• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for nóvember 2013

Tíu mínútna máltíð: Tortellini alla puttanesca

nóvember 28, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4621Það er ár og dagur eða svona því sem næst, síðan hér hefur verið pasta á borðum. Það var því kærkomin löngun í góðan og bragðmikinn pastarétt sem varð að veruleika á dögunum. Einn af uppáhalds pastaréttunum mínum er pasta alla puttanesca eða pasta gleðikonunnar eins og það þýðir svo skemmtilega á íslensku. Það er eiginlega allt í honum sem mér þykir gott: tómatar, hvítlaukur, chilli, capers, góð ólífuolía, ólífur og parmesan ostur. Ég hef áður birt uppskrift að svona pastarétti hérna á síðunni og það vill svo skemmtilega til að það var ein af fyrstu uppskriftunum og birtist 5. desember í fyrra. Þetta gæti því eitthvað tengst árstímanum þessi löngun mín í bragðmikla pastarétti. Áhugavert ekki satt? En jæja, ég gerði útgáfu af puttanesca tortellini í þetta skiptið og notaði ferskt pasta í réttinn sem gjörsamlega sló í gegn. Eldamennskan tók heldur ekki meira en 10 mínútur, sem hlýtur alltaf að alltaf að vera kostur. min_IMG_4615

Tortellini alla puttanesca fyrir 4:

  • 500 gr ferskt pasta, t.d tortellini
  • 3 msk góð ólífuolía
  • 1 rauðlaukur smátt skorinn
  • 2-3 hvítlauksrif, rifin eða smátt söxuð
  • 4 vel þroskaðir tómatar, skornir í teninga
  • 1 askja piccolo tómatar eða kirsuberjatómar
  • 3 msk kapers
  • 1 tsk sambal oelek chillimauk eða 1/2 rauður chilli smátt saxaður
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • 1 tsk hunang eða önnur sæta
  • 1-2 msk rjómi (má sleppa)
  • Salt og pipar
  • Nýrifinn ferskur parmesan ostur

Aðferð: Hitið olíuna á stórri pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn þar til hann mýkist aðeins. Bætið þá öllum tómötunum út á og hækkið hitann. Látið malla í 5 mínútur og kremjið kirsuberjatómatana aðeins með sleifinni. Bætið kapers, chilli, sítrónusafa, hunangi og rjóma út á og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, sigtið og hellið því svo út í sósuna og blandið vel saman. Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram. min_IMG_4623

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur pastaréttur, Ferskt pasta, Ferskt tortellini, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, pasta alla puttanesca, pasta uppskrift

Hafrakossar

nóvember 26, 2013 by helenagunnarsd 39 Comments

min_IMG_4360Ó þessir hafrakossar. Þegar Vikan hafði samband við mig og bað mig um að senda inn uppskriftir fyrir matgæðing vikunnar voru þessar dúllur fyrstar að koma upp í hugann. Þetta er svona næstum of gott til að vera satt og getur eiginlega ekki annað en slegið í gegn. Ég fékk hugmyndina að kökunum á síðunni sem bandarísku hjónin Kevin og Amanda halda úti. Þar má oft finna skemmtilegar uppskriftir, fallegar ljósmyndir og hugmyndir að hinu og þessu. Uppskriftirnar á síðunni eiga það hins vegar all flestar sameiginlegt að ekkert er til sparað í smjeri, sykri og öðru fíneríi svo þær flokkast algjörlega undir mat sem fólk ætti ekki að hafa oft á borðum. En maður minn, ef þú vilt gera vel við þig og þína og baka guðdómlegar kökur til að eiga á aðventunni, já þá eru þessar bara málið, ég lofa!

min_IMG_4358Hafrakossar (Breytt uppskrift frá www.kevinandamanda.com):

  • 250 gr mjúkt smjör við stofuhita
  • 2 dl púðursykur
  • 1 dl sykur
  • 1 egg
  • 2 tsk vanilluexract
  • 3 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • ½ tsk kanill
  • 6 dl haframjöl (ath ekki grófir hafrar)

Aðferð:

Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljós. Bætið egginu og vanillu út í og blandið vel saman við.

Hrærið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið út í smjörblönduna og hrærið létt saman. Bætið höfrunum út í og blandið þar til rétt svo komið saman. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á plötu, þrýstið aðeins ofan á hverja köku og bakið í 8-10 mínútur. Kælið á grind.

Krem:

  • 150 gr smjör
  • 250 gr flórsykur
  • 2 msk rjómi
  • 1 tsk vanilluextract

Aðferð: Þeytið allt vel saman og sprautið eða smyrjið á kældar kökurnar og leggið aðra köku ofan á. min_IMG_4359

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka fyrir jólin, Bestu smákökurnar, Hafrakökur, Hafrakossar, Haframjölskökur, Jólabakstur, jólasmákökur, Kökur með kremi, Smákökur, Uppáhalds smákökurnar

Nutella smákökur

nóvember 21, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4373Það er alveg með ólíkindum hvað fólk almennt virðist hafa gaman að því að lesa um mat. Ég verð allavega pínulítið feimin þegar ég átta mig á því hversu margir lesa þessa litlu uppskriftasíðu mína sem í byrjun átti aðeins að vera fyrir mig og mína og til að hafa uppskriftirnar allar á einum stað. Mér þykir svo ótrúlega vænt um að þið viljið líta hingað inn og ég tala nú ekki um þegar þið skiljið eftir ykkur spor eða sendið mér línu. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað það er gaman að halda úti svona síðu og hvað það gefur mér mikið að geta veitt öðrum innblástur þegar kemur að bakstri og matargerð. Það er svo stutt síðan ég sat hinum megin við borðið, þræddi matarblogg (sem ég geri sannarlega ennþá) og uppskriftasíður og hugsaði um að kannski ætti maður bara að skella saman einu svona bloggi til að koma skikki á uppskriftasafnið.

Í dag, 21. nóvember er heilt ár liðið síðan fyrsta uppskriftin birtist á Eldhúsperlum, gestum hefur jafnt og þétt fjölgað og uppskriftirnar eru orðnar vel á annað hundrað. Undanfarnar vikur hefur heimsóknateljarinn á síðunni hvað eftir annað slegið eigið met og greinilegt að mataráhugi fólks fer ekki dvínandi. í febrúar ákvað ég að stofna Facebook síðu utan um bloggið. Ég setti mér það markmið að ef sú síða myndi ná 1000 ”like-um” fyrir árslok 2013 ætlaði ég halda áfram með hana. Mér fannst einfaldlega eitthvað svo sorgleg tilhugsun að vera með síðu sem næði ekki inn sterkum lesendahópi. Síðan er núna komin yfir 2600 ”like” svo markmiðinu er náð og gott betur. Eins og er get ég ekki hugsað mér að hætta að skrifa um mat eða að bæta nýjum færslum inn á Eldhúsperlur, þetta er svo gaman! Við ykkur langar mig einfaldlega að segja TAKK. Takk fyrir að lesa og takk fyrir að vera svona skemmtileg. Ég hlakka mikið til næsta Eldhúsperluárs með nýjum uppskriftum og tryggum lesendum.

min_IMG_4370Í tilefni dagsins læt ég hér fylgja með einhverja einföldustu en bestu smákökuuppskrift sem ég hef prófað. Uppskriftin birtist í Vikunni fyrr í mánuðinum svo það er kominn tími til að hún birtist hér. Ég mæli með að þið prófið þessar og vona að þið njótið vel!

Nutella smákökur með sjávarsalti:

  • 200 gr nutella
  • 2 msk hrásykur
  • 1 egg
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1 tsk instant kaffiduft (ég mala það í morteli)
  • 1,5 dl fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 dl (eða meira) dökkir eða ljósir súkkulaðidropar eða saxað súkkulaði
  • Gott sjávarsalt í flögum t.d Maldon eða Saltverk

min_IMG_4214Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 180. Hrærið nutella, egg, vanillu, sykur og kaffiduft saman með sleif þannig að það blandist vel saman. Bætið hveitinu út í ásamt súkkulaðidropunum og hrærið þar til það hefur rétt svo samlagast deiginu. min_IMG_4212Kælið í 15-30 mínútur. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á bökunarplötu, stráið örlitlu sjávarsalti ofan á hverja köku og bakið í 7-9 mínútur. Mér finnst betra að baka þær aðeins of lítið og leyfa þeim svo að kólna. Þá verða þær mjúkar í miðjunni og dásamlegar.min_IMG_4219 Athugið að kökurnar eiga að vera mjúkar í miðjunni. Kælið á grind. min_IMG_4229

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Auðveldar smákökur, Að baka úr Nutella, Bakstur fyrir börnin, Einfaldar smákökur, jólasmákökur, Nutella, Nutella smákökur, Smákökur

Salsa kjúklingur með Mexíkó osti

nóvember 14, 2013 by helenagunnarsd 12 Comments

min_IMG_4601Þetta mikla gúmmelaði þykir mér alveg kjörinn föstudags- eða helgarmatur. Ég eldaði réttinn á dögunum og stóð sennilega ekki lengur en 15 mínútur við eldavélina og lét ofninn sjá um restina. Svoleiðis réttir finnst mér svo frábærir, þetta er bæði auðveldara og fljótlegra (og betra) en að panta pizzu! Sósan er bragðmikil svo ef þið eða börnin ykkar eruð mjög viðkvæm fyrir sterku bragði er um að gera að nota milda salsa sósu og jafnvel hægt að skipta Mexíkó ostinum út og nota papriku eða pepperoni ost í staðin. Okkur þótti þetta hins vegar alveg mátulega bragðmikið, meira að segja þeim fimm ára.

min_IMG_4603Salsa kjúklingur með Mexíkó osti (fyrir 6):

  • 6 kjúklingabringur
  • 1-2 msk olía eða smjör
  • Krydd, t.d chilli explosion eða önnur góð kryddblanda
  • 1 stór krukka (350 gr) salsa sósa
  • 1 askja Philadelphia light rjómaostur
  • 1 Mexíkó ostur, smátt skorinn
  • 1/2 kjúklingateningur
  • Nokkrar tortillaflögur
  • 1 dl rifinn ostur
  • Smátt saxað ferskt kóríander (má alveg sleppa)

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og kveikið undir pönnu á meðal-háum hita. Skerið bringurnar í tvennt, kryddið og steikið upp úr smjöri eða olíu þar til bringurnar hafa brúnast. Leggið kjúklinginn í eldfast mót.min_IMG_4595 Hellið salsa sósunni á pönnuna ásamt smátt skornum Mexíkó ostinum og rjómaostinum og hálfum kjúklingateningi. Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og hellið á pönnuna. Hitið sósuna þar til allt bráðnar en það er allt í lagi að hafa smá Mexíkó osta bita í henni, bara betra. Hellið yfir kjúklingabringurnar. Stráið yfir rifna ostinum og nokkrum lúkum af muldum tortillaflögum. Bakið í 20 mínutur.min_IMG_4597 Stráið smátt söxuðum kóríander yfir og berið fram með tortillaflögum, gróft skornum tómötum og avocado. Það má líka gjarnan bera þetta fram með hrísgrjónum, brauði eða salati.min_IMG_4601

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, kjúklingur með mexíkó osti, salsa kjúklingur

Að gefa góðgæti… Rauðrófu chutney með eplum og engifer

nóvember 11, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4562Það er langt síðan ég byrjaði að huga að jólagjöfunum, eða svona á minn mælikvarða að minnsta kosti. Ég byrja venjulega að huga að gjöfunum í ágúst og fer þá að líta í kringum mig og finna hugmyndir að sniðugum gjöfum. Mér þykir aðdragandi jóla og undirbúningur þeirra alveg dásamlegur tími og iða í skinninu að geta byrjað. Allt of oft hefur desember farið í próflestur og mikið stress en þar sem svo verður ekki núna hlakka ég alveg sérstaklega mikið til aðventunnar og alls sem henni fylgir! Ég er til dæmis búin að skrá mig á jólanámskeið hjá Salt eldhúsi í byrjun desember og mikið sem ég hlakka til að eyða kvöldstund þar og upplifa dýrðina sem ég hef lesið um svo oft en aldrei prófað. Gjafabréf á námskeið hjá Salt eldhús væri nú ekki galin jólagjafahugmynd!Screen Shot 2013-11-11 at 16.46.01

Eins og mér þykir gaman að rölta um miðbæinn og jafnvel verslunarmiðstöðvar þykir mér fátt eins stressandi eins og að æða um götur og ganga á síðustu stundu í óskipulegri leit að jólagjöfum. Ég myndi miklu frekar vilja vera heima í eldhúsinu mínu og búa til eitthvert góðgæti til að gefa fólkinu mínu. Og sem betur fer, þá kunna nú flestir vel að meta það að fá heimagert góðgæti. Eitt af því sem er upplagt að búa til og gefa eru sultur eða chutney ýmiskonar. min_IMG_4577Ég notaði tækifærið um daginn þegar mamma var með smá veislu og bjó til sérlega gott rauðrófu chutney með eplum og engifer. Jólalegra getur það varla verið og það var líka svo einfalt! Chutneyið geymist vel í ísskáp í fjórar vikur svo það er upplagt að búa það til um miðjan desember ef gefa á í jólagjöf. Það er einstaklega gott með ostum og sömuleiðis með köldu kjöti, t.d skinku eða kalkún.min_IMG_4571

Rauðrófu chutney með eplum og engifer (Lítillega breytt uppskrift frá Nigella´s Christmas Kitchen)

  • 500 g hráar rauðbeður/rauðrófur, flysjaðar og smátt skornar
  • 1 kg epli, flysjuð og skorin smátt (ég notaði Pink lady epli)
  • 275 g rauðlaukur, smátt saxaður
  • 2.5 cm engiferrót, rifin eða mjög smátt söxuð
  • 50 gr þurrkaðar apríkósur, skornar smátt
  • 350 g ljós púðursykur
  • 2 tsk Maldon salt eða 1 tsk fínt salt
  • 1 tsk Allrahanda krydd 
  • 600 ml rauðvínsedik
  • 100 ml vatn

min_IMG_4569Aðferð: Setjið allt í frekar stóran pott. Kveikið undir og hleypið suðunni upp, lækkið þá aðeins hitann og látið malla undir loki í eina klst, hafið lokið skakkt á pottinum svo gufan sleppi aðeins út. Hrærið af og til. Eftir eina klukkustund takið þá lokið af, hækkið aðeins hitann og látið sjóða án loks í 30 mínútur. Þá ætti chutneyið að hafa þykknað og  um það bil helmingurinn af vökvanum gufað upp. Setjið á hreinar krukkur. Ég fyllti sjö meðalstórar krukkur, passið bara að eiga nóg af krukkum. Geymist í ísskáp í fjórar vikur.min_IMG_4563

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chutney uppskrift, Hugmyndir að jólagjöfum, Matar jólagjafir, Rauðbeðu chutney, Rauðrófu chutney

Bröns? – Bestu uppskriftirnar..

nóvember 9, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

Að bjóða fólki í bröns er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri. Vakna snemma á laugardags- eða sunnudagsmorgni og dunda í eldhúsinu í kyrrðinni þykir mér alveg einstaklega notalegt. Það er næstum því takmarkalaust hvað hægt er að bjóða upp á í slíkum matarboðum og um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Mér finnst samt ágætt að hafa eitt í huga þegar fólki er boðið í mat, hvenær dags sem það nú er. Það er að hafa fáa en þeim mun betri rétti í boði.

Það er ekki þess virði að vera á hlaupum við að búa til 17 sortir af smáréttum, bakkelsi eða elda fimmréttaða máltíð og vera svo ein taugahrúga þegar gestina ber að garði. Svo var sumt kannski ágætt en annað ekkert spes. Nei, fátt en gott er lykilatriði að mínu mati og svo er það miklu, miklu einfaldara. Ég tók saman nokkrar af mínum uppáhalds bröns uppskriftum og hvet ykkur til að prófa einhverjar þeirra. Mér finnst ágætt að hafa á bakvið eyrað að búa til frá grunni eina sæta tegund og eina ósæta fyrir svona bröns matarboð. Kaupa svo gott álegg og osta, skera niður grænmeti og ávexti, hella upp á kaffi og setja góðan ávaxtasafa í fallega könnu með klökum, kveikja svo á kertum og dúka borð. Þá er komin þessi fína veisla án mikillar fyrirhafnar.img_0587Enskar spariskonsur trjóna ennþá á toppnum sem uppáhalds uppskriftin mín á Eldhúsperlum. Þær bráðna í munni og eru einu númeri of góðar. Ég geri þær á hátíðisdögum eins og páska- og jóladag og allir sem smakka þær kikna í hnjánum. img_0137Brúnkur Nigellu – Ég hef ennþá ekki smakkað þær betri. Þetta er spari og fullkominn sætur endir!img_1088Að bjóða upp á bökur í matarboði er snilld því þær má gera daginn áður og velgja upp eða borða stofuheitar. Brokkolíbaka með geitaosti er bæði einföld og ákaflega góð!img_1867Þessar hindberja- ostaköku múffur með hnetumulningi hafa ekki fengið næga athygli að mínu mati, þær eiga svo miklu meira skilið. Prófið þær og látið sannfærast.min_img_3576Egg og beikon saman í bolla með osti. Óskaplega gott, fljótlegt og getur ekki klikkað. Berið fram heitt eða bakið með góðum fyrirvara og hafið stofuheitt. min_img_3647Vöfflur – ekki hvaða vöfflur sem er, heldur bestu vöfflur í heimi. Þær má bera fram með ferskum berjum, sírópi, hunangi, nutella, bönunum.. möguleikarnir eru endalausir.img_0529Einfaldar kotasælubollur eru sannarlega einfaldar. Skál og skeið er allt sem þarf í þessar og ekkert ger eða lyftivesen. Nýbakaðar bollur eru alltaf góðar.min_img_3559Bruschetta með tómötum og mozarella er einfaldur en einstaklega góður réttur á bröns borðið. Gaman að bera fram eitthvað létt og öðruvísi og setja smá sumar á disk.min_img_3420

Þessar dásmlegu osta- og graslauks skonsur eru skuggalega góðar og bragðmiklar. Bornar fram með silkiskorinni góðri skinku og gúrkusneiðum og allir verði hamingjusamir. Þær eru frábærar!

Bjóðið nú fólkinu ykkar í bröns og hafið það huggulegt!

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bröns, Bröns hugmyndir

Eldhúsperlur í Vikunni

nóvember 7, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

Page_1Í Vikunni sem kom út í dag má finna fimm glænýjar og freistandi uppskriftir frá Eldhúsperlum. Uppskriftirnar eiga það allar sameiginlegt að vera í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum en hafa þó ekki birst hér á blogginu. Þar má finna uppskriftir af tveimur tegundum af smákökum, hafrakossum með kremi sem láta mann næstum roðna og mjúkum Nutella smákökum með sjávarsalti sem eru í senn einhverjar einföldustu en bestu smákökur sem ég hef smakkað.photo 1-3Auk þessu eru tvö ný og spennandi salöt og rjúkandi dásamleg frönsk innbökuð lauksúpa full af ást og osti og eiginlega aðeins of góð á köldum vetrarkvöldum. Ég mæli því eindregið með því að þið nælið ykkur í eintak mín kæru og prófið eitthvað af nýju uppskriftunum. photo 3

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Eldhúsperlur, Eldhúsperlur í Vikunni, Vikan

Chilli og sítrónu kjúklingur með marokkósku kúskús salati, möndluflögum og apríkósum

nóvember 4, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_4540Ég hef játað mig sigraða og verð nú að horfast í augu við myrkur á kvöldmatartíma. Þar sem ég hef ekki tök á að elda mat eða baka á daginn nema einstaka sinnum er þetta óhjákvæmlegur fylgifiskur vetrarins. Mér þykir bara svo gaman að deila með ykkur uppskriftum þegar vel tekst til að ég læt mig hafa það að mynda matinn undir eldhúsljósunum. Þið harkið bara af ykkur. Þessi kjúklingaréttur flokkast sannarlega undir mat sem tókst vel. Sunna systir sagði mér á dögunum frá kjúklingarétti sem hún hafði fengið hjá vinkonu sinni, rétturinn var svo góður að hún hafði ekki getað hætt að hugsa um hann.

min_IMG_4538Það er skemmst frá því að segja að aðeins eru nokkrir dagar síðan hún sagði mér frá réttinum en samt er ég búin að elda hann tvisvar. Þetta er nýjasta æðið! Ég get svo svarið það. Rétturinn er ótrúlega einfaldur en galdurinn er marineringin á hann. Chillimaukið Sambal oelek blandað saman við dijon sinnep og sítrónu er hættulega góð samsetning og eiginlega ávanabindandi. Ég get því ekki annað en þakkað Árdísi vinkonu fyrir hugmyndina að snilldarmarineringu á kjúkling og mælt með því að þið prófið. Ég bjó til marokkóskt kúskús salat sem meðlæti í þetta skiptið sem mér fannst smellpassa við bragðmikinn kjúklinginn.

Kjúklingurinn (fyrir 5):

  • 1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2 msk Sambal oelek chillimauk
  • 1 msk dijon sinnep (ég notaði hunangsdijon og venjulegt til helminga)
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 tsk gott sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 3 msk fetaostur
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. min_IMG_4522Hærið saman chillimauki, dijon sinnepi, ólífuolíu, salti og pipar. Makið þessu vel á kjúklingalærin og leggið þau í eldfast mót. Stingið sítrónubátum inn á milli kjúklingabitanna, stráið fetaostinum yfir og bakið í 30 mínútur. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum gerið þið svo kúskúsið tilbúið. min_IMG_4530

Kúskús og meðlætið:

  • 200 gr kryddað kúskús
  • 10 þurrkaðar apríkósur
  • 50 gr ristaðar möndluflögur
  • 2 tómatar skornir í grófa bita
  • 1 lítill rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauður chilli smátt skorinn
  • Ferskt saxað kóríander eða steinselja til skrauts (má sleppa)

Aðferð: Eldið kúskúsið skv. leiðbeiningum á pakkanum. min_IMG_4519Ég hellti því bara í eldfasta mótið sem ég notaði til að bera matinn fram, stráði apríkósunum yfir og hellti sjóðandi heitu vatni þar til rétt flaut yfir. min_IMG_4524min_IMG_4526Ristið möndluflögurnar á þurri pönnu en gætið þess að brenna þær ekki. Hafið pönnuna á meðalhita. min_IMG_4527Þegar kúskúsið er tilbúið, hrærið það upp með gaffli og stráið möndlunum yfir. min_IMG_4528Leggið kjúklingalærin ofan á kúskúsið, hellið soðinu úr fatinu yfir og kreistið bakaðar sítrónurnar líka yfir. min_IMG_4533Dreifið tómatabitunum og rauðlauknum yfir að lokum og stráið e.t.v yfir ferskum kóríander eða steinselju, möndluflögum, chilli og smá fetaosti.min_IMG_4537Berið fram og njótið !

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chilli kjúklingur, Einfaldur kjúklingur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingur, Kúskús salat, Marokkóskur kjúklingur

Kryddkaka á hvolfi með eplum og karamellu

nóvember 1, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_4498Stundum er svo erfitt að ákveða sig. Það var einmitt þannig með þessa köku sem ég gerði á dögunum. Ég gat ekki ákveðið hvort ég ætti að baka gamaldags og ávalt góða kryddköku eða eplaköku sem er í einstaklega miklu uppáhaldi hjá manninum mínum. Ég gerði því það sem mér fannst á þeim tíma það eina rétta í stöðunni og bakaði köku sem sameinaði báðar kökurnar. Og já, bætti karamellu við. Ég hef allavega ekki ennþá rekist á köku sem verður verri af karamellu svo þetta hlaut að enda vel. Kakan er mjúk með frekar hefðbundnu kryddkökubragði og eplin með karamellunni gera svo útslagið. Ilmurinn á heimilinu getur svo varla orðið betri en þegar svona dásamlega krydduð eplakaka bakast í ofninum. Gæti jafnvel verið pínu jólalegt. Það má, enda kominn nóvember! Prófið þessa og gleðjið fjölskyldu og vini með notalegri köku.min_IMG_4505

Kryddkaka á hvolfi með eplum og karamellu:

  • 2-3 epli (fer eftir stærð)
  • 280 gr fínmalað spelt eða hveiti
  • 100 gr hrásykur
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 tsk kanell
  • 1/2 tsk engifer
  • 1/4 tsk negull
  • 1/4 tsk múskat
  • 1 msk kakó
  • 3 dl ab mjólk eða súrmjólk
  • 100 gr brætt smjör, brúnað
  • 2 egg
  • Karamella:
  • 4 msk smjör
  • 2 dl púðursykur
  • 2 msk rjómi
  • 2 msk hunang eða síróp
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/4 tsk kanill

min_IMG_4492

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Smyrjið smelluform og setjið smjörpappír í botninn. Ef formið ykkar á það til að leka setjið þá álpappír utan um formið þar sem karamellan gæti lekið út. Flysjið eplin og skerið í sneiðar og raðið fallega í botninn á smelluforminu.

Brúnið smjörið í litlum potti. Hér má sjá góðar leiðbeiningar um hvernig á að brúna smjör. Ef þið nennið ekki að brúna smjörið er líka fínt að bræða það bara. En ég vil samt taka það fram að brúnað smjör gerir ALLT betra. Takið smjörið af hitanum og leyfið að kólna.

Setjið innihaldið í karamelluna í pott (sama og þið brædduð smjörið í óþarfi að þrífa hann á milli) og bræðið allt saman við meðalhita þar til sykurinn er allur uppleystur. Hellið helmingnum af karamellunni yfir eplin og geymið hinn helminginn þar til síðar.

Hrærið öll hráefnin í kökuna saman. Fyrst þurrefnin og svo eggin, súrmjólkina og smjörið. Ekki hræra of lengi, bara þannig að allt blandist saman. Deigið á að vera frekar þykkt. Dreifið kökudeiginu yfir eplin og bakið í 45 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur. Losið kökuna frá hliðunum með hnífi og hvolfið henni svo á tertudisk. Hellið restinni af karamellunni yfir og berið fram.min_IMG_4494

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Eplakaka, Eplakaka með karamellu, Hvolfkaka, Kaka á hvolfi, Karamella, Kryddkaka

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme