• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for ágúst 2013

Bláberjasósa með vanillu

ágúst 29, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_3857Nú blánar yfir berjamó og ekki seinna vænna en að fara að huga að því hvað gera eigi við öll blessuðu berin sem við ætlum að týna í haust. Öll segi ég já, en ég veit nú reyndar ekki hversu öflug berjauppskeran verður þetta haustið. Okkar helstu berjastaðir lofa því miður ekki svo góðu, allavega verður uppskeran ekki eins og í fyrra. Það má þó vona og sannarlega týna það sem til er. Við erum svo heppin að eiga ansi öfluga berjatýnslumenn í innsta hring í fjölskyldunni sem hafa verið svo elskuleg að leyfa okkur að njóta afurðanna síðastliðin haust og gefið okkur helling af ljúffengum vestfirskum aðalbláberjum. Við erum því orðin ansi góðu vön og höfum búið svo vel að luma á aðalbláberjum í frystinum í allan vetur. Það var því með hálfgerðum trega á dögunum þegar ég kláraði berin úr síðasta frystipokanum með von í hjarta um að komandi haust yrði gott við okkur og gæfi okkur dálítið af bláberjum svona áður en þessi fáu frjósa.

Það var þó ekki leiðinlegt hlutverk sem síðustu berin fengu, en þau urðu að þessari dásamlegu bláberjasósu. Sósan er sannarlega fjölnota, ekki of sæt, með dásamlegum vanillukeim og mikið finnst mér skemmtilegt að gera eitthvað annað en sultu úr bláberjum svona til tilbreytingar. Sósan er sérstaklega ljúffeng með góðum vanilluís. Hana má líka nota út á grjóna- eða hafragrautinn, yfir gríska jógúrt eða skyr og eiginlega bara hvað sem manni dettur í hug. Ég bjó til dæmis til bláberja pavlovu um daginn þar sem ég hellti sósunni yfir þeytta rjómann og blandaði aðeins saman við, það kom virkilega vel út. Svo er nú líka voða sætt að setja sósuna í fallega krukku með lítilli slaufu og gefa einhverjum vel völdum.

min_IMG_3862Vanillu og bláberjasósa:

  • 3 bollar bláber (ég notaði frosin aðalbláber)
  • 1/2 bolli hrásykur
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1/2 bolli vatn
  • 1 vanillustöng

Aðferð: Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin innan úr henni. Setjið allt innihaldið ásamt vanillustönginni í pott og leyfið suðunni að koma upp. Lækkið þá hitann og leyfið sósunni að sjóða við vægan hita, samt þó þannig að ”bubbli” í vökvanum í um það bil 25 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins og vökinn minnkað um ca. 1/3. Ég hef hitann stilltan á 4 af 9 eftir suðan hefur komið upp. Hellið sósunni í krukkur og kælið. (Ef þið viljið ekki hafa berin saman við sósuna er gott að sigta hana gegnum frekar gróft sigti). Geymist í ísskáp í lokaðri krukku.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Aðalbláber uppskrift, Berja uppskrift, Berja uppskritftir, Bláberja uppskriftir, Bláberjasósa, Íssósa

Grillaður lax með himneskri marineringu

ágúst 27, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_3710Þessi grillaði lax sem ég var með um daginn fer beint á topp fimm yfir bestu fiskmáltíðir sem ég hef borðað. Ef ekki bara topp fimm máltíðir fyrr og síðar. Það gæti haft sitt að segja að laxinn var villtur og spriklandi ferskur, veiddur af pabba, flakaður af mömmu (ég er alveg glötuð í fiskflökun) og alveg passlega stór. Sumsé ekki of stór, mér þykja litlir laxar betri en stórir og ég þarf varla að taka það fram hvað villtur lax er miklu, miklu betri en eldislax. Marineringin er alveg stórgóð á fisk eins og lax sem þolir mikið bragð og ég mæli heilshugar og óhikað með því að þið prófið þessa marineringu og prófið að grilla lax með þessum hætti við fyrsta tækifæri. Ég er ekki frá því að marineringin myndi jafnvel virka glimrandi vel á eldislax. En notið endilega þennan villta ef þið komist yfir flak eða tvö!

min_IMG_3723Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.

min_IMG_3707Marinering:

  • 2 msk dijon sinnep
  • 1 msk hunang
  • 4 msk sojasósa
  • 6 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
  • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

min_IMG_3708Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati. min_IMG_3724

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð marinering, Grillaður fiskur, Grillaður lax, Lax uppskrift, LKL uppskrift, Marinering á fisk

Tagliatelle alla carbonara

ágúst 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3836Pasta hefur ekki verið á borðum hér á heimilinu í langan tíma. Það koma þó tímar þegar pasta er það eina sem virkar og virðist einhvernveginn vera það eina rétta í stöðunni. Svona tími var einmitt í gær. Það var rigning, laugardagskvöld, heimilisfólkið dálítið þreytt og eldhús nennan ekkert sérstaklega mikil. Maðurinn minn hefur alveg einstaklega einfaldan smekk þegar kemur að mat og lengi vel var pasta carbonara uppáhaldsmaturinn hans. Ég hef þó ekki eldað carbonara í mjög, mjög langan tíma, sennilega ekki í tvö eða þrjú ár. Enda hefur matarsmekkurinn breyst og maður og kona geta bara ekki borðað pasta í öll mál. Þetta var því dálítið nostalgískt endurkoma carbonara inn á heimilið. Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda þennan einfalda en stórgóða rétt.

min_IMG_3842Tagliatelle alla carbonara (fyrir 3-4):

  • 400 grömm tagliatelle eða spaghetti
  • 1 egg og 4 eggjarauður
  • 100 gr rifinn parmesan ostur
  • 1 dl rjómi
  • Beikon – 1 bréf, ca. 150-200gr, skorið í litla bita
  • 1/4 tsk múskat
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar (ég nota hvítan pipar í þennan rétt)
  • Handfylli fersk steinselja, söxuð

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn í stórum potti og setjið pastað útí. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum þar til pastað er al dente. Á meðan pastað sýður, hitið frekar stóra pönnu og steikið beikonið þar til það er stökkt. Hrærið eggið, eggjarauðurnar, rjómann, parmesan (skiljið smá eftir til að strá yfir í lokin), múskat og pipar saman í skál. Þegar pastað er tilbúið, takið þá einn bolla frá af pastavatninu og hellið vatninu svo af pastanu.

Slökkvið undir beikonpönnunni, hellið pastanu yfir beikonið og því næst eggjablöndunni. Passið að taka pönnuna af hitanum og blandið öllu vel saman. Þynnið sósuna með pastavatninu eftir smekk. Kryddið með salti ef þarf, nýmöluðum pipar og stráið yfir steinselju og meiri parmesan osti. Mér finnst ansi frískandi að bera réttinn fram með sítrónubátum og kreista smá yfir pastað, lyftir bragðinu upp á aðeins hærra plan. Njótið með góðu rauðvínsglasi og kertaljósi!min_IMG_3838

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Carbonara, Carbonara sósa, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, Ítalskur matur, Ódýr matur, Pasta carbonara, pasta uppskrift, Spaghetti carbonara

Dásamlegar morgunverðar múffur

ágúst 21, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_3756Það jafnast á við bestu hugleiðslu að vera ein heima á rigningardegi, kveikja á bakarofninum og eldhúskertinu, setja á sig svuntu, hlusta á lágt stillt útvarpið og dunda sér við bakstur. Þvílík kyrrð og ró sem færist yfir heimilið sem fullkomnast svo þegar ilmurinn af nýbökuðu góðgætinu fyllir húsið. Einhverjar notalegustu minningarnar sem ég á úr barnæsku eru frá rigningardögum þegar mamma bakaði. Þá bakaði hún alltaf inni í búri (þvottahúsi inn af eldhúsinu), því þar var hrærivélin, stærðarinnar Kenwood græja sem hafði svo hátt að það var ekki fræðilegur möguleiki að tala saman á meðan hún var í gangi. Loftpressa malar eins og kettlingur í samanburði við þetta tryllitæki. Mamma flýtti sér oft fram í eldhús og lokaði hurðinni inn í búr á meðan vélin hamaðist áfram og hávaðinn eftir því. Vélinni var þó skipt út fyrir mun hljóðlátari KitchenAid græju fyrir þó nokkuð mörgum árum. Talandi um hrærivélar, þá er alls ekki þörf á hrærivél við þennan bakstur. Þetta er eins einfalt og það gerist. Maður þarf meira að segja að passa sig að hræra alls ekki of mikið í svona múffu deigi. Illa hrærðar múffur eru nefnilega góðar múffur.

min_IMG_3752Þessar múffur eru í hollari kantinum, fullar af höfrum, hnetum, berjum og fleira góðgæti, og mætti vel grípa í eina eða tvær stað morgunverðar á annríkum morgni. Svo eru þær líka alveg einstaklega góðar á bragðið!

min_IMG_3741Morgunverðar múffur (12 múffur):

  • 2,5 dl grófmalað spelt eða heilhveiti
  • 2,5 dl grófir hafrar
  • 3 msk chia fræ eða önnur fræ
  • 100 gr valhnetukjarnar gróft muldir
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 2 bananar, gróft stappaðir
  • 1/2 dl olía
  • 2 dl ab mjólk
  • 2 tsk vanilluextract
  • 1 tsk rifinn sítrónubörkur
  • 1/2 dl hunang
  • 2 dl frosin bláber

min_IMG_3730Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Blandið saman í skál, speltinu, höfrum, chia fræjum, valhnetum, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annarri skál blandið saman stöppuðum bönunum, olíu, ab mjólk, vanillu, sítrónuberki og hunangi. Blandið svo þurrefnunum og blautu blöndunni afar gróflega saman með skeið, alls ekki hræra mikið. Blandið bláberjunum varlega saman við og setjið í 12 pappírsklædd múffuform. Bakið í 18-20 mínútur. Geymist í 2-3 daga en má vel frysta og taka út eftir þörfum.min_IMG_3735

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Banana muffins, eggjalaus bakstur, Grófar muffins, Hollar muffins, Hollur bakstur, Morgunverðar muffins, Muffins með bláberjum, Muffins með höfrum, Muffins uppskrift, Múffur uppskrift

Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku

ágúst 19, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_3659Kjúklingur er á mínu heimili, ansi oft á borðum og þykist ég vita að svo sé á mörgum öðrum heimilum. Það er eiginlega takmarkalaust hvað hægt að gera við kjúkling og sennilega þess vegna sem erfitt er að fá leið á honum – matreiðslu möguleikarnir eru nánast endalausir. Svo oft sem áður átti ég bakka af kjúklingabringum í ísskápnum en var eitthvað heldur óviss um hvað ég ætti eiginlega að búa til úr þeim. Langaði auðvitað (eins og næstum alltaf) að gera eitthvað nýtt. Bæði fyrir okkur og svo auðvitað fyrir bloggið. Það er svo gaman að elda góðan mat og dunda við að gera hann það góðan að hann verði hæfur til birtingar hér inni.

Eins og ég hef talað um áður er mamma mín ansi sniðug í eldhúsinu og ég þakka henni hér með fyrir hugmyndina að þessum kjúklingabollum sem eru hreint stórgóðar! Ég notaði í þær það sem ég átti enda ákvörðunin tekin í skyndi, sólþurrkaðir tómatar og paprikan gerðu þær alveg dásamlega bragðgóðar og eftir smá grúsk á netinu stóðst ég ekki mátið að pensla þær með svona tómat gljáa frá henni Berglindi sem heldur úti síðunni Gulur Rauður Grænn og Salt. Kom hreint ótrúlega vel út og verða þessar án efa gerðar marg oft í viðbót. Bollurnar er afar einfalt að gera, sérstaklega ef maður er vopnaður matvinnsluvél. Ég gæti vel ímyndað mér að sniðugt væri að gera enn minni bollur úr uppskriftinni og bera fram sem fingramat eða smárétt í veislum, gómsætt!

IMG_3654Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku:

  • 1 frekar lítil rauð paprika skorin gróft
  • 1 hvítlauksrif, marið
  • Handfylli fersk steinselja
  • 4-5 sólþurrkaðir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk (fer eftir því hvað þið vijið hafa þetta sterkt)
  • 800 grömm kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 3 msk rjómi eða mjólk
  • 3-4 msk góður brauðraspur
  • 1/2 tsk sjávarsalt og nýmalaður pipar

Tómatgljái:

  • 2 msk tómatpúrra,
  • 1 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • 2 msk ólífuolía

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður eða 180 með blæstri. Setjið paprikuna, hvítlauksrifið, sólþurrkuðu tómatana, sambal oelek, tómatpúrru og steinselju í matvinnsluvél. Maukið létt þar til blandan hefur samlagast vel og þið eruð með frekar grófa blöndu. Setjið kryddblönduna í skál.Skerið kjúklingabringurnar í grófa bita og maukið niður í matvinnsluvélinni þar til þið eruð komin með kjúklingahakk. Setjið kjúklingahakkið í skálina með kryddblöndunni, bætið salti, pipar, eggi, brauðraspi og mjólk eða rjóma út í og blandið vel saman.

Ef ykkur finnst blandan of blaut, bætið þá aðeins brauðraspi saman við, mjólk ef ykkur finnst blandan of þurr. Búið til bollur úr hakkinu og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Hrærið öllu innihaldinu í tómatgljáann saman, penslið ofan á bollurnar og bakið í um það bil 20 mínútur, bökunartími fer þó vissulega eftir stærð á bollunum. Berið fram t.d með salati, hrísgrjónum og kaldri jógúrtsósu.

IMG_3660

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fingramatur, Góðar kjúklingabollur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir fyrir veislur, Kjúklinga og grænmetisbollur, Kjúklingabollur, Kjúklingabollur uppskrift, Kjúklingabringur uppskrift, Smáréttur

Bestu vöfflur í heimi

ágúst 15, 2013 by helenagunnarsd 8 Comments

min_IMG_3629Mér finnst yfirleitt erfitt og svona eiginlega ekki hægt að kalla eitthvað best, svo að ég tali nú ekki um best í heimi. Allt fer þetta nú eftir smekk. Hafandi sagt það þá hef ég iðað í skinninu af spenningi yfir því að deila uppskriftinni að þessum vöfflum með ykkur. Gleymið öllum vöfflum sem þið hafið nokkurn tíman smakkað og gleymið sannarlega tilbúnu vöfflumixi úr pakka. Þetta eru bestu vöfflur sem ég hef smakkað og voru aðrir smakkarar algjörlega á sömu skoðun. Þær eru allt í senn léttar, mjúkar, loftkenndar og síðast en ekki síst stökkar að utan. Vöfflulaga englaský myndi einhver jafnvel kalla þær. Þær eru meira að segja ennþá góðar eftir að hafa kólnað og staðið á diski í 2-3 klukkutíma. Hvenær hafa vöfflur verið góðar eftir svoleiðis bið? Ég bara spyr.

min_IMG_3619Það eru nokkur leyndarmál að baki þessum himnesku vöfflum. Til dæmis að í þeim eru þeyttar eggjahvítur sem gera þær svo léttar, ekki mjólk heldur einungis ab mjólk (eða hrein jógúrt eða súrmjólk), maíssterkja auk hveitis og svo eru þær bragðbættar með örlitlum amaretto líkjör sem er sætur möndlulíkjör. Honum mætti þó vel sleppa og nota t.d vanilluextract í staðinn. Ég mæli þó eindregið með amaretto líkjörnum ef þið eigið hann til. Þessar verðið þið að prófa kæru vinir – strax í dag!

min_IMG_3641Bestu vöfflur í heimi (Örlítið breytt uppskrift frá Fifteen Spatulas):

Bollamálið sem ég nota er 2,4 dl:

  • 2 egg, rauða og hvíta aðskilin
  • 2 bollar ab mjólk, súrmjólk eða hrein jógúrt
  • 1/3 bolli bragðlítil matarolía
  • 1 msk amaretto líkjör (eða 2 tsk vanilluextract)
  • 1 1/2 bolli hveiti eða fínmalað spelt
  • 1/2 bolli maíssterkja/Maizena (í gulu pökkunum)
  • 3 tsk vanillusykur
  • 1 msk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 3 msk sykur

min_IMG_3605Aðferð: Byrjið á að hræra saman eggjarauðum, olíu, ab mjólk og amaretto líkjör. Sigtið hveitið, maíssterkjuna, vanillusykurinn og lyftiduftið út í og blandið saman við. Má vera aðeins kekkjótt, ekki hræra lengi.min_IMG_3607 Þeytið eggjahvíturnar með 3 msk af sykri þar til hvíturnar verða vel stífar (3-5 mínútur með rafmagnsþeytara).min_IMG_3606 Hrærið eggjahvítunum varlega saman við deigið með stórri skeið eða sleikju, gætið þess að slá ekki loftið úr eggjahvítunum. min_IMG_3610Hitið vöfflujárn og bakið vöfflurnar. Þær lyfta sér mjög vel svo passið að setja ekki of mikið deig í vöfflujárnið (ég setti t.d of mikið á þessum myndum – ekki gera eins og ég). min_IMG_3618min_IMG_3616Ef þið berið þær ekki strax fram leyfið þeim þá að kólna á grind svo ekki myndist raki undir þeim. Afgangs vöfflur er upplagt að frysta og skella í brauðristina þegar á að nota þær. Berið vöfflurnar fram með öllu því sem hugurinn girnist. Mér þykir best að hafa með þeim heimalagaða aðalbláberjasultu og þeyttan rjóma. Einfalt og dásamlegt.min_IMG_3647

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta vöffluuppskriftin, Bestu vöfflurnar, Góðar vöfflur, Kaffimeðlæti, Vöfflur, Vöfflur uppskrift

Mozarella og tómatar – Insalata caprese

ágúst 12, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3192Ég held að ég geti sagt að eftirfarandi uppskrift (sem er eiginlega ekki hægt að kalla uppskrift) sé einn af mínum uppáhaldsréttum. Svona þegar kemur að einfaldleika, góðu hráefni og fljótlegheitum. Þetta er samsetning sem getur ekki klikkað. Það er svo mikilvægt þegar svona fá hráefni eiga að fá að standa fyrir sér sem forréttur, máltíð, smáréttur eða meðlæti, að allt sé gott sem í réttinn fer. Mozarella osturinn þarf að vera ferskur, mér finnst þessi íslenski alveg afbragðsgóður en vilji menn vera flottir á því veit ég að ítalska sælkeraverslunin Piccolo Italia á Laugaveginum selur stundum ekta ítalskan buffalo mozarella. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér á svoleiðis einn daginn.

Nú og svo þurfa tómatarnir að vera eldrauðir og ekki kaldir úr ísskáp. Það er langbest – eiginlega skylda, að geyma tómata alltaf við stofuhita. Ég nota tómata það mikið að ég er með stóra skál við hliðina á eldavélinni sem er oftast full af tómötum. Þegar ég kaupi nýja tómata set ég þá neðst í skálina og nota þá sem eldri eru. Ég geymi kirsjuberja-, piccolo-, plómutómata og ”venjulega” íslenska tómata við þessar aðstæður, sumsé alla tómata. Þeir eru svo margfalt betri á bragðið fái þeir að þroskast og roðna við stofuhita. Það er svo alveg klassískt að nota basil í svona tegund af salati, ég geri það oftast en í þetta skiptið notaði ég glænýtt heimaræktað klettasalat sem mér finnst líka passa vel í salatið. Mér þykir svo best að hella yfir góðri jómfrúar ólífuolíu, balsamikediki og strá svo yfir sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Einfaldleikinn er oft svo dásamlegur!

min_IMG_3189Insalata caprese:

  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 vel þroskaðir fremur stórir tómatar
  • Nokkur blöð af klettasalati eða basil
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk balsamikedik
  • Sjávarsalt og pipar

Aðferð: Mozarella og tómatar skornir í jafn þykkar sneiðar. Klettasalatið lagt á disk, tómata og mozarellasneiðum raðað ofan á til skiptis. Ólífuolíu og balsamikediki sáldrað yfir ásamt pipar og salti. Borið fram strax. Stundum ber ég salatið fram sem fljótlega máltíð, þá hef ég gjarnan með því hráskinku og avacadosneiðar – það er líka mjög gott.min_IMG_3191

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfalt salat, Fljótlegur forréttur, Forréttur, Góðir smáréttir, Insalata caprese, Ítalskur matur, LKL uppskrift, Mozarella og tómatasalat, Smáréttur

Grilluð bruschetta caprese og eggja-beikon bollar

ágúst 9, 2013 by helenagunnarsd 11 Comments

min_IMG_3576Ég útbjó þennan ljúfa og einfalda bröns handa okkur fjölskyldunni á dögunum. Nú eru síðustu sumarfrísdagarnir að líða og við notum hvert tækifæri til að hafa það huggulegt og gera okkur dagamun áður en rútínan fer á fullt aftur. Mér finnst um bröns eða ”dögurð” (kann einhvernhveginn ekki við það orð) eins og svo margt annað, að einfalt er oftast best. Ef ég býð upp á bröns hlaðborð kýs ég allavega að bjóða upp á frekar fáar tegundir en vel eitthvað sem ég veit að er gómsætt og fellur í góðan jarðveg. min_IMG_3559Þar sem við vorum nú bara þrjú að borða í þetta skiptið lét ég þessar tvær tegundir duga og var með vínber og góðan appelsínusafa með. Ef ég fæ til mín gesti í bröns þá finnst mér gott að bæta til dæmis við nýbökuðum skonsum eins og þessum hér eða þessum og bera fram með þeim osta, álegg og lemoncurd. Ef þið eigið gasgrill þá mæli ég alveg eindregið með því að þið grillið brauðið fyrir bruschetturnar á því. Það kemur alveg ótrúlega gott grillbragð sem gerir alveg gæfumuninn, svo tekur bara 1-2 mínútur að grilla sneiðarnar á vel heitu grillinu. Það er bara hressandi að kveikja á grillinu svona í morgunsárið!

Grilluð bruschetta með tómötum og mozarella:

  • 1 snittubrauð
  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 eldrauðir tómatar
  • Nokkur blöð af ferskum basil
  • Góð ólífuolía
  • 1 msk nýkreistur sítrónusafi
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

min_IMG_3565Aðferð: Skerið snittubrauðið á ská í passlegar sneiðar. Dreypið smá ólífuolíu yfir sneiðarnar og sáldrið örlitlu sjávarsalti ofan á. Grillið við háan hita í stutta stund þar til brauðið hefur aðeins tekið lit. Raðið sneiðunum á disk. Saxið tómatana í litla teninga ásamt mozarella ostinum. Setjið í skál. Hellið 1-2 msk af ólífuolíu yfir, sítrónusafa, salti og pipar (smakkið ykkur áfram). Skerið basilið smátt og bætið saman við. Hrærið öllu saman og dreifið þessu jafnt yfir allar brauðsneiðarnar. Skreytið e.t.v með smá basil.

min_IMG_3582Eggja- beikon bollar:

  • 6 egg
  • 12 sneiðar gott beikon (ég notaði þykkar beikonsneiðar frá Ali)
  • 6 tsk sýrður rjómi með lauk og graslauk
  • Salt og pipar
  • Góð handfylli Rifinn ostur
  • Saxaður graslaukur

Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Raðið beikonsneiðunum á bökunarplötu og bakið í 8-10 mínútur eða þar til beikonið er eldað en ekki alveg orðið stökkt. Náið ykkur í möffinsform og raðið tveimur beikonsneiðum í hvert hólf.min_IMG_3548 Ég sett eina í hring og reif hina svo í tvennt og lagði í botninn. Brjótið eitt egg í hvert hólf og kryddið aðeins með salti og pipar. min_IMG_3550Setjið eina teskeið af sýrðum rjóma í hvert hólf og stráið svo osti yfir.min_IMG_3552 Bakið í 8-12 mínútur. min_IMG_3572Ef þið viljið hafa eggið linsoðið ættu 8 mínútur að duga, lengur ef þið viljið hafa rauðuna harðsoðna. Stráið söxuðum graslauk yfir og berið fram.

 

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bröns hlaðborð, Bröns uppskriftir, Bruschetta uppskrift, Egg og beikon, Hollar muffins, Hugmyndir að bröns, LKL uppskriftir, Tómata bruschetta

Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, avocado og parmesan osti

ágúst 7, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_3345Mér finnst alveg frábær tilbreyting frá grilltíð sem einkennist oft og tíðum af dálítið miklu kjöti, að sneiða hjá kjötmáltíðum og bera á borð kvöldmat sem inniheldur einungis grænmeti. Ég tala nú ekki um núna þegar fer að líða á ágúst mánuð og íslenskt grænmeti fer að fylla grænmetiskæla matvöruverslana. Ég get nú reyndar ekki státað mig af því að hafa notað eingöngu íslenskt grænmeti í þennan rétt, en góður var hann. Ég lét hann standa algjörlega einan og sér sem kvöldmat á dögunum og fannst avacado teningarnir alveg gera útslagið í að skila okkur mettandi og góðum kvöldverði. Ég hvet ykkur til að prófa að hafa grænmetisrétt á borðum allavega einu sinni í viku ef þið hafið ekki vanist því. Það er bæði hagstætt og ljúffengt og alltaf upplagt að nota til dæmis grænmetisafganga sem liggja óhreyfðir í grænmetisskúffunni í staðin fyrir að henda þeim. Ég notaði hreint kúskús í þennan rétt sem ég kryddaði sjálf. Það væri líka vel hægt að kaupa tilbúið kryddað kúskús. Prófið bara!

min_IMG_3347Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, lárperu og parmesan osti (fyrir 3-4):

  • 200 gr hreint kúskús – kryddað með 1 tsk oregano, 1 tsk paprikukryddi, 1/4 tsk kanil, 1 tsk grófu sjávarsalti, 1/2 tsk svörtum pipar, 1/2 tsk cummin, 1/2 tsk kóríander og 1/4 tsk þurrkuðum chilliflögum (líka hægt að nota kryddað kúskús)
  • 1 -2 öskjur konfekt tómatar eða piccolo tómatar (magn fer þó eftir smekk)
  • 2 vænir rauðlaukar
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • Sjávarsalt og pipar
  • Nokkrar sneiðar grilluð marineruð paprika úr krukku (líka hægt að nota t.d þistilhjörtu eða ólifur)
  • 2 lárperur
  • Rifinn ferskur parmesan ostur
  • Góð lúka fersk steinselja og graslaukur, smátt saxað
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð: Hitið ofn í 220 gráður. Byrjið á að setja kúskúsið í skál og krydda það. Blandið vel saman. Hellið sjóðandi vatni yfir kúskúsið. Ég mæli aldrei vatnið heldur helli þar til vatnið þekur alveg kúskúsið og nær ca. 1/2 cm yfir það. Leggið disk eða plastfilmu yfir skálina og látið standa í 10 mínútur eða á meðan þið gerið restina af réttinum. Skerið laukinn í tvennt og svo í dálítið þykkar sneiðar. Skerið tómatana í tvennt. Setjið laukinn og tómatana á bökunarplötu. Hellið ólífuolíu, balsamikediki og hunangi yfir, saltið og piprið og veltið grænmetinu vel uppúr. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til laukurinn hefur tekið lit og karamelliserast í hunangs-edik blöndunni. Skerið grilluðu paprikuna í strimla. Ýfið kúskúsið upp með gaffli og hellið því á fat. Setjið grænmetið yfir og blandið aðeins saman. Skerið lárperuna í teninga og dreifið yfir ásamt vel af rifnum parmesan osti og saxaðri steinselju og graslauk. Kreistið smá sítrónusafa yfir og berið fram með sítrónubátum. min_IMG_3340

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Avacado, Cous Cous recipe, Góður grænmetisréttur, Grænmetisréttur, Kúskús salat, Kúskús uppskrift, Ofnbakað grænmeti

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme