• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Fljótlegur matur

bbq salat með chilli-sesam kjúkling

mars 23, 2016 by helenagunnarsd Leave a Comment

 

561458_1058825050842552_8671424417057541431_n

Það er ískyggilega langt síðan uppskrift hefur birst hér inni, ekki síðan í janúar! Myrkur á kvöldmatartíma spilar vissulega mikið inn í ásamt almennu annríki. Þið getið reglulega séð nýjar uppskriftir eftir mig inni á www.gottimatinn.is og ef þið fjárfestið í tímaritinu Húsfreyjunni má þar finna helling af skemmtilegum uppskriftum. En að þessu salati – Það er varla hægt að kalla þetta uppskrift svo einfalt er það. Hlutföllin eru alls ekki heilög eins og svo oft í svona matargerð og um að gera að nota það sem manni þykir gott. Svona þykir mér salatið best. Þessi réttur slær í gegn þar sem hann er borinn fram og alveg upplagður í saumaklúbba.

bbq salat með chilli-sesam kjúkling (fyrir fjóra):

  • 3-4 góðar handfyllir grænt salat (ég nota ferskt spínat og lambhagasalat)
  • 1/2 agúrka
  • 1 lítil rauð paprika
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5-6 msk fetaostur í olíu
  • 3 kjúklingabringur
  • Olífuolía, salt og pipar
  • 2 dl bbq sósa (ég nota alltaf Hunts hickory brown sugar)
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk (má sleppa ef maður vill ekki hitann)
  • 3 msk sesamfræ
  • Ofaná (ef vill):
  • Svartar Doritos flögur, muldar
  • 1 dós sýrður rjómi með 2 msk bbq sósu pískað saman við

Aðferð: Rífið salatið gróflega niður og leggið í botninn á fati eða stórum diski. Skerið grænmetið frekar smátt og dreifið ofan á. Skerið kjúklinginn í litla bita, kryddið með salti og pipar og steikið á pönnu uppúr smá olíu þar til hann hefur lokast á öllum hliðum. Hellið þá bbq sósunnu út á pönnuna ásamt chillimaukinu og látið þetta krauma saman við meðal-háan hita í um 5 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og kjúklingurinn eldaður í gegn. Stráið þá sesamfræjunum yfir hrærið saman og takið af hitanum. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr kjúklingnum 5-10 mínútur og hellið honum svo yfir salatið. Skreytið með smá grænmeti og e.t.v. meiri bbq sósu og drefið svo fetaosti yfir allt saman. Berið fram með flögunum og kaldri sósu.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótlegur kjúklingaréttur, Fljótlegur matur, Gott salat, Góður kjúklingaréttur, Grænmetisréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttur, LKL uppskrift

Taco súpa

júní 12, 2014 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_5953Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!min_IMG_5961

Taco súpa:

  • 500 gr nautahakk
  • 2 rauðlaukar
  • 2 paprikur
  • 3 hvítkauksrif
  • 2 tómatar
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 3 msk tacokrydd
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 l vatn
  • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
  • 2 msk rjómi

min_IMG_5935Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

min_IMG_5965Meðlætið:

  • 5 tortillakökur
  • Avocado í bitum
  • Rifinn maríbó ostur
  • Smátt saxaður vorlaukur
  • Límónubátar

Page_1Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni. min_IMG_5955min_IMG_5963

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð súpa, kvöldmatur humgyndir, mexíkó súpa, mexíkósk súpa, Mexíkóskur matur, Ódýr matur, salsa súpa, Súpa, súpa fyrir marga, súpa fyrir veislu, taco súpa

Appelsínugljáðar grísakótilettur með sinnepi og rósmarín

mars 21, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5363Eins og það er gaman og nauðsynlegt að fara í frí svona endrum og sinnum þá er alltaf jafn gott að koma heim aftur. Það þykir mér að minnsta kosti. Þrátt fyrir vandræðalega mikla flugþreytu og svefnleysi hjá heimilisfólki hér í gær gat ég eiginlega ekki beðið eftir að komast aftur í eldhúsið mitt. Ég eyddi talsverðum tíma í fríinu í að glugga í matartímarit og eftir að hafa rekist á girnilega uppskrift að grísakótilettum í Cooking Light hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að elda eitthvað svipað þegar heim var komið. Útkoman var einstaklega góð og mér þykir þetta upplagður föstudags- eða helgarmatur.

min_IMG_5365Appelsínugljáðar grísakótilettur með sinnepi og rósmarín (fyrir 4):

  • 5 grísakótilettur með beini
  • Safinn úr tveimur stórum appelsínum (u.þ.b 2 dl)
  • 2 msk appelsínumarmilaði
  • 2 msk grófkorna sinnep
  • 1 hvítlauksrif smátt saxað eða rifið á rifjárni
  • 3-4 ferskar rósmaríngreinar eða 2 tsk þurrkað
  • Salt og pipar

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður. Pískað saman í skál appelsínu safa, marmilaði, sinnepi, hvítlauk og kryddið með smá salti og pipar og 1 tsk af söxuðu rósmarín. Kryddið kjötið með salti og pipar og steikið á vel heitri pönnu þar til vel brúnað. Færið kjötið yfir á disk. Hafið pönnuna á meðalháum hita og hellið vökvanum á. Hleypið suðunni upp og leyfið að sjóða í 5 mínútur eða þar til sósan hefur aðeins þykknað. Leggið kjötið þá aftur á pönnuna og veltið vel upp úr sósunni. Leggið rósmaríngreinar ofan á og bakið í ofni í 8-10 mínútur eða þar til kjötið er eldað í gegn. Berið fram með fersku salati.

min_IMG_5360

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Grísakótilettur uppskrift, Pönnusteiktar kótilettur, Svínakjöt uppskriftir

Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum

febrúar 3, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_4845Sumir geta ekki borðað fisk nema hann sé í einhverskonar dulbúningi. Ég er reyndar ekki ein af þeim og nýt þess að borða ferskan fisk nánast í hvaða útgáfu sem er. Soðinn og allsberan þess vegna, svo lengi sem hann er nýr. Það á nú reyndar líka við um fisk í dulbúningi. Fiskur verður bara að vera nýr, helst spriklandi ferskur. Áður fyrr var ég þó heldur meira gefin fyrir dulbúna fiskrétti og fannst fiskur eiginlega ekkert svo spes svona almennt. En tímarnir breytast. Nú elda ég allskonar fisk, dulbúinn eða ekki og nýt þess að borða þetta ljúffenga og létta hráefni. Ég neita því samt ekki að hér mætti gjarnan vera fiskur oftar á borðum og sannarlega eitthvað sem ég er statt og stöðugt að reyna að breyta.

min_IMG_4843Þessi fiskur er svona fyrir ”fiskihatara” og auðvitað hina líka. Myndirnar eru nú reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir, en það verður bara að hafa það. Þetta er bragðmikill og sérstaklega ljúffengur réttur sem er tilbúinn á mettíma. Einn af þessum réttum sem ég er svo fegin að hafa upp í erminni og hlakka alltaf til að elda.

Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum:

  • 600 grömm nýr fiskur, ég notaði ýsu
  • Sólþurrkað tómatamauk, líka hægt að nota rautt pestó
  • 1 lítil krukka svartar ólífur
  • 1 kúla ferskur mozarella ostur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • Ólífuolía og gott krydd t.d Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður og smyrjið eldfast mót með ólífuolíu. Skerið fiskinn í passlega bita, kryddið og leggið í mótið.min_IMG_4835 Smyrjið um það bil einni teskeið af sólþurrkaða tómatmaukinu ofan á hvern fiskbita. min_IMG_4837Skerið tómata og ólífur í tvennt og dreifið yfir. Leggið sneið af mozarella ofan á hvern fiskbita.min_IMG_4839 Dreifið parmesan osti yfir allt saman og kryddið yfir með heitu pizzakryddi. min_IMG_4841Bakið í 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn bakaður. Berið fram t.d með góðu brauði eða hrísgrjónum og salati. Hér var rétturinn borinn fram með linguine að ósk þess fimm ára á heimilinu. min_IMG_4850

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti fiskrétturinn, Fiskréttir, Fiskréttir uppskriftir, Fljótlegur matur, Góður fiskréttur, ofnbakaður fiskur, uppskrift að fiskrétti

Tíu mínútna máltíð: Tortellini alla puttanesca

nóvember 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4621Það er ár og dagur eða svona því sem næst, síðan hér hefur verið pasta á borðum. Það var því kærkomin löngun í góðan og bragðmikinn pastarétt sem varð að veruleika á dögunum. Einn af uppáhalds pastaréttunum mínum er pasta alla puttanesca eða pasta gleðikonunnar eins og það þýðir svo skemmtilega á íslensku. Það er eiginlega allt í honum sem mér þykir gott: tómatar, hvítlaukur, chilli, capers, góð ólífuolía, ólífur og parmesan ostur. Ég hef áður birt uppskrift að svona pastarétti hérna á síðunni og það vill svo skemmtilega til að það var ein af fyrstu uppskriftunum og birtist 5. desember í fyrra. Þetta gæti því eitthvað tengst árstímanum þessi löngun mín í bragðmikla pastarétti. Áhugavert ekki satt? En jæja, ég gerði útgáfu af puttanesca tortellini í þetta skiptið og notaði ferskt pasta í réttinn sem gjörsamlega sló í gegn. Eldamennskan tók heldur ekki meira en 10 mínútur, sem hlýtur alltaf að alltaf að vera kostur. min_IMG_4615

Tortellini alla puttanesca fyrir 4:

  • 500 gr ferskt pasta, t.d tortellini
  • 3 msk góð ólífuolía
  • 1 rauðlaukur smátt skorinn
  • 2-3 hvítlauksrif, rifin eða smátt söxuð
  • 4 vel þroskaðir tómatar, skornir í teninga
  • 1 askja piccolo tómatar eða kirsuberjatómar
  • 3 msk kapers
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk eða 1/2 rauður chilli smátt saxaður
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang eða önnur sæta
  • 1-2 msk rjómi (má sleppa)
  • Salt og pipar
  • Nýrifinn ferskur parmesan ostur

Aðferð: Hitið olíuna á stórri pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þar til hann mýkist aðeins. Bætið þá öllum tómötunum út á og hækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur og kremjið kirsuberjatómatana aðeins með sleifinni. Bætið kapers, chilli, sítrónusafa, hunangi og rjóma út á og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, sigtið og hellið því svo út í sósuna og blandið vel saman. Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram. min_IMG_4623

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur pastaréttur, Ferskt pasta, Ferskt tortellini, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, pasta alla puttanesca, pasta uppskrift

Uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar

október 23, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_4289Mikið hef ég hlakkað til að deila þessari uppskrift með ykkur. Mamma á allan heiðurinn af þessum sívinsæla, stórgóða og ofur fljótlega fiskrétti sem er á borðum hjá okkur í fjölskyldunni að minnsta kosti einu sinni í viku. Innan fjölskyldunnar gengur rétturinn undir því skemmtilega nafni ríkisfiskur og hefur hann verið eldaður óteljandi oft á síðustu árum í hinum ýmsu útgáfum. Mamma var samt búin að biðja mig um að kalla þetta ekki ríkisfisk, hæ mamma mín :).. Allavega, tilurð réttarins má að miklu leyti rekja til grillgleði pabba sem helst vill grilla á hverjum degi. Það er samt tiltölulega erfitt að grilla ýsu nema með smá tilfæringum og eftir smá hugmyndavinnu í eldhúsinu þróaði mamma þennan rétt sem samtvinnar bráðhollan fiskrétt sem er fullur af grænmeti og gerir grillglaðan pabba ánægðan.

Þið verðið að prófa þennan rétt, ef þið viljið ekki grilla hann er vel hægt að stinga honum inn í vel heitan ofn eða undir grillið í ofninum. Það er samt alveg hægt að grilla réttinn í hvaða veðri sem er þar sem maður þarf ekkert að standa við grillið og snúa og vesenast eitthvað. Ég lofa því að það er alveg þess virði að hafa dregið fram grillið þegar maður finnur ljúft grillbragðið af réttinum.

min_IMG_4299Ríkisfiskur (Fyrir 2-3):

Ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram með grænmeti, uppskriftin sem ég gef hér er grunnur og um að gera að leika sér. Það er líka gott að nota t.d paprikusneiðar, chilli, engifer, fennel og svo mætti lengi telja. 

  • 600 grömm ýsuflök, roðlaus og beinlaus
  • 2 laukar, skornir í sneiðar
  • 1 sítróna
  • 3-4 vænar lúkur ferskt spínat
  • 1 askja piccolo eða kirsuberjatómatar
  • 1 lítil krukka fetaostur með kryddolíu
  • Sítrónupipar
  • Ólífuolía
  • 1/2 dl vatn
  • Spírur til skrauts

Aðferð: Leggið ýsuflökin á olíuborinn stálbakka, álbakka eða þykkan ”heavy duty” álpappír sem þolir grillun. Ef þið notið álpappír, brjótið þá upp á kantana og búið til einskonar bakka. Kryddið flökin vel með sítrónupipar báðu megin. Skerið sítrónuna í sneiðar og leggið yfir flökin.Dreifið lauknum svo yfir, því næst spínatinu ásamt tómötunum og hellið fetaostinum ásamt mest allri olíunni úr krukkunni yfir.min_IMG_4281Kryddið yfir allt með sítrónupipar og hellið 1/2 dl af vatni yfir. Grillið á sjóðandi heitu grilli í 10-15 mínútur eða bakið í ofni við 220 gráður þar til tómatarnir eru heitir í gegn, fiskurinn eldaður og osturinn aðeins farinn að bráðna. min_IMG_4303Dreifið spírum yfir og berið fram strax. min_IMG_4310Ég mæli sérstaklega með þessum spírum frá Ecospíra. Það er hægt að gerast áskrifandi og fá sendan vikulega pakka fullan af ferskum og gómsætum spírum.min_IMG_4298

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti fiskrétturinn, Einfaldur fiskréttur, Fljótlegur matur, Góður fiskréttur, Grillaður fiskur, LKL uppskrift, Ýsa með grænmeti

Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue

september 15, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4064Þessi réttur er í senn afskaplega fljótlegur í undirbúningi en alveg ómótstæðilega góður. Ég veit ekki með ykkur, en ég forðast dálítið að matbúa rétti sem krefjast þess að ég þurfi að ”pannera” hráefnið – semsagt velta því upp úr hveiti, eggi og raspi og síðan steikja upp úr feiti. Þó sundum sé vissuleg gaman að gera svoleiðis fínerí er það almennt ekki eitthvað sem ég kýs að gera þegar maturinn þarf að komast með hraði á borðið. Þessi réttur krefst þess ekki einu sinni af manni að panna sé dregin fram. Ég mæli með að nota góða skinku í fyllinguna og bragðmikinn ost. Uppáhalds harði osturinn minn þessa dagana er Óðalsostur – þykir hann alveg sérstaklega bragðgóður og svo bráðnar hann líka mjög vel. Ísbúi eða Sterkur Gouda gætu sömuleiðis komið sterkir inn. Mér þykja allavega þessir íslensku ostar alveg afbragðsgóðir og finnst alltaf gaman að prófa nýjar tegundir. Og nei þetta er ekki auglýsing – alveg satt, bara lýsing á því sem mér þykir best. Rétturinn er svona ekta matarboðs- eða helgarmatur sem má undirbúa með góðum fyrirvara og skella svo inn í ofn hálftíma áður en borðhald hefst og útkoman, alveg einstaklega gómsæt.

min_IMG_4053Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 4 góðar skinkusneiðar, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur
  • 8 sneiðar af góðum osti, t.d Óðalsosti eða öðrum góðum brauðosti
  • 4 msk dijon sinnep
  • 4 msk góður brauðraspur (ég nota panko)
  • 4 msk rifinn parmesan ostur
  • 1 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð: Byrjið á að skola og þerra kjúklingabringurnar vel. Leggið á skurðarbretti og kljúfið góðan vasa á hverja bringu. Leggið tvær ostsneiðar á hverja skinkusneið og rúllið skinkunni upp. Stingið osta og skinkurúllununum inni í kjúklingabringurnar, einni rúllu í hverja bringu.min_IMG_4039 Kryddið með salti og pipar og leggið í eldfast mót. Smyrjið einni matskeið af dijon sinnepi ofan á hverja bringu. min_IMG_4041Blandið saman brauðraspi, parmesan, steinselju og olíu og stráið jafnt yfir allar bringurnar, ca. 2 msk á hverja bringu. min_IMG_4047Bakið í ofni við 180 gráður í 35 mínútur, það fer þó eftir stærð og þykktinni á kjötinu svo fylgist með því. min_IMG_4050Berið fram með einföldu salati og njótið!min_IMG_4057

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Cordon Blue uppskrift, Fljótlegur matur, Fylltar kjúklingabringur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir að mat fyrir matarboð, Kjúklinga cordon blue, Kjúklingabringur uppskriftir

Tómat- karrý kjúklingur

september 4, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_3934

Ég var svolítið tvístígandi að setja þessa uppskrift hingað inn. Ég get allavega seint kallað þetta mína uppskrift og ég veit svei mér þá ekki hvaða hugmyndin kemur. Ég fékk þennan rétt í fyrsta skipti í matarboði fyrir mörgum, mörgum árum og hann er svo góður að maður gleymir honum ekki. Það eiga því trúlega margir uppskriftina að þessum ótrúlega einfalda en hrikalega góða rétti. En ef ekki, þá er hún hér, á silfurfati með myndum, fyrir ykkur því ég veit fátt skemmtilegra en að gleðja ykkur með góðum uppskriftum! Það er nógu góð ástæða fyrir birtingu uppskriftarinnar að mínu mati. Svo finnst mér alveg ótrúlegt en gríðarlega skemmtilegt að segja frá því að þessi uppskrift er númer 100 á síðunni! Tíminn sannarlega flýgur þegar það er gaman 🙂 Nú, en að matnum, þeir sem eru sjóaðir í framandi matreiðslu, steytingu krydda, hafa skömm á tilbúnum sósum og vilja alltaf útbúa mat frá grunni ættu kannski að hætta að lesa núna. Uppskriftin er afar einföld, sérstaklega fljótleg en útkoman er eins og maður hafi staðið í eldhúsinu tímunum saman. Ungir jafnt sem aldnir sleikja sósuna af fingrunum svo góð er hún. Prófið þessa !

min_IMG_3919

Tómat karrý kjúklingabitar (fyrir 5):

  • 1 flaska Heinz chillisósa
  • 3 tsk gott karrý, t.d frá Pottagöldrum
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar og smá salt
  • 2 bakkar kjúklingabitar ca. 1.5 kg (t.d leggir og læri) eða einn heill kjúklingur hlutaður niður
  • 1 peli rjómi eða 2,5 dl góð kókosmjólk
  • Saxað fersk kóríander eða steinselja

min_IMG_3906Aðferð: Blandið saman chillisósu, karrý og pipar og hellið í stórt fat. Skolið kjúklingabitana, þerrið vel og skerið 2-3 djúpar rákir í hvern bita svo sósan fari vel inn í kjötið. Veltið bitunum upp úr sósunni og látið standa í 10-15 mínútur, stráið dálitlu sjávarsalti yfir bitana. Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Setjið kjúklingabitana í ofninn og bakið í 30 mínútur. Takið þá fatið út og hellið rjómanum eða kókosmjólkinni yfir og bakið í 30 mínútur til viðbótar. min_IMG_3915Stráið söxuðu kóríander eða steinselju yfir og berið fram með góðum hrísgrjónum og fersku salati. min_IMG_3929

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Fljótlegur matur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaleggi uppskrift, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingaréttur, Kjúklingur í tómat- karrý

Grillaður lax með himneskri marineringu

ágúst 27, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_3710Þessi grillaði lax sem ég var með um daginn fer beint á topp fimm yfir bestu fiskmáltíðir sem ég hef borðað. Ef ekki bara topp fimm máltíðir fyrr og síðar. Það gæti haft sitt að segja að laxinn var villtur og spriklandi ferskur, veiddur af pabba, flakaður af mömmu (ég er alveg glötuð í fiskflökun) og alveg passlega stór. Sumsé ekki of stór, mér þykja litlir laxar betri en stórir og ég þarf varla að taka það fram hvað villtur lax er miklu, miklu betri en eldislax. Marineringin er alveg stórgóð á fisk eins og lax sem þolir mikið bragð og ég mæli heilshugar og óhikað með því að þið prófið þessa marineringu og prófið að grilla lax með þessum hætti við fyrsta tækifæri. Ég er ekki frá því að marineringin myndi jafnvel virka glimrandi vel á eldislax. En notið endilega þennan villta ef þið komist yfir flak eða tvö!

min_IMG_3723Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.

min_IMG_3707Marinering:

  • 2 msk dijon sinnep
  • 1 msk hunang
  • 4 msk sojasósa
  • 6 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
  • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

min_IMG_3708Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati. min_IMG_3724

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð marinering, Grillaður fiskur, Grillaður lax, Lax uppskrift, LKL uppskrift, Marinering á fisk

Tagliatelle alla carbonara

ágúst 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3836Pasta hefur ekki verið á borðum hér á heimilinu í langan tíma. Það koma þó tímar þegar pasta er það eina sem virkar og virðist einhvernveginn vera það eina rétta í stöðunni. Svona tími var einmitt í gær. Það var rigning, laugardagskvöld, heimilisfólkið dálítið þreytt og eldhús nennan ekkert sérstaklega mikil. Maðurinn minn hefur alveg einstaklega einfaldan smekk þegar kemur að mat og lengi vel var pasta carbonara uppáhaldsmaturinn hans. Ég hef þó ekki eldað carbonara í mjög, mjög langan tíma, sennilega ekki í tvö eða þrjú ár. Enda hefur matarsmekkurinn breyst og maður og kona geta bara ekki borðað pasta í öll mál. Þetta var því dálítið nostalgískt endurkoma carbonara inn á heimilið. Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda þennan einfalda en stórgóða rétt.

min_IMG_3842Tagliatelle alla carbonara (fyrir 3-4):

  • 400 grömm tagliatelle eða spaghetti
  • 1 egg og 4 eggjarauður
  • 100 gr rifinn parmesan ostur
  • 1 dl rjómi
  • Beikon – 1 bréf, ca. 150-200gr, skorið í litla bita
  • 1/4 tsk múskat
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar (ég nota hvítan pipar í þennan rétt)
  • Handfylli fersk steinselja, söxuð

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn í stórum potti og setjið pastað útí. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum þar til pastað er al dente. Á meðan pastað sýður, hitið frekar stóra pönnu og steikið beikonið þar til það er stökkt. Hrærið eggið, eggjarauðurnar, rjómann, parmesan (skiljið smá eftir til að strá yfir í lokin), múskat og pipar saman í skál. Þegar pastað er tilbúið, takið þá einn bolla frá af pastavatninu og hellið vatninu svo af pastanu.

Slökkvið undir beikonpönnunni, hellið pastanu yfir beikonið og því næst eggjablöndunni. Passið að taka pönnuna af hitanum og blandið öllu vel saman. Þynnið sósuna með pastavatninu eftir smekk. Kryddið með salti ef þarf, nýmöluðum pipar og stráið yfir steinselju og meiri parmesan osti. Mér finnst ansi frískandi að bera réttinn fram með sítrónubátum og kreista smá yfir pastað, lyftir bragðinu upp á aðeins hærra plan. Njótið með góðu rauðvínsglasi og kertaljósi!min_IMG_3838

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Carbonara, Carbonara sósa, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, Ítalskur matur, Ódýr matur, Pasta carbonara, pasta uppskrift, Spaghetti carbonara

  • Page 1
  • Page 2
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme