• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

LKL uppskrift

bbq salat með chilli-sesam kjúkling

mars 23, 2016 by helenagunnarsd Leave a Comment

 

561458_1058825050842552_8671424417057541431_n

Það er ískyggilega langt síðan uppskrift hefur birst hér inni, ekki síðan í janúar! Myrkur á kvöldmatartíma spilar vissulega mikið inn í ásamt almennu annríki. Þið getið reglulega séð nýjar uppskriftir eftir mig inni á www.gottimatinn.is og ef þið fjárfestið í tímaritinu Húsfreyjunni má þar finna helling af skemmtilegum uppskriftum. En að þessu salati – Það er varla hægt að kalla þetta uppskrift svo einfalt er það. Hlutföllin eru alls ekki heilög eins og svo oft í svona matargerð og um að gera að nota það sem manni þykir gott. Svona þykir mér salatið best. Þessi réttur slær í gegn þar sem hann er borinn fram og alveg upplagður í saumaklúbba.

bbq salat með chilli-sesam kjúkling (fyrir fjóra):

  • 3-4 góðar handfyllir grænt salat (ég nota ferskt spínat og lambhagasalat)
  • 1/2 agúrka
  • 1 lítil rauð paprika
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5-6 msk fetaostur í olíu
  • 3 kjúklingabringur
  • Olífuolía, salt og pipar
  • 2 dl bbq sósa (ég nota alltaf Hunts hickory brown sugar)
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk (má sleppa ef maður vill ekki hitann)
  • 3 msk sesamfræ
  • Ofaná (ef vill):
  • Svartar Doritos flögur, muldar
  • 1 dós sýrður rjómi með 2 msk bbq sósu pískað saman við

Aðferð: Rífið salatið gróflega niður og leggið í botninn á fati eða stórum diski. Skerið grænmetið frekar smátt og dreifið ofan á. Skerið kjúklinginn í litla bita, kryddið með salti og pipar og steikið á pönnu uppúr smá olíu þar til hann hefur lokast á öllum hliðum. Hellið þá bbq sósunnu út á pönnuna ásamt chillimaukinu og látið þetta krauma saman við meðal-háan hita í um 5 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og kjúklingurinn eldaður í gegn. Stráið þá sesamfræjunum yfir hrærið saman og takið af hitanum. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr kjúklingnum 5-10 mínútur og hellið honum svo yfir salatið. Skreytið með smá grænmeti og e.t.v. meiri bbq sósu og drefið svo fetaosti yfir allt saman. Berið fram með flögunum og kaldri sósu.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótlegur kjúklingaréttur, Fljótlegur matur, Gott salat, Góður kjúklingaréttur, Grænmetisréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttur, LKL uppskrift

Uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar

október 23, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_4289Mikið hef ég hlakkað til að deila þessari uppskrift með ykkur. Mamma á allan heiðurinn af þessum sívinsæla, stórgóða og ofur fljótlega fiskrétti sem er á borðum hjá okkur í fjölskyldunni að minnsta kosti einu sinni í viku. Innan fjölskyldunnar gengur rétturinn undir því skemmtilega nafni ríkisfiskur og hefur hann verið eldaður óteljandi oft á síðustu árum í hinum ýmsu útgáfum. Mamma var samt búin að biðja mig um að kalla þetta ekki ríkisfisk, hæ mamma mín :).. Allavega, tilurð réttarins má að miklu leyti rekja til grillgleði pabba sem helst vill grilla á hverjum degi. Það er samt tiltölulega erfitt að grilla ýsu nema með smá tilfæringum og eftir smá hugmyndavinnu í eldhúsinu þróaði mamma þennan rétt sem samtvinnar bráðhollan fiskrétt sem er fullur af grænmeti og gerir grillglaðan pabba ánægðan.

Þið verðið að prófa þennan rétt, ef þið viljið ekki grilla hann er vel hægt að stinga honum inn í vel heitan ofn eða undir grillið í ofninum. Það er samt alveg hægt að grilla réttinn í hvaða veðri sem er þar sem maður þarf ekkert að standa við grillið og snúa og vesenast eitthvað. Ég lofa því að það er alveg þess virði að hafa dregið fram grillið þegar maður finnur ljúft grillbragðið af réttinum.

min_IMG_4299Ríkisfiskur (Fyrir 2-3):

Ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram með grænmeti, uppskriftin sem ég gef hér er grunnur og um að gera að leika sér. Það er líka gott að nota t.d paprikusneiðar, chilli, engifer, fennel og svo mætti lengi telja. 

  • 600 grömm ýsuflök, roðlaus og beinlaus
  • 2 laukar, skornir í sneiðar
  • 1 sítróna
  • 3-4 vænar lúkur ferskt spínat
  • 1 askja piccolo eða kirsuberjatómatar
  • 1 lítil krukka fetaostur með kryddolíu
  • Sítrónupipar
  • Ólífuolía
  • 1/2 dl vatn
  • Spírur til skrauts

Aðferð: Leggið ýsuflökin á olíuborinn stálbakka, álbakka eða þykkan ”heavy duty” álpappír sem þolir grillun. Ef þið notið álpappír, brjótið þá upp á kantana og búið til einskonar bakka. Kryddið flökin vel með sítrónupipar báðu megin. Skerið sítrónuna í sneiðar og leggið yfir flökin.Dreifið lauknum svo yfir, því næst spínatinu ásamt tómötunum og hellið fetaostinum ásamt mest allri olíunni úr krukkunni yfir.min_IMG_4281Kryddið yfir allt með sítrónupipar og hellið 1/2 dl af vatni yfir. Grillið á sjóðandi heitu grilli í 10-15 mínútur eða bakið í ofni við 220 gráður þar til tómatarnir eru heitir í gegn, fiskurinn eldaður og osturinn aðeins farinn að bráðna. min_IMG_4303Dreifið spírum yfir og berið fram strax. min_IMG_4310Ég mæli sérstaklega með þessum spírum frá Ecospíra. Það er hægt að gerast áskrifandi og fá sendan vikulega pakka fullan af ferskum og gómsætum spírum.min_IMG_4298

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti fiskrétturinn, Einfaldur fiskréttur, Fljótlegur matur, Góður fiskréttur, Grillaður fiskur, LKL uppskrift, Ýsa með grænmeti

Grillaður lax með himneskri marineringu

ágúst 27, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_3710Þessi grillaði lax sem ég var með um daginn fer beint á topp fimm yfir bestu fiskmáltíðir sem ég hef borðað. Ef ekki bara topp fimm máltíðir fyrr og síðar. Það gæti haft sitt að segja að laxinn var villtur og spriklandi ferskur, veiddur af pabba, flakaður af mömmu (ég er alveg glötuð í fiskflökun) og alveg passlega stór. Sumsé ekki of stór, mér þykja litlir laxar betri en stórir og ég þarf varla að taka það fram hvað villtur lax er miklu, miklu betri en eldislax. Marineringin er alveg stórgóð á fisk eins og lax sem þolir mikið bragð og ég mæli heilshugar og óhikað með því að þið prófið þessa marineringu og prófið að grilla lax með þessum hætti við fyrsta tækifæri. Ég er ekki frá því að marineringin myndi jafnvel virka glimrandi vel á eldislax. En notið endilega þennan villta ef þið komist yfir flak eða tvö!

min_IMG_3723Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.

min_IMG_3707Marinering:

  • 2 msk dijon sinnep
  • 1 msk hunang
  • 4 msk sojasósa
  • 6 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
  • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

min_IMG_3708Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati. min_IMG_3724

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð marinering, Grillaður fiskur, Grillaður lax, Lax uppskrift, LKL uppskrift, Marinering á fisk

Mozarella og tómatar – Insalata caprese

ágúst 12, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3192Ég held að ég geti sagt að eftirfarandi uppskrift (sem er eiginlega ekki hægt að kalla uppskrift) sé einn af mínum uppáhaldsréttum. Svona þegar kemur að einfaldleika, góðu hráefni og fljótlegheitum. Þetta er samsetning sem getur ekki klikkað. Það er svo mikilvægt þegar svona fá hráefni eiga að fá að standa fyrir sér sem forréttur, máltíð, smáréttur eða meðlæti, að allt sé gott sem í réttinn fer. Mozarella osturinn þarf að vera ferskur, mér finnst þessi íslenski alveg afbragðsgóður en vilji menn vera flottir á því veit ég að ítalska sælkeraverslunin Piccolo Italia á Laugaveginum selur stundum ekta ítalskan buffalo mozarella. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér á svoleiðis einn daginn.

Nú og svo þurfa tómatarnir að vera eldrauðir og ekki kaldir úr ísskáp. Það er langbest – eiginlega skylda, að geyma tómata alltaf við stofuhita. Ég nota tómata það mikið að ég er með stóra skál við hliðina á eldavélinni sem er oftast full af tómötum. Þegar ég kaupi nýja tómata set ég þá neðst í skálina og nota þá sem eldri eru. Ég geymi kirsjuberja-, piccolo-, plómutómata og ”venjulega” íslenska tómata við þessar aðstæður, sumsé alla tómata. Þeir eru svo margfalt betri á bragðið fái þeir að þroskast og roðna við stofuhita. Það er svo alveg klassískt að nota basil í svona tegund af salati, ég geri það oftast en í þetta skiptið notaði ég glænýtt heimaræktað klettasalat sem mér finnst líka passa vel í salatið. Mér þykir svo best að hella yfir góðri jómfrúar ólífuolíu, balsamikediki og strá svo yfir sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Einfaldleikinn er oft svo dásamlegur!

min_IMG_3189Insalata caprese:

  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 vel þroskaðir fremur stórir tómatar
  • Nokkur blöð af klettasalati eða basil
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk balsamikedik
  • Sjávarsalt og pipar

Aðferð: Mozarella og tómatar skornir í jafn þykkar sneiðar. Klettasalatið lagt á disk, tómata og mozarellasneiðum raðað ofan á til skiptis. Ólífuolíu og balsamikediki sáldrað yfir ásamt pipar og salti. Borið fram strax. Stundum ber ég salatið fram sem fljótlega máltíð, þá hef ég gjarnan með því hráskinku og avacadosneiðar – það er líka mjög gott.min_IMG_3191

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfalt salat, Fljótlegur forréttur, Forréttur, Góðir smáréttir, Insalata caprese, Ítalskur matur, LKL uppskrift, Mozarella og tómatasalat, Smáréttur

Gratineraður fiskur með blómkálsgrjónum

maí 7, 2013 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_2310Þessi fiskréttur er svo góður að við eiginlega áttum ekki til orð þegar hann var snæddur núna eitt kvöldið. Bæði ungir sem aldnir nutu hans í botn. Hann er stútfullur af grænmeti og fiski og sósan er hrikalega góð. Mér finnst allavega alveg magnað að horfa á son minn moka upp í sig fiski og grænmeti með sósu og smjatta í millitíðinni yfir því hversu góður maturinn sé. Hann er nefnilega ekki ennþá kominn á það stig að reyna að vera kurteis yfir matnum svo harðari gagnrýnanda er varla hægt að fá. Við foreldrarnir vorum reyndar alveg innilega sammála honum. Ég hef oft gert fiskrétti með hefðbundnum hrísgrjónum en ákvað að prófa að gera þennan núna með blómkáls”grjónum”. Ég held að það verði ekki aftur snúið. Okkur fannst miklu betra að hafa blómkálið heldur en venjulegu hrísgrjónin, bæði bragðið og áferðin var dásamlegt. Ég verð að mæla alveg innilega með því að þið prófið þennan rétt sem fyrst!

Gratineraður fiskur með blómkálsgrjónum (fyrir 3-4):

  • 1 lítið blómkálshöfuð, rifið niður á grófu rifjárni
  • 600 grömm hvítur fiskur (ég var með þorskhnakka)
  • 1 lítil dós Kotasæla
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 msk majones
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk hunangsdijon sinnep (eða venjulegt dijon sinnep)
  • 1 rauð paprika, skorin smátt
  • 1/2 púrrulaukur, skorinn smátt
  • Ólífuolía, salt, nýmalaður pipar og Krydd lífsins (Frá Pottagöldrum eða annað gott krydd)
  • Rifinn góður ostur, ég notaði Óðals ost

Aðferð: Byrjið á að hita ofninn í 180 gráður með blæstri. Rífið blómkálið á rifjárni og dreifið því jafn í botninn á eldföstu móti. Kryddið með salt og pipar og dreypið yfir smá ólífuolíu og um 1 msk af vatni. Bakið í ofni í ca. 10 mínútur – eða á meðan þið útbúið restina af réttinumPage_1Skerið þorskinn í hæfilega bita, kryddið með salti, pipar og Kryddi lífsins.min_IMG_2293 Saxið blaðlaukinn og paprikuna smátt. min_IMG_2287Hrærið saman innihaldið í sósuna (kotasæluna, sýrða rjómann, majones, karrý, sinnep) og smakkið hana til með kryddinu, salti og pipar. min_IMG_2289Takið blómkálið útúr ofninum og lækkið hitann á ofninum í ca.160 gráður. Leggið fiskstykkin ofan á. Dreifið sósunni þá yfir fiskinn og þar ofan á paprikunni og púrrulauknum. min_IMG_2297min_IMG_2300Dreifið að lokum rifnum ostinum yfir og bakið í um það bil 20-25 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. min_IMG_2308Berið fram t.d með léttu salati eða spírum. Ég mæli sérstaklega með blaðlauksspírum frá Ecospira, það er milt og gott laukbragð af þeim og þær pössuðu mjög vel með réttinum.min_IMG_2320min_IMG_2314

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur fiskréttur, Fiskréttur, Fiskur í sósu, Góður fiskréttur, Gratineraður fiskur, LKL fiskur, LKL uppskrift, ofnbakaður fiskur, Þorskur uppskrift

Blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk

apríl 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2187Syni mínum þykir blómkálssúpa hinn mesti hátíðarmatur og hoppar hæð sína af gleði í hvert sinn sem ég verð að ósk hans og elda þann góða rétt. Það sem mér þykir þó sennilega mesta syndin varðandi alla þessa blómkálsaðdáun barnsins er að honum þóttu hefðbundnar hveitiuppbakaðar saltstappaðar blómakálspakkasúpur alveg dásamlegar. En það þótti móður hans ekki, verandi þó talsverður blómkálssúpuaðdáandi sjálf. Það er nefnilega svo einfalt, gott og ódýrt að útbúa sjálfur dáfínar súpur frá grunni. Ég þarf svo varla að sannfæra ykkur um hvað útkoman verður margfalt betri. Sá stutti drakk allavega , já drakk, súpuna úr skálinni þar til hann gat ekki meira og var eitt stórt alsælt blómkálsbros á eftir.

Með því að rista blómkálið í pottinum áður en vökvanum er bætt út í kemur smá hnetukeimur af því og súpan fer á aðeins hærra plan en gamla pakkasúpan. Sýrði rjóminn og laukurinn gefa svo þessari súpu alveg einstaklega gott bragð sem smellpassar við blómkálið og gerir súpuna svolítið sparilega.

min_IMG_2182Ristuð blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk (fyrir 4-5):

  • 1 stór eða 2 litlir skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 2 msk smjör
  • 1 stórt blómkálshöfuð, gróft skorið
  • 1 l vatn (má vera aðeins meira, þá verður súpan örlítið þynnri)
  • 2-3 tsk góður grænmetiskraftur (eða 2 góðir teningar)
  • 1 peli rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Salt og pipar

Page_1Bræðið smjörið í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann mýkist. Bætið blómkálinu þá út í og hækkið hitann. Steikið þar til blómkálið hefur aðeins brúnast. Bætið þá vatni, rjóma og grænmetiskraftinum út í. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur eða þar til blómkálið hefur mýkst. Bætið þá vorlauknum út í og maukið súpuna með töfrasprota. Smakkið til með salt og pipar.Page_2Ef ykkur finnst hún of þykk má þynna hana með smá vatni ef of þunn þá má þykkja hana  með smá maizena mjöli. Þetta fer nú allt eftir smekk. Hrærið sýrða rjómanum út í súpuna í pottinum með písk og berið hana fram með söxuðum vorlauk og góðu nýbökuðu brauði, til dæmis þessum ljúffengu ostabollum, uppskriftina má finna hér.min_IMG_2178

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Blómkálssúpa, Einföld súpa, Fljótlegur matur, Góð súpa, Grænmetissúpa, LKL súpa, LKL uppskrift, Ódýr matur

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme