Þrátt fyrir að eiga hvorki frystiskáp né frystikistu eins og sönnum húsmæðrum sæmir, heldur einungis þrjár nettar frystiskúffur, tekst mér alltaf að gleyma hvað ég á í frystinum. Þessar þrjár skúffur eru eins og svarthol, taka endalaust við og einhvernveginn fer ekkert upp úr þeim sem á annað borð lendir í þeim. Kannski smá ýkjur en þetta er samt upplifunin. Ég hugsa að við gætum sleppt því að fara í matvörubúð í tvær vikur og hefðum samt nóg af kjöti, fiski og öðru góðgæti. Ég sumsé hef verið að grafa mig í gegnum frystiskúffurnar og elda úr því sem þar er til, meðal annars lumaði ég á poka af ungnautagúllasi frá Mýranauti, sem ég hafði steingleymt. Mér er ekki borgað fyrir að auglýsa Mýranaut – en ég verð bara að segja einu sinni enn hvað mér þykir nautakjötið þaðan afburðargott. Fólk með stærri frystigeymslur en ég ætti allavega íhuga að kaupa sér nautakjöt þaðan. Nú, gúllas er þannig biti að hann þolir langa eldun afskaplega vel. Ég mæli því ekki með því að elda þessa súpu í hraði og bera hana á borð hálftíma eftir að þið byrjið að elda. Fyrir mér er sjarminn við gúllassúpur lungamjúkt kjöt og bragð sem hefur fengið að malla lengi við hægan hita. Það sem mér finnst sniðugt að gera er að útbúa súpuna daginn áður en hún á að vera í matinn, leyfa henni að malla í hálftíma, slökkva svo undir henni og láta hana kólna og geyma svo í ísskáp þar til maður ætlar að nota hana. Þá er gott að hita hana upp við vægan hita og leyfa henni að malla í klukkustund. Þetta sparar allavega smá tíma ef maður getur ekki með góðu móti látið súpuna malla í þá 2-4 tíma sem hún á skilið til að verða dásamleg. Þetta þýðir samt ekki að súpan taki langan tíma í undirbúningi, ég hugsa að ég hafi staðið við eldavélina í 20 mínútur, eftir það eldar súpan sig bara sjálf. Þetta er einhver besta gúllassúpa sem ég hef smakkað, virkilega einföld og ekki of mörg hráefni að þvælast fyrir manni.
Matarmikil gúllassúpa (fyrir 4-6)
- 600 gr smátt skorið ungnautagúllas
- 2 msk smjör
- 2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
- 1/2 chillialdin, fræhreinsaður og skorinn í sneiðar
- Krydd: 1 tsk paprikuduft, 1 tsk timían, 1 tsk cummin
- 1 krukka tómatpassata (Frá Sollu)
- 2 msk tómatpaste
- 1 msk hunang eða önnur sæta
- 1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
- 2 teningar nautakraftur
- 1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
- 1/2 sæt kartafla, skorin í teninga
- 1,5 dl rjómi
- Salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin
Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita, mér þykir gúllas oftast í of stórum bitum fyrir svona súpur. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar.
Hitið stóran pott við háann hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit.
Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram.
Setjið tómatpaste-ið saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp.
Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í.
Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Mér þykir gott að hafa svona súpur dálítið þykkar svo ég stappaði aðeins kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að sumar voru í bitum og sumar vel stappaðar og þykkja þá súpuna.
Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra.
Þetta er alveg geggjuð súpa. Takk fyrir 🙂
Frábært að þér líkaði hún! 🙂 Takk fyrir kveðjuna.
Kær kveðja, Helena
væri ekki hægt að nota ærgúllas í þessa?
Jahh ég get ekki séð af hverju það ætti ekki að vera hægt. Endilega prófaðu og láttu mig vita hvernig það kom út 😉 Allavega flest ef ekki öll kryddin í súpunni sem passa ákaflega vel við lamba/kindakjöt.
Kær kveðja, Helena
Þetta er ein besta gúllassúpa sem við fjölskyldan höfum smakkað. Takk fyrir frábæra uppskrift.
Gleður mig að vita það! Verði ykkur að góðu 🙂
Kær kveðja, Helena
ég er að skoða þessa uppskrift, og langar að prófa hana. Þegar þú talar um chilli ertu þá að tala um Jalapenos eða annað. Hvað get ég notað í stað kartöfflu þar sem það er of mikil sterkja í þeim fyrir mig, mér dettur í hug zucchini og kannski papprikka. Allt annað í uppskriftinni má nota í LKL.
Sæl
Ég er að tala um þetta “venjulega” rauða chilli aldin sem fæst í flestum matvörubúðum. Jalapeno, grænn chilli eða annar chilli myndi líka ganga upp. Um að gera að nota það sem manni þykir best. Í sambandi við kartöflurnar myndi ég sennilega skipta þeim út fyrir zucchini eða jafnvel blómkál! Um að gera að prófa 🙂
Gangi þér vel,
Kær kveðja, Helena
Hi hi, mig langar mikid til ad bua til thessa supu en eg get ekki fengid tomatpassada i Bandarikunum. Hvad er thetta og hvad get eg notad i stadinn.
Takk fyrir hjalpina.
Hæ hæ. Tómat passada er bara svipað og diced tomatoes, bara aðeins meira maukað, svona tómatamauk. Getur alveg notað diced tomatoes úr dós og t.d tomatoe sauce út dós (ekki ketchup) til helminga. Gangi þér vel 🙂
Kær kveðja, Helena
Þvílíkt girnilegt!!
Þessi uppskrift verður prófuð í dag 🙂
Mín fjölskylda er lítið hrifin af nautakjöti, (amk. við hjónin) og ég hlakka til að prófa svínahnakkafille
í þetta, það fæst oft á góðu verði og svo brytjum við það bara smátt og steikjum eins og gúllas. Aldeilis ljúffengt… Hlakka til að prófa það í þessa.
Er þessi ekki betri daginn eftir ?
Hún er frábær daginn eftir þessi súpa. Sérstaklega ef maður hefur ekki tíma til að leyfa henni að malla lengi sama dag og hún er borðuð. Þá er upplagt að skella henni í ísskáp og hita svo upp á vægum hita.
Þetta er frábær súpa. Ég ætla að hafa hana í fermingu dóttur minnar. Ég þarf að gera hana daginn áður. Þegar ég hita hana upp daginn eftir, er það þá nóg? Eða þarf ég að bæta við vatni eða eitthvað?
En hvað það er gaman að vita! Súpan er bara betri daginn eftir að hún er gerð. Ég mæli með að hita hana hægt og rólega upp, ef þú ert með mikið magn, alveg gefa henni a.m.k klst til að hitna vel, jafnvel tvær klst. Svo myndi ég bara meta það þegar hún er orðin heit hvort það þurfi slurk af vatni út í. Þá er gott að vera með heitt vatn á hraðsuðukatli og setja saman við. Það er voða misjafnt hvort það þurfi eða ekki. Gangi þér vel og til hamingju með dóttur þína 🙂
Kær kveðja, Helena
Mmmmmmmmmm…. Dásamleg súpa, mun gera hana oftar en þetta eina skipti 😀 Takk fyrir að deila uppskrift
Við fjölakyldan gwrðum þessa með elgskjöti einn rigningardag i noregi. Alli foru pakksaddir að sofa og taka afganginn með ser i skolann a morgun !! Takk fyrir geggjaða uppskrift!!
Langaði að forvitnast hvað er þessi uppskrift margir lítrar ?
Hvað færðu marga lítra úr þessari uppskrift ?
Geggjuð súpa. Lét hana malla í þrjá tíma og hún varð þykk og góð.