Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!
Taco súpa:
- 500 gr nautahakk
- 2 rauðlaukar
- 2 paprikur
- 3 hvítkauksrif
- 2 tómatar
- 1 lítil sæt kartafla
- 3 msk tacokrydd
- 1 kjúklingateningur
- 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
- 2 msk tómatpúrra
- 1 l vatn
- 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
- 2 msk rjómi
Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!
- 5 tortillakökur
- Avocado í bitum
- Rifinn maríbó ostur
- Smátt saxaður vorlaukur
- Límónubátar
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni.
Elna
Thessi verdur fljótlega á mínu borði, hve mikið vatn setur thú… er thad vara svona slump eda ? 🙂
helenagunnarsd
Ég set 1 líter af vatni 🙂
Kv. Helena
Nafnlaust
Hvar fæ ég tortillukökur?
helenagunnarsd
Í öllum matvörubúðum. Ég fékk þessar í Bónus, þetta voru þessar hér: http://a1.mndcdn.com/image/upload/t_next_gen_article_large_480/djlmxijxc9dfd9jhaombg.jpg
Kær kveðja, Helena
Nanna Gunnarsdóttir
Svo er hrikalega gott að skera tortillurnar í þríhyrninga, pensla örlítið með ólífu eða hvitlauksolíu, setja rifinn ost yfir og inn í ofn… algert nammi með Mexikómat
helenagunnarsd
Sammála því Nanna. Það er ómótstæðilega gott! 🙂 mmm nú verð ég eiginlega að gera súpuna bráðum aftur og hafa svoleiðis með.
Kær kveðja, Helena
Guðný Ásta
Æðisleg súpa og tortillurnar snilld. Á eftir að nota þessa uppskrift oft. Takk fyrir.
helenagunnarsd
En gaman að vita Guðný Ásta. Takk fyrir kveðjuna 🙂
Kær kveðja, Helena
Honeysuckle
Good to see real expertise on display. Your cobttinurion is most welcome.
Gertie
I was struck by the hotsney of your posting
Elisabet
Mjog god, takk fyrir.
Sirrý
Mjög góð súpa, ein af mínum uppáhalds núna.
helenagunnarsd
En gaman að vita Sirrý. Takk fyrir kveðjuna.
Kær kveðja, Helena
Nafnlaust
Langar að gera þessa súpu í hádeiginu á morgun ! Hvað er þessi uppskrift fyrir ca marga ? Með fyrir fram þökk. Rúna
helenagunnarsd
Sæl Rúna. Svarið kemur örugglega alltof seint.. En ég áætla súpuna fyrir um fjóra svanga munna.
Kveðja, Helena
Sigríður
Frábær súpa, kærar þakkir fyrir uppskriftina. Ég bætti við chili, cúmín, cayenne pipar og kóríander og hún varð ennþá betri :).
Nafnlaust
Hafði þessa dýrindis súpu í kvöldamatinn í gær og þvílikt sem hún vakti mikla lukku hjá allri fjölskyldunni. Strákunum mínum fannst svo mikið sport að fá að setja tortillusnakkið í súpuna. Svo gaman þegar máltið hittir svona vel í mark takk fyrir okkur 🙂
Halla Björk
Hafði þessa dýrindis súpu í kvöldmatinn i gær og þvílík sem hún hitti í mark. Öllum strakunum mínum hann æði að fá svona tortillusnakk með. Svo gaman þegar allir eru svona glaðir með matinn sinn. Takk fyrir okkur 🙂
helenagunnarsd
En dásamlegt að vita kæra Halla Björk. Takk fyrir að deila þessu með mér 🙂
Kær kveðja, Helena
Jónas Gíslason
Þessi heitir Tortillu súpa (sopa de tortilla)
Kv frá Mexíkó