Ég er ný búin að flokka allar uppskriftirnar hérna inni niður í smærri og þægilegri flokka svo auðveldara sé að fletta þeim upp. Sjá hér. Þetta eru kannski engin ósköp enda síðan mín ennþá tiltölulega ung. Engu að síður fór þetta skipulagsleysi eilítið í taugarnar á mér. Allavega, þegar ég var að fara í gegnum uppskriftirnar mínar tók ég eftir að fiskmeti er þar í miklum minnihluta sem er ekki nógu gott. Fiskur er jú bæði hollur og góður og synd að nota ekki meira af þessu góða hráefni sem svo auðvelt er að nálgast og það glænýtt og nánast spriklandi. Mér finnst alltaf gaman að prófa að gera eitthvað nýtt við fisk og mér finnst algjör óþarfi að vera feimin við að nota krydd eða setja þetta fína hráefni í einhvern nýjan búning svo út verði eitthvað sem vekur bragðlaukana aðeins meira en soðnar kartöflur, tómatsósa og ýsa (þó það eigi alveg rétt á sér inni á milli). Það skal alveg viðurkennt hér með að meiri fiskaðdáenda en mig er auðvelt að finna. Þá er það bara komið á hreint.
Ég gróf upp hjá mér uppskrift úr gömlum Gestgjafa, breytti aðeins og bætti hér og þar og úr varð þessi fína tælenska og bragðmikla fiskisúpa sem var snædd yfir Eurovision í kvöld. Ég er alltaf að komast að því betur og betur hvað ég á yndislega ómatvant barn því þegar hann fékk að velja á milli fiskisúpu eða grillaðra hamborgara hrópaði hann hástöfum: ”’Ég vil hafa súpuna!!!” Þetta er semsagt súpa sem hentar öllum, líka börnum. Hann drakk allavega súpuna úr skálinni sinni..
Tælensk fiskisúpa (fyrir ca. 6):
- 1 búnt ferskt kóríander (ca. 50 grömm)
- 1 lítill skallottlaukur
- 4 hvítlauksrif
- 3 cm bútur af engifer
- 1 tsk kóríanderfræ
- 1 tsk chilli mauk t.d sambal oelek (eða 1 ferskur chilli)
- 1 tsk turmerik
- 4 litlar fernur kókosmjólk eða tvær 400 ml dósir
- 1.5 – 2 l vatn
- Fisk- og grænmetiskraftur (ég notaði 2 teninga af fisk og 1 af grænmetis)
- 3 msk fiskisósa (má sleppa, fæst í matvöruverslunum hjá austurlensku vörunum)
- 1 lítið fennel, skorið í tvennt og svo þunnar sneiðar. (Fennel lítur svona út)
- 400 grömm þorskur (eða annar hvítur fiskur sem er frekar þéttur í sér)
- 400 grömm ósoðnar risarækjur
- 4 vorlaukar
- Safi úr einni límónu, eða eftir smekk
Aðferð: Skerið kóríanderstilkana ásamt dálitlu af laufinu gróft niður. Skiljið smá lauf eftir til að strá yfir súpuna í lokin. Setjið kóríander, skallottlauk, hvítlaukinn, engifer, chillimauk, turmerik og kóríanderfræ í matvinnsluvél eða mortel og maukið vel saman. Hitið 1 msk af kókosolíu í stórum potti. Steikið kryddmaukið í olíunni í ca. 1-2 mínútur. Hellið vatninu og kókosmjólkinni yfir ásamt kraftinum, fiskisósunni og fennel og leyfið að sjóða í 10 mínútur. Smakkið til með fiskisósu, lime safa og salt og pipar ef ykkur finnst þurfa. Skerið fiskinn í bita og hreinsið rækjurnar.Þegar súpan hefur náð því bragði sem þið eruð sátt við hleypið suðunni upp og setjið fiskinn og rækjurnar út í og sjóðið í um 2 mínútur eða þar til fiskurinn er tilbúinn. Ég notaði þorsk og rækjur, það má þó auðvitað nota hvaða fisk sem er. Stráið söxuðum vorlauk og kóríander yfir í lokin.
Gunnhildur
Mæli alveg með þessari fiskisúpu. Var með hana í matarboði og hún sló í gegn! Reyndar fann ég ekki risarækjur og notaði hörpudisk í staðinn. Svínvirkaði 😉
helenagunnarsd
En gaman Gunnhildur! Takk fyrir að leyfa mér að vita 🙂
Kv. Helena