• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for febrúar 2014

Semí fljótlegt semifreddo með marengs, jarðarberjum og Daimsúkkulaði

febrúar 28, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5121Einu sinni bjó ég til þetta semifreddo sem er nú varla frásögu færandi nema hvað að ég tók svo fáar og lélegar myndir af því að ég vildi eiginlega ekki setja það hingað inn. Í dag tók ég mig taki, girti í brók og ákvað að þetta væri einfaldlega of sniðug og semí fljótleg og skemmtileg uppskrift til að láta myndasnobb standa í vegi fyrir birtingu. Semifreddo er ítalskt orð og þýðir einfaldlega hálf kalt eða hálf frosið, þið hljótið að vera sammála mér að ítalska orðið sigrar íslensku þýðinguna í þetta skiptið og því held ég mig við það. Það eru til ótal útgáfur af þessum ljúffenga hálf frosna eftirrétti og er þessi útgáfa sem ég gerði bæði fljótleg og krefst ekki margra hráefna. Það er alveg nauðsynlegt að taka semifreddo úr frysti góðri klukkustund áður en það er borið fram, annars er það bara hart eins og gler. Svo má líka búa það til og frysta í um það bil 2-3 klukkustundir eða þar til það er rétt svo byrjað að frjósa og bera það svo fram. Eins og svo oft áður eru hlutföllin í þessum rétti ekki heilög og um að gera að nota það sem manni þykir best. Þetta er skemmtilegur og einfaldur eftirréttur sem hér um bil allir elska.

min_IMG_5118Semí fljótlegt semifreddo með marengs, jarðarberjum og Daimsúkkulaði:

  • 4 dl rjómi
  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 200 gr Daim súkkulaði, ég notaði Milka súkkulaði með Daim
  • 1 bakki jarðarber

Aðferð: Þeytið rjómann. Skerið jarðarberin í litla bita, saxið 150 gr af súkkulaðinu smátt og brjótið marengsinn í litla bita. Hrærið þessu saman við þeytta rjómann. Klæðið stórt formköku form eða hringlaga kökuform með plastfilmu þannig að filman nái vel yfir kantana. Hellið blöndunni í formið og lokið vel yfir með plastfilmu. Frystið í 6-8 tíma eða yfir nótt. Takið úr frysti 1 – 1 1/2 klst áður en borið ef fram. Hvolfið á disk og fjarlægið plastfilmuna. Saxið restina af súkkulaðinu smátt og dreifið yfir. Það er svo ekki úr vegi að bera þetta fram með heitri súkkulaðisósu.min_IMG_5117

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur eftirréttur, Semífreddó

Tælensk massaman súpa

febrúar 25, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5111…Og súpuæðið hjá undirritaðri heldur áfram. Massaman karrý er einhver besti matur sem ég veit um og undantekningarlítið verður hann massaman kallinn fyrir valinu þegar ég rek nefið inn á tælenska veitingastaði. Almennt þykir mér tælenskur matur bara alveg afskaplega góður og af hverju ég hef ekki farið til Tælands skil ég hreint ekki. Það er þó ansi ofarlega á óskalistanum og verður vonandi af því einhvern daginn. Það var svo á dögunum að ég fór í mat til vinkonu minnar sem eldaði fyrir okkur alveg dásamlega gott massaman karrý. Ég hef eiginlega verið að hugsa um það síðan svo það varð innblásturinn að þessari stórgóðu massaman karrý súpu. min_IMG_5110Ég mæli með því að næla sér í gott massaman karrý mauk, það besta væri auðvitað að búa það til sjálfur en við skulum bara vera raunsæ hérna. Ég keypti það sem ég notaði í súpuna í tælensku búðinni við Hlemm en ég veit að það fæst líka mjög gott karrýmauk í Kolaportinu og örugglega víðar. Svo er svona mauk vissulega til líka í einhverjum stórmörkuðum. En heimsókn í tælensku búðina á Hlemmi, að ég tali nú ekki um í Kolaportið er svo skemmtileg að það ætti enginn að láta það hrindra sig í að búa súpuna til. En jæja, að uppskriftinni. Eins og með svo margar súpur er um að gera að nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég átti til dæmis afgang af grilluðum kjúklingi eins og þessum hér, með bökuðum gulrótum. Svo átti ég lítið blómkálshöfuð í grænmetisskúffunni ásamt lauk og hvítlauk og kjúklingabaunadós í búrskápnum. Tiltölulega ódýr hráefni sem breyttust í þessa afar ljúffengu máltíð.

min_IMG_5101Tælensk massaman súpa (fyrir 4):

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 3 msk kókosolía eða önnur matarolía
  • 4 vænar msk massaman karrýmauk (meira ef þið viljið sterkari súpu)
  • 2 msk hrásykur
  • 2 kjúklingabringur skornar smátt eða t.d afgangur af elduðum kjúklingi
  • 1 lítið blómkálshöfuð
  • 1-2 Gulrætur eða það grænmeti sem til er
  • 2 dósir kókosmjólk + 1 l vatn (meira vatn ef þið viljið þynnri súpu)
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 msk sojasósa

Aðferð: Skerið grænmetið og kjúklinginn smátt.min_IMG_5086 Hitið olíu í potti og steikið laukinn og hvítlaukinn í 1-2 mínútur.min_IMG_5089 Bætið karrýmaukinu útá og steikið þar til það mýkist aðeins og byrjar að ilma vel. min_IMG_5090Stráið sykrinum yfir, bætið svo kjúklingnum og grænmetinu saman við og steikið aðeins áfram (Athugið að ef þið notið hráan kjúkling þarf ekki að elda hann áður en þið setjið hann út í súpuna, gætið þess bara að sjóða hann í súpunni þar til eldaður í gegn). min_IMG_5091Hellið kókosmjólkinni yfir ásamt einum lítra af vatni. min_IMG_5094Setjið kjúklingabaunirnar saman við ásamt kjúklingakraftinum og sojasósunni. Hleypið suðunni upp og látið sjóða rólega við vægan hita í 5 mínútur. min_IMG_5093Smakkið til með sojasósu eða sjávarsalti og e.t.v. hrásykri ef ykkur finnst þurfa meiri sætu. Berið fram rjúkandi heita. Súpan að vera braðgmikil og rífa vel í.min_IMG_5116

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súpuuppskriftin, Góð kjúklingasúpa, Góð súpa, Góð súpa uppskrift, Góðar súpuuppskriftir, Grænmetissúpa, Kjúklingasúpa, Ódýr matur, Súpur uppskriftir, Tælensk kjúklingasúpa, Tælensk súpa

Piccata Kjúklingur

febrúar 23, 2014 by helenagunnarsd 5 Comments

min_IMG_4983Hér er einn af þessum sívinsælu og sígildu kjúklingaréttum sem eru svo þægilegir matreiðslu en í senn alveg einstaklega ljúffengir. Uppskriftin er byggð á hinum klassíska ítalska piccata kjúklingi en piccata stendur fyrir matreiðslu aðferð þar sem kjöt er skorið þunnt, velt upp úr hveit eða öðru mjöli, steikt og borið fram í einhverskonar sósu. Á ítölskum veitingastöðum (allavega þeim sem ég hef farið á) er piccata kjúklingur oftast í hvítvíns eða sítrónu sósu, gjarnan borinn fram með kapers. Mér þykir rétturinn alveg einstaklega góður, enda bæði hrifin af kapers og sítrónubragði sem er sannarlega áberandi í réttinum. Það er kjörið að bera piccata kjúklinginn fram með góðri kartöflumús eða bara einföldu grænu salati. Ískalt hvítvínsglas myndi sennilega ekki skemma fyrir..

Piccata kjúklingur (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur, skornar í tvennt langsum og þynntar með buffhamri
  • 4 msk hveiti eða fínmalað spelt
  • 2 msk ólífuolía og 1 msk smjör
  • 2 dl hvítvín (hægt að sleppa og nota kjúklingasoð)
  • 1/2 dl nýkreistur sítrónusafi (eða ca. safinn úr hálfri sítrónu)
  • 3-4 msk kapers
  • 3 msk rjómi
  • Sjávarsalt, nýmalaður pipar og söxuð fersk steinselja

min_IMG_4982Aðferð: Hitið pönnu á meðalhita og setjið á hana smjör og ólífuolíu. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar. dreifið úr hveitinu á disk og veltið kjúklingnum upp úr hveitinu.min_IMG_4970 Steikið kjúklinginn þar til eldaður í gegn eða í um það bil fjórar mínútur á hvorri hlið. Takið af pönnunni og geymið á diski. Hækkið hitann á pönnunni og hellið hvítvíninu, sítrónusafanum og kapers út á. Látið sjóða niður í 2-3 mínútur. Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. min_IMG_4975Setjið kjúklinginn út í sósuna og leyfið að malla í örfáar mínútur eða þar til kjúklingurinn hefur hitnað aftur í gegn. Stráið saxaðri steinselju yfir og berið fram. min_IMG_4980

Filed Under: Eldhúsperlur

Ítölsk grænmetissúpa

febrúar 17, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5020Mér finnst alveg ómögulegt hvað það er langt síðan ég setti inn nýja uppskrift. Tíminn hefur liðið óþarflega hratt undanfarið og ýmislegt skemmtilegt verið í gangi. Í síðustu viku kom út nýr Gestgjafi þar sem má finna tvær glænýjar uppskriftir frá Eldhúsperlum, ég mæli auðvitað óhikað með að þið nælið ykkur í  eintak og prófið. Uppskriftirnar eru báðar af brauði og ég er ekki frá því að þau myndu bara smellpassa sem meðlæti með uppskrift dagsins. Svo hafa Eldhúsperlur líka fengið andlitslyftingu og svona ægilega fínt nýtt útlit, alveg kominn tími til.

Ég hef verið með hálfgert súpu æði núna á nýja árinu og þykir fátt betra en sjóðandi heit og góð súpa. Þessi súpa er virkilega ljúffeng og auðvelt að búa hana til. Það er alveg upplagt að taka til í grænmetisskúffunni og nota það grænmeti sem til er. Ég mæli þó með því að nota bæði gulrætur og púrrulauk þar sem það grænmeti gefur súpunni afskaplega gott bragð. Prófið þessa hollu og góðu súpu.

min_IMG_5023Ítölsk grænmetissúpa (fyrir 4)

  • 1 stór púrrulaukur, skorinn í tvennt eftir endilöngu og svo þunnar sneiðar
  • 3-4 hvítlauksrif, smátt söxuð eða í þunnar sneiðar
  • 1 kúrbítur, skorinn í þunnar ræmur
  • 2 stórar gulrætur, skornar í tvennt eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar
  • 2 tsk ítölsk kryddblanda, t.d timian, oregano og basil
  • 1,5 l grænmetissoð (grænmetiskraftur og vatn)
  • 2 bollar pastaslaufur
  • 1 dós baunir, t.d canellini eða kjúklingabaunir
  • Fersk basilika og steinselja, smátt söxuð (má sleppa)
  • Ólífuolía, salt og pipar

min_IMG_4985Aðferð: Hitið olíu í potti við meðalháan hita og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Kryddið með ítölsku kryddunum, salti og pipar.min_IMG_4993Bætið grænmetissoðinu út í. min_IMG_4994hleypið suðunni upp og setjið pastað saman við. Látið sjóða í 10-15 mínútur. min_IMG_4996Skolið baunirnar í sigti og bætið þeim svo út í. min_IMG_4998Sjóðið aðeins áfram og smakkið til með salti og pipar. min_IMG_5005Þegar súpan er eins og þið vijlið hafa hana stráið yfir ferskum kryddjurtum og blandið saman við. Berið fram rjúkandi heita.min_IMG_5010min_IMG_5022

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Grænmetissúpa

Vanillubollakökur með ljósbleiku jarðarberja smjörkremi

febrúar 8, 2014 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_1325Ég var að fara yfir gamlar myndir á tölvunni um daginn og rakst þá á myndir af þessum dásamlegu vanillubollakökum með ljósbleiku jarðarberjakremi. Kökurnar gerði ég fyrir næstum því ári síðan, eða fyrir eins árs afmæli systurdóttur minnar. Nú er sú stutta alveg að verða tveggja ára og ef ég þekki hana rétt myndi hún seint fúlsa við bita af þessum ljúffengu kökum. Hún er einmitt á leiðinni í heimsókn til okkar á eftir svo það er vel við hæfi að birta uppskrift og myndir af kökunum í dag. Kökudeigið er það sama og ég notaði fyrir þessar sjóræningjabollakökur fyrir 5 ára strákaafmæli í haust. Virkilega mjúkar og góðar kökur sem ganga með hvaða kremi sem er.

min_IMG_1314Vanillubollakökur (24 stk, auðveldlega hægt að helminga):

  • 225 gr smjör við stofuhita
  • 250 gr hrásykur
  • 1 msk hreint vanilluextract
  • 4 egg
  • 350 gr fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • 1/4 tsk salt
  • 2,5 dl nýmjólk

Smjörkrem:

  • 300 gr mjúkt smjör
  • 400 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilluextract (eða 1 tsk vanilludropar)
  • 4 msk góð jarðarberjasulta (reynið að sneiða hjá jarðarberjabitunum í sultunni)
  • 2-3 msk mjólk
  • Nokkrir dropar bleikur matarlitur

Athugið að ef öll hráefni í kökurnar eru við stofuhita verður útkoman enn betri. Ég mæli með að taka smjörið, eggin og mjólkina úr ísskáp a.m.k 2 klst áður en bakstur hefst. Ef ekki gefst tími og smjörið er mjög hart getur verið gott að skera það í sneiðar og leggja á disk, þá mýkist það fyrr.

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Þeytið smjör, sykur og vanillu í 3-5 mínútur eða þar til blandan er vel ljós og létt. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Blandið saman hveitinu, salti og lyftidufti og pískið vel saman eða sigtið. Bætið hveitinu og mjólkinni saman við deigið til skiptis, endið á hveitinu og blandið vel saman þannig að deigið sé silkimjúkt, en varist þó að hræra of lengi. Skiptið deiginu í bollakökuform og bakið í ca. 18 mínútur.

Krem: Þeytið smjörið í 3-5 mínútur eða þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykrinum saman við og þeytið í 3 mínútur til viðbótar, bætið jarðarberjasultunni út í og hrærið vel. Hellið mjólkinni smám saman út í ásamt vanillunni þar til kremið er létt og meðfærilegt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökurnar. Ég notaði stút nr. 2D frá Wilton sem ég fékk í versluninni Allt í köku. min_IMG_1317

Filed Under: Eldhúsperlur

Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum

febrúar 3, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_4845Sumir geta ekki borðað fisk nema hann sé í einhverskonar dulbúningi. Ég er reyndar ekki ein af þeim og nýt þess að borða ferskan fisk nánast í hvaða útgáfu sem er. Soðinn og allsberan þess vegna, svo lengi sem hann er nýr. Það á nú reyndar líka við um fisk í dulbúningi. Fiskur verður bara að vera nýr, helst spriklandi ferskur. Áður fyrr var ég þó heldur meira gefin fyrir dulbúna fiskrétti og fannst fiskur eiginlega ekkert svo spes svona almennt. En tímarnir breytast. Nú elda ég allskonar fisk, dulbúinn eða ekki og nýt þess að borða þetta ljúffenga og létta hráefni. Ég neita því samt ekki að hér mætti gjarnan vera fiskur oftar á borðum og sannarlega eitthvað sem ég er statt og stöðugt að reyna að breyta.

min_IMG_4843Þessi fiskur er svona fyrir ”fiskihatara” og auðvitað hina líka. Myndirnar eru nú reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir, en það verður bara að hafa það. Þetta er bragðmikill og sérstaklega ljúffengur réttur sem er tilbúinn á mettíma. Einn af þessum réttum sem ég er svo fegin að hafa upp í erminni og hlakka alltaf til að elda.

Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum:

  • 600 grömm nýr fiskur, ég notaði ýsu
  • Sólþurrkað tómatamauk, líka hægt að nota rautt pestó
  • 1 lítil krukka svartar ólífur
  • 1 kúla ferskur mozarella ostur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 1 dl rifinn parmesan ostur
  • Ólífuolía og gott krydd t.d Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður og smyrjið eldfast mót með ólífuolíu. Skerið fiskinn í passlega bita, kryddið og leggið í mótið.min_IMG_4835 Smyrjið um það bil einni teskeið af sólþurrkaða tómatmaukinu ofan á hvern fiskbita. min_IMG_4837Skerið tómata og ólífur í tvennt og dreifið yfir. Leggið sneið af mozarella ofan á hvern fiskbita.min_IMG_4839 Dreifið parmesan osti yfir allt saman og kryddið yfir með heitu pizzakryddi. min_IMG_4841Bakið í 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn bakaður. Berið fram t.d með góðu brauði eða hrísgrjónum og salati. Hér var rétturinn borinn fram með linguine að ósk þess fimm ára á heimilinu. min_IMG_4850

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti fiskrétturinn, Fiskréttir, Fiskréttir uppskriftir, Fljótlegur matur, Góður fiskréttur, ofnbakaður fiskur, uppskrift að fiskrétti

Fljótlegur kjúklingur með kasjúhnetum

febrúar 1, 2014 by helenagunnarsd 7 Comments

min_IMG_4877Ég var með þennan einstaklega fljótlega og góða kjúklingarétt með kasjúhnetum í gærkvöldi. Þennan er upplagt að gera þegar ekki er mikill tími til eldamennsku og ég get nánast fullyrt að það er fljótlegra að matreiða réttinn en að fara út á næsta skyndibitastað. Uppskrftina fann ég á síðunni hennar Mörthu Stewart fyrir margt löngu síðan en átti alltaf eftir að prófa. Ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Prófið þennan.

min_IMG_4861Kjúklingur með kasjúhnetum (breytt uppskrift af www.marthastewart.com)

  • 700 gr beinlaust kjúklingakjöt t.d læri eða bringur
  • 2 msk maíssterkja eða kartöflumjöl
  • 4 hvítlauksrif, skorin í þunnar sneiðar
  • 4 vorlaukar, smátt saxaðir
  • 3 msk hrísgrjónaedik
  • 1 1/2 dl hoisin sósa
  • 1 lítið brokkolíhöfuð, skorið í smáa bita
  • 100 gr ristaðar kasjúhnetur
  • Salt, pipar, chilliflögur og olía

Aðferð: Byrjið á að skera kjúklinginn í passlega munnbita, setjið í skál með maíssterkjunni og veltið vel uppúr. Kryddið með salti og pipar.min_IMG_4862Hitið 2 msk af olíu á stórri pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er stökkur og nánast eldaður í gegn. Bætið hvítlauknum og vorlauknum á pönnuna, steikið í 1-2 mínútur og hellið þá hrísgrjónaedikinu út á.min_IMG_4864Látið sjóða niður í 1 mínútu. Hellið hoisin sósunni yfir ásamt ca. 1/2 dl af vatni, kasjúhnetunum og brokkolíinu. Blandið vel saman og látið sjóða í 2-3 mínútur.min_IMG_4866Ég vil hafa réttinn sterkan svo ég bætti við hressilega af muldum chilliflögum. Smakkið til þar til rétturinn er eins og þið viljið hafa hann. Berið fram með hrísgrjónum.min_IMG_4873

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Einfaldur kjúklingur, Fljótlegur kjúklingur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingur með kasjúhnetum

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme