• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Marengsterta með kókosbollurjóma og jarðarberjum

júní 25, 2015 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_7306Það er stórsniðugt að geyma eggjahvítur sem falla til í frysti. Ég set oftast 3-4 eggjahvítur saman í plastpoka og sting í frystinn. Einhverra hluta vegna höfðu þónokkrir svona pokar safnast fyrir í frystinum í vetur (bernaise-sósu veturinn mikli?) og kominn tími til að nota þær. Úr varð þessi stórkostlega, hættulega góða marengsterta þar sem enginn afsláttur var gefinn í gúmmelaðiheitum. Ég veit ekki með ykkur en mér þykir einstaklega sumarlegt að bera fram jarðarberjaskreytta rjómatertu, í hátíðlegu sunnudagskaffiboði eða sem eftirrétt í grillveislu. Það verða allir glaðir þegar þið komið askvaðandi með svona tertu í fanginu. Passið ykkur bara að detta ekki.. það getur gerst á bestu bæjum!

min_IMG_7308Marengsbotnar:

  • 6 eggjahvítur
  • 300 gr sykur
  • 1/2 tsk cream of tartar eða vínsteinslyftiduft

Aðferð: Hitið ofn í 120 gráður með blæstri. Þeytið eggjahvíturnar þar til froðukenndar. Bætið sykrinum smám saman út í. Þeytið í´1-2 mínútur. Bætið þá vínsteinslyftiduftinu út í. Dreifið jafnt úr marengsinum á tvær smjörpappírsklæddar bökunarplötur þannig að hann myndi tvo um það vil jafn stóra hringi. Bakið í 90 mínútur. Slökkvið þá á ofninum, opnið hann og leyfið að kólna í um 1 klst.

Fylling:

  • 5 dl rjómi
  • 4 kókosbollur
  • Jarðarber

Aðferð: Þeytið rjómann, brjótið kókosbollurnar saman við. Dreifið yfir annan marengsbotninn. Skerið jarðarber í sneiðar og leggið ofan á rjómann, setjið svo hinn marengsbotninn ofan á.

Ofaná:

  • 1 poki Dumle karamellur (120 gr)
  • 1 dl rjómi
  • Jarðarber

Aðferð: Bræðið saman í potti við vægan hita. Kælið og hellið yfir tertuna. Skreytið með jarðarberjum. Ég mæli með að setja tertuna saman í fyrsta lagi 4-6 tímum áður en hún er borin fram og geyma í ísskáp. Marengsinn þolir ekki að standa mikið lengur með rjómanum á. Ef þið viljið gera tertuna daginn áður mæli ég með að þið frystið hana. min_IMG_7309

min_IMG_7307

Filed Under: Eldhúsperlur

Hvítsúkkulaði Créme Brulée

maí 9, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_7141Créme brulée er einn af mínum allra uppáhalds eftirréttum, ég kikna í hnjánum þegar ég smakka vel heppnað brulée. Ég verð líka frekar sár þegar veitingastaðir bjóða uppá glataða útgáfu af þessum dásamlega rétti, það hefur sem betur fer ekki oft gerst. Hingað til hef ég nefnilega bara smakkað réttinn á veitingastöðum og talið sjálfri mér trú um að réttinn væri flókið að framkvæma og best að láta fagfólk um þá aðgerð. Það var mikill misskilningur. Þetta créme brulée geta allir gert og það þarf engin sérstök tól eða logsuðutæki við eldamennskuna. Ég notaði bara grillið í ofninum til þess að bræða sykurinn og það heppnaðist ljómandi vel. Það er nauðsynlegt! að bera créme brulée fram með stökkri sykurskel á toppnum. Annars er þetta bara ónýtt. Það þarf að vera hægt að banka létt í skelina með skeið án þess að hún brotni, svo brýtur maður sér leið í gegn og uppsker dásamlegan mjúkann eggjabúðinginn með stökkri karamellunni.min_IMG_7148

Hvítsúkkulaði Créme Brulée (fyrir 4-5)

  • 500 ml rjómi
  • 75 gr hvítt súkkulaði
  • 1 vanillustöng
  • 1,5 msk sykur (og meira ofan á)
  • 5 eggjarauður
  • 5-6 tsk hrásykur

min_IMG_7134Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin innan úr. Setjið stöngina og fræin í pott ásamt rjómanum og súkkulaðinu. Hitið við meðalhita og pískið saman þar til súkkulaði er alveg bráðnað og rjóminn orðinn vel heitur en passið að láta hann ekki sjóða. Takið af hitanum og leyfið aðeins að rjúka. Pískið eggjarauðurnar og sykurinn saman þar til eggjarauðurnar verða aðeins ljósari. Hellið heitri rjómablöndunni smátt og smátt saman við eggin og pískið á meðan. Byrjið á að hella um 1 dl af blöndunni saman við eggin og blandið vel saman og hellið restinni saman við í smáum skömmtun. Þetta er gert til þess að eggjarauðurnar eldist ekki þegar heitur rjóminn kemur saman við. min_IMG_7136Hellið því næst blöndunni í gegnum sigti og í könnu eða ílát sem er þægilegt að hella úr. Hellið blöndunni í lítil form og setjið í eldfast mót. Hellið sjóðandi heitu vatni í mótið þannig að það nái upp að miðjum litlum formunum. Bakið í um 20 mínútur. Blandan mun líta út fyrir að vera ennþá fljótandi innst í miðjunni þegar þið takið þetta úr ofninum. Þannig á það að vera. Kælið í a.m.k. 4 klst í ísskáp. min_IMG_7139Áður en þið berið réttinn fram hitið grillið í ofninum á hæstu stillingu. Stráið þá rúmlega 1 tsk af hrásykri jafnt yfir hvern og einn eggja-rjómabúðing. Setjið undir grillið ofarlega í ofninum og fylgist vel með. Sykurinn á að vera farinn að bubbla og koma dökkbrúnar doppur í sykurskelina. Takið úr  ofninum og leyfið að kólna í 5 mínútur þannig að sykurskelin nái að harðna. Berið fram með ferskum berjum og njótið!min_IMG_7155min_IMG_7159

Filed Under: Eldhúsperlur

Súkkulaðiskonsur

maí 1, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_7041Mér finnst svo frábært að baka skonsur ef ég á von á gestum í bröns eða bara til að gleðja heimilisfólkið um helgar. Það er einstaklega róandi að læðast fram á björtum morgni á meðan heimilisfólkið liggur fyrir, mylja saman smjör og hveiiti og finna ilminn af nýbökuðum skonsunum nokkrum mínútum seinna. Svo einfalt er að búa þær til. Galdurinn á bakvið svona skonsubakstur er að hafa smjörið ískalt, vinna deigið alls ekki of mikið eftir að vökvinn kemur út í og passa að smjörið sé ennþá í bitum á stærð við litlar baunir áður en vökvinn fer út í. Svo er bara að hnoða deigið illa þannig að það rétt hangi saman. Það er bæði hægt að vinna deigið saman með höndunum en ef þið eigið hrærivél er gott að nota K-hrærarann. Skonsurnar eru dásamlega góðar bornar fram volgar með smjöri og osti. Njótið.min_IMG_7046

Súkkulaðiskonsur

  • 350 gr hveiti eða fínmalað spelt
  • 1/4 tskt salt
  • 2 tsk lyftiduft
  • 3 msk hrásykur
  • 75 gr kalt smjör skorið í bita
  • 100 gr saxað dökkt súkkulaði eða litlir súkkulaðidropar
  • 1-1,5 dl mjólk (byrjið á 1 dl og bætið meira út í ef ykkur finnst þurfa)

min_IMG_7035Aðferð: Byrjið á hita ofn í 170 gráður með blæstri. Blandið saman hveiti, salti, lyftidufti og sykri. Myljið smjörið saman við með fingrunum eða í hrærivélinni. Bætið súkkulaði út í og því næst mjólkinni. Blandið eins lítið og þið getið og hnoðið lauslega þar til deigið rétt loðir saman. Hellið því á borð og sléttið aðeins úr því með höndunum eða kökukefli þannig að deigið sé um 2 cm á þykkt. Skerið út í 8-10 litla hringi eða skerið deigið í sneiðar (eins og pizzu). Penslið skonsurnar með mjólk og stráið örlitlum hrásykri yfir hverja og eina, raðið á plötu og bakið í um 15 mínútur eða þar til skonsurnar hafa lyft sér og eru gullinbrúnar.min_IMG_7037min_IMG_7036min_IMG_7046

Filed Under: Eldhúsperlur

Gamaldags súkkulaðiterta með alvöru súkkulaðiglassúr

mars 14, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_8682Eitt af uppáhalds matarbloggunum heitir Smitten Kitchen, ég leita oft þangað eftir uppskriftum og innblæstri og oftar en ekki endar heimsókn mín þangað inn, þannig að ég verð að prófa uppskriftina, eða eitthvað svipað allavega. Síðasta svoleiðis uppskrift var ”The I want chocolate cake´ cake” – Eða ”Mig langar svo í súkkulaðiköku kakan”. Ég get að vissu leyti samsamað mig við titilinn því ég viðurkenni kinnroðalaust að langa stundum alveg hræðilega mikið í súkkulaðiköku. Sem lang sjaldnast, sem betur fer, endar nú með súkkulaðiköku bakstri. En það semsagt gerðist samt á dögunum. Við mæðgin vorum heima í heila viku þar sem sá stutti lá í flensu og vildi lítið sem ekkert borða. Það var þá sem ”Mig langar svo í súkkulaðiköku kakan” rifjaðist upp fyrir mér og ég varð að prófa mína eigin útgáfu.

Ég hristi því rykið af gamalli uppskrift sem ég nota oft í súkkulaðimuffins og gerði smá breytingar. Svo gerði ég súkkulaði glassúr sem má (og á) svo sannarlega að fara á kökuna á meðan hún er ennþá heit! Því það er deginum ljósara að þegar súkkulaðikökulöngunin kemur yfir fólk er ekki nokkur ástæða til að bíða með kremásetningu á meðan kökubotnar kólna. Það er bara vitleysa. Svo verður kakan líka svo miklu meira djúsí ef kremið fær að fara á hana heita. Þetta er semsagt kakan sem er hægt að byrja að baka og um það bil hálftíma seinna sitja sáttur með glóðvolga sneið.

min_IMG_8686Gamaldags súkkulaðiterta

  • 2 bollar hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • ¼ tsk salt
  • 5 msk hreint kakóduft
  • 1 ½ bolli súrmjólk
  • ¾ bolli matarolía
  • 2 egg
  • 2 msk uppáhellt kaffi
  • 2 tsk vanilluextract

Aðferð: Ofn hitaður í 180 gráður með blætri. Öllu blandað saman. Fyrrst þurrefnum svo vökva. Skipt jafnt í tvö hringlaga form og bakað í 16-18 mínútur. Eða þar til tannstöngli sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn upp. Lagið kremið á meðan botnarnir bakast því það er sett á kökuna á meðan hún er heit.

Alvöru súkkulaðiglassúr:

 

  • 200 gr suðusúkkulaði
  • 50 gr smjör
  • 2 msk sýróp
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1 tsk uppáhellt kaffi
  • 2 ½ dl flórsykur
  • 2-3 msk heitt vatn
  • Kókosmjöl til skreytinga

Aðferð: Bræðið saman í litlum potti: súkkulaði, smjör, sýróp, vanillu og kaffi. Bætið flórsykrinum út í og hrærið kröftuglega með píski. Bætið vatninu saman við þar til kremið er þykkt en auðvelt að dreifa úr því. Losið botnana úr formunum og leggið annan botninn á tertudisk. Setjið tæplega helminginn af kreminu á annan botninn, leggið hinn ofan á og setjið restina af kreminu á kökuna á meðan hún er ennþá volg. Stráið vel af kókosmjöli yfir ef þið viljið og gæðið ykkur á volgri kökunni með stóru ísköldu mjólkurglasi!min_IMG_8700

Filed Under: Eldhúsperlur

Níu notalegar súpur

mars 11, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

Page_1Ég er ótrúlega hrifin af súpum. Bæði finnst mér gaman að elda þær og borða. En þær þurfa líka að vera góðar og eitthvað varið í þær.. Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að borða súpur sem eru flatar eins og barnamatur, maukaðar í spað og óspennandi. Þá er allavega lágmark að þær rífi þá aðeins í og fari með mann eitthvað, svona bragðlega séð. Ég tók saman nokkrar af mínum uppáhalds súpu uppskriftum sem ég get ómögulega gert upp á milli. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa verið eldaðar þónokkuð oft, sumar þó enn oftar en aðrar eins og t.d. lauksúpan, gúllassúpan og tacosúpan.. Var ég ekki örugglega búin að segja ykkur hvað ég elska franska lauksúpu mikið?.. Og reyndar allar hinar súpurnar líka. Frönsk lauksúpa á samt alveg sérstakan stað í hjarta mínu. Allt saman örugglega hið eðlilegasta mál. Hver hefur ekki bundist súpum tilfinningaböndum spyr ég nú bara? En jæja, hér koma allavega súpu uppskriftirnar í engri sérstakri röð, svo það sé tekið fram. Fínt að dunda sér við að prófa þessar næstu níu vikurnar til dæmis, svo kemur kannski vorið..

(Ýtið á myndirnar til að komast að uppskriftinni)

min_img_5953

Tacosúpa með lime, tortillaflögum og avocado

 

min_img_2491

Tælensk fiskisúpa – engifer, kókosmjólk, kóríander og risarækjur..

 

min_img_6476

Tosscana súpa með spínati, pylsu, kartöflum og beikoni. Slá í gegn súpa..

min_img_4386

Bullandi rómantísk frönsk innbökuð lauksúpa..

min_img_6830

Rjómalöguð tortellini súpa með spínati

min_img_5023

Ítölsk grænmetissúpa

img_1248

Sívinsæla tælenska kjúklingasúpan með kókos, lime og engifer

min_img_5110

Dásamleg massaman karrý súpa með kjúlla og grænmeti

min_img_4007

Vinsælasta súpan frá upphafi – uppáhalds silkimjúka og matarmikla gúllassúpan

 

 

 

 

Filed Under: Eldhúsperlur

Fylltar sætar kartöflur með sterkum buffalo kjúklingi og gráðosti

mars 3, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_6980Jæja. Hér er kominn tími á uppskrift. Ég vona að þið hafið verið að fylgjast með mér inni á Gott í matinn vefnum, þangað eru komnar nokkrar nýjar og áður óbirtar uppskriftir sem ég er voða ánægð með og fleiri væntanlegar von bráðar. Uppskriftin sem ég deili með ykkur að þessu sinni samanstendur af hráefnum sem fá mína bragðlauka allavega til að syngja. Sæt kartafla, kjúlli, chilli sósa, gráðostur, vorlaukur.. Þetta var líka liður í því að elda eitthvað nýtt. Ég held að það sé voða hollt fyrir mann að prófa eitthvað alveg nýtt svona inn á milli og þessi réttur steinlá við fyrstu prófun. Það var því óumflýjanlegt annað en að koma uppskriftinni á blað, mynda og deila gleðinni. Ég heilbaka kartöflurnar í ofni, beint á grindinni, þannig verður hýðið stökkt og gott. Fyrst skola ég þær mjög vel, skrúbba og hreinsa. Mér þykir kartöfluhýði almennt mjög gott og borða það með bestu lyst, hins vegar eru nú ekkert allir sammála mér í þessum málum og þá er um að gera að borða bara innan úr hýðinu.

min_IMG_6984Fylltar sætar kartöflur með buffalo kjúklingi og gráðosti

  • 2 vænar sætar kartöflur
  • Ólífuolía
  • 8 úrbeinuð kjúklingalæri
  • Salt og pipar eða kjúklingakrydd
  • 50 gr smjör
  • 1/2 -1 dl buffalo hot sauce, eftir því hversu sterkt þið viljið hafa þetta (Ég nota Frank´s red hot)
  • 1 dl rifinn ostur
  • 1 búnt vorlaukur, saxaður smátt
  • Sýrður rjómi
  • Gráðostur

Aðferð: Hitið ofn í 190 gráður með blæstri. Skolið kartöflurnar vel og skrúbbið með grófum svampi eða bursta, þerrið og penslið þær með olíu. Leggið kartöflurnar beint á ofngrindina. Gott er að hafa ofnplötu undir með álpappír, ef eitthvað lekur úr kartöflunum. Bakið í um 1 klst eða þar til kartöflurnar eru alveg mjúkar í gegn. Takið kartöflurnar þá úr ofninum og leyfið aðeins að kólna á meðan þið steikið kjúklinginn. Skerið kjúklingalærin í litla bita. Hitið örlitla olíu á pönnu og kryddið kjúklinginn með kjúklingakryddi eða salti og pipar. Steikið kjúllann þar til hann er vel brúnaður og eldaður í gegn. Setjið smjörið þá á pönnuna og látið það bráðna. Takið pönnuna af hitanum og bætið buffalo sósunni á og blandið þessu vel saman. Skerið kartöflurnar í tvennt eftir endilöngu. Skafið innan úr þeim en skiljið ca. 1 cm af kartöflunni eftir. (Ekki henda því sem þið skafið innan úr. Geymið og notið t.d í kartöflumús daginn eftir). Kryddið innan í kartöflurnar með smá salti og pipar og setjið þær aftur inn í ofn í um 10 mínútur. Þá þornar hýðið betur. Takið út og setjið ofninn á grillstillingu. Skiptið kjúklingnum í buffalosósunni á milli hlutanna fjögurra, stráið ostinum yfir og setjið undir grillið í ofni í um 5 mínútur eða þar til osturinn bráðnar. Toppið með vel af söxuðum vorlauk, muldum gráðosti, doppu af sýrðum rjóma og dassi af hot sauce. Berið fram með góðu grænu salati.min_IMG_8646

 

Filed Under: Eldhúsperlur

Appelsínu og súkkulaði formkaka

janúar 18, 2015 by helenagunnarsd 5 Comments

min_IMG_6867Gleðilegt ár kæru lesendur og takk fyrir síðasta Eldhúsperlu ár. Hér hefur ekki mikið verið á döfinni síðustu vikur enda ágætt að taka einstöku sinnum frí frá bloggi og eldhússtörfum eins og öðru. Ég hef þó ýmislegt verið að brasa hingað og þangað. Nú má til dæmis finna nýjar uppskriftir frá mér einu sinni í mánuði inni á Gott í matinn vefnum. Þegar má þar finna tvær uppskriftir sem ég er afar ánægð með og hafa ekki birst hérna á síðunni. Hvet ykkur til að prófa. Árið lofar góðu og ýmislegt spennandi á döfinni í eldhúsinu sem og annars staðar.

Í næstu færslu ætla ég að fara yfir vinsælustu uppskriftir síðasta árs. Finnst alltaf svo gaman að skoða svoleiðis lista. En núna deili ég með ykkur nýrri köku sem er strax komin á uppáhalds listann. Uppskriftina sá ég upphaflega hjá Inu Garten, svo hún hlaut að vera góð. Hún hefur svo farið sigurför um bloggheima Vestanhafs sem er ekki að furða. Kakan er mjúk með dásamlegum appelsínukeim. Appelsínurnar núna eru svo safaríkar og sætar að það er um að gera að nota þær í sem flest. Ég held að heimilið hafi aldrei ilmað jafn vel og þegar þessi kaka var í ofninum!min_IMG_6864

Appelsínu og súkkulaði formkaka (lítillega tilfærð uppskrift frá Ina Garten)

  • 225 gr mjúkt smjör, ósaltað
  • 4 dl sykur
  • 4 stór egg
  • 2-3 msk rifinn börkur af appelsínu (um 1 stór appelsína)
  • 2/3 dl nýkreistur safi úr appelsínu
  • 1 og 3/4 dl hrein jógúrt eða súrmjólk
  • 1 tsk vanilluextract
  • 375 gr hveiti
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 300 gr súkkulaðibitar (ég notaði Siríus Konsum dropa)
  • 1 msk hveiti

min_IMG_6868

Athugið að ef öll hráefnin í kökuna eru við stofuhita eða sem næst því verður árangurinn af bakstrinum enn betri.

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Smyrjið hringlaga form með gati í miðjunni vel að innan og dustið það með hveiti. (Ef þið eigið ekki hringlaga form með gati má líka nota stórt jólakökuform eða tvö minni form, athugið bara að fylgjast með bökunartímanum). Hrærið smjör og sykur mjög vel saman þar til ljóst og létt, í um 5 mínútur (ég nota K-ið í hrærivélinni fyrir þetta). Bætið eggjunum út í, einu í einu, hrærið vel á milli og skafið hliðarnar með sleikju. Hrærið saman hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti í eina skál. Í aðra skál blandið saman appelsínuberki, safa, jógúrt og vanillu. Hellið þurrefnunum út í eggja-smjörblönduna ásamt vökvanum. Gætið þess að hræra ekki lengi eftir að hveitið kemur út í. Hrærið 1 msk hveiti saman við súkkulaðidropana og blandið svo saman við deigið. Skafið vel innan úr hliðunum á skálinni með sleikju og passið að allt sé vel blandað saman. Hellið deiginu í formið og dreifið jafnt úr því. Bakið í 45 – 55 mínútur eða þar til tannstöngli sem stungið er í miðjuna kemur hreinn upp. Leyfið kökunni að kólna í forminu í 10-15 mínútur. Losið hana þá úr forminu og kælið alveg á grind.

Fyrir súkkulaðið ofan á: Bræðið saman 1/2 dl rjóma og 100 gr af súkkulaði við vægan hita. Hellið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.

 

min_IMG_6873

Filed Under: Eldhúsperlur

Eldhúsperlur 2 ára! Piparmyntu ostakaka með After eight

nóvember 21, 2014 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_6812Í dag eru tvö ár síðan fyrsta uppskriftin birtist á Eldhúsperlum! Uppskriftirnar nálgast óðfluga annað hundraðið og fylgjendur síðunnar á Facebook fóru yfir 7000 í gær. Ég ætla nú ekki að hafa þennan pistil langan en langar þó að þakka ykkur fyrir að lesa bloggið, prófa uppskriftirnar og vera svona dugleg að láta heyra í ykkur. Dundið mitt við þessa síðu er án ef uppáhalds áhugamálið mitt og orðið mun stærra en mig óraði fyrir í upphafi. Ég hlakka til næsta eldhúsperlnu árs með ykkur og enn fleiri uppskriftum. Í tilefni dagsins, og þess að pabbi minn á afmæli á morgun (hæ pabbi!). Ákvað ég að útbúa þennan dásamlega eftirrétt. Hugmyndin að réttinum kviknaði á einum af óþarflega löngum Pinterest rúntum mínum og þróaðist svo út í þennan eilítið jólalega og gómsæta eftirrétt. Þetta er einstaklega ljúffengur réttur sem er þeim kostum búinn að hann má undirbúa nokkru áður en hann er borinn fram. Ég hvet ykkur heilshugar til að prófa!min_IMG_6826

Piparmyntu ostakaka með After eight (fyrir 8-10):

  • Botninn:
  • 250 gr súkkulaðikex (t.d. oreo eða annað kex með kremi á milli)
  • 10 After eight plötur
  • 2 msk brætt smjör
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • Fylling:
  • 1 dós mascarpone ostur við stofuhita (250 gr)
  • 5 dl rjómi
  • 5 dl mjólk
  • 2 pakkar Royal vanillubúðingur
  • 1/2 tsk piparmyntudropar/piparmyntuextract (má sleppa)
  • 5 jólabrjóstsykurs stafir eða nokkrir piparmyntu brjóstsykursmolar
  • Nokkrir dropar bleikur matarlitur (má sleppa)
  • After eight til að skreyta

IMG_7446Aðferð: Byrjið á að gera botninn. Setjið kexið og after eight í matvinnsluvél. Vinnið í fína mylsnu og hellið smjörinu og saltinu saman við. Geymið. Þeytið saman 5 dl af mjólk og allt búðingsduftið, setjið til hliðar. Þeytið mascarpone ostinn þar til mjúkur og léttur, hellið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan er eins og léttþeyttur rjómi. Þeytið þá lagaða vanillubúðinginn saman við þar til blandan er slétt og þykk. Myljið brjóstsykurinn í fínt duft og bætið um 3 msk af duftinu út í ostakökublönduna ásamt piparmyntudropunum og matarlit, ef þið notið. Geymið smá af duftinu til að skreyta með. Þið getið annað hvort sprautað ostakökuna í lítil glös á fæti og borið fram fyrir hvern og einn eða sett hana í eina fallega glæra skál. Þegar ostakökunni hefur verið komið fyrir eins og á að bera hana fram er gott að kæla hana í ísskáp í um 2-4 klst.IMG_7457min_IMG_6819Takk fyrir að fylgjast með Eldhúsperlum elsku vinir!!1610843_806551242736602_8630875067716329873_n

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: After eight eftirréttur, Besti eftirrétturinn, eftirréttur, Jóla eftirréttur, Ostakaka, Ostakaka með piparmyntu, Veisla eftirréttur

Miðjarðarhafskjúklingur með döðlum og fetaosti

nóvember 19, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

10352272_10153202803506729_4153563674260578933_nUppskriftum hingað inn fer sannarlega fækkandi með lækkandi sól. Ég á afar erfitt með að sætta mig við matarmyndir teknar í myrkri. Þrátt fyrir lækkandi sól hefur veðrið þó leikið við okkur hér á Suðvesturhorninu og verið svo milt að ég bý enn að því að geta trítlað út á pall og klippt ferska steinselju og rósmarín. Mér þykja það vera hin mestu lífsgæði. Ég er svolítið eins og Muggi mörgæs sem bjó á Suðurpólnum með mörgæsafjölskyldunni sinni en varr alltaf kalt og dreymdi um að komast til heitari landa. Mig semsagt dreymir um það.. svona af og til allavega. Í kvöld gat ég einmitt rölt út á pall á sokkunum í myrkrinu og klippti steinselju til að strá yfir þennan ljómandi góða kjúklingarétt. Rétturinn er ótrúlega fljótlegur og góður, bragðmikill og léttur, þrátt fyrir myndatöku í myrkri. Einhvernsstaðar las ég að miðjarðarhafsmataræði væri það allra hollasta, að mínu mati er það líka eitt af því allra besta. Það er aldrei leiðinlegt að borða hollan mat þegar hann bragðast svona vel. Hlutföllin í réttinum eru alls ekki heilög og mælieiningarnar því ekki hátíðlegar.

10440208_10153202802911729_6565381186469723221_nMiðjarðarhafskjúklingur með döðlum og fetaosti (fyrir 3):

  • 3 kjúklingabringur
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 1 krukka svartar ólífur
  • 2 dl döðlur, skornar í litla bita
  • 1 lítil krukka (150 gr) fetaostur, olíunni hellt af.
  • 2 dl vatn og 1/2 kjúklingateningur
  • Smávegis af saxaðri ferskri steinselju
  • Ólífuolía – Sjávarsalt og svartur pipar

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. Byrjið á að hita pönnu með smávegis af ólífuolíu. Kryddið bringurnar vel með salti og pipar og steikið vel á báðum hliðum. Takið af pönnunni og geymið á diski. Hellið vatninu á pönnuna ásamt kraftinum og leyfið að sjóða í 1-2 mínútur. Hellið tómötunum, ólífunum og döðlunum út í og hitið örstutt. Leggið bringurnar aftur á pönnuna. Hellið fetaostinum yfir. Setjið inni í ofn í 10 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn. Berið fram eitt og sér eða með góðu baguette eða súrdeigsbrauði til að dýfa í dásamlega gott soðið á botninum á pönnunni.

Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn er ekkert mál að nota eldfast mót.10393168_10153202803441729_2309021474981788088_n

Filed Under: Eldhúsperlur

Grænt pestó penne

október 31, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_6623Mér þykir heimatilbúið pestó gera hér um bil allt aðeins betra. Það tekur enga stund að búa það til og uppskriftin er alls ekki svo heilög. Ég hef notað allskonar hnetur í mitt pestó og allskonar grænt, spínat og kryddjurtir. Ég nota oftast basil, ef ég á það til og reyni þá oft að drýgja það með smá spínati eða klettasalati. Svo er líka hægt að sleppa því og nota bara t.d. klettasalatið eða bara spínat. Ég meira að segja sleppi stundum parmesan ostinum ef ég á hann ekki til og nota þá dropa af hunangi, eða eina, tvær döðlur í staðinn. Það er sko ekki verra. Þetta pestó er frekar klassískt, það inniheldur bæði basil, furuhnetur og parmesan ost og góða lífræna kaldpressaða ólífuolíu.. Það kemur ekkert í staðin fyrir hana að mínu mati. Það er himneskt að hræra, góðu heimatilbúnu pestói saman við sjóðandi heitt pasta, máltíð sem tekur enga stund en er þeim mun ljúffengari.

min_IMG_6628Penne með grænu pestói (fyrir 4-5):

  • Pestó:
  • Góð handfylli basil
  • Handfylli spínat
  • 1 hvítlauksrif
  • 70 gr furuhnetur
  • 100 gr rifinn, ferskur parmesan ostur
  • Safinn úr hálfri sítrónu
  • 1,5 – 2 dl góð ólífuolía
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Pasta:
  • 500 gr penne
  • 2 hvítlauksrif, smátt skorin
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt.
  • Rifinn parmesan ostur

Aðferð: Setjið allt nema ólífuolíu í matvinnsluvél eða blandara. Blandið þar til frekar gróft mauk hefur myndast. Hellið ólífuolíunni saman við og blandið stutt saman, eða hrærið olíunni saman við með skeið. Mér þykir gott að hafa pestó frekar gróft, en ef þið vijlið hafa það silkimjúkt, blandið olíunni þá lengur saman við í vélinni. Smakkið til með salti og pipar. Geymist í lokaðri glerkrukku í ísskáp í 3-4 daga.

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hitið ólíufuolíu á pönnu við meðalhita. Setjið hvítlaukinn út í og leyfið að krauma aðeins. Bætið þá kirsuberjatómötunum út og steikið áfram þar til þeir mýkjast aðeins. Hellið vatninu af pastanu en geymið um einn bolla af pastasoðinu. Hellið pastanu á pönnuna og blandið saman við hvítlaukinn og tómatana. Bætið 5-6 msk af pestói saman við og blandið vel saman. Hellið smá af pastasoðinu saman við til að fá meiri sósu. Smakkið til með sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Berið fram með rifnum parmesan osti og meira pestói.min_IMG_6623 2

 

Filed Under: Eldhúsperlur

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 3
  • Page 4
  • Page 5
  • Page 6
  • Page 7
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme