• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Bragðmikil barbecue kjúklingalæri

júlí 3, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_6064Ég ætlaði að byrja þennan pistil á: ”svei mér þá ef það á ekki bara að fara að skína sól á okkur um helgina”.. Svo álpaðist ég til að opna vedur.is og þar stóð sannleikurinn blákaldur og ósykurhúðaður. En mér er alveg sama enda ekki vön að láta veður fara í skapið á mér.. svona oftast allavega. Ég bauð foreldrum mínum í mat í vikunni, nánar tiltekið á þriðjudaginn, í þriðjudagslægðinni. Þá var ætlunin að grilla þessi gómsætu kjúklingalæri og var sú ákvörðun tekin áður en sumarblómin mín tóku á flug og dúkurinn á borðinu fauk af. Þá var plani B hleypt á stokkana og bakarofninn fékk þann heiður að baka herlegheitin. Það var alls ekki síðra. Svo þið getið annað hvort grillað lærin eða bakað þau eins og ég gerði. Galdurinn er bara að maka reglulega á þau þessari himnesku barbecue sósu svo þau verði klístruð og bragðmikil. min_IMG_6057

Bragðmikil barbecue kjúklingalæri (fyrir 4-5):

  • 1 kg úrbeinuð kjúklingalæri (líka hægt að nota læri með beini)
  • 3 dl góð bbq sósa
  • 1 dl apríkósumarmelaði
  • 2 msk soja sósa
  • 1 hvítlauksrif rifið eða smátt saxað
  • 1 msk smátt saxað eða rifið engifer
  • 1 sítróna, skorin í báta

Aðferð: Hrærið saman bbq sósu, apríkósusultu, soja sósu, hvítlauk og engifer og hellið helmingnum yfir kjúklingalærin. Látið marinerast a.m.k í 30 mínútur í ísskáp. Hitið ofn í 220 gráður. Raðið lærunum á pappírsklædda bökunarplötu, stingið sítrónubátunum hér og þar og bakið í 10 mínútur. Takið þá út og penslið lærin með meira af barbecue sósunni og bakið aftur í um 8 mínútur. Takið þá aftur út, penslið meira af sósunni á og bakið áfram í um 8 mínútur eða þar til lærin eru elduð í gegn. Hækkið hitann eins hátt og ofninn ykkar kemst eða setjið grillið á síðustu mínuturnar til að sósan karameliserist á lærunum. Berið fram t.d með salati, kúskús og kaldri hvítlaukssósu. min_IMG_6058

Filed Under: Eldhúsperlur

Dúnmjúkar banana muffins með brúnuðu smjöri

júlí 1, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_6036Ég þori varla að segja það upphátt en stundum, bara stundum kann ég alveg ágætlega við svona rigningardaga eins og eru framundan. Nei ég vill nú ekki hafa rigningu allt sumarið, en þegar spáð er krassandi lægð eins og núna hugsa ég mér gott til glóðarinnar hvað kósýheit varðar. Við Gunnar höfum viðað að okkur úrvali barnabóka frá bókasafninu og hlökkum bara svolítið til að kúra saman undir teppi og kíkja í bækur og horfa á teiknimyndir eftir langa og blauta skóladaga hjá þeim stutta. Eitt af því besta sem Gunnar veit eru möffins, eða bollakökur ýmiskonar. Það var því ekki úr vegi að hræra í þessar dásamlegu banana muffins til að eiga fyrir komandi rigningardaga. Kökurnar eru einstaklega mjúkar og alveg hættulega góðar. Svo tekur enga stund að búa þær til. Ekki hræðast brúnaða smjörið, það gerir alltaf gott jafnvel enn betra og passar svo sannarlega vel við þessar kökur. Gunnar lýsti því yfir að þetta væru bestu muffins sem hann hefði nokkurn tímann smakkað.min_IMG_6037

Ég nota alltaf sérstök bollaköku álform þegar ég baka muffins eða bollakökur. Þau fást til dæmis í versluninni Allt í köku, Ikea og örugglega mörgum öðrum stöðum. Svona deig eins og fer í þessar kökur og flestar bollakökur sem ég hef sett inn á síðuna er frekar þunnt og hentar alls ekki vel í pappírsform eingöngu, heldur þarf örlítið meiri stuðning. Ef þið notið bara pappírsform verða kökurnar allavega ekki svona háar og fínar og gætu lekið út.

min_IMG_6055Banana muffins með brúnuðu smjöri (12 kökur, bollamálið mitt er 2.5 dl):

  • 4 dl spelt eða hveiti (ég notaði fínt og gróft spelt til helminga)
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/4 tsk salt
  • 1 1/2 dl hrásykur
  • 125 gr smjör, brætt og brúnað sjá leiðbeiningar hér
  • 4 bananar, stappaðir
  • 2 egg
  • 2 tsk vanilluextract
  • 1 dl dökkir súkkulaðidropar eða saxað súkkulaði

min_IMG_6038Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Hrærið öllum þurrefnunum saman í skál. Brúnið smjörið og stappið bananana og bætið því ásamt eggjum og vanillu saman við þurrefnin ásamt súkkulaðinu. Hrærið þar til rétt svo komið saman. Alls ekki hræra of lengi. Skiptið í 12 pappírsklædd bollakökuform og bakið í um það bil 25 mínútur. min_IMG_6051

Filed Under: Eldhúsperlur

Vatnsmelónu gazpacho

júní 29, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_6015Sumarið sem ég varð 18 ára fór ég til Malaga á Spáni og var þar í mánuð í spænskuskóla. Þetta var sannarlega einhver skemmtilegasti mánuður ævi minnar og þvílík upplifun fyrir 17 ára unglingsstelpu að fara alein langt í burtu frá öllum og það fyrir tíma Facebook og Skype. Skólinn var dásamlegur í fallegu úthverfi Malaga borgar og þar kynntist ég í fyrsta skipti alvöru andalúsískri paellu og gazpacho.. og flamenco dansi og nautaati og San Miguel en það er önnur saga. Paellan heillaði mig aldrei neitt sérstaklega, þannig lagað, en ég hef allar götur síðan verið afar hrifin af gazpacho, sem er í raun bara köld súpa. Það er fátt eins frískandi í 30 stiga hita en ísköld og bragðmikil gazpaco og merkilegt nokk þá er hún bara alveg ágæt líka í 15 stiga hita á Íslandi. min_IMG_6004Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þessa vatnsmelónu gazpacho síðan ég sá hana í uppskriftatímariti um daginn. Svo gerði ég hana um daginn, við borðuðum hana í sólinni á pallinum og nú get ég aftur ekki hætt að hugsa um hana. Hún skoraði fullt hús stiga hjá okkur, svo fersk, létt og bragðgóð, fullkominn forréttur á undan grillmat til dæmis. Þarna sannast líka enn og aftur hið margkveðna, hvað einfalt er oftast langbest, í matargerð sem og öðru. Ég mun gera þessa aftur og aftur.min_IMG_6008

Vatnsmelónu gazpacho fyrir 4 (örlítið breytt uppskrift úr FoodNetwork Magazine):

  • 2 bollar vatnsmelóna, afhýdd og skorin í litla bita
  • 2 eldrauðir vel þroskaðir tómatar
  • 1/4 bolli góð jómfrúar ólífuolía
  • 1/2 agúrka, fræhreinsuð
  • 1/2 grænn eða rauður chillipipar, fræhreinsaður ef þið viljið ekki sterka súpu
  • 2 msk smátt saxaður rauðlaukur (og aðeins meira til að strá yfir)
  • 2 tsk rauðvínsedik
  • Sjávarsalt og nýmalaðurr pipar
  • 4 msk fetaostur í vatni
  • Smávegis af graslauk og steinselju, smátt saxað (líka hægt að nota aðrar ferskar kryddjurtir, t.d dill)

Aðferð: Setjið einn og hálfan bolla af saxaðri vatnsmelónu og tómatana í blandara og þeytið þar vel maukað. Bætið út í ólífuolíu, agúrku, chillipipar, rauðlauk, rauðvínsediki, salti og pipar (ég notaði alveg 1 tsk af grófu Saltverk sjávarsalti). Blandið þessu vel saman þar til silkimjúkt. Smakkið til með salti, pipar og rauðvínsediki. Hellið í könnu eða skál og kælið í a.m.k 30 mínútur. Hellið súpunni í bolla eða litlar skálar. Toppið með restinni af vatnsmelónunni, fetaosti, smátt söxuðum rauðlauk, graslauk, steinselju eða dilli. Berið fram strax, ískalt.

min_IMG_6001

Filed Under: Eldhúsperlur

Rabarbarakaka með marsipani og vanillusósu

júní 16, 2014 by helenagunnarsd 16 Comments

min_IMG_5976Í Stokkhólmi, og sennilega víðar í Svíþjóð er varla þverfótað fyrir kaffihúsum, krúttlegum bakaríum, kökuhúsum og litlum dúllustöðum þar sem hægt er að setjast niður fá sér kaffisopa og ”fika”, sumsé fá sér eitthvað sætt og gott með kaffinu. Við rákumst inn á eitt slíkt á meðan við vinkonurnar dvöldum í Stokkhólmi um daginn. Þar var meðal annars boðið upp á himneska berjaböku með vanillusósu. Bragðlaukarnir dönsuðu af kæti og ég mundi þá hvað vanillusósa og sænskt sumar er dásamleg blanda. Og ég hugsaði með mér: Af hverju er ekki bara alltaf vanillusósa með öllu? Svo kom ég heim og gleymdi þessu nostalgíuvanillusósukasti mínu þar til ég rakst á uppskrift að rabarbaraköku á sænsku matarbloggi. Vanillusósu minningin kom þá eins og himnasending og ég varð að athuga hvernig vanillusósa færi með slíkri köku. Útkoman var svo góð að ég get ekki annað en deilt gleðinni með ykkur. Svo þykir mér líka bara fátt þjóðlegra en glænýr rabarbari sem virðist spretta undir hverjum húsvegg á landinu nema mínum. Elsku bakið kökuna og gerið vanillusósu með, kakan er reyndar líka æðisleg með þeyttum rjóma. min_IMG_5973

Rabarbarakaka með marsipani og vanillusósu:

  • 3 egg
  • 2 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 100 gr brætt smjör
  • 2.5 dl fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • Sjávarsalt á hnífsoddi
  • 150 gr rabarbari, skorinn í litla bita
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 125 gr marsipan

min_IMG_5992Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í á meðan þið hrærið. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og salti saman við og hrærið létt þar til allt er komið saman. Hellið í smurt smelluform. Hrærið kartöflumjölinu saman við rabarbarann og dreifið honum yfir deigið, ýtið aðeins ofan í deigið. Rífið marsipanið á grófu rifjárni yfir rabarbarann. Bakið í 35-40 mínútur. Ef ykkur finnst marsipanið dökkna mikið leggið þá álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur.

min_IMG_5989Vanillusósa:

  • 2 dl rjómi
  • 2,5 dl mjólk
  • 1 dl hrásykur
  • 1 vanillustöng, kornin skafin úr
  • 1 sléttfull msk kartöflumjöl
  • 1 msk mjólk
  • 1 eggjarauða

min_IMG_5994Aðferð: Setjið rjóma, mjólk, sykur og vanillukorn í lítinn pott. Hitið við vægan-meðalhita þar til blandan hefur hitnað vel og vanillan vel blönduð saman við mjólkina, ekki sjóða. Hrærið kartöflumjölið saman við eina matskeið af mjólk og hellið út í vanillublönduna í pottinum. Pískið saman við þar til blandan er alveg að fara að sjóða eða rétt byrjuð að sjóða, froða byrjar að myndast í köntunum og rýkur úr blöndunni. Takið af hitanum og pískið áfram og látið aðeins kólna. Bætið eggjarauðunni þá út í og pískið áfram þar til blandan hefur þykknað aðeins og kólnað. Hellið sósunni gegnum sigti og berið fram volga með rabarbarakökunni. Sósan geymist í ísskáp í lokuðu íláti en þynnist aðeins þegar hún kólnar. min_IMG_5995

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: ávaxtakaka, eftirréttur, góð kaka, marsipankaka, Rabarbarakaka, rabarbarapæ, rabbarbarakaka, Rabbarbari uppskriftir, Uppskriftir að rabarbarakökum

Taco súpa

júní 12, 2014 by helenagunnarsd 20 Comments

min_IMG_5953Ef ég hef einhvern tímann sagt að súpur séu kjörinn vetrarmatur, sem ég hef örugglega gert, þá tek ég það til baka. Ég er hrifin af súpum allt árið um kring og fæ ekki nóg af að prófa nýjar útgáfur. Mér þykir þessi súpa meira að segja bara þræl sumarleg með þessum fallegu grænu og rauðu litum og ilmandi límónubátum. Þetta er svona maturinn sem ég elda þegar ég er kannski pínulítið stressuð og langar að slaka á í eldhúsinu og elda eitthvað rólegt og fallegt. Jafnast á við bestu íhugun að standa yfir gómsætri súpu, sjá hana umbreytast úr nokkrum hráefnum úr ísskápnum, smá kryddi og vatni yfir í þessa dásamlegu máltíð. Þessi tiltekna súpa er svona ”slá í gegn súpa”. Kjörin veislusúpa sem er auðvelt að gera mikið magn af og meðlætið gerir hana svo sparilega og sérstaka. Svo er hún auðvitað líka bara upplögð heima súpa fyrir fjölskylduna. Prófið þessa og leyfið mér að vita hvernig ykkur líkaði. Ég mæli innilega með henni!min_IMG_5961

Taco súpa:

  • 500 gr nautahakk
  • 2 rauðlaukar
  • 2 paprikur
  • 3 hvítkauksrif
  • 2 tómatar
  • 1 lítil sæt kartafla
  • 3 msk tacokrydd
  • 1 kjúklingateningur
  • 1 krukka mild chunky salsa (350 gr)
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 l vatn
  • 2 msk rjómaostur, ég nota philadelphia light
  • 2 msk rjómi

min_IMG_5935Aðferð: Skerið rauðlauk, papriku og hvítlauk smátt. Hitið stóran pott og brúnið nautahakkið í pottinum. Bætið grænmetinu út í og látið krauma þar til það mýkist aðeins. Kryddið með tacokryddinu og setjið gróft skorna tómatana út í. Setjið salsasósuna, tómatpúrru, kjúklingatening og vatn út í og hleypið suðunni upp. Skerið sætu kartöfluna í litla teninga og bætið út í. Látið sjóða við hægan hita í 20-30 mínútur. Bætið þá rjómanum og rjómaostinum saman við og smakkið til með salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Mér finnst svo gott að stappa aðeins sætu kartöflurnar í súpunni með gamaldags kartöflustappara, áður en ég ber hana fram þá þykknar súpan aðeins. Súpan er góð strax, en enn betri daginn eftir svo það er upplagt að gera auka fyrir nestið eða í matinn seinna. Berið súpuna fram með meðlætinu góða og kreistið dálítinn límónusafa yfir hverja skál. Njótið í botn!

min_IMG_5965Meðlætið:

  • 5 tortillakökur
  • Avocado í bitum
  • Rifinn maríbó ostur
  • Smátt saxaður vorlaukur
  • Límónubátar

Page_1Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Staflið tortillakökunum upp, skerið í tvennt og svo í mjóar ræmur. Leggið á ofnplötu, dreifið örlítilli olíu yfir og sjávarsalti og blandið vel saman. Bakið í 15 mínútur og hrærið aðeins í kökunum einu sinni eða tvisvar yfir bökunartímann. Látið kólna og berið fram með súpunni. min_IMG_5955min_IMG_5963

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur matur, Góð súpa, kvöldmatur humgyndir, mexíkó súpa, mexíkósk súpa, Mexíkóskur matur, Ódýr matur, salsa súpa, Súpa, súpa fyrir marga, súpa fyrir veislu, taco súpa

Grillborgarar með fetaostafyllingu

júní 5, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5860Þá liggja Danir í því. Eldavélin mín, elsku spanhelluborðið mitt sem ég hef stólað á síðustu árin er bilað. Svo mikið bilað að varahluturinn í það er ekki einu sinni til á landinu og verður ekki næsta hálfa mánuðinn. Þangað til er ég eldavélarlaus. Það verður því allt annað hvort ofnbakað eða grillað hér á bæ á næstu vikum og hugmyndafluginu leyft að njóta sín. Vissuð þið til dæmis að það er hægt að sjóða egg í hraðsuðukatli? Nei, hélt ekki. Neyðin kennir naktri konu að spinna! Sem betur fer nota ég bakarofninn mikið til eldunar og grillið nær varla að kólna svona yfir sumartímann svo þetta reddast nú allt saman.

Þessir grilluðu hamborgarar urðu einmitt fyrir valinu fyrir nokkru, enn einn grilldaginn á heimilinu. Ég geri mér oft ferð í Kjöthöllina til að verða mér úti um gæða ungnautahakk. Hakkið þar kallast lúxus nautahakk, inniheldur 100% gæða ungnautakjöt og er fituprósentan í hakkinu aðeins um 2-3%. Þetta er kjörið hamborgarakjöt, helst vel saman, frábært á grillið og dúnmjúkt. Mér finnst upplagt að kaupa aðeins aukalega til að henda í frystinn og grípa í þegar næsta hamborgarapartý stendur til. Og nei, þetta er sannarlega ekki auglýsing heldur einfaldlega það sem mér þykir gott. Þessir borgarar voru sannarlega með þeim betri sem við höfum grillað, frábært bragð af kjötinu og fetaosturinn gerði alveg útslagið. min_IMG_5849

Grillborgarar með fetaostafyllingu (fyrir fjóra borgara):

  • 500 gr hreint ungnautahakk
  • 2 tsk worchestersósa
  • 4 msk fetaostur í vatni eða fetakubbur
  • Sjávarsalt, nýmalaður pipar og ólífuolía

Page_1Aðferð: Blandið worchestersósunni saman við nautahakkið. Skiptið kjötinu jafnt í fjóra hluta. Takið hvern hluta og skiptið honum í tvennt. Fletjið hlutana út með fingrunum þannig að úr verði átta frekar þunnir borgarar. Myljið 1 msk af fetaosti í miðjuna á fjórum borgunum. Leggið þá hinn helminginn af kjötinu yfir og pressið saman með fingrunum og gætið að kantarnir festist vel saman svo osturinn leki ekki út. min_IMG_5841Penslið borgarana með ólífuolíu og kryddið vel með salti og pipar. min_IMG_5850Grillið á vel heitu grilli í u.þ.b fimm mínútur á hvorri hlið. min_IMG_5844Berið fram með því grænmeti og sósum sem ykkur þykir best. Létt jógúrtsósa passar einkar vel við borgarann að mínu mati ásamt rauðlauk, lárperu, vel þroskuðum tómötum og lambhagasalati. min_IMG_5857

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góðir hamborgarar, Grill uppskriftir, grillaður hamborgari, Grillmatur, grillveisla, heimatilbúnir hamborgarar, ostafylltur hamborgari

Ljúffengir granóla bitar sem ekki þarf að baka

júní 2, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5818Hafið þið skoðað heimasíðuna Oh she glows? Ef ekki þá mæli ég heilshugar með heimsókn þangað. Þar má finna aragrúa uppskrifta og góðra ráða sem eiga það allar sameiginlegt að vera í hollari kantinum og oftar en ekki svokallaðar ”vegan” uppskriftir, sem eru þá lausar við allar dýraafurðir, þar með talið egg og mjólkurafurðir. Þessir dúndurgóðu orkubitar eru einmitt fengnir þaðan og það bregst ekki að allt sem ég hef prófað af síðunni er gott. Eða það þykir mér allavega. Ég myndi þó seint kalla þessa bita hreint og beint hollustufæði, þeir eru í það minnsta frekar orkuríkir og alveg skuggalega góðir, dálítið klístraðir og stökkir. Minna mig helst á blöndu af hráu hafra-smákökudegi og rice krispies kökum. Þeir allavega virka og renna ljúflega niður jafnt hjá ungum sem öldnum. Það er gott að geyma bitana í ísskáp, jafnvel í frysti því þeir eru dálítið lausir í sér þegar þeir ná stofuhita blessaðir. Eða eins og Angela Oh she glows pæja orðar það, þá er best að sporðrenna einum bita, í heilu lagi, beint úr ísskápnum og nei, það er sko ekki erfitt skal ég segja ykkur. Svo það er betra að hafa bitana bara litla og sæta og njóta í botn.

min_IMG_5811Ljúffengir granóla bitar sem ekki þarf að baka (breytt uppskrift af www.ohsheglows.com):

  • 1 1/2 bolli haframjöl
  • 1 bolli rice krispies eða annað blásið, létt morgunkorn – ég notaði hrísflögur frá Sollu
  • 1/2 bolli möndluflögur
  • 1/2 bolli kókosmjöl
  • 2 msk chia fræ
  • 1/2 bolli þurrkuð trönuber
  • 2 msk súkkulaðidropar (má sleppa)
  • 3/4 bolli hreint möndlusmjör, helst úr ristuðum möndlum, fæst t.d í Kosti og er ómótstæðilega gott
  • 1/4 bolli brædd kókosolía
  • 1/4 bolli agavesíróp, hlynsíróp, hunang eða það síróp sem ykkur þykir best
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/2 tsk sjávarsalt

min_IMG_5807Aðferð: Blandið öllum þurrefnum saman í stórri skál. Pískið saman möndlusmjöri, kókosolíu, sírópi, vanillu og salti og hellið yfir þurrefnin í skálinni. Blandið vel saman. Klæðið lítið form eða eldfast mót með bökunarpappír, hellið blöndunni í og þrýsið vel niður og út í kantana. Stráið yfir nokkrum trönuberjum og súkkulaðidropum og þrýstið aðeins niður. Setjið í frysti í 30 mínútur. Takið þá út og skerið í litla bita. Geymið bitana í frysti eða ísskáp.min_IMG_5820min_IMG_5822

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góður morgunmatur, Granóla, granóla bitar, granóla stangir, hollt nesti, hugmyndir að nesti, Morgunmatur, múslí bitar, múslí stangir

Sweet chili kjúklinga enchiladas

maí 22, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5748Enn einu sinni fær kaldur afgangs kjúklingur yfirhalningu í eldhúsinu. Að þessu sinni umbreyttist kjúllinn í þessar dásamlegu enchiladas með mildri, sætri kókos chili sósu. Þetta er svona ekta föstudags- matarboðsréttur sem allir elska. Einfaldur og sérstaklega bragðgóður. Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um þetta, nema bara hvetja ykkur til að prófa, þessi er allavega á uppáhaldslistanum á mínu heimili!min_IMG_5741

Sweet chili kjúklinga enchiladas:

  • 1 pakki heilveiti tortilla kökur, 8 stk
  • 1 eldaður kjúklingur úrbeinaður og rifinn niður (líka hægt að nota 3 eldaðar kjúklingabringur)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 4 – 5 msk sweet chili sósa + meira eftir smekk
  • 1/2 kjúklingateningur eða 1 tsk kjúklingakraftur
  • 1 dós philadelphia light rjómaostur
  • 3 msk sýrður rjómi
  • 5 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Góð handfylli ferskt kóríander, saxað smátt
  • Rifinn ostur eftir smekk
  • 2 avocado, skorin í teninga

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri, annars 200 gráður. Rífið kjúklingakjötið af beinunum og skerið það frekar smátt. Setjið kókosmjólkina, sweet chilli sósu og kjúklingatening í pott og hitið þar til suðan kemur upp. Leyfið að malla við hægan hita í 1-2 mínútur. Slökkvið undir og setjið til hliðar. Hrærið saman rjómaostinum og sýrða rjómanum (líka gott að skipta rjómaostinum út fyrir Kotasælu). Takið tortillaköku, smyrjið ca. 2 msk af rjómaostablöndunni á kökuna, dreifið 2-3 msk af kjúkling yfir, smá vorlauk og kóríander. Setjið um 1 msk af rifnum osti yfir og smá sweet chilli sósu. min_IMG_5723Rúllið tortillakökunni upp og endurtakið þar til kjúklingurinn og heilhveititortillurnar eru búnar. min_IMG_5729Skiljið smá vorlauk og kóríander eftir til að strá yfir þegar rétturinn er tilbúinn. Leggið rúllurnar í eldfast mót og hellið þá sweet chilli kókosmjólkinni úr pottinum yfir. min_IMG_5731Stráið rifnum osti yfir og bakið í 15 mínútur.min_IMG_5733 Dreifið kóríander, vorlauk, avocado teningum og smá sweet chilli sósu yfir og berið fram.min_IMG_5740

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: bestu kjúklingaréttirnir, chicken enchiladas, Einfaldur kjúklingaréttur, Fljótleg kjúklingauppskrift, Góður kjúklingaréttur, kjúklinga enchiladas, mexíkóskur kjúklingur, sweet chili kjúklingur

Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar

maí 19, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5714Það er frekar fyndið að setja inn aðra pæ uppskrift sem lítur næstum alveg eins út og síðasta uppskrift sem ég setti inn. En auðvitað allt öðruvísi á bragðið með allt öðru hráefni. Pæ hafa öðlast nýtt líf í eldhúsinu mínu og ég kann afskaplega vel við að útbúa svona ”röstic” (íslenskt orð óskast) pæ, hvort sem þau eru sæt eða matarmeiri. Möguleikarnir að fyllingum eru endalausir og svo þykja mér þau svo falleg, svona ófullkomin, beygluð og krúttleg. Ást mín á rabarbara er svo eitthvað sem þarf varla að ræða. Mér tekst á hverju einasta sumri að snýkja mér rabarbara úr garði góðhjartaðra ættingja eða vina og helst vill ég snýkja hann snemma því hann verður súrari eftir því sem líður á sumarið. Að þessu sinni var það elskuleg kórsystir mín sem var svo hugguleg að leyfa mér að koma í garðinn og fá hluta af dásamlega rabarbaranum hennar. Myndarlegur, eldrauður og flottur, og alls ekki svo súr, fyrsta flokks rabarbari. Takk Ásdís! min_IMG_5713Ég hvet ykkur til að prófa þessa útgáfu af rabarbarapæi, engiferið og svarti piparinn passar einstaklega vel við súrt og sætt bragðið af ávextinum. Maður tekur ekki beint eftir því þegar maður smakkar pæið en það rífur örlítið í og gefur alveg extra sérstakan keim.. Prófið bara.

min_IMG_5699Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar:

  • Botninn:
  • 3 dl spelt, ég notaði fínt og gróft til helminga
  • 1/4 tsk salt
  • 3 msk sykur
  • 100 gr kalt smjör skorið í litla bita
  • 1/2 dl vatn (sett smám saman út í, gæti þurft aðeins meira eða aðeins minna)
  • Fylling:
  • 1 msk smjör
  • 7 dl saxaður rabarbari
  • 1 dl sykur (smakkið rabarbarann, stundum þarf meira og stundum minna)
  • 1/2 tsk engiferduft
  • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl
  • 1 egg
  • 1 msk grófur demerara sykur/hrásykur

min_IMG_5700Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og gerið botninn. Myljið smjörið saman við mjölið, sykurinn og saltið með fingrunum þar til frekar vel blandað saman og smjörið komið í litla bita, á stærð við poppbaunir. Bætið vatninu smám saman út í eftir þörfum og vinnið saman með höndunum þar til deigið loðir saman og er ekki of blautt. (Athugið að nota alls ekki allt vatnið ef deigið er komið saman). Hnoðið deigið létt saman með höndunum. Setjið deigið á smjörpappír og leggið aðra smjörpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þar til laglegur um það bil hringur hefur myndast og fyllir nánast út í bökunarplötu. Fjarlægið efri smjörpappírsörkina af útflöttu deiginu og leggið deigið á smjörpappírnum á bökunarplötu. Geymið á meðan fyllingin er útbúin.

Bræðið smjör á pönnu við meðalhita. Bætið rabarbara, sykri, engifer, pipar og maíssterkju út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur á meðalhita eða þar til sykurinn leysist upp og vökvinn sem kemur af rabarbaranum þykknar aðeins. Hellið rabarbara blöndunni á miðjuna á deiginu og dreifið aðeins úr en gætið þess að skilja eftir smá kant. Flettið köntunum á deiginu upp á fyllinguna og athugið að þetta á ekki að vera fullkomið. Penslið kantana með eggi og stráið hrásykrinum yfir kantana og rabarbarann. Bakið neðarlega í ofni í 20-25 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur áður en pæið er skorið. Berið fram volgt með góðum vanilluís.min_IMG_5712

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góður eftirréttur, hugmyndir að eftirréttum, pæ, Rabarbarakaka, rabarbarapæ, rabarbari uppskriftir, rabbarbarakaka, Rabbarbari uppskriftir

Kjúklingabaka með parmesan og púrrulauk

maí 13, 2014 by helenagunnarsd 1 Comment

Ég hef eytt undanförnum dögum í Stokkhólmi þar sem ég átti alveg frábæran tíma með yndislegum vinkonum og goðinu til margra ára, Justin nokkrum, Timberlake. Fullkomin helgi í alla staði sem saman stóð af eintómri gleði, dekri, huggulegheitum og fyndnum uppákomum. Hápunktur helgarinnar var án efa á laugardagskvöldið þegar langþráður draumur okkar vinkvenna um að bera meistara JT augum, varð að veruleika.IMG_5684 IMG_5666IMG_5693Tónleikarnir voru ólýsanlega flottir og stóðust fyllilega væntingar mínar og gott betur. Svo náði ég meira að segja ansi ágætum myndum. Ef einhver hefur einhverntímann efast um Justin ætti sá hinn sami að skella sér á tónleika og borða hattinn sinn á eftir. Ég get svo ekki beðið eftir að fara á ögn smærri JT tónleika í sveitinni minni í ágúst og fá að sjá þetta snilldar show aftur. Er jafnvel að hugsa um að bjóða honum í grill á pallinum hjá okkur á undan tónleikunum.. eða jafnvel á eftir. Þið látið það bara berast ef hann er laus..min_IMG_5523En nóg um Justin í bili og að bökunni. Þessi baka er bæði fljótleg og einföld og hana ættu allir að geta gert. Galdurinn við bökur eins og þessa er að nota það sem hendi er næst. Týna afganga úr ísskápnum af kjöti eða grænmeti, eða hvorutveggja og raða í hana því sem manni þykir sjálfum best. Ég kaupi iðulega tvo heila kjúklinga einu sinni í viku, elda þá báða, hef annan í matinn en geymi hinn fyrir nesti, salöt, súpur, kvöldmat og hvaðeina fyrir næstu daga á eftir. Það góða við bökuna er að hún þarf ekki að vera fullkomin heldur er aðferðin svolítið bara eins og að baka pizzu með mikilli fyllingu og lokuðum kanti en deigið er stökkt og gott eins og bökudeig á að vera. Prófið bara!min_IMG_5522

Kjúklingabaka með osti og púrrulauk (fyrir 3-4 fullorðna):

  • 2,5 dl grófmalað spelt
  • 4 msk ólífuolía
  • 1/2-1 dl heitt vatn (setjið smám saman út í)
  • 2 msk dijon sinnep
  • 3 msk sýrður rjómi
  • 2 eldaðar kjúklingabringur eða annað eldað kjúklingakjöt, rifið niður eða smátt skorið
  • 1/2 – 1 púrrulaukur, smátt saxaðaður
  • 1 góð handfylli af söxuðu íslensku grænkáli, líka hægt að nota saxað spínat
  • 3 msk kotasæla
  • 2 egg
  • 1 dl rifinn parmesan og 1 dl rifinn mozarella eða annar mildur ostur
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri, annars 200 gráður. Blandið saman, með sleif eða venjulegri skeið, í skál, spelti og ólífuolíu, bætið heitu vatni þar til þið eruð komin með deig sem loðir saman og er ekki of blautt. Hellið deiginu á hveitistráð borð og hnoðið aðeins saman með höndunum. Fletjið deigið út þar til það fyllir nánast út í ofnplötu og er um það bil hringlaga (þarf ekki að vera fullkomið muniði!). Leggið deigið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Dreifið úr dijon sinnepinu og sýrða rjómanum á botninn en skiljið ca. 3 cm kant eftir. Dreifið kjúklingnum yfir ásamt púrrulauknum og helmingnum af grænkálinu eða spínatinu. Leggið kantana á bökudeiginu upp á fyllinguna eins og þið sjáið á myndunum. Hrærið saman kotasælu, eggjum og rifnum osti, kryddið með salti og pipar og hellið yfir fyllinguna, stráið restinni af grænkálinu eða spínatinu yfir. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til baka er tilbúin og osturinn gullinbrúnn. Berið fram t.d með góðu salati og sýrðum rjóma.min_IMG_5535

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: böku uppskriftir, bökudeig, bökur, Bröns, brunch hugmyndir, Einfaldur kjúklingur, Góðir kjúklingaréttir, Góður kjúklingaréttur, kjúklinga uppskriftir, Kjúklingabaka, Kjúklingaréttur, matarmiklar bökur

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 5
  • Page 6
  • Page 7
  • Page 8
  • Page 9
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme