• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for mars 2013

Súkkulaði eldfjöll

mars 30, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_1727Það er nú meira vesenið stundum hvað matur getur verið dásamlega góður. Það mætti halda miðað við færslurnar hérna inni undanfarið að það eina sem við borðum séu stórsteikur, rjómasósur, súkkulaði og eftirréttir. Það er nú ekki svo en það er bara svo gaman að deila þannig góðgæti með ykkur lesendur góðir. Ég get líka alveg svarið það að mest lesnu uppskriftirnar hérna inni eru svona oftast þær sem maður ætti sannarlega ekki að borða daglega. En mikið finnst mér alltaf gaman að sjá hversu margir eru að lesa síðuna. Dag frá degi eykst heimsóknarfjöldinn og ég hefði aldrei trúað því þegar ég byrjaði á þessu fyrr í vetur, hversu gaman þetta væri. Þó ég hafi vissulega leytt hugann að því lengi að setja uppskriftirnar mína upp á einhverja svona síðu grunaði mig aldrei að einhverjir myndu lesa þetta nema ég og svona tveir aðrir (mamma og hugsanlega maðurinn minn). En svona getur þetta nú verið skemmtilegt og ég verð alltaf jafn glöð og hissa að sjá hversu margir skoða og það sem gleður mig mest er að fá send skilaboð frá ókunnugu fólki sem hefur prófað uppskriftirnar og vill þakka fyrir sig. Það er svo gaman að ég roðna bara við tilhugsunina.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af súkkulaði eldfjöllum sem eru nú alveg óþarflega gómsæt. Ég var með þetta í eftirrétt í gærkvöldi, systir mín og mágur komu mat og við elduðum ekta beef Wellington sem er innbökuð nautalund. Ég set þá uppskrift sannarlega hingað inn næstu daga. En þessi súkkulaðibomba er rosalega þægilegur eftirréttur sem má undirbúa jafnvel með dags fyrirvara og skella svo í ofn rétt áður en bera á hann fram. Vá-faktorinn er mikill þegar skeiðinni er stungið í kökuna og út flæðir súkkulaðikvikan. Svo í guðanna bænum passiði að ofbaka ekki kökurnar. IMG_1722

Uppskrift (fyrir 6):

  • 200 gr dökkt súkkulaði (70%)
  • 200 gr smjör
  • 3 egg og 1 eggjarauða
  • 200 gr flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 5 msk hveiti (75 grömm)
  • 1/8 tsk vínsteinslyftiduft (cream of tartar)
  • 1/2 tsk fínmalað sjávarsalt

Aðferð: Ofn hitaður í 200 gráður, ekki með blæstri. Bræðið smjör og súkkulaði í potti við vægan hita. Takið af hitanum og leyfið að kólna. Þeytið saman egg, flórsykur og vanilluextract þar til létt og ljóst. Sigtið saman hveitið, vínsteinslyftiduftið og saltið. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og hrærið vel saman. Hellið hveitblöndunni svo út í og blandið vel saman. Skiptið deiginu í 6 lítil suffléform eða hellið um það bil 1 dl af deiginu í 12 álmuffinsform sem hafa verið smurð og bökunarpappír settur upp með hliðunum. Þá eru tvær kökur á mann.

Ef bakað í 12 muffinsformum tekur um 10 mínútur að baka kökurnar. Ef kökurnar eru bakaðar í 6 suffléformum er bökunartíminn um 12 mínútur. Þær eiga að vera blautar í miðjunni. Tíminn getur þó verið mismunandi milli ofna svo ég mæli eiginlega með að prófa eina köku áður en þið bakið allt saman og finnið út hver er passlegur tími í ykkar ofni. Deigið má líka útbúa daginn áður eða nokkrum klukkutímum áður, kæla í formunum en passa þá að bæta um 2 mínútum við bökunartímann. IMG_1730

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góður eftirréttur

Grillaður lambahryggur

mars 29, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_1300Ég hef verið að renna í gegnum gamlar myndir á tölvunni. Einhverra óskiljanlegra ástæðna vegna hef ég alveg gleymt að setja hingað inn myndir af svona eiginlega uppáhaldsmatnum mínum og margra í stórfjölskyldunni minni. Grilluðum lambahrygg. Ég mæli eindregið með því að þið prófið þessa aðferð næst þegar þið ætlið að elda lambahrygg. Þarna blandast saman lungamjúkt bragðmikið kjöt sem kemur af því að elda hrygginn við frekar hægan hita í langan tíma. Á sama tíma kemur alveg dásamlegt grillbragð af hryggnum. Það má eiginlega segja að þetta sé einkennisréttur foreldra minna en þau, þá sérstaklega grillsnillingurinn pabbi minn, hefur masterað tæknina við að grilla hinn fullkomna lambahrygg eftir áratuga reynslu (bak)við grillið. Þau grilla í hvaða veðri sem er, hvenær árs sem er. Sennilega eina fólkið sem hefur grillað jólasteikina á aðfangadagskvöld. Pabbi er svo mikill grillari að mamma þarf stundum að laumast til að elda því annars er pabbi búinn að skella nánast hverju sem á að vera í matinn, á grillið.

IMG_1297En aftur að hryggnum. Pabbi er löngu kominn á það stig að notast ekki við álpappír undir hrygginn heldur er grilltæknin þvílík að engin hjálpartæki eru þörf. Ég mæli þó með því að í fyrstu skiptin sem hryggur er grillaður sé notast við Heavy Duty álpappír undir hryggin til að varna því að fitan leki af kjötinu ofan í grillið og hringja þurfi í Samma brunavörð. Ég ætla að láta það óskrifað hvort slíkar aðstæður hafi komið upp á mínum bæ.

Þetta er því varla uppskrift heldur meira lýsing á aðferð. En svona berum við okkur að:

  • 1 vænn lambahryggur, snyrtur og skorið vel ofan í fituna eins og sést á myndinni.
  • Kryddaður vel með sjávarsalti (Maldon), nýmöluðum svörtum pipar og rósmarín
  • Hryggnum leyft að standa við stofuhita í 1 – 2 klst. Þannig verður kjötið mun mýkra og betra. Ég mæli ekki með að það sé sett beint úr ísskápnum á grillið.
  • Okkur finnst langbest að hafa kryddið einfalt á hryggnum. Salt, pipar og rósmarín verður því oftast fyrir valinu með ljúffengri útkomu. Stundum höfum við líka smurt dijon sinnepi yfir hrygginn og stráð svo yfir áðurnefndum kryddum. Hvorutveggja er mjög gott.

IMG_1296Grillið hitað. Ef um þriggja brennara grill ræðir, kveikið þá á báðum hliðarbrennurum og hafið slökkt á miðjubrennurum. Hafið kjötið allan tímann yfir óbeinum hita. Hitastigið á mælinum á grillinu á að sýna ca. 170 – 190 gráður. Við erum með Weber grill þar sem mælirinn er í lokinu. En þetta er mjög mismunandi eftir grillum svo það er ágætt að prófa sig aðeins áfram. Ekki fara mikið yfir þetta hitastig allavega. Setjið hrygginn á álpappírsbút þannig að fitan leki ekki ofan í grillið, leggið á grillið, þannig að fituhliðin snúi upp og hafið grillið lokað. Það þarf ekki að brúna fituhliðina áður. Hún bakast bara eins og ef hryggurinn væri í bakarofni. Nema hvað að þessi bakarofn er með grillbragði inniföldu, hversu slæmt getur það verið? Best er að stinga hitamæli í kjötið og leyfa því að malla á grillinu þar til réttu hitastigi er náð. Okkur finnst fínt að leyfa hitanum að fara upp í 65 gráður. Það fer þó bara eftir smekk. Þegar réttu hitastigi er náð er kjötið tekið af grillinu og leyft að jafna sig í um 20 mínútur áður en það er skorið. IMG_1306

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: grillað lambakjöt, Grillaður lambahryggur, Lambahryggur uppskrift

Nokkrar páskahugmyndir

mars 27, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

Page_1Ég er svo nýfarin að búa (finnst mér), að við höfum einhvernveginn ekki náð að skapa neinar sérstakar páskahefðir ennþá. Nema bara að eiga gott frí og hafa það dásamlegt. Það er aldrei flókið. Kannski er það nú þannig bara hjá flestum. Páskarnir eru alltaf misjafnir, stundum í bænum, stundum í sumarbústað, matarboð hér og hvar og bara svona eftir hendinni. Mér finnst það líka bara ágætt. Ég er því ekkert farin að undirbúa neinn sérstakan páskamat því ég hef frekar óljósa hugmynd um hvar eða með hverjum við munum borða yfir hátíðina. Ég reikna samt fastlega með því að elda eitthvað heima og þá verður örugglega einhverskonar lamb fyrir valinu. Er alltaf að komast að því betur og betur hvað lambakjöt er í miklu uppáhaldi hjá mér. Annars luma ég líka á íslenskum nautalundum í frystinum sem ég hef hug á að nota í eitthvað gómsætt. Reyndar er ég alveg ákveðin í að útbúa þessa dásamlegu súkkulaðimús einhverntímann yfir hátíðina. Hún kemur í stað páskaeggs sem ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af. Svo finnst mér einhvernveginn tilheyra svolítið páskunum að vera með bröns.

En nóg um það. Ég ætla að rifja hérna upp nokkra uppáhaldsrétti sem gætu sómt sér vel á páskaborðinu, hvenær dags sem er. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég nánast tárast þegar ég sé myndirnar við suma réttina sem teknar voru á aðeins of lélega myndavél í svartasta skammdeginu snemma í vetur við glötuð birtuskilyrði. En við hörkum bara af okkur, það eru nú einu sinni að koma páskar!

– Aðalréttir –

Marineraðar lambakótilettur með hasselback kartöflum og grísku salatiSlide1

Fyllt kalkúnabringa

IMG_1122

Heill ofnbakaður kjúklingur með sítrónu og hvítlauk

IMG_0677

Rauðspretturúllur

IMG_0622

 Kjötbollur í mildri chilli rjómasósu

IMG_0930

– Eftirréttir –

Einföld súkkulaðimús
IMG_0213

Brúnkur NigelluIMG_0144Súkkulaðibollakökur með súkkulaði ganache á tvo veguIMG_1378

– Á bröns borðið –

Bestu skonsur í heimi
IMG_0587

Banana og bláberjamúffurIMG_1425

Sítrónumúffur með birkifræjumIMG_0428 KotasælubollurIMG_0527Brokkolíbaka með geitaosti
IMG_1080

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Hátíðarmatur hugmyndir, Hátíðarmatur uppskriftir, Hugmyndir að páskamat, Páska uppskriftir, Páskamatur uppskriftir

Salat með grilluðum tígrisrækjum á spjóti og kaldri chilli sósu

mars 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1697Enn ein helgin liðin og enn einu sinni kominn mánudagur. Helgin var alveg einstaklega skemmtileg hjá okkur þar sem við vorum með 10 manna matarklúbb á laugardagskvöldið með frábæru fólki og góðum mat og drykk. Gerist ekki mikið betra en það! Ég er reyndar alltaf líka hrifin af mánudögum svona almennt og skil ekki hvaða mánudagsmæða þetta er alltaf hreint í fólki. Það fólk hlýtur þá bara að vera í svona leiðinlegri vinnu eða almennt að sýsla við eitthvað sem veitir því ekki mikla ánægju í lífinu.. þetta er pæling.

IMG_1687En eins og ég hef talað um hér áður þá er það yfirlíst stefna á mínu heimili að hafa alltaf eitthvað gott og skemmtilegt í matinn á mánudögum. Þar sem veðrið í dag var svo yndislegt fannst mér upplagt að grilla eitthvað gómsætt. Þá mundi ég eftir tveimur pokum af tígrisrækjum sem á átti inni í frysti svo ég ákvað að búa til létt og sumarlegt salat með góðri bragðmikilli dressingu.

IMG_1711Salat með tígrisrækjum:

  • 2 pokar tígrisrækjur (um 600 grömm)
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, smátt saxað
  • 1/2 tsk rauðar chilli flögur
  • 2 msk söxuð fersk steinselja
  • 1 sítróna, börkurinn og safinn úr hálfri.
  • Salt og pipar
  • Það sem ég notaði í salatið:
  • Gott grænt salat, t.d blaðsalat, spínat og lollo rosso
  • Avocado
  • Tómatar
  • Kókosflögur
  • Sólþurrkaðir tómatar
  • Ólífuolía, t.d sítrónuolía, salt og pipar og sítrónusafi
  • Sósan:
  • 1 msk majónes
  • 4 msk sýrður rjómi
  • 1 msk sambal oelek chillimaukIMG_1679

Aðferð: Tígrísrækjur látnar þiðna og settar í skál. Ólífuolíu, hvítlauk, chilli flögum, steinselju, rifnum sítrónuberkinu, sítrónusafa, salti og pipar hrært saman og svo hellt yfir rækjurnar. Um að gera að smakka marineringuna til áður en henni er hellt yfir rækjurnar. Þær eru svo þræddar upp á spjót. Það er mjög gott að nota tvö spjót hlið við hlið þegar rækjurnar eru þræddar upp. Þá verður bæði auðveldara að snúa þeim og rækjurnar haggast ekki á spjótunum, þ.e hreyfast ekki þegar þeim er snúið við.IMG_1683IMG_1700 Útbúið svo salatið í stóra skál og hrærið innihaldið í sósuna saman. Grillið rækjurnar á útigrilli við háan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið og berið þær fram volgar ofan á salatinu ásamt chilli sósunni. Ískalt hvítvínsglas væri ekki úr vegi með þessu. Kalda kranavatnið dugði þó vel í þetta skiptið.IMG_1705

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Gott salat, Grillaðar risarækjur, Grillaðar tígrisrækjur, Léttur matur, Salat með risarækjum, Salat með tígrisrækjum, Sumarlegt salat

Toblerone Tiramisu

mars 23, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1666Ég hef alla vikuna dundað mér við að ákveða hvað ég eigi að bjóða upp á í matarklúbbi sem verður hjá okkur í kvöld. Ég er sennilega búin að fara í um það bil 17 hringi með matseðilinn en eitt sem ég fór ekki í neina hringi með er eftirrétturinn. Toblerone Tiramisu var það. Ég man ekki hvar ég sá það en einhverntímann í fyrndinni sá ég uppskrift að Toblerone Tiramisu í einhverju uppskriftablaði. Ég fór því á stúfana og leitaði að góðri tiramisu uppskrift og endaði á smá blöndu af tveimur uppskriftum sem eiga að vera þær bestu í heimi.

Þó þetta sé Toblerone tiramisu er það nú samt frekar klassískt, Tobleronið er bara svona smá twist. Öllum finnst það gott svo hversu slæmt getur orðið að saxa það smátt og dreifa því yfir drottningu eftirréttanna? Það er varla hægt að gera þægilegri eftirrétt en þennan þegar von er á mörgum í mat, því það er upplagt að búa hann til daginn áður og leyfa honum að jafna sig í ísskáp yfir nótt. Var ég ekki örugglega búin að minnast á hvað tiramisu er gott?

IMG_1657Toblerone Tiramisu (fyrir 10-12, uppskriftina má auðveldlega minnka um helming):

  • 6 eggjarauður
  • 2,5 dl sykur
  • 1 vanillustöng
  • 2 dósir mascarpone ostur (stofuheitur)
  • 5 dl rjómi
  • 1 bolli (2,5 dl) sterkt kaffi
  • 4 msk amaretto líkjör eða annar sætur líkjör
  • 2 pakkar fingurkökur (lady fingers)
  • 2 toblerone
  • Hreint kakó

IMG_1656Aðferð: Hellið upp á sterkt kaffi, setjið það í skál ásamt líkjör og leyfið að kólna. Þeytið rjómann og setjið til hliðar. Setjið 6 eggjarauður í skál ásamt sykrinum og kornunum úr vanillustönginni. Setjið skálina yfir sjóðandi vatn og þeytið með písk í um 10 mínútur þar til eggjablandan er aðeins ljósari. Takið hana svo af hitanum og þeytið áfram með hrærivél eða handþeytara þar til eggin þykkna og verða ljós. Hrærið þá mjúkum mascarpone ostinum samanvið með þeytaranum. Bætið þeyttum rjómanum saman við með sleikju.

Dýfið fingurkökunum örstutt ofan í kaffiblönduna og raðið í form þar til kökurnar þekja botninn. Hellið helmingnum af eggjarjómanum yfir og raðið svo fleiri fingurkökum og hellið restinni af rjómablöndunni yfir allt saman. Saxið tobleronið smátt, dreifið yfir og stráið svo kakóinu yfir gegnum sigti. Látið bíða í ísskáp í minnst 8 klst. Þetta geymist svo vel í 3-4 daga í ísskáp. IMG_1670

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Gott tiramisu, góður eftirréttur, Tiramisu, Tiramisu uppskrift, Toblerone eftirréttur, Toblerone uppskriftir

Pestó prestó pizzu frittata

mars 21, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1651Suma daga þegar ég nenni engan veginn að elda kvöldmat, (já það gerist) þá langar mig eiginlega heldur engan veginn að kaupa tilbúinn mat. Það eru allavega ekki margir ”take away” staðir sem heilla mig þessa dagana. Ef það er eitthvað, þá er það helst tælenskur eða indverskur matur sem stundum læðist tilbúinn hingað inn á heimilið. Eftir að hafa smakkað besta tælenska mat utan Tælands lætur maður ekki bjóða sér hvaða tælenska mat sem er. Við erum að tala um Gamla Síam á Laugarveginum, sannarlega í miklu uppáhaldi og þrátt fyrir að búa langt ofan snjólínu í nágrenni Litlu kaffistofunnar kemur fyrir að við gerum okkur ferð niður af fjallinu til að kaupa þann dásamlega tælenska mat. Hann er engum líkur! Mæli sérstaklega með núðlusúpunni (extra spicy) og Massaman Karrý með kjúkling, þetta er æði.

En þessi pestó prestó eggjapizza/frittata er einmitt svona matur sem gott er að grípa til þegar enginn nennir neinu. Það þarf varla að elda þetta og tekur bara um 5 mínútur að mixa þetta saman. En útkoman er bara dáfín, sæmilega holl og börn sem fullorðnir geta vel kallað þetta kvöldmat ef þau eru bara með opinn huga. Á mínu heimili þykir gott að hafa kotasælu með pizzum, ég geri mér grein fyrir að það þykir ekki fínt svona almennt. Þetta er nú bara tilkomið vegna móðurömmu minnar sem þótti ekkert sérstaklega varið í pizzur en taldi þær öllu skárri ef kotasælu, sem hún kunni afar vel að meta, var smurt ofan á. Hér er því oftast kotasæla borin fram með pizzum og syni mínum þykir það alveg afbragðsgott og ómissandi.. Mér finnst svo alveg ótrúlega gott að setja Sriracha sósu yfir svona eggjakökur og toppa þær svo með smá baunaspírum. Í þetta sinn notaði ég alveg æðislega góðar íslenskar blaðlauksspírur sem ég fékk í Hagkaup.

IMG_1649Pizzu pestó frittata (fyrir tvo):

  • 4 egg
  • Salt, pipar og óreganó
  • 2 msk grænt pestó
  • Nokkrar sneiðar silkiskorin hunangsskinka
  • Nokkrar ostsneiðar eða rifinn ostur
  • Ofaná: Sriracha sósa, kotasæla og spírur

Aðferð: Kveikið á grillinu í bakarofni. Hærið eggin saman með örlitlu vatni. Kryddið með salti, pipar og óreganó. Hitið smá olíu á pönnu við háan/meðalhita og hellið eggjunum á pönnuna. Þegar þau eru næstum elduð í gegn smyrjið þá pestóinu ofan á, raðið svo skinkunni og ostinum yfir. Kryddið með aðeins meira óreganó. Stingið þessu aðeins undir grillið í ofnum þar til osturinn er farinn að bakast. (Líka hægt að setja lok á pönnuna og bíða þar til osturinn bráðnar). IMG_1652Hellið eggjakökunni af pönnunni, skerið í sneiðar og berið fram með kotasælu, sriracha og spírum. Veriði svo bara ánægð með að það sé kvöldmatur sem þið elduðuð á matarborðinu en ekki eitthvað keypt.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Eggjakaka, Eggjakaka uppskrift, Fljótlegur matur, Frittata uppskrift, Ódýr matur, Pizza úr eggjum

Uppáhalds morgungrauturinn minn

mars 20, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1595Ég hef lengi átt í hálfgerðu ástar/haturs sambandi við hafragrauta. Hljómar dramatískt og er það kannski bara. En eftir áralangar tilraunir hef ég komist að því að hafragrautur og hafragrautur er ekki það sama. Ég hef undanfarna morgna verið að prófa mig áfram með hafragrauta með chiafræjum og grautardýrðin hefur náð nýjum hæðum. Ég er kannski mjög sein að fatta hluti ég geri mér grein fyrir því en þessi morgunmatur á nú hug minn allann og ég mæli eindregið með því að þið prófið þetta. Hvort sem elskið eða hatið hafragraut. Chia fræin gera hann svo léttan og góðan, næstum rjómakenndan og mér finnst skipta öllu fyrir bragð og áferð að nota grófa lífræna hafra. Eplin set ég útí eftir að ég slekk undir grautnum svo þau eru ennþá stökk og fín. Rúsínurnar, kakónibburnar (vá hvað þær eru góðar!) og hampfræin setja svo toppinn yfir i-ið.

Dásamlegur ofurfæðu morgungrautur fyrir 1:

  • 1 1/2 dl (tæplega) grófir lífrænir hafrar 
  • 1 msk chia fræ
  • Smá sjávarsalt og ca 1/2 tsk lífrænn kókospálmasykur eða önnur sæta (má líka sleppa)
  • Vatn og smá mjólk/möndlumjólk/hrísmjólk
  • 1/2 epli skorið í teninga
  • rúsínur (ég notaði ljósar)
  • 1 msk Kakónibbur
  • 1 msk hampfræ
  • 1/4 tsk kanill

 

IMG_1596

Haframjöl og chiafræ sett í pott og vatni hellt yfir þar til það rétt flýtur yfir. Ég mæli aldrei vatnið. Suðunni hleypt upp og svo lækka ég undir og helli ég mjólk saman við meðan hann sýður þar til áferðin er eins og ég vil hafa hana nota sennilega um 1 dl af mjólk. Grauturinn er í ca. 10 mínútur að eldast. Tek pottinn svo af hitanum og bæti eplunum út í. Set grautinn í skál. Strái yfir rúsínum, kakónibbum, hampfræjum og kanil, helli smá mjólk út á og aðeins hrært saman. Nammi!

IMG_1598

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chia fræ uppskrif, Chiafræ uppskrift, Chiagrautur, Góður hafragrautur, Hafragrautur, Hafragrautur með chiafræjum, Kakónibbur uppskrift, Ofurfæða

Gamaldags eplaskífur

mars 17, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1561Við fjölskyldan áttum svo sannarlega skemmtilegan dag þennan sunnudaginn. Deginum eyddum við að hluta til upp í Bláfjöllum þar sem 4 ára einkasonurinn renndi sér á skíðum í fyrsta skiptið. Hann er að sjálfsögðu upprennandi skíðasnillingur. En grínlaust þá lá þetta mjög vel fyrir honum og honum bæði tókst að renna sér nokkrar heilar ferðir einn án þess að detta sem og að fara einn á ”töfrateppið” án þess að detta. Nokkuð gott myndi ég halda. Hann hefur vonandi fengið skíðagenin úr föðurættinni því ekki hefur undirrituð verið þekkt fyrir að vera mikil skíðadrottning þrátt fyrir að redda sér fyrir horn í sæmilega aflíðandi brekkum.

IMG_1588Það lá því ekkert annað fyrir þegar heim var komið með kaldar og rjóðar kinnar en að baka eitthvað huggulegt með kaffinu. Mamma lánaði mér fyrir helgi forláta og fallega eplaskífu pönnu sem elskuleg móðuramma mín heitin keypti í einni af sínum frægu Svíþjóðarferðum sennilega fyrir um 35 árum. Mamma bakaði stundum eplaskífur þegar ég var lítil og ég hef alltaf verið jafn heilluð af þessum fallega grip, sem og litlu kúlulaga dásamlegu bollunum sem hún gefur af sér. Ég er handviss um að ef það væri hægt að borða ský, svona góðviðris bólstra, væru þau eins og nýbakaðar eplaskífur. Fislétt og myndu bráðna í munni. Þetta eru eins og litlir skýjahnoðrar svei mér þá. Ég get í augnablikinu ekki ímyndað mér jafn einfalt og huggulegt sunnudagsbakkelsi. Maður gæti næstum byrjað að tala dönsku á sunnudögum út af þessu.

IMG_1584Talandi um dönsku þá lét mamma fylgja pönnunni úrklippta uppskrift úr gömlu dönsku blaði af ekta ”gammeldas æbleskiver”. Ég notaði uppskriftina til hliðsjónar bætti einu eggi við og smá vanillu og útkoman varð frábær. Nafnið eplaskífur held ég að sé bara til komið vegna þess að bollurnar eru eins og epli í laginu. Í sumum gömlum uppskriftum er hins vegar notast við litla eplabita sem fyllingu í bollurnar, sem ég og gerði. Einnig væri hægt að setja rúsínur inn í þær eða sleppa alveg fyllingu. Þetta fer jú allt eftir smekk. Reddið ykkur nú eplaskífupönnu og búið til þetta góðgæti til fyrsta tækifæri.

IMG_1571Gamaldags eplaskífur (ca. 30 skífur):

  • 4 egg
  • 5 dl ab mjólk eða súrmjólk
  • 1 tsk vanilluextract
  • Rifinn börkur af hálfri sítrónu
  • 2 msk flórsykur
  • 300 gr hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 epli skorið í mjög smáa teninga

Page_1Aðferð: Hrærið saman egg, ab mjólk, vanillu, sítrónubörk og flórsykur. Hrærið hveitið, matarsódann og saltið saman í annarri skál. Hellið eggjablöndunni svo út í hveitið og hrærið þessu vel saman með písk. Áferðin á deiginu á að vera svipuð eins og á lummu-eða vöffludeigi. Leyfið deiginu að jafna sig í ca 15 mínútur áður en bakað er úr því. Hitið eplaskífupönnuna á meðal-háum hita og setjið örlítið smjör (1/4 tsk) í hvert hólf á pönnunni. Þegar smjörið er farið að krauma hellið þá deiginu í hvert hólf. Ekki fylla hólfin alveg því diegið lyftir sér aðeins. Stráið nokkrum litlum eplabitum yfir deigið ef þið viljið.

IMG_1574Þegar loftbólur byrja að myndast á deiginu og kantarnir orðnir stífir snúið þá bollunni við með gaffli svo hún eldist hinum megin og kúla myndist. Æfingin skapar meistarann í þessu. Endurtakið svo þar til allt deigið er búið. Mér fannst ekki þurfa að setja smjör í hvert skipti áður ens ég hellt deigi í formin, ég setti kannski í annað hvert skipti. Dustið flórsykri yfir eplaskífurnar og berið þær fram volgar.IMG_1592

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfalt að baka, Eplaskífu uppskrift, Eplaskífur, Epplaskífur uppskrift, Fljótlegt bakkelsi, Gamaldags eplaskífur

Lumaconi Rigati Grande al Forno (Ofnbakaðar pastaskeljar)

mars 16, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1480Mikið sem það er gaman að slá um sig með ítölskum matarorðum. Manni líður ósjálfrátt eins og ítalskan alveg steinliggi fyrir manni. En svo gott er það nú víst ekki þó það væri óskandi. Lumatoni Rigati Grande al Forno hljómar bara svo miklu betur heldur en ofnbakaðar pastaskeljar. Þessi réttur er einstaklega fljótlegur og góður að ég tali nú ekki um hversu barnvænn hann er. Þar sem hráefnið er einfalt og frekar ódýrt mæli ég eindregið með að splæsa í góða niðursoðna tómata í réttinn. Mér hafa fundist tómatarnir frá Sollu í glerkrukkunum mjög góðir, ég fæ þá t.d í Bónus. Eins eru til virkilega góðir ítalskir tómatar í dósum í sumum verslunum. Það jafnast engir niðursoðnir tómatar á við ítalska tómata að mínu mati, þeir kunna þetta þarna suðurfrá. IMG_1468

Lumatoni Rigati Grande al Forno (fyrir 4-6):

  • 500 gr. pastaskeljar
  • Góð ólífuolía
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1 tsk þurrkað rósmarín
  • 2 dl hvítvín (eða vatn og smá sítrónusafi)
  • 2 krukkur hakkaðir tómatar (lífrænir í glerkrukku frá Sollu, eða 3 dósir)
  • 2 msk tómatpaste
  • 2 msk rjómi (má sleppa)
  • Salt, pipar og örlítið hunang eða önnur sæta
  • 1 kúla ferskur mozarella ostur
  • Rifinn parmesan ostur eftir smekk

Aðferð: Hitið ofn í 220 gráður með blæstri. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Ég notaði þessar stóru skeljar (Lumaconi Rigati Grande) sem ég fékk í Hagkaup í Garðabæ. Það væri líka gott að nota t.d penne, gnocchi skeljar eða skrúfur.IMG_1470

Á meðan pastað er að sjóða: Hitið ólífuolíu á pönnu og leyfið lauknum og hvítlauknum að malla í olíunni við meðalhita í um 5 mínútur. Kryddið með rósmarín, salti og pipar. Hellið hvítvíninu eða vatninu út á og leyfið að sjóða niður um helming. Bætið þá tómötunum og tómatpaste út á ásamt rjóma. Smakkið til með salti og pipar. Ef tómatarnir eru mjög súrir getur verið gott að setja smá sætu líka, t.d hunang. Leyfið þessu að malla í ca. 10 mínútur. Hellið vatninu af pastanu. Setjið það í eldfast mót. Hellið tómatasósunni yfir og blandið saman. Klípið mozarella ostinn í litla bita yfir pastað og rífið smá parmesan ost. Bakið í 10 mínútur. Berið fram með góðu salati og rifnum parmesan osti. IMG_1490

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur pastaréttur, Fljótlegur matur, Grænmetisréttur, Ódýr matur, Ofnbakað pasta, Pasta í tómatsósu, Pastaskeljar

Grillaðar kryddlegnar kjúklingabringur og litríkt kúskús salat með pikkluðum vorlauk

mars 14, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

IMG_1448Lóan er komin. Hvort hún hafi orðið innligsa hérna í vetur og sé nýlega skriðin undan einhverjum skafli greyið eða hvort hún er nýkomin úr langflugi frá Afríku skiptir ekki öllu. Hún fannst og hún er mætt. Að ég tali nú ekki um blessaða dagsbirtuna sem varir nú langt fram yfir kvöldmatartíma! Hún er líka mætt. Þá er samkvæmt mínum bókum kominn tími til að draga út grillið. Þessi réttur er sannarlega ljúfur og vorlegur eins og vorboðinn ljúfi og bragðið af grilluðum marineruðum kjúklingabringunum og litríku kúskús salatinu smella saman. Pikklaður rauðlaukur er í miklu uppáhaldi hjá mér og ofsalega gott að nota hann út í svona salöt þar sem sterka lauk bragðið dofnar dálítið og laukurinn verður mjög gómsætur. Mæli sannarlega með því að elda þetta á einhverju komandi vorkvöldinu..

Kryddlegnar kjúklingabringur:

  • 3 meðalstórar kjúklingabringur, klofnar í tvennt svo úr verði tvö þunn stykki úr hverri bringu.
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk kóríander
  • 1 tsk þurrkað óreganó
  • 1 tsk gróft sjávarsalt
  • 1/2 tsk svartur nýmaðalur pipar
  • Börkur af ca. hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang

IMG_1444Aðferð: Öllu blandað saman í skál og hellt yfir bringurnar og nuddað vel inn í þær. Látið marinerast við stofuhita í 30 mínútur. Ef kjúklingurinn á að marinerast lengur þarf hann að vera í ísskáp. Grillið kjúklingabringurnar í um það bil 7 mínútur á hvorri hlið. Varist að ofelda þar sem þetta eru frekar þunn stykki.

Á meðan kjúklingabringurnar eru að marinerast er upplagt að búa til kúskús salatið.

IMG_1415Kúskús salat með pikkluðum rauðlauk:

  • 3-4 dl hreint kúskús, kryddað með paprikudufti, cummin, kóríander og sjávarsalti. Ca. 1 tsk af hverju. Kúskúsið svo eldað skv. leiðbeiningum á pakkanum.
  • 1 lítill rauðlaukur skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar.
  • 3 msk hvítvínsedik eða annað hvítt edik og örlítið salt
  • 8-10 þurrkaðar apríkósur
  • 1 lítill poki furuhnetur, ristaðar
  • 1/2 krukka hreinn fetaostur í vatni
  • 1/2-1 sítróna, safinn kreistur úr (fer eftir stærð, sítrónur eru mjög misjafnar)
  • 1 avocado skorið í teninga
  • 1 mangó skorið í teninga

IMG_1426Aðferð: Byrjið á að undirbúa pikklaða rauðlaukinn. Setjið þunnt skorinn laukinn í skál og hellið edikinu yfir ásamt smá salti. Leyfið þessu að liggja í ca. 30 mínútur og hrærið í lauknum af og til. Hann á að breyta aðeins um lit, verður eiginlega skærbleikur og aðeins mýkri.IMG_1417Kúskúsið er svo undirbúið, kryddað og eldað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Þá er að rista furuhneturnar, skera apríkósurnar, avocadoið og mangóið í litla bita og hella vökvanum af fetaostinum. Smakkið kúskúsið til með sítrónusafanum og kannski smá meira salti. Svo er öllu blandað saman og mangóinu og avocadoinu dreift yfir að lokum.IMG_1434Ég bar þetta fram með léttri jógúrtsósu sem passaði mjög vel við þetta. Hrærði saman sýrðan rjóma og ab mjólk til helminga. Kryddaði til með salti, pipar, cummin, orageno og örlitlu hunangi.IMG_1458

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Grillaðar kjúklingabringur, Kjúklingabringur uppskrift, Kúskús salar, Kúskús salat, Léttur kjúklingaréttur, Marinering á kjúklingabringur

  • Page 1
  • Page 2
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme