• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for maí 2013

Bláberjabaka með marengs

maí 31, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2635Er búin að safna saman nokkrum uppskriftum sem ég er mjög spennt að deila með ykkur en hef ekki haft tíma til þess fyrr en núna. Ein af þeim er þessi frábæra bláberjabaka. Leiðbeiningarstöð heimilanna hefur nú hingað til ekki verið sá staður þar sem ég hef leitað að uppskriftum. Ekki að það sé eitthvað að því, langt í frá. Ef ég á að segja eins og er þá bara vissi ég ekki einu sinni að þessi starfsemi væri ennþá til. En starfsemin er svo sannarlega í fullum gangi og það sem meira er, þá eru þau með þessa fínu heimasíðu þar sem nálgast má upplýsingar um allt milli himins og jarðar sem tengist heimilishaldi, allt frá gluggaþvotti og upp í jólasteikina. Virkilega sniðug heimasíða sem er gaman að skoða ef maður hefur áhuga á að fræðast um þesskonar hluti. Þessi dásamlega góða bláberjabaka er einmitt ættuð af þessari fínu heimasíðu.

Ég fékk þessa böku fyrst í matarboði og eftir smá rannsóknarvinnu á netinu fann ég uppskriftina og breytti henni svo örlítið þar sem ég get aldrei látið neitt í friði. Þetta er alveg yndislega góð og sumarleg baka sem afar fljótlegt er að útbúa. Upplagt að hafa hana í eftirrétt og leyfa henni að bakast á meðan aðalrétturinn er borðaður. Ég var svo heppin að eiga vestfirsk aðalbláber síðan í haust í frystinum sem ég þurfti að fara að nota, en það má auðvitað nota hvaða bláber sem er eða jafnvel einhver önnur ber.

min_IMG_2628Bláberjabaka (Breytt uppskrift frá Leiðbeiningarstöð heimilanna):

  • 200 gr fínmalað spelt
  • 100 gr kalt smjör
  • 50 gr flórsykur
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • 3 eggjarauður
  • 1 tsk vanilluextract
  • ca 500 gr frosin bláber
  • Marengs
  • 3 eggjahvítur
  • 120 gr ljós púðursykur

Aðferð:

Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Setjið allt innihaldið í bökubotninn (allt nema bláberin) í hrærivélaskál og hnoðið saman þar til deigið líkist blautum sandi. min_IMG_2584Ef ykkur finnst deigið of þurrt getið þið bætt við ca. 1 tsk af vatni og hrært aðeins áfram. Hellið deiginu í bökuform og þrýstið því í formið. min_IMG_2587min_IMG_2588Hellið frosnum berjunum yfir botninn.min_IMG_2592 Þeytið eggjahvíturnar og sykurinn saman þar til vel stíft (3-5 mínútur) og dreifið því svo jafnt yfir berin. Bakið í um það bil 35-45 mínútur eða þar til berin eru farin að krauma í hliðunum og marengsinn orðinn fallega gullinn. Berið bökuna fram volga.min_DSC08795min_IMG_2638

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Berjabaka, Bláberjabaka, Bláberjapæ, Bláberjauppskrift, Einföld baka, Pæ uppskrift

Estragon kjúklingur með mango chutney og dijon sinnepi

maí 29, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2686Í dag er stutt færsla og stutt uppskrift í stíl. Þrátt fyrir það er ég alveg ægilega spennt að deila þessari uppskrift með ykkur þar sem þetta er einhver besti kjúklingaréttur sem ég hef lengi smakkað. Svo er hann líka alveg einstaklega fljótlegur. Ætli það taki ekki um fimm mínútur að undirbúa hann og svo dansar hann bara alveg sjálfur í ofninum þar til hann er eldaður í gegn. Dijon sinnep er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef ósjaldan deilt hér uppskriftum með því þar sem ég nota það talsvert mikið í matargerð. Það koma reyndar oft svona tímabil hjá mér varðandi hvaða hráefni ég nota mest og svei mér þá ef það er ekki bara dijon sinnep tímabil núna. Þetta er eiginlega hálfgert leynivopn þegar kemur að matargerð og oft nóg að nota bara agnarlítið af góðu dijon sinnepi til að breyta miklu. Sósan með þessum rétti er alveg ofboðslega góð og ég mæli alveg með því að jafnvel tvöfalda magnið sem fer í hana, sérstaklega ef þið eruð með hrísgrjón með réttinum. Þið verðið að prófa þessa!

min_IMG_2687
Estragon kjúklingabringur með mango chutney og dijon sinnepi (fyrir 3):
  • 3 kjúklingabringur
  • 3 msk dijon sinnep
  • 3 msk sætt mango chutney
  • 1 msk rauðvínsedik (má sleppa eða nota t.d 1 msk sítrónusafa)
  • 1 tsk þurrkað estragon + aðeins meira til að strá yfir

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót. min_IMG_2675Hrærið saman sinnep, mango chutney, rauðvínsedik og estragon, hellið yfir bringurnar og veltið þeim upp úr sósunni. min_IMG_2676Stráið dálitlu af þurrkuðu estragoni yfir að lokum og bakið í 25 – 30 mínútur. min_IMG_2678Berið fram t.d með steiktu brokkolíi og hrísgrjónum. min_IMG_2681

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingur með dijon sinnepi, Kjúklingur með mango chutney

Grænmetis bolognese með mascarpone

maí 28, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_2664Það hefur lengi verið á framkvæmdarlistanum hjá mér að deila þessari uppskrift að bolognese sósu með ykkur. Ég sá uppskriftina fyrst fyrir nokkrum árum í ítölskum matreiðsluþætti á Food network þar sem hún Giada De Laurentiis töfraði fram, að mér fannst, alveg óendanlega girnilega bolognese sósu sem var eingöngu búin til úr grænmeti. Þetta var á því tímabili hjá mér þar sem ég var hálf afhuga nautahakki og hefðbundið bolognese var því ekki ofarlega á óskalistanum hjá mér. Það tímabil er nú reyndar liðið að mestu en ég slæ hendinni þó aldrei á móti góðum grænmetisrétti og gæti vel látið kjötmeti alveg í friði í lengri tíma án þess að sakna þess mikið. Þessi sósa er líka þeim eiginleikum gædd að krakkar borða hana með bestu lyst og gera sér enga grein fyrir magninu af grænmeti sem þau eru að borða. Það er alltaf kostur í mínum bókum!

Ég hripaði á sínum tíma niður á miða það sem ég mundi úr þessum matreiðsluþætti og hef síðan stuðst við það en geri nú alveg einhverjar breytingar í hvert skipti sem ég elda þennan rétt, það fer svolítið eftir því hvað er til í ísskápnum. Ég myndi þó segja að rauð paprika, laukur, gulrætur og sveppir væru alveg nauðsynleg. Öðru má bæta við eftir smekk eða eftir því sem til er í hvert skipti. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert mál að gera grænmetis bolognese úr allskonar grænmeti. Þessi sósa er samt alveg sér á báti, ótrúlega matarmikil og bragðgóð og eiginlega þannig að ég er handviss um fólk átti sig varla á því að það er ekki kjöt í henni.

min_IMG_2671Grænmetis bolognese:

  • 2 rauðar paprikur
  • 3-4 gulrætur
  • 1 laukur
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 1 bakki sveppir
  • 1 tsk rósmarín
  • 3 msk ólífuolía
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 glas rauðvín (ca.2 dl)
  • Þurrkað óreganó og steinselja (ca. 1 tsk af hvoru)
  • 2 msk mascarpone ostur (eða venjulegur hreinn rjómaostur)
  • 2 tómatar gróft saxaðir (má sleppa)
  • 1 dl vatn og 1/2 grænmetisteningur
  • Salt, pipar og nýrifinn parmesan ostur

Aðferð:

Skerið paprikuna, laukinn, helminginn af sveppunum (eða alla ef þið vijið ekki hafa bita í sósunni) og hvítlaukinn gróft niður. min_IMG_2640Setjið í matvinnsluvél ásamt rósmarín og látið vélina ganga þar til grænmetið er allt smátt saxað. min_IMG_2643Hitið olíu á pönnu og látið grænmetismaukið krauma á pönnunni í 5 mínútur. min_IMG_2644Bætið þá útí tómatpaste og steikið aðeins áfram. min_IMG_2648Setjið sveppina þá samanvið og leyfið þeim aðeins að steikjast. min_IMG_2650Hellið þá rauðvíninu út á ásamt vatni og grænmetistening og leyfið þessu að sjóða aðeins niður. min_IMG_2651Kryddið til með þurrkuðu oregano og steinseljumin_IMG_2653Setjið þá mascarpone ostinn útí og látið hann bráðna saman við sósuna. min_IMG_2659Bætið gróft skornum tómötum saman við og smakkið til með salti, pipar og parmesan osti. min_IMG_2661Berið fram með salati, taglietelle og nýrifnum parmesan osti. min_IMG_2667

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: bolognese, Grænmetisréttur

Halloumi salat með chilli og jarðarberjum

maí 26, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_2609Ég er nýlega komin heim frá Bretlandi, öllu heldur Manchester, þar sem mér áskotnaðist þessi dásamlega góði gríski halloumi ostur. Það er tiltölulega auðvelt að nálgast ostinn þar í landi þar sem hann er mjög vinsæll í hverskyns matargerð, salöt og þess háttar. Ég hélt reyndar að osturinn væri ófáanlegur hér á landi en hef nú komist að því að hann hefur fengist í ostaversluninni Búrinu í Nóatúni sem og í versluninni Tyrkneskum Bazar. Afar ánægjulegar fréttir og því ekkert í vegi fyrir því að verða sér úti um þetta fína og skemmtilega hráefni.

Það er langbest að mínu mat að grilla eða steikja Halloumi þó hann megi vissulega borða kaldan eins og hann kemur út pakkanum. Þetta er afar þéttur ostur og dálítið saltur. Kannski mætti lýsa honum sem blöndu af mozarella og fetaosti, bara mun þéttari í sér og frekar saltur. Hann er því góður í hvers kyns salöt eða rétti þar sem hann fær að njóta sín til fulls. Það góða við hann er að bræðslumark ostsins er afar hátt og því má auðveldlega steikja hann án þess að hann leki nokkuð út á pönnunni og hann má líka grilla á útigrilli. Ég mæli með því að þið verðið ykkur úti um þennan góða ost og prófið hann við fyrsta tækifæri.

min_IMG_2620Salatið:

  • 2 pakkar halloumi (ca. 400 gr)
  • Þurrkað óreganó
  • Ólífuolía
  • 1 stór rauður chillipipar, smátt skorinn
  • 1 poki blandað salat að eigin vali
  • 1 bakki jarðarber, skorin í tvennt
  • 3 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar
  • Nokkrar grænar ólífur
  • Safi úr ca. 1/2 sítrónu

Aðferð: Byrjið á að skera halloumi ostinn í ca. 0.5 cm þykkar sneiðar. Leggið sneiðarnar í fat, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með þurrkuðu óreganó og helmingnum af chillipiparnum. Leyfið þessu að liggja í marineringunni á meðan þið útbúið restina af salatinu. min_IMG_2582Setjið hinn helminginn af chillipiparnum í litla skál og hellið 3-4 msk af ólífuolíu yfir ásamt smá sítrónusafa og hrærið saman, setjið til hliðar.  Setjið blönduð salatlauf á stóran disk (t.d kökudisk). Stráið yfir jarðarberjum, vorlauk og nokkrum ólífum. Hitið stóra pönnu við háan hita, ég stillti á 8 af 10 (mér finnst gott að nota viðloðunarfría pönnu við þetta). IMG_2605Setjið ostsneiðarnar á pönnuna og látið steikjast í 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til osturinn er gullinnbrúnn. min_IMG_2608Færið yfir á disk og leyfið ostinum að kólna örlítið áður en þið færið hann yfir á salatið. Setjið hann svo yfir salatið og dreypið chilli olíunni yfir ásamt því að kreista dálítinn sítrónusafa yfir að lokum. min_IMG_2617Berið fram t.d með ísköldu þurru hvítvíni sem forrétt eða smárétt.min_IMG_2619

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur forréttur, Forréttur, Halloumi á Íslandi, Halloumi uppskrift, Salat með halloumi, Salat uppskrift, Smáréttur, Sumarlegt salat

Ostaköku brownie með pipp súkkulaði

maí 19, 2013 by helenagunnarsd 14 Comments

min_IMG_2575Þessi dásamlega kaka var í eftirrétt hjá okkur í gær eftir vel heppnaðar heimabakaðar Eurovison partý pizzur.  Ég veit ekki hvort sú staðreynd að það er mjög langt síðan ég bakaði sem hefur áhrif á mat mitt á þessa köku en ég ég get svarið það að þetta er ein besta kaka sem ég hef smakkað. Hún er hrikalega mjúk og pínu klístruð og alls ekki of sæt þó maður myndi halda það allavega miðað við titilinn og svona.. Það er allavega mitt mat að kökur sem eru ofursætar falla yfirleitt ekki í góðan jarðveg hjá fólki. Ef maður getur varla klárað eina sneið án þess að vera við það að fá sykursjokk og langar ekki í meira, þá er of mikill sykur. Það er ekki svo með þessa köku. Maður gæti sennilega alveg borðað hálfa kökuna ef því væri að skipta.

min_IMG_2518Brownie:

  • 150 gr dökkt súkkulaði (t.d suðusúkkulaði og 70% súkkulaði til helminga)
  • 100 gr smjör
  • 3 egg
  • 75 grömm hrásykur eða kókospálmasykur (fæst t.d í heilsuhillunum í Bónus)
  • 2 msk flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 4 msk hveiti eða fínmalað spelt
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk lyftiduft
  • 100 gr piparmyntufyllt súkkulaði, t.d Pipp

Fyrir ostaköku blöndu:

  • 125 gr rjómaostur (1 lítil dós)
  • 1 egg
  • 3 msk flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 2 msk brætt smjör eða bragðlítil olía
  • 1 msk hveiti eða fínmalað spelt

min_IMG_2508Aðferð: Hitið ofninn í 160 gráður með blæstri (annars 180 gráður) og klæðið hringlaga lausbotna kökuform með smjörpappír. (Ég notaði 23 cm form.) Byrjið á að bræða saman súkkulaði og smjör fyrir brownie kökuna í potti við lágan hita. Takið af hitanum og leyfið að kólna aðeins. Á meðan blandið þið saman ostakökunni. Byrjið á að þeyta rjómaostinn t.d með handþeytara þar til mjúkur. Bætið þá öllu hinu saman við og hrærið vel saman. Setjið til hliðar. Þeytið saman egg, sykur, flórsykur og vanillu þar til það verður létt og loftkennt. Hellið þá bræddu súkkulaðinu og smjörinu saman við og hrærið vel. Sigtið saman hveitið, lyftiduft og salt og hærið því saman við með sleikju. Hellið deiginu í kökuformið.min_IMG_2509 Raðið pipp súkkulaðibitunum jafnt yfir og hellið því næst ostaköku blöndunni yfir. min_IMG_2511min_IMG_2513Blandið þessu örlítið saman með litlum hníf eða teskeið. Bakið neðarlega í ofni í 30-35 mínútur. min_IMG_2516Ef þið stingið prjóni í kökuna á hún að vera frekar blaut og klístrast við prjóninn. min_IMG_2527Látið kökuna standa í a.m.k 1 klst áður en þið takið kökuna úr forminu og færið á kökudisk.min_IMG_2549min_IMG_2547Látið hana kólna alveg áður en þið skerið hana og berið fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum. min_IMG_2571min_IMG_2570

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Brownie með rjómaosti, Brownie uppskrift, Ostaköku brownie, Pipp kaka, Pipp súkkulaðikaka, Súkkulaði ostakaka, Súkkulaðikaka með piparmyntu, Súkkulaðikaka með Pipp, Súkkulaðikaka með rjómaosti

Tælensk fiskisúpa

maí 16, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_2491Ég er ný búin að flokka allar uppskriftirnar hérna inni niður í smærri og þægilegri flokka svo auðveldara sé að fletta þeim upp. Sjá hér. Þetta eru kannski engin ósköp enda síðan mín ennþá tiltölulega ung. Engu að síður fór þetta skipulagsleysi eilítið í taugarnar á mér. Allavega, þegar ég var að fara í gegnum uppskriftirnar mínar tók ég eftir að fiskmeti er þar í miklum minnihluta sem er ekki nógu gott. Fiskur er jú bæði hollur og góður og synd að nota ekki meira af þessu góða hráefni sem svo auðvelt er að nálgast og það glænýtt og nánast spriklandi. Mér finnst alltaf gaman að prófa að gera eitthvað nýtt við fisk og mér finnst algjör óþarfi að vera feimin við að nota krydd eða setja þetta fína hráefni í einhvern nýjan búning svo út verði eitthvað sem vekur bragðlaukana aðeins meira en soðnar kartöflur, tómatsósa og ýsa (þó það eigi alveg rétt á sér inni á milli). Það skal alveg viðurkennt hér með að meiri fiskaðdáenda en mig er auðvelt að finna. Þá er það bara komið á hreint. min_IMG_2494

Ég gróf upp hjá mér uppskrift úr gömlum Gestgjafa, breytti aðeins og bætti hér og þar og úr varð þessi fína tælenska og bragðmikla fiskisúpa sem var snædd yfir Eurovision í kvöld. Ég er alltaf að komast að því betur og betur hvað ég á yndislega ómatvant barn því þegar hann fékk að velja á milli fiskisúpu eða grillaðra hamborgara hrópaði hann hástöfum: ”’Ég vil hafa súpuna!!!” Þetta er semsagt súpa sem hentar öllum, líka börnum. Hann drakk allavega súpuna úr skálinni sinni..

min_IMG_2486Tælensk fiskisúpa (fyrir ca. 6):

  • 1 búnt ferskt kóríander (ca. 50 grömm)
  • 1 lítill skallottlaukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 3 cm bútur af engifer
  • 1 tsk kóríanderfræ
  • 1 tsk chilli mauk t.d sambal oelek (eða 1 ferskur chilli)
  • 1 tsk turmerik
  • 4 litlar fernur kókosmjólk eða tvær 400 ml dósir
  • 1.5 – 2 l vatn
  • Fisk- og grænmetiskraftur  (ég notaði 2 teninga af fisk og 1 af grænmetis)
  • 3 msk fiskisósa (má sleppa, fæst í matvöruverslunum hjá austurlensku vörunum)
  • 1 lítið fennel, skorið í tvennt og svo þunnar sneiðar. (Fennel lítur svona út)
  • 400 grömm þorskur (eða annar hvítur fiskur sem er frekar þéttur í sér)
  • 400 grömm ósoðnar risarækjur
  • 4 vorlaukar
  • Safi úr einni límónu, eða eftir smekk

min_IMG_2462Aðferð: Skerið kóríanderstilkana ásamt dálitlu af laufinu gróft niður. Skiljið smá lauf eftir til að strá yfir súpuna í lokin. min_IMG_2466Setjið kóríander, skallottlauk, hvítlaukinn, engifer, chillimauk, turmerik og kóríanderfræ í matvinnsluvél eða mortel og maukið vel saman. min_IMG_2468Hitið 1 msk af kókosolíu í stórum potti. Steikið kryddmaukið í olíunni í ca. 1-2 mínútur. min_IMG_2469Hellið vatninu og kókosmjólkinni yfir ásamt kraftinum, fiskisósunni og fennel og leyfið að sjóða í 10 mínútur. Smakkið til með fiskisósu, lime safa og salt og pipar ef ykkur finnst þurfa. min_IMG_2480Skerið fiskinn í bita og hreinsið rækjurnar.min_IMG_2477Þegar súpan hefur náð því bragði sem þið eruð sátt við hleypið suðunni upp og setjið fiskinn og rækjurnar út í og sjóðið í um 2 mínútur eða þar til fiskurinn er tilbúinn. min_IMG_2483Ég notaði þorsk og rækjur, það má þó auðvitað nota hvaða fisk sem er. Stráið söxuðum vorlauk og kóríander yfir í lokin.min_IMG_2496

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Austurlensk súpa, Bragðmikil súpa, Einföld súpa, Fiskisúpa, Góð fiskisúpa, Súpa, Tælensk fiskisúpa, Tælensk súpa

Gratineraður fiskur með blómkálsgrjónum

maí 7, 2013 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_2310Þessi fiskréttur er svo góður að við eiginlega áttum ekki til orð þegar hann var snæddur núna eitt kvöldið. Bæði ungir sem aldnir nutu hans í botn. Hann er stútfullur af grænmeti og fiski og sósan er hrikalega góð. Mér finnst allavega alveg magnað að horfa á son minn moka upp í sig fiski og grænmeti með sósu og smjatta í millitíðinni yfir því hversu góður maturinn sé. Hann er nefnilega ekki ennþá kominn á það stig að reyna að vera kurteis yfir matnum svo harðari gagnrýnanda er varla hægt að fá. Við foreldrarnir vorum reyndar alveg innilega sammála honum. Ég hef oft gert fiskrétti með hefðbundnum hrísgrjónum en ákvað að prófa að gera þennan núna með blómkáls”grjónum”. Ég held að það verði ekki aftur snúið. Okkur fannst miklu betra að hafa blómkálið heldur en venjulegu hrísgrjónin, bæði bragðið og áferðin var dásamlegt. Ég verð að mæla alveg innilega með því að þið prófið þennan rétt sem fyrst!

Gratineraður fiskur með blómkálsgrjónum (fyrir 3-4):

  • 1 lítið blómkálshöfuð, rifið niður á grófu rifjárni
  • 600 grömm hvítur fiskur (ég var með þorskhnakka)
  • 1 lítil dós Kotasæla
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 msk majones
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk hunangsdijon sinnep (eða venjulegt dijon sinnep)
  • 1 rauð paprika, skorin smátt
  • 1/2 púrrulaukur, skorinn smátt
  • Ólífuolía, salt, nýmalaður pipar og Krydd lífsins (Frá Pottagöldrum eða annað gott krydd)
  • Rifinn góður ostur, ég notaði Óðals ost

Aðferð: Byrjið á að hita ofninn í 180 gráður með blæstri. Rífið blómkálið á rifjárni og dreifið því jafn í botninn á eldföstu móti. Kryddið með salt og pipar og dreypið yfir smá ólífuolíu og um 1 msk af vatni. Bakið í ofni í ca. 10 mínútur – eða á meðan þið útbúið restina af réttinumPage_1Skerið þorskinn í hæfilega bita, kryddið með salti, pipar og Kryddi lífsins.min_IMG_2293 Saxið blaðlaukinn og paprikuna smátt. min_IMG_2287Hrærið saman innihaldið í sósuna (kotasæluna, sýrða rjómann, majones, karrý, sinnep) og smakkið hana til með kryddinu, salti og pipar. min_IMG_2289Takið blómkálið útúr ofninum og lækkið hitann á ofninum í ca.160 gráður. Leggið fiskstykkin ofan á. Dreifið sósunni þá yfir fiskinn og þar ofan á paprikunni og púrrulauknum. min_IMG_2297min_IMG_2300Dreifið að lokum rifnum ostinum yfir og bakið í um það bil 20-25 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. min_IMG_2308Berið fram t.d með léttu salati eða spírum. Ég mæli sérstaklega með blaðlauksspírum frá Ecospira, það er milt og gott laukbragð af þeim og þær pössuðu mjög vel með réttinum.min_IMG_2320min_IMG_2314

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur fiskréttur, Fiskréttur, Fiskur í sósu, Góður fiskréttur, Gratineraður fiskur, LKL fiskur, LKL uppskrift, ofnbakaður fiskur, Þorskur uppskrift

Einfalt sumarsalat með brokkolí, jarðarberjum og piparosti

maí 6, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_2275Ég veit ekki með ykkur, en ég er alltaf í leit að einhverju góðu meðlæti. Þegar kemur að svona þessari daglegu eldamennsku vefst oft fyrir mér hvað ég ætti nú að útbúa til að hafa með kjötinu, eða fiskinum eða hverju því sem á boðstólnum er. Mér finnst sérstaklega þægilegt að geta klárað að gera meðlætið áður en ég elda aðalhráefnið og þurfa ekkert að hugsa um það meir. Núna þegar sólin er farin að skína og hitastigið örlítið farið að hækka er grillið oft dregið fram hér á heimilinu og þegar grillað er á virku kvöldi þegar allir eru svangir og þreyttir þurfa hlutirnir að gerast hratt!

Ég var með grillaða kjúklingaleggi á dögunum og með þeim bar ég fram þetta einstaklega sumarlega og matarmikla salat, sem ásamt kaldri sósu, stóð alveg eitt og sér sem meðlæti með kjúklingaleggjunum. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera að flækja hlutina krakkar mínir. Þetta er nú varla hægt að kalla uppskrift heldur meira upptalning á hráefnum, en gott var það. Og kannski eru einhverjir fleiri en ég þarna úti sem vantar alltaf hugmyndir að meðlæti.. aldrei að vita. Ég verð líka að koma því að hvað jarðarber og svartur piparinn í piparostinum passa einstaklega vel saman. Prófiði bara

min_IMG_2265Sumarlegt salat með brokkolí, jarðarberjum og piparosti (Meðlæti fyrir ca. 4-5):

  • 1 höfuð Lambhagasalat, frekar smátt skorið
  • 1/2 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 msk hvítvínsedik
  • 1 avocadó, skorið í litla teninga
  • 1 lítið höfuð brokkolí, hlutað niður og skorið í litla munnbita
  • 1 bakki jarðarber skorin í fjóra hluta
  • 1 pakki rifinn piparostur
  • Ólífuolía, svartur pipar og smá sjávarsalt

Aðferð: Byrjið á að skera rauðlaukinn í þunnar sneiðar, setjið í skál og hellið yfir hann 1 msk af hvítvínsediki og hrærið af og til í lauknum meðan restin af salatinu er útbúið. Við þetta mýkist laukurinn, verður aðeins sætari og ramma laukbragðið hverfur. Blandið öllu hinu saman í stórri salatskál og setjið laukinn síðast saman við, ásamt edikinu. Hellið smá ólífuolíu yfir og sáldið örlitlu sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar yfir. min_IMG_2280

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegt meðlæti, Gott meðlæti, Gott salat, Meðlæti uppskrift, Salat uppskrift, Sumarlegt salat

Timían kjúklingur með stökku beikoni og sveppum

maí 4, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2236Eftir að hafa haft aðeins of mikið að gera, já eins og ég talaði um síðast og já, ég ætla að tala um það aftur, fannst mér kominn tími til að elda eitthvað almennilegt. Sonur minn er enn einu sinni að hafa áhrif á það hvað er eldað á heimilinu. Hverjum hefði dottið í hug að fjögurra ára barni hefði dottið þessi réttur í hug? Nei allt í lagi, kannski ekki alveg í smáatriðum en engu að síður stakk þetta litla ljós upp á því við úfna móður sína í búðinni seinnipartinn þennan föstudag. ”Mamma eldum bara kjúklingabringur” Og það varð auðvitað úr. Alltaf hægt að gera eitthvað stórkostlega gott og skemmtilegt við það hráefni. Samt alveg merkilegt hvað það var mikill mánudagsfílingur í mér þennan föstudaginn.. sem sennilega er vegna þessara blessuðu kærkomnu frídaga í miðri viku. Skemmtilegur ruglingur á rútínu sem svoleiðis frídagar gefa manni.

Þessir réttur er virkilega bragðmikill og góður. Sveppir og beikon passa alltaf svo vel saman og bragðið af timían og sítrónu smellur alltaf. Klassísk samsetning. Virkilega gaman að bera réttinn fram á fallegu fati með stökku beikoninu stráðu yfir og saxaðri ferskri steinselju.

min_IMG_2235Timían kjúklingur með beikoni og sveppum (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 bakkar Flúðasveppir
  • 1 bréf beikon (lítið)
  • 2 dl hvítvín (má sleppa og nota meira kjúklingasoð)
  • Safi úr 1/2 – 1 sítrónu (fer eftir stærð, ég notaði bara 1/2)
  • 3 dl kjúklingasoð (vatn+kjúklingakraftur)
  • 3 msk rjómi
  • Salt, pipar og þurrkað eða ferskt timían
  • Smávegis af ferskri steinselju

Aðferð: Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt eftir endilöngu á þykktina og berjið þær svo með kjöthamri eða botni á potti þannig að þær þynnist aðeins. Kryddið með salti, pipar og timían. Skerið beikonið í litla bita og sveppina í frekar stóra bita. Hitið pönnu við háan hita og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Takið það af pönnunni og færið á eldhúspappír. Page_1Steikið því næst kjúklinginn þar til hann er nánast alveg fulleldaður. Takið hann þá af pönnunni og geymið á diski.Page_2 Hækkið hitann, setjið smá smjör eða olíu á pönnuna og steikið sveppina þar til þeir hafa brúnast vel. min_IMG_2230Kryddið með salti, pipar og timían. Þegar sveppirnir hafa brúnast vel. Hellið þá hvítvíni á pönnuna og leyfið því að sjóða aðeins niður, tekur ca. 1-2 mínútur. min_IMG_2231Bætið þá kjúklingasoðinu og sítrónusafanum á pönnuna ásamt rjómanum. Leyfið þessu að sjóða aðeins niður og smakkið til með salti og pipar. Leggið því næst kjúklinginn á pönnuna og látið hann hitna í gegn í sveppasósunni. Þegar kjúklingabringurnar eru heitar í gegn raðið þeim þá á fat og hellið sveppasósunni yfir. min_IMG_2237Stráið því næst stökku beikoninu og steinseljunni yfir og berið fram t.d með einföldu salati. min_IMG_2249

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldir kjúklingaréttir, Góðir kjúklingaréttir, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur með beikoni og sveppum, Kjúklingabringur með sveppum, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttir, Kjúklingur með beikoni

Gróf ostarúnstykki

maí 2, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2158Hef haft aðeins of mikið að gera undanfarnar vikur. Ansi hreint mikið að gera í skólanum, kennslu, kórastarfi og öðru skemmtilegu. Þessar bollur eru því alveg í stíl við annríkið sem hefur verið á mér þar sem það tekur aðeins um 5 mínútur að hræra í þær og 20 mínútur að baka þær. Þær verða alveg ótrúlega léttar og góðar og miklu, miklu betri en rúnstykki úr Bakaríi, heimatilbúið er bara næstum alltaf betra. Ég bauð upp á þessar bollur í morgunkaffi sem ég var með um síðustu helgi. Hrærði í þær rétt áður en gestirnir komu og bar þær svo fram með eggjum, ostum og hinu ýmsasta áleggi. Afganginn bar ég svo fram með súpunni sem ég eldaði seinna í vikunni.

Uppskriftin er mjög svipuð og sú af kotasælubollunum. Í staðin fyrir kotasæluna er bara notast við rifinn ost. Svo er alveg nauðsynlegt að setja rifinn ost ofan á þær til að fá ekta bakarís-ostarúnstykkja útlit á bollurnar.

min_IMG_2157Gróf ostarúnstykki:

  • 5 dl spelt (Ég notaði 2 dl fínt og 3 dl gróft)
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (eða 2 tsk venjulegt lyftiduft)
  • 3 msk sesamfræ
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 3 dl rifinn ostur
  • 2 dl ab mjólk eða hrein jógúrt
  • 1 msk ólífuolía
  • 2-2,5 dl sjóðandi heitt vatn (Setjið fyrst 1-2 dl og sjáið svo hvort það þurfi meira vatn þar sem mjöl tekur misvel við vökva)

Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Þurrefnum blandað saman í skál. 2 dl af rifnum osti, ab mjólk og olíu bætt út í og vatninu svo bætt út í. Gott getur verið að bæta vatninu smám saman við en ekki öllu í einu. Það getur verið að þið þurfið ekki allt vatnið. Áferðin á deiginu á að vera eins og þykkur hafragrautur og klístrast við sleifina. Alls ekki hræra lengi.

min_IMG_2152Búið til 9 stærri eða 12 minni bollur með tveimur matskeiðum og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Dreifið restinni af rifna ostinum yfir hverja bollu. Þær stækka ekki það mikið að 12 bollur eiga vel að komast fyrir á einni plötu. Bakað í 18-20 mínútur. min_IMG_2161

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bakaðar bollur, Bollur, Gerlaust brauð, Gróf rúnstykki, Grófar bollur, Osta rúnstykki, Spelt brauð, Speltbollur, Speltbrauð

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme