þeytið eggjahvíturnar með sykrinum þar til stífþeyttar. Blandið þriðjungi af eggjahvítunum vel saman við súkkulaðiblönduna. Bætið þá restinni af eggjahvítunum saman við og blandið varlega saman við með sleif eða sleikju. Kælið í a.m.k tvær klukkustundir í ísskáp, helst yfir nótt. Berið fram t.d með þeyttum rjóma eða jarðarberjum eða hvorutveggja..min_IMG_5450

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Auðveldur eftirréttur, eftirréttur, Súkkulaði uppskriftir, Súkkulaðimús

Eldhúsperlur 2 ára! Piparmyntu ostakaka með After eight

nóvember 21, 2014 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_6812Í dag eru tvö ár síðan fyrsta uppskriftin birtist á Eldhúsperlum! Uppskriftirnar nálgast óðfluga annað hundraðið og fylgjendur síðunnar á Facebook fóru yfir 7000 í gær. Ég ætla nú ekki að hafa þennan pistil langan en langar þó að þakka ykkur fyrir að lesa bloggið, prófa uppskriftirnar og vera svona dugleg að láta heyra í ykkur. Dundið mitt við þessa síðu er án ef uppáhalds áhugamálið mitt og orðið mun stærra en mig óraði fyrir í upphafi. Ég hlakka til næsta eldhúsperlnu árs með ykkur og enn fleiri uppskriftum. Í tilefni dagsins, og þess að pabbi minn á afmæli á morgun (hæ pabbi!). Ákvað ég að útbúa þennan dásamlega eftirrétt. Hugmyndin að réttinum kviknaði á einum af óþarflega löngum Pinterest rúntum mínum og þróaðist svo út í þennan eilítið jólalega og gómsæta eftirrétt. Þetta er einstaklega ljúffengur réttur sem er þeim kostum búinn að hann má undirbúa nokkru áður en hann er borinn fram. Ég hvet ykkur heilshugar til að prófa!min_IMG_6826

Piparmyntu ostakaka með After eight (fyrir 8-10):

  • Botninn:
  • 250 gr súkkulaðikex (t.d. oreo eða annað kex með kremi á milli)
  • 10 After eight plötur
  • 2 msk brætt smjör
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • Fylling:
  • 1 dós mascarpone ostur við stofuhita (250 gr)
  • 5 dl rjómi
  • 5 dl mjólk
  • 2 pakkar Royal vanillubúðingur
  • 1/2 tsk piparmyntudropar/piparmyntuextract (má sleppa)
  • 5 jólabrjóstsykurs stafir eða nokkrir piparmyntu brjóstsykursmolar
  • Nokkrir dropar bleikur matarlitur (má sleppa)
  • After eight til að skreyta

IMG_7446Aðferð: Byrjið á að gera botninn. Setjið kexið og after eight í matvinnsluvél. Vinnið í fína mylsnu og hellið smjörinu og saltinu saman við. Geymið. Þeytið saman 5 dl af mjólk og allt búðingsduftið, setjið til hliðar. Þeytið mascarpone ostinn þar til mjúkur og léttur, hellið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan er eins og léttþeyttur rjómi. Þeytið þá lagaða vanillubúðinginn saman við þar til blandan er slétt og þykk. Myljið brjóstsykurinn í fínt duft og bætið um 3 msk af duftinu út í ostakökublönduna ásamt piparmyntudropunum og matarlit, ef þið notið. Geymið smá af duftinu til að skreyta með. Þið getið annað hvort sprautað ostakökuna í lítil glös á fæti og borið fram fyrir hvern og einn eða sett hana í eina fallega glæra skál. Þegar ostakökunni hefur verið komið fyrir eins og á að bera hana fram er gott að kæla hana í ísskáp í um 2-4 klst.IMG_7457min_IMG_6819Takk fyrir að fylgjast með Eldhúsperlum elsku vinir!!1610843_806551242736602_8630875067716329873_n

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: After eight eftirréttur, Besti eftirrétturinn, eftirréttur, Jóla eftirréttur, Ostakaka, Ostakaka með piparmyntu, Veisla eftirréttur

Rabarbarakaka með marsipani og vanillusósu

júní 16, 2014 by helenagunnarsd 16 Comments

min_IMG_5976Í Stokkhólmi, og sennilega víðar í Svíþjóð er varla þverfótað fyrir kaffihúsum, krúttlegum bakaríum, kökuhúsum og litlum dúllustöðum þar sem hægt er að setjast niður fá sér kaffisopa og ”fika”, sumsé fá sér eitthvað sætt og gott með kaffinu. Við rákumst inn á eitt slíkt á meðan við vinkonurnar dvöldum í Stokkhólmi um daginn. Þar var meðal annars boðið upp á himneska berjaböku með vanillusósu. Bragðlaukarnir dönsuðu af kæti og ég mundi þá hvað vanillusósa og sænskt sumar er dásamleg blanda. Og ég hugsaði með mér: Af hverju er ekki bara alltaf vanillusósa með öllu? Svo kom ég heim og gleymdi þessu nostalgíuvanillusósukasti mínu þar til ég rakst á uppskrift að rabarbaraköku á sænsku matarbloggi. Vanillusósu minningin kom þá eins og himnasending og ég varð að athuga hvernig vanillusósa færi með slíkri köku. Útkoman var svo góð að ég get ekki annað en deilt gleðinni með ykkur. Svo þykir mér líka bara fátt þjóðlegra en glænýr rabarbari sem virðist spretta undir hverjum húsvegg á landinu nema mínum. Elsku bakið kökuna og gerið vanillusósu með, kakan er reyndar líka æðisleg með þeyttum rjóma. min_IMG_5973

Rabarbarakaka með marsipani og vanillusósu:

  • 3 egg
  • 2 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 100 gr brætt smjör
  • 2.5 dl fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • Sjávarsalt á hnífsoddi
  • 150 gr rabarbari, skorinn í litla bita
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 125 gr marsipan

min_IMG_5992Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í á meðan þið hrærið. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og salti saman við og hrærið létt þar til allt er komið saman. Hellið í smurt smelluform. Hrærið kartöflumjölinu saman við rabarbarann og dreifið honum yfir deigið, ýtið aðeins ofan í deigið. Rífið marsipanið á grófu rifjárni yfir rabarbarann. Bakið í 35-40 mínútur. Ef ykkur finnst marsipanið dökkna mikið leggið þá álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur.

min_IMG_5989Vanillusósa:

  • 2 dl rjómi
  • 2,5 dl mjólk
  • 1 dl hrásykur
  • 1 vanillustöng, kornin skafin úr
  • 1 sléttfull msk kartöflumjöl
  • 1 msk mjólk
  • 1 eggjarauða

min_IMG_5994Aðferð: Setjið rjóma, mjólk, sykur og vanillukorn í lítinn pott. Hitið við vægan-meðalhita þar til blandan hefur hitnað vel og vanillan vel blönduð saman við mjólkina, ekki sjóða. Hrærið kartöflumjölið saman við eina matskeið af mjólk og hellið út í vanillublönduna í pottinum. Pískið saman við þar til blandan er alveg að fara að sjóða eða rétt byrjuð að sjóða, froða byrjar að myndast í köntunum og rýkur úr blöndunni. Takið af hitanum og pískið áfram og látið aðeins kólna. Bætið eggjarauðunni þá út í og pískið áfram þar til blandan hefur þykknað aðeins og kólnað. Hellið sósunni gegnum sigti og berið fram volga með rabarbarakökunni. Sósan geymist í ísskáp í lokuðu íláti en þynnist aðeins þegar hún kólnar. min_IMG_5995

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: ávaxtakaka, eftirréttur, góð kaka, marsipankaka, Rabarbarakaka, rabarbarapæ, rabbarbarakaka, Rabbarbari uppskriftir, Uppskriftir að rabarbarakökum

Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu

júlí 31, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_3454Það eru sennilega til óteljandi útgáfur af þessum vinsæla og syndsamlega góða eftirrétti og það góða við hann (eitt af mörgu) er hvað hann er fljótlegur og einstaklega einfaldur í undirbúningi. Þennan mætti vel gera í tjaldi væri maður vopnaður potti, prímus og góðum písk til að þeyta rjómann. Útkoman er síðan svo hrikalega girnileg og flott að allir halda að maður hafi verið í nokkra klukkutíma að útbúa þessa dýrð þegar sannleikurinn er sá að maður þarf eiginlega ekki neina eldhúslega hæfileika til að geta gert þennan eftirrétt. Getur það orðið eitthvað betra?Það má vel nota hvaða sælgæti og ávexti sem er í réttinn. Ég prófaði nýlega nýju rjómasúkkulaðirúsínurnar frá Nóa siríus og finnst þær alveg tilvaldar í svona fínheit. Mæli með því að þið prófið þær – súkkulaðirúsínur hafa náð nýjum hæðum með tilkomu þeirra! Það er tilvalið að bjóða upp á þennan eftirrétt um verslunarmannahelgina hvort sem þið verðið heima, í bústað, útilegu eða bara hvar sem er. Mælieiningarnar eru ekki mjög nákvæmar í uppskriftinni enda er rétturinn þess eðlis að sköpunargáfan má vel njóta sín – hann verður bara betri fyrir vikið!

min_IMG_3457Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu:

  • 1 púðursykursmarengsbotn (ég kaupi tilbúinn botn t.d frá Myllunni)
  • 5 dl rjómi
  • 1 lítil dós vanilluskyr
  • 1 bakki íslensk jarðarber eða önnur ber
  • 1 banani
  • 1 poki rjómasúkkulaði rúsínur (150 gr)
  • 1 plata pipp súkkúlaði með karamellufyllingu (100 gr)

Aðferð: Brjótið marengsbotninn gróft í botninn á skál eða í eldfast mót. Bræðið pipp súkkulaðið í 1 dl af rjóma við vægan hita og kælið. Þeytið 4 dl af rjóma og hrærið vanilluskyrinu saman við. Skerið bananann og berin í litla bita en skiljið nokkur ber eftir til að skreyta með. Hrærið berjunum, banönunum og súkkulaðirúsínunum saman við rjóma blönduna og hellið henni yfir marengsinn. Skreytið með jarðarberjum, nokkrum súkkulaðirúsínum og hellið að lokum pipp sósunni yfir. Berið fram strax eða geymið í kæli í 1 klst.min_IMG_3449

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: eftirréttur, Eftirréttur með marengs, Einfaldur eftirréttur, Marengs bomba, Marengs eftirréttur, rjóma og skyri, Sumarlegur eftirréttur, Sælgætisbomba

Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum

júní 14, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2832Ég hef beðið dálítið lengi með að deila þessari uppskrift. Ástæðan er eiginlega bara sú að mér þykir þessi baka svo sparileg, dásamlega góð og sumarleg að ég hugsaði með mér að það væri fátt meira við hæfi en að deila uppskriftinni að henni í aðdraganda 17. júní. Hún er nú einu sinni í fánalitunum. Eða svona því sem næst. Bakan er alls ekki flókin en það tekur smá tíma og þolinmæði að gera hana. Þolinmæðin felst þó aðallega í biðinni eftir því að geta smakkað hana.

min_IMG_2834Uppskriftin sem ég studdist við er komin frá Andy nokkrum Bates sem hefur í nokkuð langan tíma verið með þætti á Food Network sem bera heitið ”Street Kitchen”. Virkilega skemmtilegir þættir þar sem Andy heimsækir ýmsa staði á Bretlandi og í Bandaríkjunum þar sem borinn er fram skyndibiti með þvílíkum metnaði úr úrvals hráefnum. Andy endar svo oftast þættina á því að elda sjálfur eitthvað ómótstæðilega girnilegt. Eins og þessa fallegu böku. Í upprunalegu uppskriftinni notar Andy eingöngu hindber ofan á bökuna, það er þó alveg hægt að nota þau ber sem hendi eru næst. Íslensku hindberin sem fást nú eru til dæmis alveg tilvalin ofan á og vel þess virði að fjárfesta í því góðgæti. Þau eru ólýsanlega góð! Ég mæli sterklega með því að þið prófið þessa himnesku sumarböku sem allra fyrst. Þó ekki væri nema bara til að fagna 17. júní með stæl!

min_IMG_2828Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum (lítillega breytt uppskrift frá Andy Bates):

  • Bökuskel:

  • 260 g hveiti eða fínmalað spelt
  • 85 gr flórsykur
  • Örlítið salt
  • 150 gr kalt smjör
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • Fylling:

  • 300 gr hvítt súkkulaði
  • 300 ml rjómi
  • 60 ml mjólk
  • 1 vanillustöng
  • 2 egg
  • 2 bakkar hindber og 1 bakki bláber (ca. 500 gr af berjum)
  • Flórsykur til að sigta yfir

– Ég nota lausbotna 30 cm bökuform.

– Hægt er að útbúa bökuskelina með góðum fyrirvara t.d daginn áður og geyma óbakaða í ísskáp.

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Vinnið allt innihaldið í bökuskelina nema eggið og eggjarauðuna saman með höndunum eða í hrærivél þannig að deigið líkist rökum sandi. Setjið eggið og eggjarauðuna saman við og hrærið létt þar til deigið rétt loðir saman. Ekki vinna deigið of lengi. Búið til flatan disk úr deiginu og pakkið því inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í 30 mínútur. (Ég lét deigið ekki vera nógu lengi í ísskápnum svo það var dálítið lint, ekki gera eins og ég). Page_1Takið deigið þá út og fletjið út milli tveggja smjörpappírsarka eða á hveitistráðu borði. Leggið deigið því næst í bökumótið og þrýstið því vel út í kantana. min_IMG_2801Snyrtið auka deig í burtu t.d með því að rúlla kökukefli yfir bökumótið.min_IMG_2802 Leggið smjörpappír á deigið og hellið hrísgrjónum eða baunum yfir. Þetta er gert til þess að bökuskelin lyfti sér ekki þegar hún er bökuð. min_IMG_2805Bakið deigskelina í 15 mínútur. Á meðan deigskelin er að bakast saxið súkkulaðið frekar smátt.min_IMG_2789 Hellið þá rjómanum og mjólkinni ásamt kornunum úr einni vanillustöng í pott og hitið upp að suðu. min_IMG_2808Þegar froða byrjar að myndast hliðunum og mjólkin er alveg að fara að sjóða slökkvið undir. min_IMG_2811Hellið rjómanum svo yfir saxað súkkulaðið í gegnum sigti og hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. min_IMG_2812Leyfið þessu að kólna í fimm mínútur. min_IMG_2813Hrærið eggin saman og hellið þeim svo út í súkkulaði blönduna og blandið vel saman. min_IMG_2814Takið bökuskelina úr ofninum og lækkið hitann í 160 gráður.min_IMG_2806 Hellið fyllingunni varlega í bökuna. Það er gott að hafa bökuformið á ofnplötu svo auðveldara sé að flytja bökuna inn í ofn án þess að sulla upp úr. min_IMG_2815min_IMG_2816min_IMG_2818Setjið inn í ofn og bakið í 45 mínútur. min_IMG_2824Takið úr ofninum og leyfið að kólna í a.m.k klukkustund við stofuhita eða lengur í ísskáp. min_IMG_2838Takið bökuna úr forminu, skreytið með bláberjum og hindberjum og sigtið örlítinn flórsykur yfir. min_IMG_2864min_IMG_2856min_IMG_2866

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka, Berjabaka, eftirréttur, góður eftirréttur, Hvít súkkulaði tart, Hvít súkkulaðibaka, Kaka með hindberjum

Eplakaka með karamellusósu

nóvember 21, 2012 by helenagunnarsd 5 Comments

Æðisleg eplakaka úr bókinni Af bestu lyst I með smá karamellutwisti. Ég prófaði hana í boði þar sem ungir jafnt sem aldnir voru hæst ánægðir. Þessi kaka hefur oft verið bökuð í fjölskyldunni við hin ýmsu tilefni og alltaf verið jafn vinsæl, eins og reyndar margt annað úr þessari góðu matreiðslubók. Það er smá marsipan í kökunni sem gerir hana sparilega en því má vel sleppa. Ég set líka í hana kanil sem mér finnst ómissandi í eplakökum. Ég get þó fullyrt að jafnvel marsipan-fælur kunna að meta þessa köku.

Ég er vön að nota alltaf hrásykur, spelt og vínsteinslyftiduft í minn bakstur, einfaldlega því mér finnst það betra á bragðið og betra hráefni en mikið unnið hvítt hveiti, hvítur sykur og venjulegt lyftiduft sem einhver sagði mér að innihéldi ál. Það hljómar ekki vel í mínum eyrum. Það er þó nokkuð ljóst að þessi kaka eins og kökur almennt er engin heilsufæða og mér dytti ekki í hug að halda því fram. Mér finnst betra að baka aðeins sjaldnar og get því leyft mér að nota aðeins betra hráefni og útkoman verður oftast mjög góð.

Eplakaka með karamellusósu – breytt uppskrift úr bókinni Af bestu lyst

  • 300 grömm epli (skorin og flysjuð 
  • 1 msk hrásykur
  • 1 msk spelt
  • 1 tsk kanill

Eplin flysjuð, skorin í bita og blandað saman við sykurinn, speltið og kanilinn. Sett til hliðar.

  • 3 egg
  • 2 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1.5 dl bragðlítil matarolía
  • 2 dl spelti (eða bara hveiti)
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft (eða 1 tsk venjulegt lyftiduft)
  • 100 grömm marsipan
  • 1 eggjahvíta

Hrærið saman egg, sykur, vanillu og olíu þar til ljóst og létt. Blandið speltinu og lyftiduftinu saman við. Setjið í smurt lausbotna kökuform eða hringlaga form með gati í miðjunni. Dreifið eplunum yfir deigið.

Hrærið saman marsipan og eggjahvítu og setjið yfir kökuna.

Bakið í miðjum ofni við 175 gráður í um það bil 40 – 45 mínútur.

Karamellusósan setur algjörlega punktinn yfir i-ið 😉 Upplagt að gera hana meðan kakan bakast.

  • 50 grömm smjör
  • 50 grömm púðursykur
  • 1/2 tsk vanilluextract
  • 1/4 tsk gróft salt t.d maldon
  • 1/2 dl rjómi

Öllu blandað saman í potti og látið malla við meðalhita í ca. 5 mínútur.

Þegar kakan er tilbúin er ágætt að láta bæði kökuna og karamellusósuna kólna í hálftíma áður en sósunni er hellt yfir.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta eplakakan, eftirréttur, Eplakaka, eplakaka með marsipani, Karamellusósa

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme