Haustið er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir utan það hvað allt verður fallegt í haustlitunum, loftið svo tært og veðrið einhvernveginn oft svo gott, þá minnir haustið mig á merkilegasta atburðinn í mínu lífi, þegar sonur minn kom í heiminn.. og ég verð alltaf pínulítið meyr en samt svo glöð. Október 2008 er kannski ekki sá tími sem margir tengja við gleði. En það gerum við. Í byrjun október 2008 þegar hálf þjóðin var á barmi taugaáfalls eignuðumst við okkar yndislega sólargeisla. Við vissum varla hvað var að gerast utan veggja spítalans og ekkert í heiminum skipti meira máli en þetta litla yndislega barn sem við fengum í hendurnar. Dagarnir og vikurnar eftir fæðinguna fóru svo í allt annað en að fylgjast með fréttum eða hafa áhyggjur af vöruskorti. Hann hefði ekki getað komið til okkar á betri tíma og hann kenndi okkur líka hvað það er sem skiptir máli í lífinu, svona þegar öllu er á botninn hvolft.
Talandi um botna, þá er það einnig óumflýjanlegur og skemmtilegur fylgifiskur þessa árstíma að halda upp á afmæli. Við vorum með agnarlítið og snemmbúið afmælisboð/mat á dögunum þar sem við buðum upp á súpu, brauð og eftirrétti. Ég eldaði þessa gúllassúpu sem er heldur betur að slá í gegn hjá fjölskyldunni. Með henni bar ég fram kotasælubollur og álegg. Í eftirrétt bar ég svo fram eina væna marengsbombu ásamt þessari tertu sem ég ætla að gefa uppskrift af hér. Þetta er svona eiginlega Tert-an í fjölskyldunni með stóru T-i. Ég hef ekki tölu á því hversu oft mamma hefur vippað fram svona tertu. Allavega mjög oft og við hin ýmsustu tækifæri. Hún er alltaf jafn vinsæl og alltaf jafn ótrúlega, óviðjafnanlega góð. Nú, ég bjó til extra stóra þriggja hæða tertu þar sem ég var með marga munna að metta en vildi ekki búa til tvær tertur, það hefði verið of mikið. Ef þið viljið gera þrjá botna úr uppskriftinni margfaldið þið einfaldlega uppskriftina með 1.5 og bakið þrjá botna og þeytið aðeins meiri rjóma. Einfalt.
- 4 egg
- 200 gr púðursykur
- 200 gr döðlur
- 100 gr saxað súkkulaði eða súkkulaðidropar
- 125 gr hveiti eða fínmalað spelt
Aðferð: Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Tvö hringlaga form smurð vel og bökunarpappír settur í botninn. Döðlur og súkkulaði smátt saxað og ca. 1 tsk af hveitinu blandað saman við.Egg og púðursykur þeytt vel þar til ljóst og létt. Hveiti blandað varlega saman við með sleif og því næst döðlunum og súkkulaðinu. Hellt í tvö form og bakað í 15-20 mínútur. Kælt aðeins, svo losað úr formunum og svo kælt alveg.
Á milli:
- 4 dl rjómi
- 1 stór dós jarðarber
Leggið annan botninn á kökudisk. Opnið jarðarberjadósina og hellið 4-5 msk af safanum jafnt yfir báða botnana. Hellið jarðarberjunum í sigti og stappið þau gróflega með gaffli. Þeytið rjómann og blandið jarðarberjunum svo saman við. Dreifið jarðarberjarjómanum jafnt yfir neðri botninn og leggið hinn botninn yfir.
Ofan á:
- 150 gr suðusúkkulaði
- 2 msk smjör
- 2 msk rjómi
- 1 msk sýróp
Aðferð: Bræðið allt saman í potti við vægan hita. Kælið aðeins og hellið svo yfir. Dreifið úr kreminu þannig að það leki aðeins niður hliðarnar á tertunni. Geymið tertuna í ísskáp í a.m.k 2-3 klst áður en hún er borin fram. Leyfið henni svo að standa við stofuhita í ca. 30 mínútur áður en hún er skorin.