• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Góður kjúklingaréttur

Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue

september 15, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4064Þessi réttur er í senn afskaplega fljótlegur í undirbúningi en alveg ómótstæðilega góður. Ég veit ekki með ykkur, en ég forðast dálítið að matbúa rétti sem krefjast þess að ég þurfi að ”pannera” hráefnið – semsagt velta því upp úr hveiti, eggi og raspi og síðan steikja upp úr feiti. Þó sundum sé vissuleg gaman að gera svoleiðis fínerí er það almennt ekki eitthvað sem ég kýs að gera þegar maturinn þarf að komast með hraði á borðið. Þessi réttur krefst þess ekki einu sinni af manni að panna sé dregin fram. Ég mæli með að nota góða skinku í fyllinguna og bragðmikinn ost. Uppáhalds harði osturinn minn þessa dagana er Óðalsostur – þykir hann alveg sérstaklega bragðgóður og svo bráðnar hann líka mjög vel. Ísbúi eða Sterkur Gouda gætu sömuleiðis komið sterkir inn. Mér þykja allavega þessir íslensku ostar alveg afbragðsgóðir og finnst alltaf gaman að prófa nýjar tegundir. Og nei þetta er ekki auglýsing – alveg satt, bara lýsing á því sem mér þykir best. Rétturinn er svona ekta matarboðs- eða helgarmatur sem má undirbúa með góðum fyrirvara og skella svo inn í ofn hálftíma áður en borðhald hefst og útkoman, alveg einstaklega gómsæt.

min_IMG_4053Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 4 góðar skinkusneiðar, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur
  • 8 sneiðar af góðum osti, t.d Óðalsosti eða öðrum góðum brauðosti
  • 4 msk dijon sinnep
  • 4 msk góður brauðraspur (ég nota panko)
  • 4 msk rifinn parmesan ostur
  • 1 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð: Byrjið á að skola og þerra kjúklingabringurnar vel. Leggið á skurðarbretti og kljúfið góðan vasa á hverja bringu. Leggið tvær ostsneiðar á hverja skinkusneið og rúllið skinkunni upp. Stingið osta og skinkurúllununum inni í kjúklingabringurnar, einni rúllu í hverja bringu.min_IMG_4039 Kryddið með salti og pipar og leggið í eldfast mót. Smyrjið einni matskeið af dijon sinnepi ofan á hverja bringu. min_IMG_4041Blandið saman brauðraspi, parmesan, steinselju og olíu og stráið jafnt yfir allar bringurnar, ca. 2 msk á hverja bringu. min_IMG_4047Bakið í ofni við 180 gráður í 35 mínútur, það fer þó eftir stærð og þykktinni á kjötinu svo fylgist með því. min_IMG_4050Berið fram með einföldu salati og njótið!min_IMG_4057

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Cordon Blue uppskrift, Fljótlegur matur, Fylltar kjúklingabringur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir að mat fyrir matarboð, Kjúklinga cordon blue, Kjúklingabringur uppskriftir

Tómat- karrý kjúklingur

september 4, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_3934

Ég var svolítið tvístígandi að setja þessa uppskrift hingað inn. Ég get allavega seint kallað þetta mína uppskrift og ég veit svei mér þá ekki hvaða hugmyndin kemur. Ég fékk þennan rétt í fyrsta skipti í matarboði fyrir mörgum, mörgum árum og hann er svo góður að maður gleymir honum ekki. Það eiga því trúlega margir uppskriftina að þessum ótrúlega einfalda en hrikalega góða rétti. En ef ekki, þá er hún hér, á silfurfati með myndum, fyrir ykkur því ég veit fátt skemmtilegra en að gleðja ykkur með góðum uppskriftum! Það er nógu góð ástæða fyrir birtingu uppskriftarinnar að mínu mati. Svo finnst mér alveg ótrúlegt en gríðarlega skemmtilegt að segja frá því að þessi uppskrift er númer 100 á síðunni! Tíminn sannarlega flýgur þegar það er gaman 🙂 Nú, en að matnum, þeir sem eru sjóaðir í framandi matreiðslu, steytingu krydda, hafa skömm á tilbúnum sósum og vilja alltaf útbúa mat frá grunni ættu kannski að hætta að lesa núna. Uppskriftin er afar einföld, sérstaklega fljótleg en útkoman er eins og maður hafi staðið í eldhúsinu tímunum saman. Ungir jafnt sem aldnir sleikja sósuna af fingrunum svo góð er hún. Prófið þessa !

min_IMG_3919

Tómat karrý kjúklingabitar (fyrir 5):

  • 1 flaska Heinz chillisósa
  • 3 tsk gott karrý, t.d frá Pottagöldrum
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar og smá salt
  • 2 bakkar kjúklingabitar ca. 1.5 kg (t.d leggir og læri) eða einn heill kjúklingur hlutaður niður
  • 1 peli rjómi eða 2,5 dl góð kókosmjólk
  • Saxað fersk kóríander eða steinselja

min_IMG_3906Aðferð: Blandið saman chillisósu, karrý og pipar og hellið í stórt fat. Skolið kjúklingabitana, þerrið vel og skerið 2-3 djúpar rákir í hvern bita svo sósan fari vel inn í kjötið. Veltið bitunum upp úr sósunni og látið standa í 10-15 mínútur, stráið dálitlu sjávarsalti yfir bitana. Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Setjið kjúklingabitana í ofninn og bakið í 30 mínútur. Takið þá fatið út og hellið rjómanum eða kókosmjólkinni yfir og bakið í 30 mínútur til viðbótar. min_IMG_3915Stráið söxuðu kóríander eða steinselju yfir og berið fram með góðum hrísgrjónum og fersku salati. min_IMG_3929

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Fljótlegur matur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaleggi uppskrift, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingaréttur, Kjúklingur í tómat- karrý

Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku

ágúst 19, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_3659Kjúklingur er á mínu heimili, ansi oft á borðum og þykist ég vita að svo sé á mörgum öðrum heimilum. Það er eiginlega takmarkalaust hvað hægt að gera við kjúkling og sennilega þess vegna sem erfitt er að fá leið á honum – matreiðslu möguleikarnir eru nánast endalausir. Svo oft sem áður átti ég bakka af kjúklingabringum í ísskápnum en var eitthvað heldur óviss um hvað ég ætti eiginlega að búa til úr þeim. Langaði auðvitað (eins og næstum alltaf) að gera eitthvað nýtt. Bæði fyrir okkur og svo auðvitað fyrir bloggið. Það er svo gaman að elda góðan mat og dunda við að gera hann það góðan að hann verði hæfur til birtingar hér inni.

Eins og ég hef talað um áður er mamma mín ansi sniðug í eldhúsinu og ég þakka henni hér með fyrir hugmyndina að þessum kjúklingabollum sem eru hreint stórgóðar! Ég notaði í þær það sem ég átti enda ákvörðunin tekin í skyndi, sólþurrkaðir tómatar og paprikan gerðu þær alveg dásamlega bragðgóðar og eftir smá grúsk á netinu stóðst ég ekki mátið að pensla þær með svona tómat gljáa frá henni Berglindi sem heldur úti síðunni Gulur Rauður Grænn og Salt. Kom hreint ótrúlega vel út og verða þessar án efa gerðar marg oft í viðbót. Bollurnar er afar einfalt að gera, sérstaklega ef maður er vopnaður matvinnsluvél. Ég gæti vel ímyndað mér að sniðugt væri að gera enn minni bollur úr uppskriftinni og bera fram sem fingramat eða smárétt í veislum, gómsætt!

IMG_3654Ofnbakaðar kjúklingabollur með sólþurrkuðum tómötum og papriku:

  • 1 frekar lítil rauð paprika skorin gróft
  • 1 hvítlauksrif, marið
  • Handfylli fersk steinselja
  • 4-5 sólþurrkaðir tómatar
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1-2 tsk sambal oelek chilimauk (fer eftir því hvað þið vijið hafa þetta sterkt)
  • 800 grömm kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 3 msk rjómi eða mjólk
  • 3-4 msk góður brauðraspur
  • 1/2 tsk sjávarsalt og nýmalaður pipar

Tómatgljái:

  • 2 msk tómatpúrra,
  • 1 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • 2 msk ólífuolía

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður eða 180 með blæstri. Setjið paprikuna, hvítlauksrifið, sólþurrkuðu tómatana, sambal oelek, tómatpúrru og steinselju í matvinnsluvél. Maukið létt þar til blandan hefur samlagast vel og þið eruð með frekar grófa blöndu. Setjið kryddblönduna í skál.Skerið kjúklingabringurnar í grófa bita og maukið niður í matvinnsluvélinni þar til þið eruð komin með kjúklingahakk. Setjið kjúklingahakkið í skálina með kryddblöndunni, bætið salti, pipar, eggi, brauðraspi og mjólk eða rjóma út í og blandið vel saman.

Ef ykkur finnst blandan of blaut, bætið þá aðeins brauðraspi saman við, mjólk ef ykkur finnst blandan of þurr. Búið til bollur úr hakkinu og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Hrærið öllu innihaldinu í tómatgljáann saman, penslið ofan á bollurnar og bakið í um það bil 20 mínútur, bökunartími fer þó vissulega eftir stærð á bollunum. Berið fram t.d með salati, hrísgrjónum og kaldri jógúrtsósu.

IMG_3660

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fingramatur, Góðar kjúklingabollur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir fyrir veislur, Kjúklinga og grænmetisbollur, Kjúklingabollur, Kjúklingabollur uppskrift, Kjúklingabringur uppskrift, Smáréttur

Estragon kjúklingur með mango chutney og dijon sinnepi

maí 29, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2686Í dag er stutt færsla og stutt uppskrift í stíl. Þrátt fyrir það er ég alveg ægilega spennt að deila þessari uppskrift með ykkur þar sem þetta er einhver besti kjúklingaréttur sem ég hef lengi smakkað. Svo er hann líka alveg einstaklega fljótlegur. Ætli það taki ekki um fimm mínútur að undirbúa hann og svo dansar hann bara alveg sjálfur í ofninum þar til hann er eldaður í gegn. Dijon sinnep er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef ósjaldan deilt hér uppskriftum með því þar sem ég nota það talsvert mikið í matargerð. Það koma reyndar oft svona tímabil hjá mér varðandi hvaða hráefni ég nota mest og svei mér þá ef það er ekki bara dijon sinnep tímabil núna. Þetta er eiginlega hálfgert leynivopn þegar kemur að matargerð og oft nóg að nota bara agnarlítið af góðu dijon sinnepi til að breyta miklu. Sósan með þessum rétti er alveg ofboðslega góð og ég mæli alveg með því að jafnvel tvöfalda magnið sem fer í hana, sérstaklega ef þið eruð með hrísgrjón með réttinum. Þið verðið að prófa þessa!

min_IMG_2687
Estragon kjúklingabringur með mango chutney og dijon sinnepi (fyrir 3):
  • 3 kjúklingabringur
  • 3 msk dijon sinnep
  • 3 msk sætt mango chutney
  • 1 msk rauðvínsedik (má sleppa eða nota t.d 1 msk sítrónusafa)
  • 1 tsk þurrkað estragon + aðeins meira til að strá yfir

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót. min_IMG_2675Hrærið saman sinnep, mango chutney, rauðvínsedik og estragon, hellið yfir bringurnar og veltið þeim upp úr sósunni. min_IMG_2676Stráið dálitlu af þurrkuðu estragoni yfir að lokum og bakið í 25 – 30 mínútur. min_IMG_2678Berið fram t.d með steiktu brokkolíi og hrísgrjónum. min_IMG_2681

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingur með dijon sinnepi, Kjúklingur með mango chutney

Timían kjúklingur með stökku beikoni og sveppum

maí 4, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2236Eftir að hafa haft aðeins of mikið að gera, já eins og ég talaði um síðast og já, ég ætla að tala um það aftur, fannst mér kominn tími til að elda eitthvað almennilegt. Sonur minn er enn einu sinni að hafa áhrif á það hvað er eldað á heimilinu. Hverjum hefði dottið í hug að fjögurra ára barni hefði dottið þessi réttur í hug? Nei allt í lagi, kannski ekki alveg í smáatriðum en engu að síður stakk þetta litla ljós upp á því við úfna móður sína í búðinni seinnipartinn þennan föstudag. ”Mamma eldum bara kjúklingabringur” Og það varð auðvitað úr. Alltaf hægt að gera eitthvað stórkostlega gott og skemmtilegt við það hráefni. Samt alveg merkilegt hvað það var mikill mánudagsfílingur í mér þennan föstudaginn.. sem sennilega er vegna þessara blessuðu kærkomnu frídaga í miðri viku. Skemmtilegur ruglingur á rútínu sem svoleiðis frídagar gefa manni.

Þessir réttur er virkilega bragðmikill og góður. Sveppir og beikon passa alltaf svo vel saman og bragðið af timían og sítrónu smellur alltaf. Klassísk samsetning. Virkilega gaman að bera réttinn fram á fallegu fati með stökku beikoninu stráðu yfir og saxaðri ferskri steinselju.

min_IMG_2235Timían kjúklingur með beikoni og sveppum (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 bakkar Flúðasveppir
  • 1 bréf beikon (lítið)
  • 2 dl hvítvín (má sleppa og nota meira kjúklingasoð)
  • Safi úr 1/2 – 1 sítrónu (fer eftir stærð, ég notaði bara 1/2)
  • 3 dl kjúklingasoð (vatn+kjúklingakraftur)
  • 3 msk rjómi
  • Salt, pipar og þurrkað eða ferskt timían
  • Smávegis af ferskri steinselju

Aðferð: Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt eftir endilöngu á þykktina og berjið þær svo með kjöthamri eða botni á potti þannig að þær þynnist aðeins. Kryddið með salti, pipar og timían. Skerið beikonið í litla bita og sveppina í frekar stóra bita. Hitið pönnu við háan hita og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Takið það af pönnunni og færið á eldhúspappír. Page_1Steikið því næst kjúklinginn þar til hann er nánast alveg fulleldaður. Takið hann þá af pönnunni og geymið á diski.Page_2 Hækkið hitann, setjið smá smjör eða olíu á pönnuna og steikið sveppina þar til þeir hafa brúnast vel. min_IMG_2230Kryddið með salti, pipar og timían. Þegar sveppirnir hafa brúnast vel. Hellið þá hvítvíni á pönnuna og leyfið því að sjóða aðeins niður, tekur ca. 1-2 mínútur. min_IMG_2231Bætið þá kjúklingasoðinu og sítrónusafanum á pönnuna ásamt rjómanum. Leyfið þessu að sjóða aðeins niður og smakkið til með salti og pipar. Leggið því næst kjúklinginn á pönnuna og látið hann hitna í gegn í sveppasósunni. Þegar kjúklingabringurnar eru heitar í gegn raðið þeim þá á fat og hellið sveppasósunni yfir. min_IMG_2237Stráið því næst stökku beikoninu og steinseljunni yfir og berið fram t.d með einföldu salati. min_IMG_2249

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldir kjúklingaréttir, Góðir kjúklingaréttir, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur með beikoni og sveppum, Kjúklingabringur með sveppum, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttir, Kjúklingur með beikoni

Grillaðar kryddlegnar kjúklingabringur og litríkt kúskús salat með pikkluðum vorlauk

mars 14, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

IMG_1448Lóan er komin. Hvort hún hafi orðið innligsa hérna í vetur og sé nýlega skriðin undan einhverjum skafli greyið eða hvort hún er nýkomin úr langflugi frá Afríku skiptir ekki öllu. Hún fannst og hún er mætt. Að ég tali nú ekki um blessaða dagsbirtuna sem varir nú langt fram yfir kvöldmatartíma! Hún er líka mætt. Þá er samkvæmt mínum bókum kominn tími til að draga út grillið. Þessi réttur er sannarlega ljúfur og vorlegur eins og vorboðinn ljúfi og bragðið af grilluðum marineruðum kjúklingabringunum og litríku kúskús salatinu smella saman. Pikklaður rauðlaukur er í miklu uppáhaldi hjá mér og ofsalega gott að nota hann út í svona salöt þar sem sterka lauk bragðið dofnar dálítið og laukurinn verður mjög gómsætur. Mæli sannarlega með því að elda þetta á einhverju komandi vorkvöldinu..

Kryddlegnar kjúklingabringur:

  • 3 meðalstórar kjúklingabringur, klofnar í tvennt svo úr verði tvö þunn stykki úr hverri bringu.
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 tsk cummin
  • 1 tsk kóríander
  • 1 tsk þurrkað óreganó
  • 1 tsk gróft sjávarsalt
  • 1/2 tsk svartur nýmaðalur pipar
  • Börkur af ca. hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang

IMG_1444Aðferð: Öllu blandað saman í skál og hellt yfir bringurnar og nuddað vel inn í þær. Látið marinerast við stofuhita í 30 mínútur. Ef kjúklingurinn á að marinerast lengur þarf hann að vera í ísskáp. Grillið kjúklingabringurnar í um það bil 7 mínútur á hvorri hlið. Varist að ofelda þar sem þetta eru frekar þunn stykki.

Á meðan kjúklingabringurnar eru að marinerast er upplagt að búa til kúskús salatið.

IMG_1415Kúskús salat með pikkluðum rauðlauk:

  • 3-4 dl hreint kúskús, kryddað með paprikudufti, cummin, kóríander og sjávarsalti. Ca. 1 tsk af hverju. Kúskúsið svo eldað skv. leiðbeiningum á pakkanum.
  • 1 lítill rauðlaukur skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar.
  • 3 msk hvítvínsedik eða annað hvítt edik og örlítið salt
  • 8-10 þurrkaðar apríkósur
  • 1 lítill poki furuhnetur, ristaðar
  • 1/2 krukka hreinn fetaostur í vatni
  • 1/2-1 sítróna, safinn kreistur úr (fer eftir stærð, sítrónur eru mjög misjafnar)
  • 1 avocado skorið í teninga
  • 1 mangó skorið í teninga

IMG_1426Aðferð: Byrjið á að undirbúa pikklaða rauðlaukinn. Setjið þunnt skorinn laukinn í skál og hellið edikinu yfir ásamt smá salti. Leyfið þessu að liggja í ca. 30 mínútur og hrærið í lauknum af og til. Hann á að breyta aðeins um lit, verður eiginlega skærbleikur og aðeins mýkri.IMG_1417Kúskúsið er svo undirbúið, kryddað og eldað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Þá er að rista furuhneturnar, skera apríkósurnar, avocadoið og mangóið í litla bita og hella vökvanum af fetaostinum. Smakkið kúskúsið til með sítrónusafanum og kannski smá meira salti. Svo er öllu blandað saman og mangóinu og avocadoinu dreift yfir að lokum.IMG_1434Ég bar þetta fram með léttri jógúrtsósu sem passaði mjög vel við þetta. Hrærði saman sýrðan rjóma og ab mjólk til helminga. Kryddaði til með salti, pipar, cummin, orageno og örlitlu hunangi.IMG_1458

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Grillaðar kjúklingabringur, Kjúklingabringur uppskrift, Kúskús salar, Kúskús salat, Léttur kjúklingaréttur, Marinering á kjúklingabringur

Kjúklingalæri með hunangs- sítrónu- og sinneps gljáa

mars 3, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1160Ég hef verið áskrifandi að tímaritinu Good Food í nokkur ár og haft mikið gaman að. Þetta tímarit er gefið út af BBC og hefur sannarlega afsannað þá kenningu að bretar séu lélegir kokkar. Ég ákvað þó núna um áramótin að hætta áskrift að blaðinu þar sem mér fannst uppskriftirnar orðnar heldur einsleitar og ég var bara eiginlega komin með leið á þessu blaði. Ég leita því núna logandi ljósum að nýju tímariti til að gerast áskrifandi að, því þó það sé gaman að fara út í bókabúð og velja sér matar tímarit jafnast ekkert á við að fá eitt brakandi nýtt sent í pósti einu sinni í mánuði. Það er auk þess ódýrara en að kaupa sér blað mánaðarlega. Ég er að hugsa um að gerast áskrifandi að einu uppáhalds tímaritinu mínu Bon Appetit, ætli ég láti ekki bara slag standa..

Ég var sumsé að fletta í gegnum gömul Good Food tímarit um helgina og rakst oftar en einu sinni á einhverskonar hunangs- sinneps- sítrónu ofnbakaða kjúklingabita. Það varð því úr að ég varð að elda eitthvað slíkt í kvöldmat á þessu bjarta og fallega sunnudagskvöldi. Rétturinn var alveg frábær og bragðið unaðslegt. Virkilega góður og fljótlegur réttur sem ég bar fram með grófri kartöflumús og góðu grænu salati.

Uppskrift:

  • 8 kjúklingalæri
  • 2 msk ólífuolía
  • 3 msk grófkorna sinnep
  • 2 msk hunang
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt (ca. 1 tsk gróft sjávarsalt) og piparIMG_1138

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Byrjið á að snyrta kjúklingalærin og skera frá umfram fitu. Setjið lærin í rennilása plastpoka. Setjið olíu, sinnep og hunang í skál. Rífið börkinn af 1/2 sítrónunni og kreistið allann safann úr henni út í skálina. Rífið hvítlauksrifið eða smátt saxið það saman við. Kryddið með salti og pipar. Hellið helmingnum af marineringunni yfir lærin í pokanum og veltið þeim vel upp úr vökvanum. Leyfið að standa við stofuhita í um 15 mínútur.

IMG_1140Hellið kjúklingalærunum í eldfast mót og látið skinn hliðina snúa niður. Setjið inn í ofn í 10 mínútur. Takið þá úr ofninum og snúið lærunum við. Hellið restinni af marineringunni yfir kjúklinginn og bakið í 20 mínútur til viðbótar. Ef til vill má auka hitann í 220 gráður undir lokin til að fá stökka húð á kjúklinginn. IMG_1166Berið fram með kartöflumús, salati og umfram sósunni sem kemur af kjúklingnum og marineringunni.. Þetta var alveg ofboðslega gott !

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótleg kjúklingauppskrift, Góður kjúklingaréttur, Hunangs kjúklingur, Kjúklingalæri uppskrift

Rómverskur kjúklingaréttur með hráskinku

febrúar 5, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0542Ég tek eftir því þegar ég renni gegnum uppskriftirnar hér inni að oftar en ekki innihalda þær tómata, í einhverskonar formi. Þetta fer næstum því að vera vandræðalegt hversu mikið ég nota þá, bæði ferska og eins niðursoðna. En vitið þið ekki hvað tómatar eru hollir? (þetta er samt ekki neitt sérstakt heilsumatarblogg, höfum það alveg á hreinu) Fyrir utan það hvað þeir eru góðir. Eða það finnst mér að minnsta kosti og fjölskyldunni greinilega líka. Ég á alltaf til tómata, það er eitt af því sem ég verð alltaf að eiga. Ég ætla þó að reyna að koma líka einhverntímann inn með uppskriftir sem innihalda ekki tómata.. sjáum hvernig það tekst til.

IMG_0545Þessi uppskrift inniheldur líka tómata. Jú jú, og það eina krukku af góðum niðursoðnum lífrænum tómötum. Það er líka hægt að nota dósatómata í staðin og hefur mér reynst vel að kaupa niðursoðnu Euroshopper tómatana, finnast þeir oftast mjög rauðir og góðir enda koma þeir beint frá Ítalíu og innihalda fremur lítið af aukaefnum eins og sykri og salti. En ef ég er að bruðla vel ég alltaf þessa lífrænu í glerkrukkunum. Þeir eru voða góðir. Kjúklingarétturinn bragðaðist afar vel og var vel af honum látið af öllum fjölskyldumeðlimum. Sósan er bragðmikil og hráskinkan og capersið gefa réttinum einstaklega gott bragð.

IMG_0535Rómverskur kjúklingur (fyrir 4):

  • 4 Kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 1 gul paprika
  • 1 bréf hráskinka (5-6 sneiðar)
  • 2 dl hvítvín (má sleppa og nota vatn í staðin)
  • 1 krukka hakkaðir tómatar, eða 1 dós + 2 dl vatn
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 2-3 msk capers
  • Ólífuolía, salt og pipar og smávegis söxuð steinselja eða basil

Aðferð:

Ofn hitaður í 180 gráður. Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina þannig að úr einni bringu verða tvö frekar þunn stykki. Saltið og piprið bringurnar vel og brúnið á vel heitri pönnu á báðum hliðum. Takið bringurnar af og raðið í eldfast mót. Skerið paprikurnar í þunna strimla og hráskinkuna sömuleiðis. Steikið við frekar háan hita þar til skinkan verður stökk. Þá er víninu (eða vatni) hellt yfir og pannan skröpuð með spaða eða sleifinni svo allt losni af botninum. Soðið niður í um 1 mínútu.

Þá er tómötunum hellt yfir og krukkan svo skoluð að innan með ca. 2 dl af vatni og hellt yfir. Kryddað með pipar og kjúklingakraftinum og leyft að sjóða í 2-3 mínútur, passið að setja ekki of mikið salt þar sem skinkan er ansi sölt. Þá er sósunni hellt yfir bringurnar í eldfasta mótinu og capers að lokum stráð yfir. Bakað í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Stráið svo saxaðri steinselju yfir réttinn og berið fram með nýbökuðu brauði og sítrónubátum. Það væri sennilega líka gott að hafa hrísgrjón með réttinum þar sem sósan er bragðmikil og góð. Mér finnst hins vegar brauð oft passa betur með svona ítölskum sósum.IMG_0550

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur með capers, Kjúklingabringur með hráskinku, Kjúklingabringur uppskrift, Ofnbakaðar kjúklingabringur, Ofnbakaður kjúklingaréttur

Bóndadags kjúklingur í ólífu og bjórsósu með ofnbökuðum rósmarínkartöflum

janúar 24, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_0327Eins og svo margir sennilega, erum við Heimir miklir nautnaseggir, það er alveg óþarfi að fara leynt með það. Okkur finnst fátt betra á heitum sumardögum en að fá okkur ískaldan bjór og gæða okkur á grænum ólífum með. Það er svona ekta Spánarstemning. Ólífur og bjór er samsetning sem klikkar seint. Þ.e.a.s ef manni finnast ólífur góðar og drekkur bjór. Og þó, ég er ekki einu sinni viss um að manni þurfi að finnast þessir hlutir góðir í sitthvoru lagi til að finnast þessi samsetning góð.

Eftir þessar bjór og ólífupælingar mínar ákvað ég því að taka bóndadaginn snemma í ár og mallaði þennan dásamlega góða kjúklingarétt sem samanstendur, jú einmitt, að miklu leyti af ólífum og bjór. Þessi réttur er án efa á topp 5 listanum okkar yfir gómsæta kjúklingarétti, ef ekki bara í efsta sæti. Það er alls ekki bjórbragð af sósunni en bjórinn gefur alveg ofsalega gott bakgrunnsbragð. Ég notaði kjúklingalæri í þennann rétt því það er svo gott að leyfa honum að malla lengi og ég er ekki viss um að bringur myndu þola svoleiðis meðferð jafn vel og lærin. Auk þess eru lærin bæði ódýr og einstaklega ljúffeng í svona rétti og ég ætla ekkert að réttlæta þetta læraval mitt neitt frekar, þetta var rétt ákvörðun!

Það er mjög gott að bera þennann rétt fram með þessum rósmarínkartöflubátum en vegna þess að sósan er svo góð er áreiðanlega ekki síðra að bera réttinn fram með brauði til að moppa sósuna upp með 🙂

Rósmarínkartöflur:

  • 3 bökunarkartöflur
  • Salt, pipar, rósmarín og ólífuolía

IMG_0318

Aðferð:

Kartöflurnar skornar í frekar þunna báta. Settar á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Ólífuolíu hellt yfir og kryddaðar með salt, pipar og rósmarín. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 40 mínútur. (Ég byrjaði á að gera kartöflurnar og setti kjúklinginn svo inn í ofn með kartöflunum þegar þær höfðu verið í 10 mínútur í ofninum. Þá er allt tilbúið á sama tíma)

Kjúklingur í ólífu- og bjórsósu (fyrir 3 – 4):

  • 5 kjúklingalæri
  • 1 laukur, frekar smátt saxaður
  • 1 krukka hakkaðir tómatar (ég nota frá Sollu, finnst þeir langbestir)
  • 1 lítill bjór (tæpur, það má taka frá svona 2-3 sopa)
  • 1 lítil krukka grænar fylltar ólívur
  • 1 dl rjómi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 3 litlir vorlaukar, smátt saxaðir.

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Byrjið á því að snyrta kjúklingalærin vel og þerra þau með pappír. Ég sker alltaf vel af fitunni frá sem er ”aftaná” lærinu. Hitið pönnu og setjið örlítið af olíu eða smjöri á hana. Saltið og piprið kjúklinginn vel og brúnið á pönnunni á báðum hliðum. Takið kjúklinginn af pönnunni og geymið á diski. Ef mikil fita hefur farið af kjúklingnum á pönnuna er gott að hella aðeins af henni. Laukurinn er svo steiktur á sömu pönnu þar til hann mýkist aðeins. Því næst er tómötunum, bjórnum, kjúklingateningnum og ólívunum hellt út á. Leyft að malla aðeins og sjóða niður í ca. 5 mínútur á góðum hita og smakkað til með salt og pipar. Kjúklingalærin eru svo sett út í sósuna og rjómanum hellt yfir.

Ég setti pönnuna svo inn í 200 gráðu heitan ofn og leyfði þessu að malla þar í 30 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn má einfaldlega hella sósunni í eldfast mót og raða kjúklingalærunum svo þar ofan á og svo inn í ofn. Þegar rétturinn er tekinn úr ofninum er vorlauknum stráð yfir. Þetta er svo að sjálfsögðu borið fram með ísköldum bjór.IMG_0328

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bjórsósa, Góður kjúklingaréttur, Kartöflubátar, Kjúklingalæri, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingur í bjórsósu, Ofnbakaðir kartöflubátar, Ofnbakaður kjúklingur, Ólífur, Rósmarín

Kjúklingaréttur Bangsímons

janúar 10, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1614Þegar maður er fjögurra ára og vill kannski ekki alltaf borða hvað sem er hljómar allt betur ef það heitir eftir teiknimyndafígúrum. Við höfum eldað Spiderman fisk, Ironman súpu, Batman pönnukökur og súperman eitthvað sem ég man ekki hvað var í augnablikinu. Bangsímon kjúklingurinn á sér þó lengsta sögu og dregur nafn sitt af því að í sósunni er uppáhaldið hans Bangsímons, jú einmitt hunang. Þessi réttur er mjög fljótlegur og alveg sérstaklega bragðgóður, sósuna væri sennilega hægt að drekka með röri svo ljúffeng er hún. Ég geri reyndar stundum spari útgáfu af þessum rétti og skelli smá hvítvíni út í sósuna sem ég læt sjóða í spað svo allt áfengi gufar upp, því ekki viljum við að Bangsímon og félagar finni á sér. En það má vel sleppa hvítvíninu og nota bara vatn eða t.d eplasafa í staðinn. Hef prófað eplasafann og það kom bara skrambi vel út.

IMG_1620Kjúklingur í hunangs- sinnepssósu (Bangsímon kjúklingur) – Fyrir 3-4

  • 3 kjúklingabringur, skornar í tvennt og þynntar með kjöthamri eða botni á pönnu.
  • 2 skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 1 glas hvítvín (2,5 dl) eða vatn, eða eplasafi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1 msk grófkorna sinnep
  • 1 tsk hunang
  • 1 peli rjómi
  • Salt, pipar og steinselja til skrauts.

Aðferð:

Kjúklingabringur kryddaðar með salti og pipar og brúnaðar á báðum hliðum á vel heitri pönnu. Teknar af pönnunni og settar til hliðar. (Var að fjárfesta í svona ægilega fínni pottjárnspönnu og hef aldrei náð að brúna kjöt jafn vel eins og á henni. Pantaði hana frá USA og kostaði hún lítinn 5000kall, með tollum og sendingarkostnaði. Fann sambærilegar pönnur hér heima en þær kostuðu allar frá 23.000. Mæli eindregið með að nota svona góða pönnu, hitnar mjög jafnt og vel..)
IMG_1600Smá smjörklípa eða olía sett á pönnuna og skallottulaukurinn steiktur í um 1 mínútu.
IMG_1602Þá er hvítvíninu hellt á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Tekur 2-3 mínútur.
IMG_1604IMG_1606Hunanginu, sinnepinu og rjómanum hellt saman við og kjúklingabringurnar settar aftur á pönnuna, látið malla í 10 mínútur þar til  kjúklingurinn er tibúinn.
IMG_1607Stráið steinseljunni yfir. Ég bar þetta fram með kartöflumús og hvítvínsglasi. Ekta þægindamatur 🙂IMG_1615IMG_1629

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur uppskrift, Kjúklingur með hunangs sinnepssósu, Kjúklingur uppskrift

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Page 2

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme