Þar sem mikið lágkolvetna æði hefur gengið yfir landið að undanförnu má nú finna hinar ýmsu nýstárlegu mjöl tegundir í venjulegum matvöruverslunum sem áður seldu ekki slíkar vörur. Má þar til dæmis nefna kókoshveiti, möndlumjöl og hörfrærmjöl. Mér finnst alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og hef undanfarið dálítið verið að prófa mig áfram með þessar nýju og afar góðu afurðir. Þetta mjöl hefur einnig þann kost í för með sér að vera með öllu glútenlaust sem getur komið sér vel ef þið eða einhver sem þið þekkið þolir ekki glúten.
Fyrir nokkrum árum síðan rakst ég á uppskrift á einu af mínum uppáhalds matarbloggum. Þar hafði hún Joy búið til alveg einstaklega girnilegar vöfflur úr kókoshveiti. Ég hef eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þessar vöfflur síðan. Það eina sem stóð í vegi fyrir því að ég prófaði að búa þær til var að ég vissi ekki hvar í ósköpunum ég gæti komist yfir kókoshveiti. En eins og við vitum núna er nú ekki mikið mál að nálgast poka af því góðgæti. Kókoshveiti er tiltölulega dýr vara en það góða við það er að það þarf MUN minna af því en t.d venjulegu hveiti. Einn poki mun því endast lengi. Kókoshveiti er líka mjög trefja- og próteinríkt og gerir manni bara gott. Ég mæli með þessum vöfflum, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og ég get næstum því lofað að líðanin eftir að hafa borðað eina svona er margfalt betri en eftir þær hefðbundnu með hvíta hveitinu.
Kókos vöfflur (Breytt uppskrift frá Joy the Baker, um 6-8 vöfflur):
- 6 egg
- 1 tsk vanilluextract
- 10 dropar stevia (eða 2 msk hunang)
- 1 msk hreint hnetusmjör (mætti skipta út fyrir 1 stappaðan banana)
- 4 msk kókosmjólk eða möndlumjólk (meira ef deigið er of þykkt)
- 6 msk kókoshveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 4 msk kókosolía (fljótandi, látið krukkuna undir heitt vatn þar til olían er fljótandi)
Aðferð: Blandið öllu saman í skál með písk þar til deigið verður kekkjalaust. Ef ykkur finnst deigið of þykkt bætið þá út í það meiri kókos eða möndlumjólk. Deigið á að vera frekar þykkt, þó ekki þannig að hægt sé að ganga á því, það er aldrei jákvætt. Bakið í vöfflujárni við meðalhita þar til bakaðar í gegn.Berið fram með t.d jarðarberjum, smjöri og beikoni og gefið einhverjum sem ykkur þykir vænt um í morgunmat. Ég lofa að sá hinn sami verður glaður og mun ekki hafa hugmynd um að vöfflurnar séu glútenlausar. Svo mætti auðvitað bera þær fram upp á gamla mátann með sultu og þeyttum rjóma. Möguleikarnir eru nánast endalausir.Svo er alveg upplagt að setja afgangs vöfflur í frystinn og skella svo í brauðristina eftir þörfum