Ef ykkur finnst snickers gott eiga þessir eftir að hitta beint í mark. Stökkir að utan og mjúkir að innan með rjómasúkkulaði og stökkum salthnetum. Þetta getur ekki klikkað.
Hráefni:
4 eggjahvítur
240 gr púðursykur
100 gr saxaðar salthnetur
200 gr smátt saxað rjómasúkkulaði
2 lítil Daim súkkulaði, smátt söxuð
Ofaná:
100 gr brætt suðusúkkulaði
4 msk smátt saxaðar salthnetur
Aðferð:
- Hitið ofn í 140 gráður með blæstri
- Þeytið eggjhvítur og púðursykur þar til mjög stífir og glansandi toppar myndast. Mæli með að nota hrærivél og þeyta á mesta hraðanum í 10 mínútur.
- Blandið hnetum, súkkulaði og Daim varlega saman við eggjablönduna með sleikju.
- Setjið með tveimur teskeiðum á bökunarpappír á plötu og bakið í 20 mínútur.
- Kælið kökurnar alveg. Bræðið súkkulaði og dreifið yfir þær ásamt smátt söxuðum salthnetum.
Góð ráð:
- Ef þið eigið margar plötur er best að baka á tveimur til þremur hæðum í einu. Eggjahvítudeig getur ekki staðið mjög lengi á borðinu áður en það er bakað án þess að falla.
- Ég nota litla ískúluskeið til að setja kökurnar á plötuna. Þá verða þær frekar jafnar að lögun og allar jafn stórar.
- Það er best að geyma kökurnar í lokuðu íláti við stofuhita. Þær eru langbestar nýjar en geymast vel í viku og jafnvel lengur en þorna við langa geymslu.
Ef þið bakið megið þið endilega deila með mér afrakstrinum á Instagram: @EldhusperlurHelenu – https://www.instagram.com/eldhusperlurhelenu/