• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Dökkar súkkulaði og piparmyntu smákökur

nóvember 17, 2018 by helenagunnarsd Leave a Comment

Mér þykir alltaf gaman að prófa að minnsta kosti eina nýja smáköku uppskrift fyrir aðventuna og hafði haft augastað á súkkulaði piparmyntukökum lengi. Þegar ég rakst á þessar kökur hjá Jessie Seinfeld (mæli með blogginu hennar og bókinni!) þá var ekki aftur snúið. Þetta eru ótrúlega einfaldar og ljúffengar kökur, ég breytti uppskriftinni örlítið frá hinni upprunalega, stækkaði hana og bætti við dökku Pipp súkkulaði með myntufyllingu. Jessie setur piparmyntu extract (sem er bara sama og piparmyntudropar) í sína uppskrift. Ég sleppti þeim því mér fannst koma nógu mikið myntubragð af Pipp súkkulaðinu. Eins finnst mér piparmyntuextract einstaklega vand með farið hráefni í bakstri því það þarf ótrúlega lítið að sullast aukalega út í deigið til að kökurnar bragðist eins og tannkrem.. Ekki svo gott kannski. En ef þið eruð mikið fyrir afgerandi myntubragð mætti eflaust alveg bæta eins og 1/4 tsk af piparmyntudropum til viðbótar í deigið.

Ég mæli að sjálfsögðu með þessum kökum. Þær hafa allavega fest sig í sessi á mínum smákökulista! Uppskriftin er talsvert stór, en úr henni ættu að fást alveg um 40 vænar kökur. Hana mætti auðveldlega helminga. Deigið geymist vel í ísskáp í 2-3 daga. Eins má pakka því vel inn í plast og frysta það og baka jafn óðum. Þannig eru kökurnar líka langbestar, nýbakaðar.

Dökkar súkkulaði og piparmyntu smákökur

  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 120 gr smjör, brætt
  • 2,5 dl kakó (ég mæli með Konsúm kakóinu frá Nóa Siríus)
  • 3 dl púðursykur
  • 2 dl sykur
  • 4 egg
  • 1/4 tsk piparmyntudropar (má sleppa og nota í staðin piparmyntusúkkulaði)
  • 200 gr dökkt piparmyntusúkkulaði, t.d. Pipp
  • Flórsykur (til að velta kökunum upp úr fyrir bakstur)

Aðferð:

  1. Hrærið saman í skál, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti og setjið til hliðar.
  2. Blandið saman kakói, púðursykri og sykri.
  3. Bræðið smjörið og hellið saman við sykurblönduna, pískið vel saman.
  4. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli.
  5. Brjótið súkkulaðið út í deigið og hrærið aðeins.
  6. Setjið hveitiblönduna saman við og blandið vel saman (ég kýs að hafa súkkulaðibitana stóra í deiginu, ef þið viljið getið þið líka saxað þá fyrst gróft og sett svo út í. Ég læt hrærivélina um að brjóta þá saman við deigið, þá verða sumir stórir og aðrir minni).
  7. Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskáp í a.m.k. eina klst fyrir bakstur. Fínt að geyma það yfir nótt.
  8. Hitið ofn í 180 gráður. Takið deigið með matskeið, rúllið í kúlu milli lófanna og veltið ríkulega upp úr flórsykri. Athugið að deigið er frekar klístrað og best að meðhöndla það beint úr ísskáp.
  9. Leggið á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í 10 mínútur. Kökurnar eiga að vera svolítið seigar í miðjunni.
  10. Leyfið að kólna aðeins á plötunni áður en þið takið þær af. 

Filed Under: Eldhúsperlur

Sumar humar taco!

júlí 17, 2018 by helenagunnarsd Leave a Comment

Ég setti myndir af humar taco sem ég gerði á instagram um daginn og hef sjaldan eða aldrei fengið jafn margar fyrirspurnir um uppskrift. Svo hér er hún komin! Ég mæli af öllu hjarta að þið prófið og athugið að það er auðveldlega hægt að skipta humrinum út fyrir risarækjur, það er alls ekki síðra. Og fyrir kóríander hatarana þarna úti (þið vitið hver þið eruð) þá er leikandi hægt að sleppa því og nota t.d. steinselju eða jafnvel ferskt basil í staðin. Uppskriftin er ríflega áætluð fyrir tvo til þrjá sem aðalréttur. Þó að uppskriftin virðist löng lofa ég að hún er ekki flókin og inniheldur ekki flókin hráefni. Nokkur skref sem eru svo sannarlega þess virði fyrir þessar ljúffengu tacovefjur!

Humar taco

Humarinn:

  • 12-15 meðalstórir humarhalar, skelflettir og hreinsaðir
  • 2 tsk chillimauk úr krukku, t.d. Sambal oelek eða annað
  • Salt og pipar (ég nota alltaf flögusalt frá Saltverk)
  • 3 msk smjör

Pikklaður rauðlaukur:

  • 1 rauðlaukur, skorinn í tvennt og svo þunnar sneiðar
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk sykur

Hrásalat:

  • 1/2 lítið rauðkálshöfuð, rifið niður eða skorið mjög fínt
  • 2 msk smátt saxað ferskt kóríander
  • 2 msk majónes
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 tsk chilllimauk
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt

Límónu sósa:

  • 4 msk sýrður rjómi
  • 2 msk majónes
  • Safi og rifinn börkur af hálfri límónu
  • Salt eftir smekk

Lárperu salsa:

  • 1 stór lárpera eða 2 minni, skorið smátt
  • 2 tómatar, skornir smátt
  • Safi úr hálfri límónu
  • Salt og pipar
  • Smá saxað kóríander

Litlar mjúkar hveiti eða maís tortillakökur. Ef þið finnið ekki litlar kökur er líka hægt að skera litlar út með því að leggja lítinn disk eða undirskál ofan á tortillaköku og skera meðfram.

Límónubátar og ferskt kóríander til að setja yfir tacovefjurnar í lokin.

Mér finnst best að gera þetta í þessari röð:

  1. Byrjið á að útbúa pikklaða rauðlaukinn. Blandið öllu saman og leggið til hliðar á meðan þið undirbúið restina af meðlætinu.
  2. Gerið hrásalatið. Skerið rauðkálið mjög smátt eða rífið niður, pískið innihaldið í sósuna saman í skál og setjið svo kálið saman við. Smakkið til og geymið í ísskáp.
  3. Hrærið saman hráefnin í límónusósuna, smakkið til og setjið til hliðar.
  4. Skelflettið humarinn og hreinsið. Leggið á disk og þerrið vel. Smyrjið þunnu lagi af chillimauki öðru megin á hvern humarhala.
  5. Skerið niður hráefnið í lárperusalsað, smakkið til og setjið til hliðar.
  6. Hitið pönnu við háan hita, kryddið humarinn með salti og pipar. Setjið smjörið á pönnuna. Þegar smjörið byrjar að freyða er tími til að setja humarinn á. Steikið humarinn í um það bil 1 mínútu á hvorri hlið. Gott er að ausa smjörinu yfir humarinn á meðan hann steikist. Setjið humarinn á disk og hellið dálitlu af smjörinu yfir hann ásamt því að kreista smá límónusafa yfir.
  7. Hitið tortillakökurnar á þurri vel heitri pönnu báðu megin.
  8. Berið fram! Best finnst mér að raða þessu svona saman: Neðst fer smá hrásalat, því næst lárperusalsa og pikklaður rauðlaukur. Humarinn fer þar ofan á (þrír halar á hverja kökur finnst mér passlegt), dálítið af sósu yfir ásamt fersku kóríander og nokkrum dropum af kreistri límónu. Endurtekið eins oft og þörf er á. Það er unaðslegt að drekka ískalt rósavín með!

 

 

 

Filed Under: Eldhúsperlur

Dúnmjúkar gamaldags tebollur með rúsínum

maí 20, 2017 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_8356 (1)Ég get ekki mælt nógu mikið með að þið prófið að baka þessar dásamlegu tebollur. Ég er kannski ekki alveg hlutlaus, enda komin tæpa 6 mánuði á leið með furðulegar langanir í hitt og þetta.. þessar tebollur voru eitt af því og ég ekki í rónni fyrr en baksturinn hafði átt sér stað. Og maður minn, ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Uppskriftin er gömul og góð og ég man hreinlega ekki hvaðan hún kemur, hún er handskrifuð á miða innan um helling af öðrum uppskriftum inni í gamalli uppskriftabók hjá mér. En sá sem á heiðurinn af uppskriftinni á heiðurinn alveg skilinn. Ég bætti þó við sítrónudropunum og ég hvet ykkur til að nota þá líka, þeir passa alveg ótrúlega vel við! Uppskriftin er meðalstór, úr henni fengust 22 ágætlega vænar tebollur. Athugið að bollurnar frystast mjög vel og mér finnst alveg upplagt að baka þær fyrir útilegu eða ferðalag. Það jafnast ekkert á við heimabakað nesti utandyra.

IMG_8328Dúnmjúkar gamaldags tebollur með rúsínum (um það bil 22 bollur)

  • 200 gr mjúkt smjör
  • 200 gr sykur
  • 3 egg
  • 1/2 tsk sítrónudropar
  • 1 tsk vanilludropar
  • 400 gr hveiti
  • 1 msk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 dl mjólk
  • 200 gr rúsínur (Má líka nota súkkulaði í staðin fyrir rúsínur)

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Þeytið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst, alveg í 3-5 mínútur í hrærivél. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið sítrónu, og vanilludropum saman við. Hrærið hveitinu, saltinu og lyftiduftinu saman og bætið að lokum út í ásamt mjólkinni og rúsínum.

Hrærið þar til allt blandast vel saman, en gætið þess að hræra ekki mikið eftir að hveitið er komið út í, bara þannig að allt sé komið saman. Setjið deigið með tveimur matskeiðum eða stórri ísskeið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Hver bolla hjá mér var ca. tvær vel fullar matskeiðar af deigi. Bakið í 8-10 mínútur eða þar til bakaðar í gegn og fallega ljósgullinbrúnar.
IMG_8353 (1)

Filed Under: Eldhúsperlur

Fljótlegasta skúffukakan með ómótstæðilegu smjörkremi

nóvember 21, 2016 by helenagunnarsd 3 Comments

img_6885Í dag eru fjögur ár síðan ég setti fyrstu uppskriftina inn á Eldhúsperlur. Mikið sem mér þykir vænt um þetta matarblogg, fyrir utan það hvað það er gaman að deila öllum þessu uppskriftum og skrifa pistlana hefur síðan líka tilfinningalegt gildi. Hér eru samankomnar mínar uppáhalds uppskriftir ásamt gömlum og góðum uppskriftum fjölskyldunnar sem allar vekja notalegar minningar og svo er ótrúlega skemmtilegt að geta flett aftur í tímann og fundið allar þessar gersemar á einum stað. Fylgjendur á Facebook síðunni eru tæplega 12.000 og lestur hér inni eykst alltaf, þrátt fyrir að færslum hafi reyndar farið fækkandi á síðustu misserum. Bloggið og uppskriftaskrif eru algjörlega mitt aðal áhugamál en ég vinn ekki við það nema að hluta. Er í frábærri vinnu annars staðar. Það hefur þó fært mér allskonar skemmtileg tækifæri og líka gert mér kleift að vinna í aukavinnu það sem mér þykir skemmtilegast, það hljóta að teljast forréttindi.

Ég bakaði þessa köku um síðustu helgi, hún var svo fljót að klárast að ég var heppin að ná af henni einhverjum myndum áður en hún hvarf ofan í nokkra litla svanga munna. Uppskriftin er afar einföld. Það er meira að segja hægt að hræra deigið í kökuforminu sjálfu ef maður nennir ekki að óhreinka skál!

Fljótegasta skúffukakan með ómótstæðilegu smjörkremi

(Ég notast við bollamál – 1 bolli er 2,5 dl – Uppskiftin passar í venjulegt skúffukökuform ca. 20×30 cm)

  • 1 bolli hveiti eða fínmalað spelt
  • 3/4 bolli sykur (ég nota hrásykur)
  • 1/2 bolli kakó
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk instant kaffiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 bolli súrmjólk eða hrein jógúrt
  • 1/4 bolli matarolía eða fljótandi kókosolía
  • 1/2 bolli heitt vatn
  • 2 egg

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Öllum þurrefnum pískað saman. Súrmjólk, olíu, vatni og eggjum svo hrært saman við. Ekki hæra of lengi, bara þannig að rétt blandist saman. Bakið í um 25 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í miðjuna kemur hreinn upp. Kælið kökuna alveg áður en kremið er sett á (Ef það er snjór eða frost og allir óþolinmóðir skelli ég forminu beint út á pall ofan á klaka eða snjó og kakan kólnar á 10 mínútum)

Ómótstæðilegt smjörkrem

  • 250 gr smjör við stofuhita
  • 350 gr flórsykur
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/4 tsk salt
  • 4 msk sterkt uppáhellt kaffi (líka hægt að búa til smá instant kaffi ef maður nennir ekki að hella upp á)
  • 4 msk rjómi

Aðferð: Byrjið á að þeyta smjörið vel þar til það verður ljóst og létt í sér. Bætið flórsykrinum út í ásamt kakóinu, vanillusykrinum og salti og þeytið vel saman á meðan þið setjið kaffið og rjómann smám saman út í. Þeytið kremið mjög vel eða í 5-7 mínútur þannig að það verði mjög létt í sér. Dreifið kreminu jafnt yfir kökuna og skreytið ef þið viljið.

img_6969

Filed Under: Eldhúsperlur

Naanbaka með mangókjúkling og spínati

ágúst 5, 2016 by helenagunnarsd 1 Comment

13872949_1151866634871726_4115917278602829627_nHér er á ferðinni alveg brjálæðislega góður og djúsí skyndi helgarmatur sem varð til alveg óvart í eldhúsinu hjá mér um daginn. Þetta er svona – það var ekkert til en ég nenni ekki að fara og kaupa neitt en allir eru mjög svangir – máltíð. Þá gerast nú oft undrin. Svo er þetta nú svo auðvelt að það er varla hægt að tala um uppskrift, þannig lagað. Eflaust er líka hægt að baka naanbrauðin sjálfur frá grunni, ég gerði það ekki en það er örugglega ekkert verra. Það góða er að það bara þarf ekki. Ég mæli hiklaust með réttinum og get ekki beðið eftir að elda þetta aftur.

Naanbaka með mangókjúkling og spínati (fyrir 3-4)

  • Tvo stór naanbrauð (ég notaði Stonefire hvítlauks naan, fást t.d. í Hagkaup)
  • 2 msk smjör
  • 700 gr úrbeinuð kjúklingalæri, krydduð með kjúklingakryddi og karrýi eftir smekk (ég mæli með Deluxe karrýi frá Pottagöldrum)
  • 2 msk ólífuolía,
  • 1 dl mangóchutney
  • 1 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur, ég nota alltaf fljótandi Oscar kraft)
  • 1 tsk Sambal oelek chillimauk (má sleppa ef þið viljið alls ekki sterkt)
  • 2 góðar handfyllir ferskt spínat
  • 200 gr rifinn ostur (1 poki, má líka nota meira)
  • Ofaná: 1 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, fersk steinselja eða kóríander og jógúrtsósa, ég notaði tilbúna jógúrt sósu frá Gott í kroppinn með hunangi og dijon.

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður. Leggið naanbrauðið á ofnplötu. Skerið kjúklinginn í litla munnbita. Hitið pönnu með ólífuolíu, kryddið kjúklinginn vel með góðu kjúklingakryddi og karrý og steikið. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast vel bætið þá mangóchutney og kjúklingasoði á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan hefur þykknað aðeins, ca. 10 mínútur (það á ekki að vera mikil sósa). Smakkið til með salti og pipar og chillimaukinu.

Smyrjið naanbrauðin með smá smjöri og skiptið spínatinu jafnt á bæði brauðin. Hellið því næst kjúklingnum ofan á spínatið og toppið með vel af rifnum osti. Bakið í um 15 mínútur. Þegar komið úr ofninum leggið þá þunnar rauðlaukssneiðarnar yfir og skreytið með smá saxaðri steinselju eða ferskum kóríander og jógúrtsósu.

IMG_5394

Filed Under: Eldhúsperlur

Lúxus ísskáps grautur með súkkulaðibragði 

ágúst 2, 2016 by helenagunnarsd Leave a Comment

Það er svo notalegt að detta í rútínu aftur að fríi loknu og partur af því hjá mér er sannarlega að borða reglulega morgunmat og þá svona um það bil á sama tíma, sem er annað en við gerum í fríinu. Sumarfríið hefur einkennst að miklu leyti af óreglulegum matartímum og morgunmat sem er oft ekki á dagskrá fyrr en undir hádegi eða seinna. Ísskáps grautar þykja okkur voða góðir og það er sérlega notaleg tilhugsun þegar maður er í loftköstum að græja sig á morgnana að þá liggi tilbúinn morgunmatur í ísskápnum. Þessi grautur er algjört sælgæti ef þið eruð hrifin af súkkulaðibragði og minnir jafnvel dálítið á súkkulaðikökudeig, enda er bara algjör óþarfi að sjokkera líkamann of hratt eftir sældarlíf frísins og fara beint í grænu djúsana..!

Lúxus ísskáps grautur með súkkulaðibragði (fyrir einn mjög svangan, annars tvo)

  • 2 dl haframjöl
  • 2 msk chiafræ
  • 1 1/2 msk hreint kakó
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 3 dl möndlumjólk (magnið fer líka eftir smekk, hversu þykkan graut þið viljið)
  • 6-8 dropar vanillustevía – líka hægt að nota aðra sætu t.d. smá hlynsíróp eða hunang eftir smekk, gott að smakka sig áfram.

Aðferð: Hrærið saman í skál öllum þurrefnum. Bætið þá möndlumjólk og sætuefni saman við. Látið standa í ísskáp yfir nótt. Athugið að grauturinn þykknar við að standa. Skreytið með berjum og t.d. hampfræjum.


Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized

Matarmikið túnfisksalat

júlí 29, 2016 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_5104Það er örugglega enginn að lesa blogg í dag sem er kannski ekki skrýtið svona föstudag fyrir verslunarmannahelgi. En það er allt í lagi.. Ég ætla að vera heima um helgina og hugsa mér gott til glóðarinnar að hafa það notalegt og njóta þess að sofa í mínu rúmi og geta dregið andann svona nokkuð örugglega (halló frjókornaofnæmi!). En mér finnst samt mikilvægt að njóta þess að vera í fríi þó ég sé heima. Við höfum til dæmis oft farið út að borða um verslunarmannahelgar og hugsa að við látum verða af því sem og að njóta útiveru enda á veðrið að vera dásamlegt um helgina. Ég er allavega jafn spennt fyrir þessari gúrmei heimaveru og einhverjir eru spenntir fyrir þjóðhátíð, alveg satt. Uppskriftin í dag er samt dálítið ferðalagavæn. Matarmikið túnfisksalat í hollari kantinum sem heldur sér vel og er laust við majónes. Ofsalega gott, prófið bara. Góða helgi!

Matarmikið túnfisksalat

  • 1 lítill rauðlaukur eða 1/2 stór, smátt skorinn
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • 4 harðsoðin egg, smátt skorin
  • 2 dósir túnfiskur í vatni (vatni hellt af)
  • 4 msk Philadelphia light rjómaostur
  • 4 msk Kotasæla
  • Vel af nýmöluðum svörtum pipar
  • Söxuð fersk steinselja

Aðferð: Öllu blandað vel saman. Smakkað til með pipar. Stórgott á ristað brauð eða hrökkbrauð.. uppáhaldið mitt er að setja salatið á gróft rúgbrauð. FullSizeRender-6

Filed Under: Eldhúsperlur

Ferðamyndir og hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu

júlí 27, 2016 by helenagunnarsd Leave a Comment

Page_5Page_3Við fjölskyldan erum nýlega komin heim úr dásamlegu sumarfríi sem við eyddum á ferðalagi um Suður Evrópu. Hófum ferðina í Þýskalandi, keyrðum svo sem leið ná niðureftir til Ítalíu og Frakklands og enduðum svo á Spáni þar sem við sóluðum okkur og láum í leti í þrjár vikur. Samtals fimm vikna ævintýralega skemmtilegt frí sem hefði hreint ekki getað verið betra. Á leið okkar niður eftir til Spánar stefndum við að því stoppa í litlum bæjum en ekki á fjölförnum ferðamannastöðum og sáum ekki eftir þeirri ákvörðum. Við höfðum ekki mjög mikinn tíma á hverjum stað og það var því kærkomið að gista í litlum krúttlegum þorpum á frönsku og ítölsku rivíerunni þar sem ekki þurfti að bíða í bílaröðum eða rata um götur stórra borga. Gistinguna bókuðum við alla fyrirfram gegnum booking.com og hver einasta bókum stóðst upp á hár.Page_2 Fyrstu nóttina gistum við í borginni Bolzano sem er í Suður Týról, svo lá leið okkar niður að Garda vatni í bæinn Sirmione. Þar á eftir keyrðum við niður á Rivíeru og gistum í smábænum Finale Ligure. Eftir það lá leiðin yfir landamærin til Frakklands og fyrsti viðkomustaður þar var Saint Maxine, svo Tarascon og að síðustu Argéles Sur Mer. Þá fórum við yfir landamærin til Spánar, til Barcelona og svo sem leið lá niður eftir til Alicante þar sem við hittum foreldra mína og héldum áfram suður í íbúðina þeirra. FullSizeRender-2 (2)Ef ykkur langar að forvitnast meira um ferðina getið þið kíkt á instagram síðuna mína, finnið mig þar undir: helenagunnarsd, set þar inn allskonar myndir! Eins og gefur að skilja verandi á þessum stað, við matarkistu Miðjarðarhafsins var maturinn í ferðinni allri einstaklega góður. Einföld og framúrskarandi hráefni sem fengu ávalt njóta sín í hverjum rétti og allt bara eitthvað svo gott að það lá stundum við tárum hjá undirritaðri. Félagsskapurinn, umhverfið og sólin hafa mjög sennilega haft sitt að segja líka.
Page_4

Uppskriftin sem fylgir að þessu sinni er ef til vill ekki sú sumarlegasta. Mér finnst svona góðgæti þó alltaf eiga við. Það er meira að segja nokkuð sniðugt að elda svona mat þegar manni langar helst að vera úti að leika og á meðan malla leggirnir án afskipta. Ég mæli hiklaust með þessu rétti sem er einn af mínum allra uppáhalds.

min_IMG_7342Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu (fyrir 3-4)

  • 4 vænir lambaleggir (350-400 gr stykkið)
  • 2 laukar
  • 1 stór gulrót
  • 2-4 hvítlauksrif
  • 2 msk tómatpurré
  • 3 dl rauðvín
  • 6 dl vatn
  • 2 msk nautakraftur (Ég nota fljótandi Oscar kraft)
  • 1 msk fersk rósmarín, gróft saxað (eða 1 tsk þurrkað)
  • 3 þurrkuð lárviðarlauf
  • Smjör, sjávarsalt og svartur pipar

Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður. Kryddið kjötið vel með salti og pipar. Takið stóran pott, sem má fara í ofn og hitið á meðalháum hita á eldavél. Bræðið 1 msk af smjöri í pottinum, brúnið kjötið vel á öllum hliðum og takið það svo uppúr pottinu. Skerið grænmetið í frekar grófa teninga. Bræðið 1 msk í viðbót af smjöri í pottinum og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Setjið tómatpurré út í og steikið áfram. Hellið rauðvíninu yfir og skrapið vel botninn á pottinum. Leyfið að sjóða í 1 mínútu.

Hellið vatninu og kraftinum saman við. Setjið kjötið út í pottinn og setjið lok ofan á þannig að það sé örlítil rifa til að sleppa gufunni út. Hleypið suðunni upp og setjið svo inn í ofn í 90 mínútur. Takið þá lokið af pottinum, hækkið hitann í 200 gráður og leyfið að bakast áfram í 20 mínútur. Takið úr ofninum. Veiðið kjötbitana upp úr og geymið undir álpappír. Setjið pottinn á eldavélina, kveikið undir á háum hita og sjóðið sósuna niður þangað til að sósan er um það bil helmingi minni en var í upphafi eldunar.

Ef ykkur finnst sósan of þunn má þykkja hana með smá sósujafnara eða 2 tsk af hveiti stöppuðu saman við 1 msk af mjúku smjöri, pískað saman við sósuna á meðan hún sýður. Berið lambaleggina fram með góðri kartöflumús.

Filed Under: Eldhúsperlur

Himneskar Brownie smákökur

apríl 30, 2016 by helenagunnarsd 2 Comments

13118953_1087224454669278_1951367459599643239_nÞað er svo sannarlega oftar við hæfi en bara á jólum að baka smákökur. Svo verð ég að viðurkenna að súkkulaði er minn veikleiki þegar kemur að bakstri. Dásamlegra hráefni er varla hægt að finna. Þessar ljúffengu kökur fá að fylgja okkur fjölskyldunni í bústað um helgina, sitja núna þægar og góðar ofan í boxi og bíða eftir fari í sveitina. Það er einmitt svo upplagt að baka smákökur fyrir ferðalög, útilegur eða lautarferðir (eru ekki einmitt allir á fullu að plana lautarferðir núna??..) – Njótið helgarinnar kæru vinir. Dálítið súkkulaði gerir allt betra.

Himneskar Brownie smákökur (um 14 frekar stórar kökur)

  • 250 gr súkkulaði (dökkt eða suðusúkkulaði) + 100 gr saxað súkkulaði (má líka sleppa)
  • 60 gr íslenskt smjör
  • 2 egg
  • 100 gr púðursykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50 gr hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft (ég nota alltaf vínsteins)
  • 1/4 tsk salt

Aðferð: Byrjið á að bræða saman smjör og 250 gr súkkulaði við vægan hita. Setjið egg, sykur og vanillu í skál og pískið aðeins saman. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið þurrefnunum að síðustu saman við ásamt söxuðu súkkulaði ef þið notið það. Setjið skálina inn í ísskáp í 20-30 mínútur þannig að deigið stífni aðeins. Hitið ofninn í 180 gráður á meðan. Setjið um 1 msk af deiginu á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í um 9-10 mínútur eða þar til kökurnar eru bakaðar í köntunum og enn blautar í miðjunni. Látið kökurnar kólna alveg á plötunni og takið þær svo af. Geymast vel í loftþéttu boxi í ísskáp, má líka frysta. 

Filed Under: Eldhúsperlur

bbq salat með chilli-sesam kjúkling

mars 23, 2016 by helenagunnarsd Leave a Comment

 

561458_1058825050842552_8671424417057541431_n

Það er ískyggilega langt síðan uppskrift hefur birst hér inni, ekki síðan í janúar! Myrkur á kvöldmatartíma spilar vissulega mikið inn í ásamt almennu annríki. Þið getið reglulega séð nýjar uppskriftir eftir mig inni á www.gottimatinn.is og ef þið fjárfestið í tímaritinu Húsfreyjunni má þar finna helling af skemmtilegum uppskriftum. En að þessu salati – Það er varla hægt að kalla þetta uppskrift svo einfalt er það. Hlutföllin eru alls ekki heilög eins og svo oft í svona matargerð og um að gera að nota það sem manni þykir gott. Svona þykir mér salatið best. Þessi réttur slær í gegn þar sem hann er borinn fram og alveg upplagður í saumaklúbba.

bbq salat með chilli-sesam kjúkling (fyrir fjóra):

  • 3-4 góðar handfyllir grænt salat (ég nota ferskt spínat og lambhagasalat)
  • 1/2 agúrka
  • 1 lítil rauð paprika
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5-6 msk fetaostur í olíu
  • 3 kjúklingabringur
  • Olífuolía, salt og pipar
  • 2 dl bbq sósa (ég nota alltaf Hunts hickory brown sugar)
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk (má sleppa ef maður vill ekki hitann)
  • 3 msk sesamfræ
  • Ofaná (ef vill):
  • Svartar Doritos flögur, muldar
  • 1 dós sýrður rjómi með 2 msk bbq sósu pískað saman við

Aðferð: Rífið salatið gróflega niður og leggið í botninn á fati eða stórum diski. Skerið grænmetið frekar smátt og dreifið ofan á. Skerið kjúklinginn í litla bita, kryddið með salti og pipar og steikið á pönnu uppúr smá olíu þar til hann hefur lokast á öllum hliðum. Hellið þá bbq sósunnu út á pönnuna ásamt chillimaukinu og látið þetta krauma saman við meðal-háan hita í um 5 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og kjúklingurinn eldaður í gegn. Stráið þá sesamfræjunum yfir hrærið saman og takið af hitanum. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr kjúklingnum 5-10 mínútur og hellið honum svo yfir salatið. Skreytið með smá grænmeti og e.t.v. meiri bbq sósu og drefið svo fetaosti yfir allt saman. Berið fram með flögunum og kaldri sósu.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótlegur kjúklingaréttur, Fljótlegur matur, Gott salat, Góður kjúklingaréttur, Grænmetisréttur, Kjúklingabringur uppskrift, Kjúklingaréttur, LKL uppskrift

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Page 2
  • Page 3
  • Page 4
  • Page 5
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme