• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for apríl 2013

Blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk

apríl 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2187Syni mínum þykir blómkálssúpa hinn mesti hátíðarmatur og hoppar hæð sína af gleði í hvert sinn sem ég verð að ósk hans og elda þann góða rétt. Það sem mér þykir þó sennilega mesta syndin varðandi alla þessa blómkálsaðdáun barnsins er að honum þóttu hefðbundnar hveitiuppbakaðar saltstappaðar blómakálspakkasúpur alveg dásamlegar. En það þótti móður hans ekki, verandi þó talsverður blómkálssúpuaðdáandi sjálf. Það er nefnilega svo einfalt, gott og ódýrt að útbúa sjálfur dáfínar súpur frá grunni. Ég þarf svo varla að sannfæra ykkur um hvað útkoman verður margfalt betri. Sá stutti drakk allavega , já drakk, súpuna úr skálinni þar til hann gat ekki meira og var eitt stórt alsælt blómkálsbros á eftir.

Með því að rista blómkálið í pottinum áður en vökvanum er bætt út í kemur smá hnetukeimur af því og súpan fer á aðeins hærra plan en gamla pakkasúpan. Sýrði rjóminn og laukurinn gefa svo þessari súpu alveg einstaklega gott bragð sem smellpassar við blómkálið og gerir súpuna svolítið sparilega.

min_IMG_2182Ristuð blómkálssúpa með sýrðum rjóma og lauk (fyrir 4-5):

  • 1 stór eða 2 litlir skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 2 msk smjör
  • 1 stórt blómkálshöfuð, gróft skorið
  • 1 l vatn (má vera aðeins meira, þá verður súpan örlítið þynnri)
  • 2-3 tsk góður grænmetiskraftur (eða 2 góðir teningar)
  • 1 peli rjómi
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 3 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Salt og pipar

Page_1Bræðið smjörið í potti við meðalhita og steikið laukinn þar til hann mýkist. Bætið blómkálinu þá út í og hækkið hitann. Steikið þar til blómkálið hefur aðeins brúnast. Bætið þá vatni, rjóma og grænmetiskraftinum út í. Látið suðuna koma upp og leyfið að malla í um 10 mínútur eða þar til blómkálið hefur mýkst. Bætið þá vorlauknum út í og maukið súpuna með töfrasprota. Smakkið til með salt og pipar.Page_2Ef ykkur finnst hún of þykk má þynna hana með smá vatni ef of þunn þá má þykkja hana  með smá maizena mjöli. Þetta fer nú allt eftir smekk. Hrærið sýrða rjómanum út í súpuna í pottinum með písk og berið hana fram með söxuðum vorlauk og góðu nýbökuðu brauði, til dæmis þessum ljúffengu ostabollum, uppskriftina má finna hér.min_IMG_2178

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Blómkálssúpa, Einföld súpa, Fljótlegur matur, Góð súpa, Grænmetissúpa, LKL súpa, LKL uppskrift, Ódýr matur

Nokkrar sumarlegar uppskriftir

apríl 24, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1687Mér er alveg sama þó það snjói úti. Þar hafið þið það. Ég er búin að pirra mig svo oft á snjónum undanfarna daga að ég er farin að trúa því að ef mér er alveg sama þá hljóti hann að fara og vorið að koma. Um helgina sat ég í fyrsta skiptið á þessu ári á pallinum mínum og það var sko alveg vel sólbaðsfært. Ég meira að segja setti markísuna upp (lesist: lét setja upp) og bar fram seinnipartshressingu úti á palli. Þá var nú aldeilis vorið komið, gott ef ekki bara sumarið eins og það leggur sig. En svo kom snjór. Í ofanálag þá húki ég nú heima lasin með kvef. Ég skammast mín reyndar alltaf hálfpartinn að kvarta út af snjó þegar ég sé myndir að Norðan þar sem snjóskaflarnir hafa ekkert minnkað síðan í september. Ef þið búið þar, klappið ykkur nú aðeins á bakið og ég held að það sé alveg í lagi að fara að hlakka til vorsins. Það verður komið áður en við vitum af. En þangað til, þá má alveg snjóa. Mér er alveg sama.

Þar sem það er nú síðasta vetradagur í dag sem hefur svo í för með sér það óumflýjanlega, sumardaginn fyrsta, datt mér í hug, þrátt fyrir allt, að vera bara á bjartsýnu nótunum og deila nokkrum sumarlegum réttum með ykkur. Ég býst nú fastlega við að með hækkandi sól og hlýrra lofti eigi eftir að bæta verulega í sumarlega uppskriftasafnið mitt sem er kannski dálítið fátæklegt eins og er. En ég mæli með því að grill verði dregin út, hvernig sem viðrar og að við fögnum sumri með viðeigandi hætti, fyrir okkur og líka fyrir nágranna okkar. Því hvað er sumarlegra en að finna lyktina og öfundast aðeins af ilmandi grillmeti nágrannans?

IMG_1705Salat með grilluðum tígrirækjum á spjóti og kaldri chillisósu
IMG_1300 Grillaður lambahryggurIMG_1448Grillaðar kryddlegnar kjúklingabringur með litríku kúskús salatiSlide1Marineraðar lambakótilettur með hasselback kartöflum, grísku salati og graslaukssósu
IMG_0630Mér þykja svo þessir gómsætu döðlukaramellu bitar virkilega sumarlegir og upplagðir í eftirrétt á eftir grilluðu góðgæti. Hægt að gera þá með góðum fyrirvara og geyma í ísskáp eða frysti.

*Gleðilegt sumar kæru vinir*

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Grill uppskriftir, Sumarlegir réttir

Glúten og mjólkurlausar kókosvöfflur

apríl 21, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_2096Þar sem mikið lágkolvetna æði hefur gengið yfir landið að undanförnu má nú finna hinar ýmsu nýstárlegu mjöl tegundir í venjulegum matvöruverslunum sem áður seldu ekki slíkar vörur. Má þar til dæmis nefna kókoshveiti, möndlumjöl og hörfrærmjöl. Mér finnst alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og hef undanfarið dálítið verið að prófa mig áfram með þessar nýju og afar góðu afurðir. Þetta mjöl hefur einnig þann kost í för með sér að vera með öllu glútenlaust sem getur komið sér vel ef þið eða einhver sem þið þekkið þolir ekki glúten.

min_IMG_2074Fyrir nokkrum árum síðan rakst ég á uppskrift á einu af mínum uppáhalds matarbloggum. Þar hafði hún Joy búið til alveg einstaklega girnilegar vöfflur úr kókoshveiti. Ég hef eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þessar vöfflur síðan. Það eina sem stóð í vegi fyrir því að ég prófaði að búa þær til var að ég vissi ekki hvar í ósköpunum ég gæti komist yfir kókoshveiti. En eins og við vitum núna er nú ekki mikið mál að nálgast poka af því góðgæti. Kókoshveiti er tiltölulega dýr vara en það góða við það er að það þarf MUN minna af því en t.d venjulegu hveiti. Einn poki mun því endast lengi. Kókoshveiti er líka mjög trefja- og próteinríkt og gerir manni bara gott. Ég mæli með þessum vöfflum, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og ég get næstum því lofað að líðanin eftir að hafa borðað eina svona er margfalt betri en eftir þær hefðbundnu með hvíta hveitinu.

Kókos vöfflur (Breytt uppskrift frá Joy the Baker, um 6-8 vöfflur):

  • 6 egg
  • 1 tsk vanilluextract
  • 10 dropar stevia (eða 2 msk hunang)
  • 1 msk hreint hnetusmjör (mætti skipta út fyrir 1 stappaðan banana)
  • 4 msk kókosmjólk eða möndlumjólk (meira ef deigið er of þykkt)
  • 6 msk kókoshveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 4 msk kókosolía (fljótandi, látið krukkuna undir heitt vatn þar til olían er fljótandi)

Aðferð: Blandið öllu saman í skál með písk þar til deigið verður kekkjalaust.min_IMG_2076 Ef ykkur finnst deigið of þykkt bætið þá út í það meiri kókos eða möndlumjólk. Deigið á að vera frekar þykkt, þó ekki þannig að hægt sé að ganga á því, það er aldrei jákvætt. Page_1Bakið í vöfflujárni við meðalhita þar til bakaðar í gegn.min_IMG_2093Berið fram með t.d jarðarberjum, smjöri og beikoni og gefið einhverjum sem ykkur þykir vænt um í morgunmat. Ég lofa að sá hinn sami verður glaður og mun ekki hafa hugmynd um að vöfflurnar séu glútenlausar. Svo mætti auðvitað bera þær fram upp á gamla mátann með sultu og þeyttum rjóma. Möguleikarnir eru nánast endalausir.min_IMG_2099Svo er alveg upplagt að setja afgangs vöfflur í frystinn og skella svo í brauðristina eftir þörfum 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: glútenfrír bakstur, Glútenlausar vöfflur, Kókoshveiti uppskrift, Kókoshveiti vöfflur, LKL vöfflur, Mjólkurlausar vöfflur

Salat með klementínum, hráskinku og avocado

apríl 17, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_1751Um páskana þegar við vorum með hið dásamlega beef Wellington kom Sunna systir mín með þetta frábæra forrétta salat handa okkur sem við gæddum okkur á áður en nautasteikin var snædd. Ég hef nú loks fengið uppskriftina hjá henni og fæ að birta hana hér, mér til mikillar ánægju. Þetta salat er æði, segi það og skrifa. Það er svo lekkert að bera það fram sem forrétt eða jafnvel sem smárétt á léttu kvöldverðarborði. Þetta sameinar einmitt það sem mér þykir oft koma best út. Frekar fá gæða hráefni valin af alúð og sett saman af mikilli ást fyrir þá sem manni þykir vænt um. Þannig hljómaði uppskriftinni allavega frá Sunnu og ef þetta er haft í huga getur rétturinn ekki klikkað.  Vinagrettan sem hún setti yfir salatið gerði svo algjörlega útslagið. IMG_1758Með þessu góða salati drukkum við alveg frábæran dökkan belgískan bjór sem Sunna kom með og smell passaði hann við bragðið af salatinu eins og flís við rass. Bjórinn heitir Rodenbach Vintage 2010. Ég er nokkuð viss um að bjórinn fáist ekki í ríkinu en ég mæli eindregið með að smakka þessa tegund ef þið komist í tæri við hann og hafið gaman af að smakka öðruvísi bjór. Virkilega góður og eiginlega ekki eins og neinn bjór sem ég hafði áður smakkað. Hér eru t.d upplýsingar um bjórinn. Með salatinu væri þó sennilega líka gott að drekkar ískalt frekar þurrt hvítvín.

IMG_1754Forréttasalat fyrir 4-6:

  • 1/2 poki klettasalat.
  • 1 stórt avocado, skorið í sneiðar
  • 2 klementínur eða 1 appelsína
  • 1 bréf góð hráskinka (ca. 10-12 sneiðar)

Aðferð: Setjið klettasalatið í botninn á grunnu fati eða skál. Flysjið appelsínuna eða klementínurnar og raðið bátunum yfir salatið. Setjið því næst avocado sneiðarnar yfir og að lokum upprúllaðar hráskinkusneiðarnar.

Vinagretta:

  • Safi úr einni sítrónu
  • 6 msk ólífuolía
  • 1 msk balsamic edik
  • 1 msk grófkorna dijon sinnep
  • 1 msk vatn
  • Smá sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð: Allt hrisst saman í glasi eða krukku. Hellt yfir salatið rétt áður en það er borið fram.IMG_1748

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Avocado uppskrift, Einfaldur forréttur, Forréttir uppskrift, Forréttur, Gott salat, Góð salatdressing, Salat með avocado, Salat með hráskinku

Chili con carne

apríl 14, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_2050Stundum finnst mér alveg óhemju erfitt að finna íslensk nöfn á hinar ýmsu uppskriftir og rétti sem ég set hingað inn. Þetta gæti hugsanlega litast vegna þess hversu mikið af matartengdu efni sem ég nálgast er á ensku. Flestar uppskriftasíður, tímarit og matreiðsluþættir sem ég horfi á eru jú á ensku. Og maður minn hvað það virðist alltaf auðvelt fyrir enskumælandi fólk að búa til sniðug, girnileg og lýsandi heiti yfir hina ýmsu rétti. Sumir réttir eru bara varla til á íslensku. Ég tek sem dæmi ”Banana bread french toast”. Hvað heitir french toast til dæmis á íslensku? Veit það einhver? Varla eggjabrauð? Ég gæti ímyndað mér að þessi réttur gæti verið kallaður: Frönsk rist úr bananabrauði..? Hljómar bara ekki nógu vel samt!

En talandi um þetta ætla ég að segja ykkur frá rétti dagsins. Ég lenti einmitt í svona klípu þegar ég hafði eldað þetta og fór svo að hugsa hvað í ósköpunum ég gæti kallað þetta. Í Ameríku væri sennilega hægt að kalla þetta ”Chili with toppings” En þar í landi er nafnið ”Chili” notað yfir ýmsar útgáfur af bragðmiklum kjötkássum, gjarnan með baunum, chilipipar, nautakjöti og ýmsu góðgæti. Þetta er oftast borðað úr skál og ofan á eru sett hin ýmsu ”toppings”. Tortillaflögur, ostur, avocado, sýrður rjómi, laukur o.s.frv. Hér á landi hafa svona kássur oft gengist undir nafninu Chili con Carne (Chili með kjöti), sem er sennilega hægt að rekja til mexíkósks uppruna réttarins. Ef hann er þá mexíkóskur? Burtséð frá þessu öllu saman þá er þetta alveg æðislega góður réttur, ”toppings-ið” gerir alveg útslagið og vel hægt að leika sér svolítið með það. Þetta er mjög einfalt og fljótlegt að útbúa en voða gott að leyfa þessu að malla í góðan tíma. Þetta er svona réttur sem verður bara betri daginn eftir.

Chili con Carne (fyrir 5):

  • 1 kg hreint ungnautahakk
  • 1 rauðlaukur, smátt saxaður
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 1 stór rauð paprika, smátt skorin
  • 2-3 hvítlauksrif, smátt skorin eða rifin
  • 1 krukka tómatpassata
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 msk sambal oelec chillimauk, má vera minna (úr krukku, fæst t.d í Bónus)
  • 1 msk hunangs dijon sinnep
  • 2 msk Worchestershire sósa
  • Salt og pipar og límónusafi eftir smekk

min_IMG_2036Ofaná:

  • Sýrður rjómi
  • Rifinn ostur (ég notaði maribó og sterkan gouda)
  • 2 Avocado, skorin í teninga
  • 4-5 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Ferskt kóríander
  • Límónu bátar

Aðferð:

Steikið laukinn og hvítlaukinn í stórum potti við meðalhita þar til laukurinn verður glær, kryddið með salt og pipar. Bætið þá paprikunni út í og steikið áfram. Hækkið hitann og bætið hakkinu út á. Steikið vel þar til hakkið hefur brúnast. Bætið þá út í tómatpaste og steikið aðeins áfram. Page_1Setjið svo worchestersósu, tómatpassata, chillimauk og sinnep saman við og smakkið aðeins til með salti, pipar og límónusafa. Page_2Setjið lok á og leyfið þessu að malla í a.m.k 30 mínútur við hægan hita. Allt í lagi að láta það malla styttra en þeim mun lengur, því betri verður rétturinn. Ef ykkur finnst sósa of þykk má alveg bæta smá vatni út í. min_IMG_2029Berið fram með meðlætinu í litlum skálum til hliðar svo hver og einn geti valið sér meðlæti. min_IMG_2042

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chili con carne, Einfaldur matur, Hakkréttir, Nautahakk uppskriftir, Ódýr matur

Kúrbíts Canelloni með ricottafyllingu

apríl 10, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_1989Ég virðist vera í endalausri leit að léttum og fljótlegum grænmetisréttum sem auðvitað verða að vera góðir. Lífið er jú of stutt til að borða vondan mat og bara alls engin ástæða til þess þó maður vilji hafa hollustuna að leiðarljósi. Eins og ég talaði um í síðustu færslu bjó ég til ricotta ost á dögunum. Það er svo einfalt og gott að ég hvet ykkur innilega til að gera slíkt hið sama. Það er nokkuð erfitt að nálgast þessa afurð í matvöruverslunum sem og að hún er virkilega dýr. Mér reiknaðist til að osturinn sem ég bjó til kosti tæplega 600 krónur og maður fær alveg um 500 grömm af ostinum sem dugar ríflega, t.d í þennan rétt og þá er góður afgangur.

Ég fékk hugmyndina að þessum rétti á vafri mínu um Pinterest einn daginn (sem ég skil þó samt sem áður ekki ennþá hvernig virkar, en það er önnur saga) þar var notað eggaldin í svipaðar rúllur og þær fylltar með brauðmylsnu og ricotta. Ég átti hins vegar þennan fína kúrbít í ísskápnum og ákvað að umbreyta réttinum í canelloni ”wannabe”.. Því hver elskar ekki canelloni? Svo notaði ég bara það sem ég átti og úr varð dásamlegur grænmetisréttur. Ilmurinn í eldhúsinu var eins og á ítölskum veitingastað og allir gengu sáttir frá borði, þrátt fyrir pastaleysi. Þennan rétt væri líka upplagt að undirbúa með góðum fyrirvara, jafnvel daginn áður og hita hann svo upp í ofni.
IMG_1970Kúrbíts canelloni (fyrir 3):

  • 2 stórir kúrbítar
  • ca. 4 dl Ricotta ostur
  • 1 lúka spínat, smátt saxað
  • 4 vorlaukaukar, smátt saxaðir
  • 3 döðlur, smátt skornar
  • 1 tsk chillikrydd, t.d Chilli explosion eða annað sterkt krydd með chilli (má líka nota ferskan chilli, smátt skorinn)
  • Rifinn börkur og safinn úr 1/2 sítrónu
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða saxað smátt
  • Ferskt eða þurrkað basil eftir smekk
  • Salt og pipar

Sósan:

  • 1 krukka tómata passata (ég nota lífrænt í glerkrukku frá Sollu)
  • 2 msk gott tómatpaste
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1 tsk þurrkað timian
  • Ferskt eða þurrkað basil eftir smekk
  • Salt og pipar og  smá ólífulolía

Aðferð: Innihaldið í sósuna er allt sett í pott og hitað þar til suðan kemur upp. Leyft að malla í 10 mínútur. Þá er sósunni hellt í botninn á eldföstu móti. IMG_1966Kúrbítur er skorinn í ca. 1/2 cm sneiðar eftir endilöngu, kryddaður með salt  og pipar og grillaður á olíuborinni grillpönnu þar til hann mýkist og grillrendur hafa myndast.IMG_1963 Ekki elda hann of lengi. Þetta mætti líka gera á útigrilli eða á venjulegri pönnu. Tekinn af pönnunni og lagður á eldhúspappír. IMG_1967Þá er ricottaostinum hrært saman og út í hann sett spínat, vorlaukur, döðlur, chillikrydd, sítrónusafi og börkur, hvítlaukur, krydd, salt og pipar. IMG_1959Þessu er hrært vel saman og smakkað til. IMG_1960Setjið ca 1 msk af ostablöndunni á endann á hverri kúrbítslengju. IMG_1973Rúllið þeim svo upp og leggið í sósuna í eldfasta mótinu. IMG_1975Bakið við 200 gráður í 15 mínútur og berið fram með rifnum parmesan osti.IMG_1984IMG_2000

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Canelloni uppskrift, Fljótlegur réttur, Fylltur kúrbítur, Grænmetisréttur, Kúrbítur uppskrift, Ricotta

Heimatilbúinn Ricotta ostur

apríl 9, 2013 by helenagunnarsd 10 Comments

IMG_1947Ostagerð hefur undanfarið heillað mig dálítið. Að geta búið til jafn dásamlega afurð og ost heima hjá sér er töfrandi iðja að mínu mati. Ég lofa því að þetta er einfaldara en þið getið ímyndað ykkur og útkoman er betri en nokkur ricottaostur sem þið getið keypt út í búð því ferskara gerist það varla. Hráefnin eru fá og einföld, mjólk, rjómi, salt og hvítvínsedik. Ég myndi halda að þetta væri einfaldasti ostur sem hægt er að gera heima hjá sér og það þarf engin sérstök hráefni eða útbúnað sem getur verið erfitt að nálgast. Ég er líka viss um að það er mun ódýrara að útbúa ferskan ricotta ost heima hjá sér heldur en að kaupa rándýran innfluttan ricotta ost úr búð, ef hann fæst þá í matvöruverslunum? Ég hef allavega ekki séð ricotta nýlega.IMG_1945Þegar osturinn hefur verið gerður má gera ýmislegt við hann. Til dæmis væri hægt að skera niður ferskar kryddjurtir, graslauk, chilli, dill eða hvítlauk og hræra saman við hann ásamt smá salti og pipar og þá er maður kominn með þennan fína kryddaða ricotta sem hægt er smyrja ofan á kex eða brauð, nota sem ídýfu og svo framvegis. Ricotta er nokkurskonar rjómaostur, upphaflega ítalskur og gjarnan búinn til í geitamjólk, kúamjólk eða jafnvel buffalamjólk. Ég myndi staðsetja hann mitt á milli rjómaosts og kotasælu. Hann er þó mun fituríkari en kotasæla. Ég gef hér uppskrift að grunnostinum, án allra bragðefna. Í kvöld ætla ég svo að nota hann til að fylla grillaðar kúrbítsrúllur sem ég baka í ofni. Meira um það síðar.

IMG_1929Það sem þarf í ostinn (Af þessu verða um 5 dl af osti):

  • 1 l nýmjólk
  • 5 dl rjómi
  • 1 tsk salt
  • 3 msk hvítvínsedik

Áhöld:IMG_1927

  • Pottur úr ryðfríu stáli eða húðaður að innan eins og t.d le creuset. (Ekki álpottur)
  • Stór skál
  • Minni skál
  • Sigti
  • Nýr bleyjuklútur eða grisjuklútur (fæst í öllum matvöruverslunum)

Aðferð:

Setjið sigtið yfir stóra skál. IMG_1918Vindið klútinn upp úr köldu vatni og leggið hann í sigtið þannig að hann þekji það alveg. Ef klúturinn er mjög gisinn er gott að hafa hann tvöfaldan. IMG_1922Setjið mjólk, rjóma og salt í pott og hleypið suðunni upp yfir meðalhita. Hrærið öðru hverju. IMG_1931Þegar suðan er komin upp slökkvið þá undir og hrærið edikinu saman við. Látið standa í eina mínútu. Þá skilur mjólkurblandan sig og verður kekkjótt. IMG_1934Hellið blöndunni í sigtið og látið standa í um 30 mínútur þannig að leki af ostablöndunni. IMG_1936IMG_1940Takið þá úr sigtinu og færi í skál. Notið strax eða setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskáp, geymist í 4-5 daga.IMG_1943 IMG_1948

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Heimatilbúinn ostur, Ricotta ostur, Ricotta uppskrift

Hindberjamuffins með rjómaostafyllingu og hnetumulningi

apríl 5, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_1873Ég veit ekki alveg hvað gerðist þennan föstudags seinnipart.. Eftir páskasukk, súkkulaði og stórsteikur hef ég tekið þann vinkil að vera eingöngu með létt, hollt og gott fæði. Sem útskýrir ef til vill uppskrifta skort hér á síðunni. En salöt, kjúklingabringur, fiskur, grænmeti og annað léttmeti hafa einkennt matseðil okkar fjölskyldunnar þessa vikuna, sem er bara hið besta mál. Það var svo þar sem ég var nýbúin að sækja þreyttan og dálítið úfinn einkasoninn í leikskólann síðdegis að sá stutti hálf veinaði í aftursætinu: ”mammaaa mig laaangar svo að baka einhverja góða teertu!!”.. Tertu? Sagði barnið tertu? Ekki var móðirin alveg á þeim buxunum að fara að baka tertu svo að við mættumst á miðri leið og ég félst á að baka möffins þegar heim væri komið.

IMG_1850Matarbloggarinn fór þá á flug og fór að hugsa hvaða gómsætu muffins uppskrift hægt væri að baka, slá tvær flugur í einu höggi, baka fyrir barnið og setja einhverja nýja uppskrift hingað inn til að vega upp á móti uppskrifta andleysi síðustu daga. Eftir dálitla umhugsun og þá staðreynd að ég nálgaðist matvörubúðina á ógnarhraða, þurfti að taka ákvörðun. Hindberja, rjómaosta muffins skyldi það verða. Óþarfa fínheit myndi þá kannski einhver segja, en þetta eru afar einfaldar kökur að gera þrátt fyrir að líta kannski út fyrir að vera flóknar. Maður þarf ekki einu sinni hrærivél. Útkoman var alveg yndislegar, mjúkar muffins. Ostakökudeigið og hindberin smellpassa saman og hnetumulningurinn á toppnum gefur góða, stökka áferð. Það má svo að sjálfsögðu skipta hindberjunum út fyrir önnu ber, til dæmis bláber eða jarðarber. Hindberin fannst mér hins vegar alveg svínvirka í þetta skiptið. Ég mæli sannarlega með því að skella í þessar gómsætu muffins um helgina og gleðja heimilisfólkið í leiðinni!

IMG_1849Hinberjamuffins með rjómaostafyllingju og hnetumulningi:

Í rjómaostakremið:

  • 200 gr rjómaostur
  • 2 msk sýrður rjómi
  • 1 tsk vanilluextract
  • 4 msk flórsykur

IMG_1821Aðferð: Öllu blandað saman með písk eða handþeytara þar til komið er slétt rjómaostakrem. Sett til hliðar.

Í muffins (bollamálið mitt er 2.4 dl):

  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1/2 bolli hrásykur
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft (eða 1 tsk venjulegt)
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1/3 bolli bragðlítil olía
  • 1 bolli ab mjólk, súrmjólk eða hrein jógúrt
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilluextract
  • Rifinn börkur af 1/2-1 sítrónu (fer eftir stærð)
  • 1 1/2 bolli frosin hindber+1 msk hveiti

IMG_1819Aðferð: Byrjið á að blanda saman öllum þurrefnunum (hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti). Hrærið eggi, olíu, súrmjólk, vanillu og sítrónuberki saman í annarri skál og hellið saman við þurrefnin. Hrærið þessu varlega saman, rétt svo þannig að þetta blandist. Alls ekki ofhræra. Dustið hveiti yfir hindberin. Það kemur í veg fyrir að þau sökkvi á botninn þegar kökurnar eru bakaðar. Bætið hindberjunum svo út í og blandið þeim varlega saman við.IMG_1822

Hnetumulningur:

  • 2 msk kalt smjör
  • 2 msk hveiti eða fínt spelt
  • 2 msk púðursykur
  • 4 msk muldar valhnetur

IMG_1820Aðferð: Blandið öllu saman og vinnið saman með fingrunum þar til mulningur myndast og smjörið er samlagað þurrefnunum.

Page_1Samsetning: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Pappírsklæðið um það bil 18 álmuffinsform og setjið um 2 msk af hindberjadeiginu í botninn á hverju formi. Setjið því næst um 1 msk af rjómaostakreminu ofan í og svo aftur 1 msk af hindberjadeiginu. Toppið hverja köku með 1 tsk af hnetumulningnum. Bakið í 18-20 mínútur. IMG_1834IMG_1835Leyfið kökunum að kólna í forminu í um það bil 20-30 mínútur áður en þið takið þær upp úr.IMG_1840IMG_1858IMG_1867IMG_1874

Njótið!

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Berja muffins, Bollakökur með rjómaosti, Góðar muffins, Hindberja muffins, Muffins uppskrift, Ostaköku muffins, Rjómaosta muffins, Uppskrift muffins

Brokkolí pestó

apríl 3, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_1806Ég er á einhverju miklu pestó æði þessa dagana. Bjó til basil og spínat pestó um daginn og bjó svo nýlega til þetta frekar nýstárlega brokkolí og klettasalat pestó. Mér finnst það ofboðslega gott og nota það á ýmislegt og ekki finnst mér verra að það sé stútfullt af brokkolí hollustu. Í gær var ég til dæmis með grillaða hamborgara og setti þetta ofan á þá, ég nota þetta líka ofan á hrökkbrauð, þetta er gott með salati, ofan á ofnbakaðar eða grillaðar kjúklingabringur og fisk og svo væri vel hægt að hræra þessu saman við pasta. Möguleikarnir eru endalausir. Þetta er frekar stór uppskrift. Mér finnst ágætt að búa til dálítið af þessu og eiga í ísskáp. Geymist vel í 10 daga. Svo er alltaf hægt að gleðja einhvern með krukku af þessu góðgæti.

Brokkolí pestó:

Þetta eru um það bil hlutföllin eins og ég gerði það. Pestó er ekki svo heilagt svo um að gera að smakka sig áfram.  

  • 1 vænt brokkolí höfuð, stilkurinn skorinn frá og skorið í bita
  • 1 lúka klettasalat (má sleppa, ég átti það til og notaði þess vegna, mætti líka nota t.d basil)
  • 1/2 Parmesan ostur eða Grana padano (ca. 100 grömm)
  • 50 grömm furuhnetur
  • 50 grömm valhnetukjarnar
  • 50 grömm möndlur
  • (Ég notaði þær hnetur sem ég átti, líka fínt að nota bara eina tegund eða það sem til er í skápunum)
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 3-4 dl ólífuolía
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • Salt og pipar

Aðferð: Byrjið á að setja parmesan ostinn í litlum bitum í matvinnsluvélina og tætið hann smátt niður. Setjið hneturnar saman við ásamt brokkolíinu, klettasatinu og hvítlauknum og látið ganga þar til þetta er nokkuð smátt saxað. Hellið þá ólífuolíunni og sítrónusafanum út í og smakkið til með salt og pipar. Setjið eins mikla olíu og ykkur finnst þurfa, það er bara smekksatriði. Setjið í krukkur og geymið í ísskáp í allt að 10 daga. IMG_1807

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Brokkolí pestó, Brokkolí uppskrift, Hollt álegg, Pestó, Pestó uppskrift

Innbökuð nautalund Wellington

apríl 1, 2013 by helenagunnarsd 14 Comments

IMG_1776Við fengum góða heimsókn á föstudaginn langa og það var sko enginn fiskur í matinn. Sennilega mesta andstæða fiskmetis, innbökuð nautalund. Eins og ég minntist á um daginn þá lumaði ég á úrvals íslenskri nautalund í frystinum. Lundirnar keypti ég fyrir jól af bændunum á Mýrum en þau reka fyrirtækið Mýranaut þar sem hægt er að kaupa ungnautakjöt beint frá býli. Og hvað er betra nú á dögum en að kaupa hráefni beint frá býli? Ég er svo heppin að hafa heimsótt bæinn á Mýrum. Skoðaði þar í fyrrasumar gripahúsin þar sem vel fer um skepnurnar og gekk um grænar grundir þar sem nautgripirnir, kálfar og kýr valsa um í mestu makindum. Það er skemmst frá því að segja að ég hef aldrei smakkað nautakjöt sem nær þeim gæðum sem kjötið frá Mýranauti hefur að bera. Ég allavega mæli sterklega með því að kaupa nautakjöt beint frá býli. Það er ekki hægt að líkja því saman við kjötið sem fæst í stórmörkuðum. Þetta kjöt er meira að segja hægt að fá heimsent!

nautlogoÉg hafði mjög gaman af því að sjá þá skemmtilegu tilviljun að Eldhússögur höfðu sömu sögu að segja um Mýranaut og þar á bæ var nýlega m.a. eldað dýrindis roastbeef úr kjötinu frá Mýranauti, mjög girnilegt. Ég hef líka smakkað roastbeef bitana frá þeim, ásamt hakkinu og get mælt með öllum þessum afurðum. Beint frá býli er bara málið! Eruði ekki orðin sannfærð? Ef ekki skal ég gefa ykkur hérna uppskrift að einum besta veislumat sem hægt er að búa til. Mig hefur lengi langað til að búa til Wellington nautalund en hingað til hef ég ekki haft hug á að kaupa innfluttar nautalundir, sem fást í stórmörkuðunum. Ég var búin að spyrjast fyrir á nokkrum stöðum og allsstaðar fékk ég þau svör að íslenskar nautalundir væri nánast ómögulegt að fá. Nautgripa bóndi nokkur sagði mér að ég þyrfti að panta lund með a.m.k 6 mánaða fyrirvara. Ég ákvað því að setja mig í samband við áðurnefnt Mýranaut þar sem ég gat fengið keypta nautalund sem gladdi mig mikið.

IMG_1771Innbökuð nautalund Wellington (fyrir 4):

  • 800 grömm ungnautalund
  • 1 bakki sveppir (ég notaði kastaníusveppi)
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 6 sneiðar parmaskinka eða serranoskinka
  • 4 plötur smjördeig (eða nóg til að hylja lundina)
  • Smjör, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • 1 egg

Aðferð: Byrjið á að taka kjötið og snyrta það til. Stundum eru sinar utan á svona lundum sem þarf að taka af. Mín lund var þó nánast laus við sinar. Þerrið lundina og saltið og piprið hana vel á öllum hliðum. Þar sem lundir eru mjórri í annan endann er gott að brjóta þynnri endann undir kjötið þannig að stykkið sé allt um það bil jafn þykkt.IMG_1735 IMG_1738Hitið pönnu vel á háum hita. Bræðið ca. 1 msk af smjöri á pönnunni. Snöggbrúnið kjötið vel á öllum hliðum og takið svo til hliðar og leyfið að jafna sig. Saxið sveppina svo mjög smátt og steikið á vel heitri pönnu í ca. 1 msk af smjöri, salt og pipar. Sveppirnir eiga að brúnast vel. Þetta tekur kannski um 7 mínútur. Takið sveppina af hitanum og setjið í skál. IMG_1739IMG_1740Nú skulið þið leggja plastfilmu á bretti eða borð, ofan á plastfilmuna setjið þið parmaskinkusneiðarnar og dreifið svo úr sveppunum þar ofan á. IMG_1745Penslið síðan allt kjötið með dijon sinnepi og leggið ofan á sveppina. Lyftið því næst plastfilmunni þannig að auðvelt sé að vefja henni utan um kjötið. Vefjið þessu þétt saman og setjið inn í ísskáp í um 30 mínútur. IMG_1759Á meðan skulið þið fletja út smjördeigið og gera það tilbúið þannig að hægt sé að pakka kjötrúllunni inn í deigið. Takið lundina úr ísskápnum og takið plastfilmuna utan af. Leggið kjötið ofan á smjördeigið. Penslið eggi með hliðunum á deiginu og pakkið kjötinu inn í deigið. IMG_1763Leggið innpakkað kjötið í eldfast mót þannig að samskeytin snúi niður. Penslið vel með eggi og skerið svo nokkrar rifur í deigið. Setjið kjötið inn í 180 gráðu heitan ofn án blásturs og bakið þar til deigið er orðið gullinbrúnt og kjötið er eldað eins og þið viljið hafa það. Ég tók kjötið út þegar hitamælirinn sýndi 53 gráður (ca. medium rare). Síðan leyfði ég því að jafna sig í 20 mínútur áður en ég skar það. Á þeim tíma hækkaði hitinn upp í 56 gráður.IMG_1764 Það er erfitt að lýsa því með orðum hversu góð þessi steik var. Kjötið var svo mjúkt að það þurfti varla að skera það. Deigið utan um stökkt og bragðið af parmaskinkunni og sveppunum smellpassaði við dúnmjúkt og safaríkt kjötið.
Við bárum fram með þessu bakaða kartöflu með kryddsmjöri, gott grænt salat og piparostasósu. (Sósan var reyndar alveg óþörf þar sem kjötið var svo safaríkt, bragðgott og mjúkt). Að sjálfsögðu drukkum við svo með þessu gott rauðvín sem ég man bara alls ekki hvað hét. En gott var það. IMG_1782

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Beef Wellington, Beef Wellington uppskrift, Hátíðarmatur, Innbökuð nautalund, Nautalund, Nautalund uppskrift, Nautalund Wellington, Veislumatur

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme