• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Uppáhalds fiskréttur fjölskyldunnar

október 23, 2013 by helenagunnarsd 6 Comments

min_IMG_4289Mikið hef ég hlakkað til að deila þessari uppskrift með ykkur. Mamma á allan heiðurinn af þessum sívinsæla, stórgóða og ofur fljótlega fiskrétti sem er á borðum hjá okkur í fjölskyldunni að minnsta kosti einu sinni í viku. Innan fjölskyldunnar gengur rétturinn undir því skemmtilega nafni ríkisfiskur og hefur hann verið eldaður óteljandi oft á síðustu árum í hinum ýmsu útgáfum. Mamma var samt búin að biðja mig um að kalla þetta ekki ríkisfisk, hæ mamma mín :).. Allavega, tilurð réttarins má að miklu leyti rekja til grillgleði pabba sem helst vill grilla á hverjum degi. Það er samt tiltölulega erfitt að grilla ýsu nema með smá tilfæringum og eftir smá hugmyndavinnu í eldhúsinu þróaði mamma þennan rétt sem samtvinnar bráðhollan fiskrétt sem er fullur af grænmeti og gerir grillglaðan pabba ánægðan.

Þið verðið að prófa þennan rétt, ef þið viljið ekki grilla hann er vel hægt að stinga honum inn í vel heitan ofn eða undir grillið í ofninum. Það er samt alveg hægt að grilla réttinn í hvaða veðri sem er þar sem maður þarf ekkert að standa við grillið og snúa og vesenast eitthvað. Ég lofa því að það er alveg þess virði að hafa dregið fram grillið þegar maður finnur ljúft grillbragðið af réttinum.

min_IMG_4299Ríkisfiskur (Fyrir 2-3):

Ég hvet ykkur til að prófa ykkur áfram með grænmeti, uppskriftin sem ég gef hér er grunnur og um að gera að leika sér. Það er líka gott að nota t.d paprikusneiðar, chilli, engifer, fennel og svo mætti lengi telja. 

  • 600 grömm ýsuflök, roðlaus og beinlaus
  • 2 laukar, skornir í sneiðar
  • 1 sítróna
  • 3-4 vænar lúkur ferskt spínat
  • 1 askja piccolo eða kirsuberjatómatar
  • 1 lítil krukka fetaostur með kryddolíu
  • Sítrónupipar
  • Ólífuolía
  • 1/2 dl vatn
  • Spírur til skrauts

Aðferð: Leggið ýsuflökin á olíuborinn stálbakka, álbakka eða þykkan ”heavy duty” álpappír sem þolir grillun. Ef þið notið álpappír, brjótið þá upp á kantana og búið til einskonar bakka. Kryddið flökin vel með sítrónupipar báðu megin. Skerið sítrónuna í sneiðar og leggið yfir flökin.Dreifið lauknum svo yfir, því næst spínatinu ásamt tómötunum og hellið fetaostinum ásamt mest allri olíunni úr krukkunni yfir.min_IMG_4281Kryddið yfir allt með sítrónupipar og hellið 1/2 dl af vatni yfir. Grillið á sjóðandi heitu grilli í 10-15 mínútur eða bakið í ofni við 220 gráður þar til tómatarnir eru heitir í gegn, fiskurinn eldaður og osturinn aðeins farinn að bráðna. min_IMG_4303Dreifið spírum yfir og berið fram strax. min_IMG_4310Ég mæli sérstaklega með þessum spírum frá Ecospíra. Það er hægt að gerast áskrifandi og fá sendan vikulega pakka fullan af ferskum og gómsætum spírum.min_IMG_4298

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti fiskrétturinn, Einfaldur fiskréttur, Fljótlegur matur, Góður fiskréttur, Grillaður fiskur, LKL uppskrift, Ýsa með grænmeti

Ítalskar parmesan kjötbollur í tómatsósu

október 20, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4404Það var ekki mikið spjallað við matarborðið um kvöldið þegar þessi réttur var á borðum. Sem annað hvort er vísbending um að við séum svona leiðinleg eða að maturinn hafi verið það góður að það mátti enginn vera að því að tala. Ég vona allavega að það hafi verið það síðarnefnda og grunar það sterklega miðað við hljóðin sem fjölskyldumeðlimir gáfu frá sér við matarborðið. Gunnar átti hugmyndina að matnum og aðstoðaði af áhuga við kjötbollugerðina. Útkoman var einhverjar bestu ítölsku kjötbollur og sósa sem við höfum smakkað.

Ég er búin að vera að prófa mig aðeins áfram með kjötbollur og er svona eiginlega komin á að lykillinn að mjúkum kjötbollum er að bleyta brauðmylsnu eða góðan brauðrasp í mjólk áður en því er svo blandað saman við kjötið. Þetta gerir algjörlega gæfumuninn! Svo mæli ég líka með því að þið sleppið því að steikja bollurnar áður en þær eru settar út í sósuna, mér þykir mikið betra að láta þær detta beint út í sjóðandi sósuna og leyfa þeim að malla þar í rólegheitum. Þá verða þær jafnvel enn safaríkari og mýkri og sósan og bollurnar eiginlega fullkomna hvort annað. Þið verðið að prófa.

min_IMG_4411Ítalskar kjötbollur

  • 2.5 dl brauðmylsna (ég notaði Panko í þetta skiptið)
  • 1.5 dl mjólk
  • 600 gr hreint ungnautahakk
  • 75 gr rifinn parmesan
  • 1 msk þurrkuð steinselja
  • 2 msk smátt söxuð fersk steinselja
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 2 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk svartur nýmalaður pipar
  • 1 egg

Aðferð: Mjólkinni hellt yfir brauðmolanna og látið standa í 5 mínútur. Öllu blandað vel saman, ég set allt í hrærivél og blanda þannig saman. Litlar bollur mótaðar úr hakkinu og geymdar í kæli á meðan sósan er gerð.

Sósa

  • 3 msk ólífuolía
  • 1 smátt saxaður rauðlaukur
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1/2 tsk sjávarsalt og  smá nýmalaður pipar
  • 500 ml tómata passata eða maukaðir tómatar
  • 1 dl vatn
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 tsk hunang eða önnur sæta
  • 2 greinar ferskt timían eða 1 tsk þurrkað
  • 1.5 dl þurrt hvítvín eða rauðvín
  • 1 dl rjómi
  • Góð lúka ferskt basil, gróft saxað

min_IMG_4395Aðferð: Olía hituð í potti við meðalhita. Laukur og hvítlaukur steikt þar til mýkist, kryddað með salti og pipar. Tómatmauki, vatni, tómatpúrru, hunangi, hvítvíni, timíani og rjóma bætt út í og suðunni hleypt upp. Leyft að malla í 5 mínútur og smakkað til með salti og pipar. Athugið þó að bollurnar eru bragðmiklar og munu gefa frá sér bragð þegar þær koma út í sósuna. Kjötbollur settar útí ásamt basil og leyft að malla við vægan hita með lokið að hálfu yfir, þannig að gufi upp af sósunni og hún þykkni aðeins í u.þ.b 20 mínútur. Borið fram með spaghetti eða tagliatelle og nýrifnum parmesan osti.min_IMG_4412

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar kjötbollur, Hugmyndir fyrir matarboð, Ítalskar kjötbollur, Kjötbollur, Kjötbollur og spagettí, Litlar kjötbollur

Vanillu bollakökur með sjóbláu sjóræningja- vanillukremi

október 14, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4334Mikið er nú langt síðan ég hef gefið mér tíma til að setjast við tölvuna og skella inn uppskrift. Þær reyndar bíða nú nokkrar birtingar en vegna anna hefur ekki gefist tími til að setja þær inn. Við fórum til Dublin um helgina og eyddum þar fjórum ljúfum dögum. Ráfuðum um götur, versluðum smá og borðuðum góðan mat. Ég hef lagt það í vana minn að kíkja á tripadvisor.com áður en við förum og frí og velja þar góða staði til að skoða sem og spennandi veitingastaði og kaffihús. Mæli sannarlega með því, það er fátt eins leiðinlegt eins og að fara inn á lélegan veitingastað og borga stórfé fyrir vondan eða óspennandi mat. Við urðum allavega aldrei fyrir vonbrigðum með staðina sem urðu fyrir valinu og fengum alveg stórgóðan mat!

En að uppskrift dagsins. Þessar bollakökur voru á óskalistanum fyrir fimm ára afmæli hér á heimilinu í síðustu viku. Kökurnar eru virkilega mjúkar og bragðgóðar með góðu vanillubragði, vanillu smjörkremið setur auðvitað alveg punktið yfir i-ið. Það er fátt jafn mikið við hæfi eins og að skoða bollakökuuppskrift á mánudögum og láta sig aðeins dreyma..

min_IMG_4336Vanillubollakökur (24 stk, auðveldlega hægt að helminga):

  • 225 gr smjör við stofuhita
  • 250 gr hrásykur
  • 1 msk hreint vanilluextract
  • 4 egg
  • 350 gr fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 msk vínsteinslyftiduft
  • 1/4 tsk salt
  • 2,5 dl nýmjólk

Smjörkrem:

  • 300 gr mjúkt smjör
  • 400 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilluextract
  • 2-3 msk mjólk
  • Nokkrir dropar blár og grænn matarlitur eða sá litur sem þið viljið, líka hægt að hafa kremið hvítt.

Athugið að ef öll hráefni í kökurnar eru við stofuhita verður útkoman enn betri. Ég mæli með að taka smjörið, eggin og mjólkina úr ísskáp a.m.k 2 klst áður en bakstur hefst. Ef ekki gefst tími og smjörið er mjög hart getur verið gott að skera það í sneiðar og leggja á disk, þá mýkist það fyrr.

min_IMG_4319Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Þeytið smjör, sykur og vanillu í 3-5 mínútur eða þar til blandan er vel ljós og létt. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Blandið saman hveitinu, salti og lyftidufti og pískið vel saman eða sigtið. Bætið hveitinu og mjólkinni saman við deigið til skiptis, endið á hveitinu og blandið vel saman þannig að deigið sé silkimjúkt, en varist þó að hræra of lengi. Skiptið deiginu í bollakökuform og bakið í ca. 18 mínútur. min_IMG_4325Varist að ofbaka, fylgist með kökunum eftir um 16 mínútur og athugið hvort þær séu tilbúnar með því að stinga tannstöngli í miðja köku. Ef hann er blautur bakið í 1-2 mínútur í viðbót og athugið þá aftur. Takið úr ofninum um leið og tannstöngullinn kemur þurr upp. Kælið kökurnar á grind. min_IMG_4328

Krem: Þeytið smjörið í 3-5 mínútur eða þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykrinum saman við og þeytið í 3 mínútur til viðbótar, bætið mjólkinni smám saman út í ásamt vanillunni þar til kremið er létt og meðfærilegt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökurnar. Ég notaði stút nr. 2D frá Wilton. Formin og sjóræningjafánana fékk ég í Kosti.min_IMG_4332

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Afmæliskaka, Hugmyndir fyrir afmæli, Hvítar bollakökur, Mjúkar bollakökur, Smjörkrem, Vanillu bollakökur, Vanillu muffins, Vanillukaka, Vanillusmjörkrem

Freistandi kjúklingaréttur með púrrulauk og sweet chili rjómasósu

október 2, 2013 by helenagunnarsd 25 Comments

min_IMG_4261Nú nálgast óðfluga sá tími að kona býr ekki lengur við þann lúxus að geta myndað kvöldmatinn í dagsbirtu. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hlakka ég ekkert voðalega mikið til þess tíma. Þeir sem hafa myndað mat, vita að dagsbirta er besti vinur fallegra matarmynda. Og þegar maður er ekki áhuga- eða atvinnu ljósmyndari, á tiltölulega einfalda myndavél, kann næstum ekkert í ljósmyndun og á ekki ljósmyndastúdíó, eru félagarnir myrkur og flass ekki bestu vinir manns. Maður einfaldlega tekur ekki myndir af mat með flassi, það er agalegt! Annað hvort þarf ég að fara að elda matinn í hádeginu, finna eitthvað út úr þessu birtuveseni eða einfaldlega taka myndir af matnum undir ljósunum í eldhúsinu hjá mér og vona það besta. Ég hugsa að þið fáið að sjá sitt lítið af hverju á komandi vetri. Ef þið lumið á einhverjum góðum ráðum varðandi þetta lúxusvandamál mitt, þigg ég þau með þökkum.

min_IMG_4269En þá að uppskrift dagsins. Það má með sanni segja að þessi kjúklingaréttur sé af sparilegri gerðinni. Rjómaostur og sýrður rjómi spilar lykilhutverk í sósunni sem er einstaklega bragðgóð með sætu og mildu chilli og púrrulauksbragði. Rétturinn er til dæmis alveg kjörinn lágkolvetnaréttur, borinn fram með fersku grænu salati eða blómkálsgrjónum. Sweet chilli sósuna er hægt að fá sykurlausa t.d í Krónunni og sennilega víðar. Annars mæli ég nú alveg heilshugar með þessum einfalda og ljúffenga kjúklingarétti fyrir alla og hvet ykkur, kæru vinir til að prófa, þetta er sannkallaður veislumatur.

Freistandi kjúklingur í púrrulauks og sweet chili rjómasósu (fyrir 5):

  • 5 kjúklingabringur, skornar í teninga (gúllas stærð)
  • 1 púrrulaukur, smátt skorinn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 lítil dós rjómaostur (125 gr)
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
  • 4-5 msk sweet chilli sósa (eftir smekk)
  • 1 dl rifinn ostur
  • Salt og pipar

min_IMG_4260Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Hitið pönnu með smá smjöri eða olíu, saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið þá vel eða þar til þeir eru nánast fulleldaðir. Setjið kjúklinginn í eldfast mót. Lækkið hitann á pönnunni, setjið smá olíu eða smjör á pönnuna og steikið púrrulaukinn þar til hann mýkist aðeins, ca. 3 mínútur.

Setjið rjómaostinn, sýrða rjómann, kjúklingatening, hvítlauk og sweet chilli sósuna út á og leyfið að malla aðeins, smakkið til með sweet chilli sósunni. Bætið örlitlu vatni saman við sósuna ef ykkur finnst hún of þykk. Stráið rifna ostinum yfir kjúklingabitana og hellið sósunni því næst yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15 mínútur eða þar til kraumar í sósunni og hún hefur tekið lit. Berið fram með góðu grænu salati og grjónum.min_IMG_4263

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir fyrir matarboð, Kjúklingaréttir uppskrift, Kjúklingur með sweet chilli sósu, LKL kjúklingur, LKL uppskriftir

Döðluterta með jarðarberjarjóma og súkkulaðikremi

september 29, 2013 by helenagunnarsd 17 Comments

min_IMG_4209Haustið er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir utan það hvað allt verður fallegt í haustlitunum, loftið svo tært og veðrið einhvernveginn oft svo gott, þá minnir haustið mig á merkilegasta atburðinn í mínu lífi, þegar sonur minn kom í heiminn.. og ég verð alltaf pínulítið meyr en samt svo glöð. Október 2008 er kannski ekki sá tími sem margir tengja við gleði. En það gerum við. Í byrjun október 2008 þegar hálf þjóðin var á barmi taugaáfalls eignuðumst við okkar yndislega sólargeisla. Við vissum varla hvað var að gerast utan veggja spítalans og ekkert í heiminum skipti meira máli en þetta litla yndislega barn sem við fengum í hendurnar. Dagarnir og vikurnar eftir fæðinguna fóru svo í allt annað en að fylgjast með fréttum eða hafa áhyggjur af vöruskorti. Hann hefði ekki getað komið til okkar á betri tíma og hann kenndi okkur líka hvað það er sem skiptir máli í lífinu, svona þegar öllu er á botninn hvolft.

min_IMG_4197Talandi um botna, þá er það einnig óumflýjanlegur og skemmtilegur fylgifiskur þessa árstíma að halda upp á afmæli. Við vorum með agnarlítið og snemmbúið afmælisboð/mat á dögunum þar sem við buðum upp á súpu, brauð og eftirrétti. Ég eldaði þessa gúllassúpu sem er heldur betur að slá í gegn hjá fjölskyldunni. Með henni bar ég fram kotasælubollur og álegg. Í eftirrétt bar ég svo fram eina væna marengsbombu ásamt þessari tertu sem ég ætla að gefa uppskrift af hér. Þetta er svona eiginlega Tert-an í fjölskyldunni með stóru T-i. Ég hef ekki tölu á því hversu oft mamma hefur vippað fram svona tertu. Allavega mjög oft og við hin ýmsustu tækifæri. Hún er alltaf jafn vinsæl og alltaf jafn ótrúlega, óviðjafnanlega góð. Nú, ég bjó til extra stóra þriggja hæða tertu þar sem ég var með marga munna að metta en vildi ekki búa til tvær tertur, það hefði verið of mikið. Ef þið viljið gera þrjá botna úr uppskriftinni margfaldið þið einfaldlega uppskriftina með 1.5 og bakið þrjá botna og þeytið aðeins meiri rjóma. Einfalt.

min_IMG_4192Döðlubotnar:

  • 4 egg
  • 200 gr púðursykur
  • 200 gr döðlur
  • 100 gr saxað súkkulaði eða súkkulaðidropar
  • 125 gr hveiti eða fínmalað spelt

Aðferð: Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Tvö hringlaga form smurð vel og bökunarpappír settur í botninn. min_IMG_4084Döðlur og súkkulaði smátt saxað og ca. 1 tsk af hveitinu blandað saman við.min_IMG_4096Egg og púðursykur þeytt vel þar til ljóst og létt. min_IMG_4099Hveiti blandað varlega saman við með sleif og því næst döðlunum og súkkulaðinu. Hellt í tvö form og bakað í 15-20 mínútur. min_IMG_4101Kælt aðeins, svo losað úr formunum og svo kælt alveg.

Á milli:

  • 4 dl rjómi
  • 1 stór dós jarðarber

Leggið annan botninn á kökudisk. Opnið jarðarberjadósina og hellið 4-5 msk af safanum jafnt yfir báða botnana. Hellið jarðarberjunum í sigti og stappið þau gróflega með gaffli. Þeytið rjómann og blandið jarðarberjunum svo saman við. Dreifið jarðarberjarjómanum jafnt yfir neðri botninn og leggið hinn botninn yfir.

Ofan á:

  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 2 msk smjör
  • 2 msk rjómi
  • 1 msk sýróp

Aðferð: Bræðið allt saman í potti við vægan hita. Kælið aðeins og hellið svo yfir. Dreifið úr kreminu þannig að það leki aðeins niður hliðarnar á tertunni. Geymið tertuna í ísskáp í a.m.k 2-3 klst áður en hún er borin fram. Leyfið henni svo að standa við stofuhita í ca. 30 mínútur áður en hún er skorin.min_IMG_4201

Filed Under: Eldhúsperlur

Svívirðilegar súkkulaðibitakökur

september 25, 2013 by helenagunnarsd 16 Comments

min_IMG_3801Á dögunum blés Nói Siríus til uppskriftasamkeppni. Þar auglýstu þeir eftir uppskriftum sem hægt væri að birta í uppskriftabæklingi sem þeir gefa út fyrir hver jól. Ég var ekki lengi að hugsa mig um þegar ég mundi eftir uppskrift að alveg einstaklega (og þá meina ég einstaklega) góðum súkkulaðibitakökum sem ég bakaði fyrir síðustu jól. Í alvöru krakkar, þá er þetta með þeim bestu smákökum sem ég hef bakað og þær eru ólíkar öllum súkkulaðibitakökum sem ég hef smakkað. Nýbakaðar minna þær dálítið á pínulitlar franskar súkkulaðikökur eða brownies. Þær eru stökkar að utan og mjúkar inn í og haldast þannig í nokkra daga séu þær geymdar í lokuðu íláti. Það er mikið súkkulaði í þeim og uppskriftin og aðferðin er einföld, byrjar og endar á súkkulaði svo útkoman er dásamleg. min_IMG_4247Nói Siríus var allavega sammála mér og ég var svo heppin, ásamt þremur öðrum að hljóta í verðlaun fyrir uppskriftina, veglega gjafakörfu fulla af góðgæti og bökunarvörum frá Nóa Siríus. Uppskriftin mun þó ekki birtast í bökunarbæklingnum fyrir jólin en það var girnileg súkkulaðikaka með Pipp bananakremi frá Eldhússögum sem hlaut þann heiður. Það er því þeim mun meiri þörf á að birta uppskriftina að súkkulaðibitakökunum hér 🙂min_IMG_4251Aldeilis ekki ónýtt að fá svona fínerí og ég er ansi hrædd um að jólabaksturinn eigi eftir að innihalda ýmislegt úr þessari girnilegu körfu. En hér kemur uppskriftin. Endilega prófið og njótið, alveg voða vel.

min_IMG_3796Svívirðilegar súkkulaðibitakökur (ca. 20 kökur):

  • 200 gr 56% súkkulaði
  • 50 gr ósaltað smjör
  • 80 gr hveiti
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 egg
  • 150 gr ljós púðursykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 300 gr suðusúkkulaði

min_IMG_3807Aðferð: Hitið ofn í 160 gráður með blæstri annars 180. Byrjið á að bræða 56% súkkulaði og smjör í potti yfir vægum hita. Takið af hitanum og leyfið að kólna/ná stofuhita. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og setjið til hliðar. Setjið 300 gr af suðusúkkulaði í plastpoka og berjið með hamri eða kökukefni svo súkkulaðið brotni í grófa misstóra mola, það má líka saxa súkkulaðið gróft með hnífi.min_IMG_3760

Þeytið eggin og púðursykurinn ásamt vanillu vel og lengi saman þar til ljóst og létt. Hellið brædda súkkulaðinu rólega út í eggjablönduna og hrærið varlega saman við. Setjið því næst hveitiblönduna út í og blandið varlega saman við, ekki þeyta á þessum tímapunkti, bara rétt hræra saman. Hellið súkkulaðibrotunum út í og blandið saman við með sleikju. min_IMG_3766Setjið eina vel fulla matskeið af deiginu á bökunarpappírsklædda plötu og hafið gott bil á milli. Athugið að deigið er dálítið blautt. Stingið tveimur til þremur súkkulaðimolum ofan á hverja köku. Bakið í 12-14 mínútur og leyfið kökunum að kólna á grind. Athugið að kökurnar eiga að vera blautar í miðjunni svo alls ekki baka þær of lengi.min_IMG_3787min_IMG_3798

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar súkkulaðibitakökur, Jólabakstur, jólasmákökur, Smákökur, Súkkulaði uppskriftir, Súkkulaðibitakökur

Sítrónu brownie

september 20, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4183Það er auðvitað mesti misskilningur að skýra þessa köku ”brownie”. Fyrir utan það að málfarsráðunautar og íslenskufræðingar fái andarteppu yfir enskuslettri nafngiftinni þá er kakan alls ekkert brún og það er alls ekkert súkkulaði í henni. Þvert á móti er hún ljósgul og dásamleg eins og sól í kökuformi og bragðast eins og sæt sítróna. Titlinum var einungis ætlað að reyna með einhverjum hætti að lýsa hvers konar tegund af köku þetta er. Hún er semsagt blaut eins og brownies eiga það til að vera og samsetning hráefna er ekki ósvipuð, nema að jú, það er ekki notað kakó eða súkkulaði heldur er sítróna notuð til að bragbæta deigið. Gott að þetta er komið á hreint. Þetta er dýrindis kaka sem tekur enga stund að henda í og að sjálfsögðu get ég ekki annað en mælt með að þið prófið!min_IMG_4188

Sítrónu ”brownie” kaka:

  • 150 gr. ósaltað smjör
  • 2 stór egg
  • 2,5 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/2 tsk salt
  • 1 sítróna
  • 1,5 dl hveiti eða fínmalað spelt

min_IMG_4176Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Byrjið á að bræða smjörið í potti og leyfið því að kólna aðeins. Rífið börkinn af sítrónunni með fínu rifjárni, athugið að taka einungis gula hlutann af hýðinu. Kreistið safann úr sítrónunni og setjið til hliðar. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljós. Lækkið hraðann og bætið salti, sítrónuskræli og safa út í ásamt smjörinu. Sigtið hveitið út í og blandið varlega saman við með sleikju. Hellið í smurt form, ca. 20 cm í þvermál og bakið í 35 mínútur. Kælið í forminu, setjið á kökudisk, stráið flórsykri yfir og skreytið t.d með rifsberjum.min_IMG_4186min_IMG_4185

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Einföld kaka, góður eftirréttur, Kladdkaka, Sítrónubrownie, Sítrónukaka

Grænmetisbaka með fetaosti og furuhnetum

september 18, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4128Á haustin þykir mér fátt betra en að elda úr íslensku ný uppteknu grænmeti. Verslanir eru nú fullar af þessu góðgæti og það ætti enginn að láta fram hjá sér fara að njóta þess að útbúa hollan og góðan mat úr þessu frábæra hráefni. Það er varla hægt að líkja bragðinu af íslensku blómkáli og brokkolíi við það innflutta, að ég tali nú ekki um íslensku gulræturnar. min_IMG_4165Það er miklu auðveldara að gera svona böku en það lítur út fyrir að vera, alveg satt. Og ég segi þetta af því að einu sinni gerði ég aldrei bökur því ég hélt að ég gæti það ekki (lesist: nennti því ekki). Það er til dæmis ekkert flóknara að gera góða böku heldur en pizzu og það eru nú fjölmargir færir um að gera ansi góðar pizzur. Ég mæli eindregið með því að þið prófið þessa böku kæru vinir. Þetta er svona ekta haust matur, frábært að bera bökuna fram með góðu salati og kaldri sósu og þá er maður kominn með þessa fínu máltíð. Bökur geymast líka afbragsðvel í frysti, hitast vel upp og því upplagðar í nesti.min_IMG_4146

Botn:

  • 250 gr spelt (Ég nota 150 gr. gróft og 100 gr. fínt)
  • 100 gr kalt smjör
  • 1/2 – 1 dl heitt vatn
  • 1/2 tsk salt

min_IMG_4104Aðferð: Skerið smjörið í litla teninga, vinnið allt nema vatnið saman með höndunum þannig að úr verði sandkennd mylsna. Bætið vatninu smám saman út í og vinnið áfram með höndunum þar til deigið loðir vel saman án þess að vera klístrað. Leggið deigið á hveitistráð borð og fletjið út þannig að það nái að þekja botn og hliðar á forminu sem þið notið. Athugið að til þess að auðveldara sé að ná bökunni af botninum er sniðugt að hvolfa botninum á forminu við, sumsé snúa honum öfugt þannig að hægt sé að renna bökunni af botninum.min_IMG_4105Þrýstið deiginu vel í formið og pikkið botninn með gaffli.min_IMG_4109 Ég notaði 28 cm lausbotna smelluform.  Hitið ofninn í 180 gráður og bakið botninn í 10 mínútur. min_IMG_4112

Fylling:

  • 3-4 gulrætur
  • 1/2 blómkálshöfuð
  • 1 lítið brokkolíhöfuð
  • 1/2 sæt kartafla
  • 2 hvítauksrif
  • 1 msk olía og 1 msk smjör
  • 6 egg
  • 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2.5 dl)
  • 1 msk dijon sinnep
  • 2 msk smátt söxuð steinselja
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 1 væn lúka rifinn parmesan
  • 1/2 fetakubbur, ca. 125 grömm
  • 1 dl furuhnetur

Aðferð: Flysjið sætu kartöfluna og skerið í litla teninga. Skerið gulræturnar, blómkálið og brokkolíið í svipað stóra bita. Hitið pönnu við meðalhita og setjið á hana olíu og smjör. Steikið grænmetið í 10 mínútur þar til það hefur aðeins tekið á sig lit. min_IMG_4113Bætið þa smátt söxuðum hvítlauk á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Setjið þá lok á pönnuna, lækkið hitann og leyfið grænmetinu að malla aðeins undir lokinu þar til það er orðið nokkuð mjúkt. min_IMG_4110Hrærið saman eggin, rjómann, sinnep, parmesan, steinselju, salt og pipar og setjið til hliðar. Hellið grænmetinu yfir bökubotninn.min_IMG_4116Myljið helminginn af fetaostinum yfir.min_IMG_4119Hellið því næst eggja- rjómablöndunni yfir. min_IMG_4122Myljið restina af fetaostinum yfir og stráið yfir furuhnetunum. min_IMG_4125Bakið í 40 mínútur við 170-180 gráður, frekar neðarlega í ofni.min_IMG_4136 Leyfið bökunni að standa í 15 mínútur. Losið hana þá út forminu og færið varlega yfir á stóran disk.min_IMG_4159min_IMG_4168

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka með grænmeti, Bökubotn, Einföld baka, Góð baka, Grænmetisbaka, Grænmetisréttir, Veislumatur

Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue

september 15, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4064Þessi réttur er í senn afskaplega fljótlegur í undirbúningi en alveg ómótstæðilega góður. Ég veit ekki með ykkur, en ég forðast dálítið að matbúa rétti sem krefjast þess að ég þurfi að ”pannera” hráefnið – semsagt velta því upp úr hveiti, eggi og raspi og síðan steikja upp úr feiti. Þó sundum sé vissuleg gaman að gera svoleiðis fínerí er það almennt ekki eitthvað sem ég kýs að gera þegar maturinn þarf að komast með hraði á borðið. Þessi réttur krefst þess ekki einu sinni af manni að panna sé dregin fram. Ég mæli með að nota góða skinku í fyllinguna og bragðmikinn ost. Uppáhalds harði osturinn minn þessa dagana er Óðalsostur – þykir hann alveg sérstaklega bragðgóður og svo bráðnar hann líka mjög vel. Ísbúi eða Sterkur Gouda gætu sömuleiðis komið sterkir inn. Mér þykja allavega þessir íslensku ostar alveg afbragðsgóðir og finnst alltaf gaman að prófa nýjar tegundir. Og nei þetta er ekki auglýsing – alveg satt, bara lýsing á því sem mér þykir best. Rétturinn er svona ekta matarboðs- eða helgarmatur sem má undirbúa með góðum fyrirvara og skella svo inn í ofn hálftíma áður en borðhald hefst og útkoman, alveg einstaklega gómsæt.

min_IMG_4053Ofnbakað kjúklinga Cordon Blue (fyrir 4):

  • 4 kjúklingabringur
  • 4 góðar skinkusneiðar, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur
  • 8 sneiðar af góðum osti, t.d Óðalsosti eða öðrum góðum brauðosti
  • 4 msk dijon sinnep
  • 4 msk góður brauðraspur (ég nota panko)
  • 4 msk rifinn parmesan ostur
  • 1 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð: Byrjið á að skola og þerra kjúklingabringurnar vel. Leggið á skurðarbretti og kljúfið góðan vasa á hverja bringu. Leggið tvær ostsneiðar á hverja skinkusneið og rúllið skinkunni upp. Stingið osta og skinkurúllununum inni í kjúklingabringurnar, einni rúllu í hverja bringu.min_IMG_4039 Kryddið með salti og pipar og leggið í eldfast mót. Smyrjið einni matskeið af dijon sinnepi ofan á hverja bringu. min_IMG_4041Blandið saman brauðraspi, parmesan, steinselju og olíu og stráið jafnt yfir allar bringurnar, ca. 2 msk á hverja bringu. min_IMG_4047Bakið í ofni við 180 gráður í 35 mínútur, það fer þó eftir stærð og þykktinni á kjötinu svo fylgist með því. min_IMG_4050Berið fram með einföldu salati og njótið!min_IMG_4057

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Cordon Blue uppskrift, Fljótlegur matur, Fylltar kjúklingabringur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir að mat fyrir matarboð, Kjúklinga cordon blue, Kjúklingabringur uppskriftir

Gróft spelt- og hafrabrauð með graskersfræjum

september 11, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4035Ég var eiginlega búin að gleyma því hversu dásamlega gott það er að baka sitt eigið brauð. Þó mér finnist nú voða gaman að baka svona almennt þá finnst mér brauðbakstur toppa annan bakstur. Það er eitthvað svo róandi við að baka brauð, sérstaklega svona brauð sem er eiginlega engin hætta á að klúðra. Maður getur nokkurn veginn sett saman það sem manni þykir best og það þarf ekki að bíða eftir að það lyfti sér. Svona brauð er að mínu mati alveg jafn gott daginn eftir að það er bakað, ef ekki bara betra og mér þykja graskersfræin algerlega ómissandi. Þeim má þó auðvitað skipta út fyrir önnur fræ. Uppskriftin er ansi stór og passar vel í eitt stórt jólaköku- eða brauðform. Ég mæli með því að vefja brauðinu inn í þurrt viskastykki þegar það hefur verið losað úr forminu og því leyft að kólna þannig í a.m.k 30-60 mínútur eftir bakstur. Þá mýkist skorpan aðeins og mun auðveldara verður að skera það í fallegar sneiðar. min_IMG_4031

Gróft spelt- og hafrabrauð með graskersfræjum:

  • 5 dl gróft spelt
  • 2 dl grófir hafrar
  • 1/2 dl sesamfræ
  • 1 dl graskersfræ
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 4 tsk vínsteinslyftiduft
  • 3 dl hrein jógúrt eða ab mjólk
  • 1 msk ólífuolía
  • 2-3 dl heitt vatn

min_IMG_4008Aðferð: Hitið ofn i 160 gráður með blæstri eða 180 gráður án blásturs. Blandið saman öllum þurrefnum. Hrærið saman við olíunni og ab mjólkinni. Bætið vatninu smám saman út í og hrærið aðeins þar til deigið er að mestu komið saman, alls ekki hræra of mikið. Deigið á að vera eins og þykkur grautur og dálítið klístrað. min_IMG_4013Setjið deigið í smurt brauðform og stráið vel af graskersfræjum yfir. Bakið í 45 mínútur. Ef þið gerið litlar bollur úr deiginu, setjið þá um 2 msk af því í einu á bökunarplötu og bakið í um 15-20 mínútur.min_IMG_4020min_IMG_4026

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Brauð með graskersfræjum, Brauð með vínsteinslyftidufti, Einfalt brauð, Gerlaust brauð, Gróft brauð, Gróft speltbrauð, Hafrabrauð, Hollt brauð uppskrift, Speltbrauð

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 10
  • Page 11
  • Page 12
  • Page 13
  • Page 14
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme