• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Fljótlegur eftirréttur

Kornflex terta með bananarjóma og saltri karamellusósu

apríl 14, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

photo 4Nú þegar páskavika gengur í garð þykir mér afar viðeigandi að gefa hér uppskrift að þessum dásamlega og auðvelda eftirrétti sem er meira að segja bara pínu páskalegur ef maður fer út í það. Það má með sanni segja að undirrituð hafi ekki verið að finna upp hjólið í eldhúsinu þegar þessi ljúffenga terta var gerð. Að sama skapi er nokkuð ljóst að uppskriftir að tertunni má finna á mjög mörgum matarbloggum sem og hingað og þangað um veraldarvefinn. Ég ætla þó óhikað og kinnroðalaust að birta bæði myndir og uppskrift að minni útgáfu af þessari dásamlegu tertu því aldrei er góð vísa of oft kveðin. Tertan er ótrúlega vinsæl sem er alls ekki skrýtið því hún er bæði fljótleg og óskaplega góð. Ég nota svipaða uppskrift og ég er vön að nota í rice krispies kökurnar mínar en notaði kornflex í botninn í þetta skiptið. Mér þótti það koma enn betur út. Ofan á notaði ég svo ljúffenga karamellusósu með örlitlu góðu sjávarsalti. Það var auðvitað bara himneskt. Ég hvet ykkur til að vera óhrædd við að prófa að nota gott sjávarsalt með svona sætindum, það einfaldlega gerir bara gott betra. Ég nota alltaf saltið frá Saltverk. Bæði þykir mér það mjög bragðgott og svo er áferðin á því afar góð. Ein sneið af þessari dásemd slær líka út hvaða páskaeggi sem er..!photo 3Klístruð kornflex terta með bananarjóma og saltri karamellusósu:

  • Í botninn:
  • 75 gr smjör
  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 50 gr rjómasúkkulaði
  • 5 msk sýróp
  • 1/4 tsk gróft sjávarsalt
  •  4 1/2 bolli Kornflex eða Rice Krispies
  • Ofan á:
  • 2-3 bananar
  • 4 dl rjómi
  • 1 msk kakó
  • ca. 1 dl góð karamellusósa (t.d þessi hérna eða keypt úr búð)
  • 1/2 tsk gróft sjávarsalt

Aðferð: Setjið allt sem á að fara í botninn í pott nema Rice krispies/Kornflex. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við og hrærið vel saman með sleif eða sleikju þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Hellið blöndunni í fat eða kökuförm, þrýstið vel í botninn og kælið í ísskáp í 30 mínútur eða lengur. (Botninn geymist vel í nokkra daga undir plastfilmu í ísskáp og hann má einnig frysta). Sneiðið bananana niður og dreifið yfir botninn. Þeytið rjómann og dreifið svo úr honum yfir tertuna. Dustið kakóinu yfir í gegnum sigti og hellið karamellusósunni svo yfir. Myljið sjávarsaltið milli fingranna og dreifið yfir. Tertuna má bera fram strax eða geyma í ísskáp og bera fram síðar. Mér finnst gott að leyfa tertunni að standa í stofuhita í 20 mínútur áður en hún er skorin, þá mýkist botninn aðeins svo auðveldara verður að skera hann.  IMG_5431

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Auðveldur eftirréttur, Besti eftirrétturinn, Eftirréttur til að gera fyrirfram, Fljótlegur eftirréttur, Góðar rice krispies, Kaka sem má frysta, Kornflex kaka, Kornflex terta, Rice krispies kaka með rjóma og karamellusósu, Rice krispies terta

Semí fljótlegt semifreddo með marengs, jarðarberjum og Daimsúkkulaði

febrúar 28, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5121Einu sinni bjó ég til þetta semifreddo sem er nú varla frásögu færandi nema hvað að ég tók svo fáar og lélegar myndir af því að ég vildi eiginlega ekki setja það hingað inn. Í dag tók ég mig taki, girti í brók og ákvað að þetta væri einfaldlega of sniðug og semí fljótleg og skemmtileg uppskrift til að láta myndasnobb standa í vegi fyrir birtingu. Semifreddo er ítalskt orð og þýðir einfaldlega hálf kalt eða hálf frosið, þið hljótið að vera sammála mér að ítalska orðið sigrar íslensku þýðinguna í þetta skiptið og því held ég mig við það. Það eru til ótal útgáfur af þessum ljúffenga hálf frosna eftirrétti og er þessi útgáfa sem ég gerði bæði fljótleg og krefst ekki margra hráefna. Það er alveg nauðsynlegt að taka semifreddo úr frysti góðri klukkustund áður en það er borið fram, annars er það bara hart eins og gler. Svo má líka búa það til og frysta í um það bil 2-3 klukkustundir eða þar til það er rétt svo byrjað að frjósa og bera það svo fram. Eins og svo oft áður eru hlutföllin í þessum rétti ekki heilög og um að gera að nota það sem manni þykir best. Þetta er skemmtilegur og einfaldur eftirréttur sem hér um bil allir elska.

min_IMG_5118Semí fljótlegt semifreddo með marengs, jarðarberjum og Daimsúkkulaði:

  • 4 dl rjómi
  • 1 púðursykurs marengsbotn
  • 200 gr Daim súkkulaði, ég notaði Milka súkkulaði með Daim
  • 1 bakki jarðarber

Aðferð: Þeytið rjómann. Skerið jarðarberin í litla bita, saxið 150 gr af súkkulaðinu smátt og brjótið marengsinn í litla bita. Hrærið þessu saman við þeytta rjómann. Klæðið stórt formköku form eða hringlaga kökuform með plastfilmu þannig að filman nái vel yfir kantana. Hellið blöndunni í formið og lokið vel yfir með plastfilmu. Frystið í 6-8 tíma eða yfir nótt. Takið úr frysti 1 – 1 1/2 klst áður en borið ef fram. Hvolfið á disk og fjarlægið plastfilmuna. Saxið restina af súkkulaðinu smátt og dreifið yfir. Það er svo ekki úr vegi að bera þetta fram með heitri súkkulaðisósu.min_IMG_5117

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur eftirréttur, Semífreddó

Jólarjómaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum

desember 18, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4695Eitt það skemmtilegasta og jólalegasta sem ég gerir fyrir jólin er að búa til jólaísinn. Þegar ég var lítil og hékk í svuntufaldinum á mömmu þótti mér svo miklu skemmtilegra að hjálpa henni að gera ísinn heldur en að baka smákökur. Ég beið spennt eftir ískvöldinu og mér fannst alveg ömurlegt ef ég missti af því, sem gerðist reyndar afar, afar sjaldan. Mamma hrærði eggin og sykurinn inni í búri í hávaðasömustu Kenwood hrærivél sem sögur fara af og rjóminn var þeyttur frammi í eldhúsi á meðan. Svo komst friðurinn á aftur og þegar öllum hráefnunum var blandað rólega saman varð úr dásamleg ísblanda sem breyttist svo í besta ís sem til er. min_IMG_4691Ég geri alltaf okkar hefðbundna jólaís sem samanstendur af sjerríi, muldum makkarónukökum og súkkulaði. Í ár ákvað ég að gera líka nýja tegund eftir að hafa fengið á heilann að piparkökur og Baileys hlyti bara að passa saman eins og hönd í hanska. Sem það gerir. Ísinn er einstaklega góður, hann er svo góður að þið verðið að prófa. Trúið mér. Ég nota alltaf sömu grunnuppskrift í ís sem samanstendur af 6 eggjum, 6 matskeiðum af sykri og hálfum líter af rjóma. Þetta er uppskriftin sem mamma kenndi mér og góð kona kenndi henni. Hún er einföld og virkar alveg þrusu vel.

Jólaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum:

  • 6 egg
  • 6 msk sykur
  • 1/2 líter rjómi
  • 200 gr piparkökur
  • 2 plötur Pipp súkkulaði með Irish cream (eða 200 gr gott rjómasúkkulaði eða karamellufyllt súkkulaði)
  • 1/2 – 1 dl Baileys (eftir smekk ég notaði alveg 1 dl, vildi finna Baileys bragð)

min_IMG_4684Aðferð: Myljið piparkökurnar frekar fínt, allt í lagi að hafa smá bita. Saxið súkkulaðið og þeytið rjómann. Þeytið eggin og sykurinn í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til mjög ljós og hafa margfaldast að stærð. Þetta tekur um 5 -7 mínútur. Gætið þess að þeyta eggin vel annars skilur ísinn sig þegar hann frýs. min_IMG_4686Blandið rjómanum varlega saman við eggjablönduna með sleikju ásamt Baileys, súkkulaðinu og piparkökunum (takið smá frá af piparkökunum til að dreifa yfir í lokin). Hrærið hægt og rólega þar til allt hefur blandast saman. Ég mæli eindregið með að smakka blönduna á þessum tímapunkti og athuga hvort þið viljið meira Baileys. min_IMG_4689Hellið í box eða form og frystið. Það þarf ekki að hræra í ísnum á meðan hann er að frjósa, einn af kostum þess að nota áfengi í ís er að það myndast mun minni ískristallar í ísnum. Ég tek þó fram að ísinn myndi ég ekki gefa börnum, sérstaklega ekki ef þið notið allt Baileys-ið. ..Það er líka til nóg af öðru góðu handa þeim og allt í lagi að fullorðna fólkið fái stundum fullorðins nammi. Takið ísinn úr frysti 15-20 mínútum áður en þið berið hann fram og njótið út í ystu æsar. Það eru nú einu sinni jólin!min_IMG_4696

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: besti jólaísinn, einfaldur ís, Fljótlegur eftirréttur, góður eftirréttur, ís með Baileys, Jólaís, Jólaís uppskrift, rjómaís

Fimm mínútna súkkulaði- og perukaka

júlí 25, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

min_IMG_3366

Ég verð alveg ómöguleg ef ég næ ekki að setja hingað inn allavega eina uppskrift á viku. Það er alveg merkilegt hvað manni fer að þykja vænt um svona síðu og svo auðvitað fólkið sem kíkir inn á hverjum degi! 🙂 Það er alltaf leiðinlegt að kíkja á svona matarblogg og sjá ekki nýja uppskrift reglulega. En þessi uppskrift er alveg viðeigandi núna þar sem ég gef mér örlitla stund til að setjast niður við tölvuna og henda henni inn svona á milli sólbaða. Það tekur nefnilega bara örlitla stund að baka þessa köku. Skál og sleif, dósaopnari, bollamál, ein dós af perum og málið er dautt. Svona að mestu allavega. Það er alveg upplagt að skella sér inn í 5 mínútur í góða veðrinu og hræra í þessa köku til að bera fram með kaffinu eða sem eftirrétt. Það er svo alveg nauðsynlegt að bera hana fram volga með góðum vanilluís.min_IMG_3368

Fimm mínútna súkkulaðikaka með perum (Bollamálið sem ég nota er 2.4 dl – uppskriftin dugar vel sem eftirréttur fyrir 6 fullorðna):

  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 bolli sykur eða hrásykur
  • 1/2 bolli ósætt kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 stór egg
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (safinn og allt)
  • 50 gr. 70% súkkulaði brotið í litla bita

Aðferð: Blandið þurrefnunum saman í skál, bætið eggjunum út í ásamt safanum af perunum og hrærið saman þar til deigið er komið saman. Notið sleif eða písk, rafmagnsgræjur eru óþarfar, passið þó að hræra ekki of lengi, bara rétt þannig að deigið sé að mestu slétt. Hellið perunum í smurt eldfast mót, ég skar þær í tvennt en þær mega alveg vera heilar. Hellið deiginu yfir og stingið súkkulaðimolunum jafnt yfir kökuna. Bakið við 160 gráður með blæstri í 30 mínútur. Hitinn og baksturstími fer þó alltaf eftir ofnum. Berið kökuna fram heita með vanilluís eða rjóma.min_IMG_3367

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur eftirréttur, Kaka í eldföstu móti, Kaka með niðursoðnum perum, Súkkulaði og perukaka, Súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka með perum

Stingum af og grillum banana með After Eight súkkulaði

júní 26, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2722Það viðrar einkar vel til bananagrillunar núna. Þegar þetta er skrifað sit ég við kertaljós og raflýsingu í eldhúsinu mínu, klukkan tólf á hádegi og rigningin lemur gluggana. En það er aldrei ástæða til að örvænta því eins og maðurinn sagði, þá rignir aldrei það mikið að það stytti ekki upp aftur. Það er orðið ansi langt síðan ég grillaði þessa banana í eftirrétt hér heima einhvern góðviðrisdaginn snemma í vor, full eftirvæntingar eftir alvöru sumri, sól og tveggja stafa hitatölum. En svo fór sem fór. Grillaðir bananar standa samt alltaf fyrir sínu og það setur þá algjörlega á annað plan að fylla þá með After Eight súkkulaði og bera þá fram með örlitlum þeyttum rjóma, loka svo augunum og ímynda sér að maður sé í útilegu í blíðviðri.

min_IMG_2721Grillaðir bananar (fyrir þrjá):

  • 3 bananar
  • 9 After Eight súkkulaðiþynnur
  • 1,5 dl rjómi
  • Álpappír

min_IMG_2716Aðferð: Byrjið á að skera hýðið ofan af banananum og skerið svo djúpa rauf í bananann. Leggið bananann í álpappírshreiður þannig að hann geti staðið sjálfur án þess að detta. Brjótið After Eight súkkulaðið í tvennt og setjið þrjú stykki í hvern banana. Grillið við meðalháan hita í 10-15 mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðnað og bananinn hefur aðeins mýkst. Berið fram með þeyttum rjóma. min_IMG_2731

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: After Eight, Bananar og súkkulaði, Fljótlegur eftirréttur, Grillaðir bananar, Grillaðir eftirréttir

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme