• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Matarmikil gúllassúpa

september 9, 2013 by helenagunnarsd 23 Comments

min_IMG_4007

Þrátt fyrir að eiga hvorki frystiskáp né frystikistu eins og sönnum húsmæðrum sæmir, heldur einungis þrjár nettar frystiskúffur, tekst mér alltaf að gleyma hvað ég á í frystinum. Þessar þrjár skúffur eru eins og svarthol, taka endalaust við og einhvernveginn fer ekkert upp úr þeim sem á annað borð lendir í þeim. Kannski smá ýkjur en þetta er samt upplifunin. Ég hugsa að við gætum sleppt því að fara í matvörubúð í tvær vikur og hefðum samt nóg af kjöti, fiski og öðru góðgæti. Ég sumsé hef verið að grafa mig í gegnum frystiskúffurnar og elda úr því sem þar er til, meðal annars lumaði ég á poka af ungnautagúllasi frá Mýranauti, sem ég hafði steingleymt. Mér er ekki borgað fyrir að auglýsa Mýranaut – en ég verð bara að segja einu sinni enn hvað mér þykir nautakjötið þaðan afburðargott. Fólk með stærri frystigeymslur en ég ætti allavega íhuga að kaupa sér nautakjöt þaðan. min_IMG_3992Nú, gúllas er þannig biti að hann þolir langa eldun afskaplega vel. Ég mæli því ekki með því að elda þessa súpu í hraði og bera hana á borð hálftíma eftir að þið byrjið að elda. Fyrir mér er sjarminn við gúllassúpur lungamjúkt kjöt og bragð sem hefur fengið að malla lengi við hægan hita. Það sem mér finnst sniðugt að gera er að útbúa súpuna daginn áður en hún á að vera í matinn, leyfa henni að malla í hálftíma, slökkva svo undir henni og láta hana kólna og geyma svo í ísskáp þar til maður ætlar að nota hana. Þá er gott að hita hana upp við vægan hita og leyfa henni að malla í klukkustund. Þetta sparar allavega smá tíma ef maður getur ekki með góðu móti látið súpuna malla í þá 2-4 tíma sem hún á skilið til að verða dásamleg. Þetta þýðir samt ekki að súpan taki langan tíma í undirbúningi, ég hugsa að ég hafi staðið við eldavélina í 20 mínútur, eftir það eldar súpan sig bara sjálf. Þetta er einhver besta gúllassúpa sem ég hef smakkað, virkilega einföld og ekki of mörg hráefni að þvælast fyrir manni.

min_IMG_3978Matarmikil gúllassúpa (fyrir 4-6)

  • 600 gr smátt skorið ungnautagúllas
  • 2 msk smjör
  • 2-3 laukar, skornir í tvennt og svo sneiðar
  • 1/2 chillialdin, fræhreinsaður og skorinn í sneiðar
  • Krydd: 1 tsk paprikuduft, 1 tsk timían, 1 tsk cummin
  • 1 krukka tómatpassata (Frá Sollu)
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 msk hunang eða önnur sæta
  • 1 l vatn – (fer þó aðeins eftir smekk)
  • 2 teningar nautakraftur
  • 1 stór bökunarkartafla, skorin í teninga
  • 1/2 sæt kartafla, skorin í teninga
  • 1,5 dl rjómi
  • Salt og pipar og fersk steinselja til að strá yfir í lokin

min_IMG_3965Aðferð: Byrjið á að skera gúllasið í litla bita, mér þykir gúllas oftast í of stórum bitum fyrir svona súpur. Þerrið kjötið vel og kryddið með salti og pipar.min_IMG_3963 Hitið stóran pott við háann hita og bræðið smjörið. Steikið kjötið þannig að það brúnist vel. Færið kjötið svo upp á disk og lækkið hitann. Steikið laukinn í 10-15 mínútur, þannig að hann mýkist vel og taki á sig smá lit. min_IMG_3966Bætið kjötinu aftur út í ásamt chilli og kryddum og steikið aðeins áfram. min_IMG_3967Setjið tómatpaste-ið saman við ásamt, kraftinum, tómötunum, hunangi og vatni og hleypið suðunni upp. min_IMG_3969Flysjið kartöflurnar á meðan suðan er að koma upp og bætið þeim svo út í. min_IMG_3974Leyfið súpunni að sjóða í 30 mínútur. Lækkið þá hitann, bætið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Mér þykir gott að hafa svona súpur dálítið þykkar svo ég stappaði aðeins kartöflurnar í súpunni með kartöflustappara, þannig að sumar voru í bitum og sumar vel stappaðar og þykkja þá súpuna. min_IMG_3978Leyfið súpunni að malla við vægan hita með loki í 2-4 tíma. Því lengur því betra. min_IMG_4004

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góð súpa, Góðar súpuuppskriftir, Gúllassúpa, Matarmikil súpa, Ódýr matur, Súpa fyrir veislur, Súpu uppskriftir

Sígildar Rice Krispies kökur

september 5, 2013 by helenagunnarsd 11 Comments

min_IMG_3940Það er varla haldin veisla eða mannfögnuður – að ég tali nú ekki um barnaafmæli í minni fjölskyldu, öðruvísi en boðið sé upp á hinar sívinsælu, gömlu og góðu Rice Krispies kökur. Það eru nú til ótal útgáfur af þessum dásamlegu molum en mér þykir þessi uppskrift mjög góð. Hún er einföld, passlega klístruð þannig að kökurnar loða vel saman og virkilega bragðgóð. Þetta er uppskrift sem þarf að mínu mati að vera til á öllum heimilum og svo er alveg upplagt að leyfa litlum fingrum að aðstoða við að hræra og setja molana í form með tveimur teskeiðum.

min_IMG_3944Sígildar Rice Krisipies kökur (20-25 stk):

  • 75 gr ósaltað smjör
  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 6 msk sýróp
  • 1/4 tsk gott sjávarsalt
  • 5 bollar Rice Krispies

min_IMG_3960Aðferð: Setjið allt í pott nema Rice krispies. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við hrærið vel þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Setjið í lítil form og kælið. Þessa uppskrift má líka nota til að gera t.d kökubotn, þá er blandan sett í kökumót eða fat, svo er hægt að þekja hana með banasneiðum, þeyttum rjóma og karamellusósu. min_IMG_3956

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Barnaafmæli hugmyndir, Góðar rice krispies, Rice krispies kökur, Veitingar í afmæli

Tómat- karrý kjúklingur

september 4, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_3934

Ég var svolítið tvístígandi að setja þessa uppskrift hingað inn. Ég get allavega seint kallað þetta mína uppskrift og ég veit svei mér þá ekki hvaða hugmyndin kemur. Ég fékk þennan rétt í fyrsta skipti í matarboði fyrir mörgum, mörgum árum og hann er svo góður að maður gleymir honum ekki. Það eiga því trúlega margir uppskriftina að þessum ótrúlega einfalda en hrikalega góða rétti. En ef ekki, þá er hún hér, á silfurfati með myndum, fyrir ykkur því ég veit fátt skemmtilegra en að gleðja ykkur með góðum uppskriftum! Það er nógu góð ástæða fyrir birtingu uppskriftarinnar að mínu mati. Svo finnst mér alveg ótrúlegt en gríðarlega skemmtilegt að segja frá því að þessi uppskrift er númer 100 á síðunni! Tíminn sannarlega flýgur þegar það er gaman 🙂 Nú, en að matnum, þeir sem eru sjóaðir í framandi matreiðslu, steytingu krydda, hafa skömm á tilbúnum sósum og vilja alltaf útbúa mat frá grunni ættu kannski að hætta að lesa núna. Uppskriftin er afar einföld, sérstaklega fljótleg en útkoman er eins og maður hafi staðið í eldhúsinu tímunum saman. Ungir jafnt sem aldnir sleikja sósuna af fingrunum svo góð er hún. Prófið þessa !

min_IMG_3919

Tómat karrý kjúklingabitar (fyrir 5):

  • 1 flaska Heinz chillisósa
  • 3 tsk gott karrý, t.d frá Pottagöldrum
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar og smá salt
  • 2 bakkar kjúklingabitar ca. 1.5 kg (t.d leggir og læri) eða einn heill kjúklingur hlutaður niður
  • 1 peli rjómi eða 2,5 dl góð kókosmjólk
  • Saxað fersk kóríander eða steinselja

min_IMG_3906Aðferð: Blandið saman chillisósu, karrý og pipar og hellið í stórt fat. Skolið kjúklingabitana, þerrið vel og skerið 2-3 djúpar rákir í hvern bita svo sósan fari vel inn í kjötið. Veltið bitunum upp úr sósunni og látið standa í 10-15 mínútur, stráið dálitlu sjávarsalti yfir bitana. Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Setjið kjúklingabitana í ofninn og bakið í 30 mínútur. Takið þá fatið út og hellið rjómanum eða kókosmjólkinni yfir og bakið í 30 mínútur til viðbótar. min_IMG_3915Stráið söxuðu kóríander eða steinselju yfir og berið fram með góðum hrísgrjónum og fersku salati. min_IMG_3929

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Fljótlegur matur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaleggi uppskrift, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingaréttur, Kjúklingur í tómat- karrý

Litríkt afmælis pastasalat með mildri chilli dressingu

september 2, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_3877Ágústmánuður er í miklu uppáhaldi hjá mér. Við Heimir giftum okkur í ágúst fyrir þremur árum, við fluttum í íbúðina okkar í ágúst fyrir fimm árum og svo eigum við mamma báðar afmæli í ágúst með tveggja daga millibili. Í minningunni var alltaf gott veður á afmælisdaginn minn í gamla daga. Jafnvel svo gott veður að í afmælisveislum var vel hægt að fara út í leiki í afmæliskjólnum og spariskóm. Þá var skólinn heldur ekki ennþá byrjaður þann 30. ágúst þegar ég á afmæli og nokkrir dásamlegir sumarfrísdagar ennþá eftir. Ég er handviss um að sumrin hafi verið lengri hérna áður fyrr.. og hlýrri og sólríkari, það bara getur ekki annað verið. Ég tek þó haustinu fagnandi og kann voða vel að meta ilminn af haustlaufunum og svo á litli 4 ára pjakkurinn okkar afmæli eftir nokkrar vikur sem hann minnir okkur á daglega.

Talandi um afmæli þá átti mamma afmæli í síðustu viku. Hún var með smá boð fyrir fjölskylduna og bað um pastasalat á hlaðborðið í afmælisgjöf frá mér. Þeirri bón var sannarlega ekki hægt að neita svo úr varð að ég útbjó handa henni þetta ljúffenga og litríka salat. Hlutföllin í svona salati eru nú ekki heilög og ég týndi í það svona það sem mér þykir best og hugsaði líka um að hafa litina í því sem fjölbreyttasta. Milda chilli dressingin setur algjörlega punktinn yfir i-ið. Mér finnst alveg stórsniðugt að bjóða upp á svona salat í veislum eða bara útbúa dálítið af því og eiga í ísskáp. Upplagt í nesti eða fljótlegan hádegis- eða kvöldmat.

min_IMG_3869Pastasalat (fyrir 8-10):

  • 700 gr. pasta t.d skrúfur og penne
  • 1 lítið brokkolíhöfuð
  • 1 gul paprika
  • 1 græn paprika
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5 vorlaukar
  • 1 búnt fersk steinselja
  • 1 bréf pepperoni eða sveita salami
  • 1 stykki Maríbó ostur, skorinn í litla teninga (ca. 350 gr)
  • 1 krukka svartar ólífur
  • 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
  • Salt og pipar

min_IMG_3874Aðferð: Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum. Hellið vatninu af og látið pastað kólna alveg og setjið í stóra skál eða ofnskúffu, allavega það stórt ílát að hægt sé að blanda öllu saman með góðu móti. Skerið, brokkolíið, papríkurnar, salami pylsuna og tómatana í frekar litla bita (svipaða á stærð og pastað). Saxið steinseljuna smátt, skerið ostinn í teninga, hellið vatninu af ólífunum en hafið þær heilar, skerið sólþurrkuðu tómatana í strimla og leyfið smá af olíunni að fara út í salatið. Blandið öllu vel saman og hellið að lokum dressingunni yfir salatið og blandið saman við. Skreytið með steinselju og tómatabátum.

min_IMG_3875Dressing:

  • 5 msk majónes
  • 2,5 dl ab mjólk eða hrein jógúrt
  • 2-3 tsk sambal oelek chilli mauk (eftir smekk)
  • 1/4 tsk salt
  • 2 tsk hunang
  • 2 tsk hvítvínsedik

Aðferð: Blandið öllu saman í skál og hrærið vel saman þar til silkimjúkt. Þynnið með smá mjólk ef ykkur finnst sósan of þykk. Smakkið til með salti og pipar. Hægt er að útbúa tvöfalda uppskrift af sósunni og hella helmingnum út á og bera helminginn fram með salatinu. min_IMG_3904

Filed Under: Eldhúsperlur

Bláberjasósa með vanillu

ágúst 29, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_3857Nú blánar yfir berjamó og ekki seinna vænna en að fara að huga að því hvað gera eigi við öll blessuðu berin sem við ætlum að týna í haust. Öll segi ég já, en ég veit nú reyndar ekki hversu öflug berjauppskeran verður þetta haustið. Okkar helstu berjastaðir lofa því miður ekki svo góðu, allavega verður uppskeran ekki eins og í fyrra. Það má þó vona og sannarlega týna það sem til er. Við erum svo heppin að eiga ansi öfluga berjatýnslumenn í innsta hring í fjölskyldunni sem hafa verið svo elskuleg að leyfa okkur að njóta afurðanna síðastliðin haust og gefið okkur helling af ljúffengum vestfirskum aðalbláberjum. Við erum því orðin ansi góðu vön og höfum búið svo vel að luma á aðalbláberjum í frystinum í allan vetur. Það var því með hálfgerðum trega á dögunum þegar ég kláraði berin úr síðasta frystipokanum með von í hjarta um að komandi haust yrði gott við okkur og gæfi okkur dálítið af bláberjum svona áður en þessi fáu frjósa.

Það var þó ekki leiðinlegt hlutverk sem síðustu berin fengu, en þau urðu að þessari dásamlegu bláberjasósu. Sósan er sannarlega fjölnota, ekki of sæt, með dásamlegum vanillukeim og mikið finnst mér skemmtilegt að gera eitthvað annað en sultu úr bláberjum svona til tilbreytingar. Sósan er sérstaklega ljúffeng með góðum vanilluís. Hana má líka nota út á grjóna- eða hafragrautinn, yfir gríska jógúrt eða skyr og eiginlega bara hvað sem manni dettur í hug. Ég bjó til dæmis til bláberja pavlovu um daginn þar sem ég hellti sósunni yfir þeytta rjómann og blandaði aðeins saman við, það kom virkilega vel út. Svo er nú líka voða sætt að setja sósuna í fallega krukku með lítilli slaufu og gefa einhverjum vel völdum.

min_IMG_3862Vanillu og bláberjasósa:

  • 3 bollar bláber (ég notaði frosin aðalbláber)
  • 1/2 bolli hrásykur
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1/2 bolli vatn
  • 1 vanillustöng

Aðferð: Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin innan úr henni. Setjið allt innihaldið ásamt vanillustönginni í pott og leyfið suðunni að koma upp. Lækkið þá hitann og leyfið sósunni að sjóða við vægan hita, samt þó þannig að ”bubbli” í vökvanum í um það bil 25 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað aðeins og vökinn minnkað um ca. 1/3. Ég hef hitann stilltan á 4 af 9 eftir suðan hefur komið upp. Hellið sósunni í krukkur og kælið. (Ef þið viljið ekki hafa berin saman við sósuna er gott að sigta hana gegnum frekar gróft sigti). Geymist í ísskáp í lokaðri krukku.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Aðalbláber uppskrift, Berja uppskrift, Berja uppskritftir, Bláberja uppskriftir, Bláberjasósa, Íssósa

Grillaður lax með himneskri marineringu

ágúst 27, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_3710Þessi grillaði lax sem ég var með um daginn fer beint á topp fimm yfir bestu fiskmáltíðir sem ég hef borðað. Ef ekki bara topp fimm máltíðir fyrr og síðar. Það gæti haft sitt að segja að laxinn var villtur og spriklandi ferskur, veiddur af pabba, flakaður af mömmu (ég er alveg glötuð í fiskflökun) og alveg passlega stór. Sumsé ekki of stór, mér þykja litlir laxar betri en stórir og ég þarf varla að taka það fram hvað villtur lax er miklu, miklu betri en eldislax. Marineringin er alveg stórgóð á fisk eins og lax sem þolir mikið bragð og ég mæli heilshugar og óhikað með því að þið prófið þessa marineringu og prófið að grilla lax með þessum hætti við fyrsta tækifæri. Ég er ekki frá því að marineringin myndi jafnvel virka glimrandi vel á eldislax. En notið endilega þennan villta ef þið komist yfir flak eða tvö!

min_IMG_3723Margir eru hræddir við að grilla lax beint á sjóðandi heitu grilli og eru að vesenast með einhverja grillbakka eða álpappírsvasa en það er algjör óþarfa hræðsla. Það er nauðsynlegt að hafa grillið rjúkandi heitt og leyfa laxinum að liggja óhreyfðum í 2-3 mínútur, snúa honum svo við með spaða og leyfa honum að klára að eldast á roðhliðinni í 2-3 mínútur í viðbót. Ég viðurkenni alveg að hann getur átt það til að festast aðeins við grillið en á meðan hann er á roðinu er engin hætta á að hann detti í sundur. Gott er að vera vopnaður góðum spaða og þá er ekkert mál að ná honum svo beint af roðinu sem verður eftir á grillinu og færa hann upp á fat. Það er líka algjört grundvallaratriði að ofelda ekki svona fiskmeti því þá er nú eiginlega ekkert varið í það lengur. Takið laxinn því af grillinu rétt áður en þið haldið að hann sé tilbúinn og leyfið honum að jafna sig á diski í 5-10 mínútur áður en hann er borinn fram.

min_IMG_3707Marinering:

  • 2 msk dijon sinnep
  • 1 msk hunang
  • 4 msk sojasósa
  • 6 msk ólífuolía
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • Lax – ég var með tvö frekar lítil flök og dugði marineringin vel á þau
  • Saxaður vorlaukur til að strá yfir að lokinni eldun

min_IMG_3708Aðferð: Breinhreinsið laxaflökin og skerið þau í passlega bita. Hrærið öllu innihaldinu í marineringuna saman og hellið helmingnum af marineringunni yfir laxinn. Látið standa í 10 mínútur og grillið svo á vel heitu grilli, fyrst á fiskhliðinni, snúið honum við eftir 2-3 mínútur og klárið að elda á roðhliðinni. Takið laxinn af roðinu og berið fram með restinni af marineringunni, söxuðum vorlauk og t.d einföldu fersku salati. min_IMG_3724

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð marinering, Grillaður fiskur, Grillaður lax, Lax uppskrift, LKL uppskrift, Marinering á fisk

Tagliatelle alla carbonara

ágúst 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3836Pasta hefur ekki verið á borðum hér á heimilinu í langan tíma. Það koma þó tímar þegar pasta er það eina sem virkar og virðist einhvernveginn vera það eina rétta í stöðunni. Svona tími var einmitt í gær. Það var rigning, laugardagskvöld, heimilisfólkið dálítið þreytt og eldhús nennan ekkert sérstaklega mikil. Maðurinn minn hefur alveg einstaklega einfaldan smekk þegar kemur að mat og lengi vel var pasta carbonara uppáhaldsmaturinn hans. Ég hef þó ekki eldað carbonara í mjög, mjög langan tíma, sennilega ekki í tvö eða þrjú ár. Enda hefur matarsmekkurinn breyst og maður og kona geta bara ekki borðað pasta í öll mál. Þetta var því dálítið nostalgískt endurkoma carbonara inn á heimilið. Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda þennan einfalda en stórgóða rétt.

min_IMG_3842Tagliatelle alla carbonara (fyrir 3-4):

  • 400 grömm tagliatelle eða spaghetti
  • 1 egg og 4 eggjarauður
  • 100 gr rifinn parmesan ostur
  • 1 dl rjómi
  • Beikon – 1 bréf, ca. 150-200gr, skorið í litla bita
  • 1/4 tsk múskat
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar (ég nota hvítan pipar í þennan rétt)
  • Handfylli fersk steinselja, söxuð

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn í stórum potti og setjið pastað útí. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum þar til pastað er al dente. Á meðan pastað sýður, hitið frekar stóra pönnu og steikið beikonið þar til það er stökkt. Hrærið eggið, eggjarauðurnar, rjómann, parmesan (skiljið smá eftir til að strá yfir í lokin), múskat og pipar saman í skál. Þegar pastað er tilbúið, takið þá einn bolla frá af pastavatninu og hellið vatninu svo af pastanu.

Slökkvið undir beikonpönnunni, hellið pastanu yfir beikonið og því næst eggjablöndunni. Passið að taka pönnuna af hitanum og blandið öllu vel saman. Þynnið sósuna með pastavatninu eftir smekk. Kryddið með salti ef þarf, nýmöluðum pipar og stráið yfir steinselju og meiri parmesan osti. Mér finnst ansi frískandi að bera réttinn fram með sítrónubátum og kreista smá yfir pastað, lyftir bragðinu upp á aðeins hærra plan. Njótið með góðu rauðvínsglasi og kertaljósi!min_IMG_3838

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Carbonara, Carbonara sósa, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, Ítalskur matur, Ódýr matur, Pasta carbonara, pasta uppskrift, Spaghetti carbonara

Dásamlegar morgunverðar múffur

ágúst 21, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_3756Það jafnast á við bestu hugleiðslu að vera ein heima á rigningardegi, kveikja á bakarofninum og eldhúskertinu, setja á sig svuntu, hlusta á lágt stillt útvarpið og dunda sér við bakstur. Þvílík kyrrð og ró sem færist yfir heimilið sem fullkomnast svo þegar ilmurinn af nýbökuðu góðgætinu fyllir húsið. Einhverjar notalegustu minningarnar sem ég á úr barnæsku eru frá rigningardögum þegar mamma bakaði. Þá bakaði hún alltaf inni í búri (þvottahúsi inn af eldhúsinu), því þar var hrærivélin, stærðarinnar Kenwood græja sem hafði svo hátt að það var ekki fræðilegur möguleiki að tala saman á meðan hún var í gangi. Loftpressa malar eins og kettlingur í samanburði við þetta tryllitæki. Mamma flýtti sér oft fram í eldhús og lokaði hurðinni inn í búr á meðan vélin hamaðist áfram og hávaðinn eftir því. Vélinni var þó skipt út fyrir mun hljóðlátari KitchenAid græju fyrir þó nokkuð mörgum árum. Talandi um hrærivélar, þá er alls ekki þörf á hrærivél við þennan bakstur. Þetta er eins einfalt og það gerist. Maður þarf meira að segja að passa sig að hræra alls ekki of mikið í svona múffu deigi. Illa hrærðar múffur eru nefnilega góðar múffur.

min_IMG_3752Þessar múffur eru í hollari kantinum, fullar af höfrum, hnetum, berjum og fleira góðgæti, og mætti vel grípa í eina eða tvær stað morgunverðar á annríkum morgni. Svo eru þær líka alveg einstaklega góðar á bragðið!

min_IMG_3741Morgunverðar múffur (12 múffur):

  • 2,5 dl grófmalað spelt eða heilhveiti
  • 2,5 dl grófir hafrar
  • 3 msk chia fræ eða önnur fræ
  • 100 gr valhnetukjarnar gróft muldir
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 2 bananar, gróft stappaðir
  • 1/2 dl olía
  • 2 dl ab mjólk
  • 2 tsk vanilluextract
  • 1 tsk rifinn sítrónubörkur
  • 1/2 dl hunang
  • 2 dl frosin bláber

min_IMG_3730Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Blandið saman í skál, speltinu, höfrum, chia fræjum, valhnetum, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annarri skál blandið saman stöppuðum bönunum, olíu, ab mjólk, vanillu, sítrónuberki og hunangi. Blandið svo þurrefnunum og blautu blöndunni afar gróflega saman með skeið, alls ekki hræra mikið. Blandið bláberjunum varlega saman við og setjið í 12 pappírsklædd múffuform. Bakið í 18-20 mínútur. Geymist í 2-3 daga en má vel frysta og taka út eftir þörfum.min_IMG_3735

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Banana muffins, eggjalaus bakstur, Grófar muffins, Hollar muffins, Hollur bakstur, Morgunverðar muffins, Muffins með bláberjum, Muffins með höfrum, Muffins uppskrift, Múffur uppskrift

Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku

ágúst 19, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_3659Kjúklingur er á mínu heimili, ansi oft á borðum og þykist ég vita að svo sé á mörgum öðrum heimilum. Það er eiginlega takmarkalaust hvað hægt að gera við kjúkling og sennilega þess vegna sem erfitt er að fá leið á honum – matreiðslu möguleikarnir eru nánast endalausir. Svo oft sem áður átti ég bakka af kjúklingabringum í ísskápnum en var eitthvað heldur óviss um hvað ég ætti eiginlega að búa til úr þeim. Langaði auðvitað (eins og næstum alltaf) að gera eitthvað nýtt. Bæði fyrir okkur og svo auðvitað fyrir bloggið. Það er svo gaman að elda góðan mat og dunda við að gera hann það góðan að hann verði hæfur til birtingar hér inni.

Eins og ég hef talað um áður er mamma mín ansi sniðug í eldhúsinu og ég þakka henni hér með fyrir hugmyndina að þessum kjúklingabollum sem eru hreint stórgóðar! Ég notaði í þær það sem ég átti enda ákvörðunin tekin í skyndi, sólþurrkaðir tómatar og paprikan gerðu þær alveg dásamlega bragðgóðar og eftir smá grúsk á netinu stóðst ég ekki mátið að pensla þær með svona tómat gljáa frá henni Berglindi sem heldur úti síðunni Gulur Rauður Grænn og Salt. Kom hreint ótrúlega vel út og verða þessar án efa gerðar marg oft í viðbót. Bollurnar er afar einfalt að gera, sérstaklega ef maður er vopnaður matvinnsluvél. Ég gæti vel ímyndað mér að sniðugt væri að gera enn minni bollur úr uppskriftinni og bera fram sem fingramat eða smárétt í veislum, gómsætt!

IMG_3654Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku:

  • 1 frekar lítil rauð paprika skorin gróft
  • 1 hvítlauksrif, marið
  • Handfylli fersk steinselja
  • 4-5 sólþurrkaðir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk (fer eftir því hvað þið vijið hafa þetta sterkt)
  • 800 grömm kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 3 msk rjómi eða mjólk
  • 3-4 msk góður brauðraspur
  • 1/2 tsk sjávarsalt og nýmalaður pipar

Tómatgljái:

  • 2 msk tómatpúrra,
  • 1 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • 2 msk ólífuolía

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður eða 180 með blæstri. Setjið paprikuna, hvítlauksrifið, sólþurrkuðu tómatana, sambal oelek, tómatpúrru og steinselju í matvinnsluvél. Maukið létt þar til blandan hefur samlagast vel og þið eruð með frekar grófa blöndu. Setjið kryddblönduna í skál.Skerið kjúklingabringurnar í grófa bita og maukið niður í matvinnsluvélinni þar til þið eruð komin með kjúklingahakk. Setjið kjúklingahakkið í skálina með kryddblöndunni, bætið salti, pipar, eggi, brauðraspi og mjólk eða rjóma út í og blandið vel saman.

Ef ykkur finnst blandan of blaut, bætið þá aðeins brauðraspi saman við, mjólk ef ykkur finnst blandan of þurr. Búið til bollur úr hakkinu og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Hrærið öllu innihaldinu í tómatgljáann saman, penslið ofan á bollurnar og bakið í um það bil 20 mínútur, bökunartími fer þó vissulega eftir stærð á bollunum. Berið fram t.d með salati, hrísgrjónum og kaldri jógúrtsósu.

IMG_3660

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fingramatur, Góðar kjúklingabollur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir fyrir veislur, Kjúklinga og grænmetisbollur, Kjúklingabollur, Kjúklingabollur uppskrift, Kjúklingabringur uppskrift, Smáréttur

Bestu vöfflur í heimi

ágúst 15, 2013 by helenagunnarsd 8 Comments

min_IMG_3629Mér finnst yfirleitt erfitt og svona eiginlega ekki hægt að kalla eitthvað best, svo að ég tali nú ekki um best í heimi. Allt fer þetta nú eftir smekk. Hafandi sagt það þá hef ég iðað í skinninu af spenningi yfir því að deila uppskriftinni að þessum vöfflum með ykkur. Gleymið öllum vöfflum sem þið hafið nokkurn tíman smakkað og gleymið sannarlega tilbúnu vöfflumixi úr pakka. Þetta eru bestu vöfflur sem ég hef smakkað og voru aðrir smakkarar algjörlega á sömu skoðun. Þær eru allt í senn léttar, mjúkar, loftkenndar og síðast en ekki síst stökkar að utan. Vöfflulaga englaský myndi einhver jafnvel kalla þær. Þær eru meira að segja ennþá góðar eftir að hafa kólnað og staðið á diski í 2-3 klukkutíma. Hvenær hafa vöfflur verið góðar eftir svoleiðis bið? Ég bara spyr.

min_IMG_3619Það eru nokkur leyndarmál að baki þessum himnesku vöfflum. Til dæmis að í þeim eru þeyttar eggjahvítur sem gera þær svo léttar, ekki mjólk heldur einungis ab mjólk (eða hrein jógúrt eða súrmjólk), maíssterkja auk hveitis og svo eru þær bragðbættar með örlitlum amaretto líkjör sem er sætur möndlulíkjör. Honum mætti þó vel sleppa og nota t.d vanilluextract í staðinn. Ég mæli þó eindregið með amaretto líkjörnum ef þið eigið hann til. Þessar verðið þið að prófa kæru vinir – strax í dag!

min_IMG_3641Bestu vöfflur í heimi (Örlítið breytt uppskrift frá Fifteen Spatulas):

Bollamálið sem ég nota er 2,4 dl:

  • 2 egg, rauða og hvíta aðskilin
  • 2 bollar ab mjólk, súrmjólk eða hrein jógúrt
  • 1/3 bolli bragðlítil matarolía
  • 1 msk amaretto líkjör (eða 2 tsk vanilluextract)
  • 1 1/2 bolli hveiti eða fínmalað spelt
  • 1/2 bolli maíssterkja/Maizena (í gulu pökkunum)
  • 3 tsk vanillusykur
  • 1 msk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 3 msk sykur

min_IMG_3605Aðferð: Byrjið á að hræra saman eggjarauðum, olíu, ab mjólk og amaretto líkjör. Sigtið hveitið, maíssterkjuna, vanillusykurinn og lyftiduftið út í og blandið saman við. Má vera aðeins kekkjótt, ekki hræra lengi.min_IMG_3607 Þeytið eggjahvíturnar með 3 msk af sykri þar til hvíturnar verða vel stífar (3-5 mínútur með rafmagnsþeytara).min_IMG_3606 Hrærið eggjahvítunum varlega saman við deigið með stórri skeið eða sleikju, gætið þess að slá ekki loftið úr eggjahvítunum. min_IMG_3610Hitið vöfflujárn og bakið vöfflurnar. Þær lyfta sér mjög vel svo passið að setja ekki of mikið deig í vöfflujárnið (ég setti t.d of mikið á þessum myndum – ekki gera eins og ég). min_IMG_3618min_IMG_3616Ef þið berið þær ekki strax fram leyfið þeim þá að kólna á grind svo ekki myndist raki undir þeim. Afgangs vöfflur er upplagt að frysta og skella í brauðristina þegar á að nota þær. Berið vöfflurnar fram með öllu því sem hugurinn girnist. Mér þykir best að hafa með þeim heimalagaða aðalbláberjasultu og þeyttan rjóma. Einfalt og dásamlegt.min_IMG_3647

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta vöffluuppskriftin, Bestu vöfflurnar, Góðar vöfflur, Kaffimeðlæti, Vöfflur, Vöfflur uppskrift

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 11
  • Page 12
  • Page 13
  • Page 14
  • Page 15
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme