• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Mozarella og tómatar – Insalata caprese

ágúst 12, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3192Ég held að ég geti sagt að eftirfarandi uppskrift (sem er eiginlega ekki hægt að kalla uppskrift) sé einn af mínum uppáhaldsréttum. Svona þegar kemur að einfaldleika, góðu hráefni og fljótlegheitum. Þetta er samsetning sem getur ekki klikkað. Það er svo mikilvægt þegar svona fá hráefni eiga að fá að standa fyrir sér sem forréttur, máltíð, smáréttur eða meðlæti, að allt sé gott sem í réttinn fer. Mozarella osturinn þarf að vera ferskur, mér finnst þessi íslenski alveg afbragðsgóður en vilji menn vera flottir á því veit ég að ítalska sælkeraverslunin Piccolo Italia á Laugaveginum selur stundum ekta ítalskan buffalo mozarella. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér á svoleiðis einn daginn.

Nú og svo þurfa tómatarnir að vera eldrauðir og ekki kaldir úr ísskáp. Það er langbest – eiginlega skylda, að geyma tómata alltaf við stofuhita. Ég nota tómata það mikið að ég er með stóra skál við hliðina á eldavélinni sem er oftast full af tómötum. Þegar ég kaupi nýja tómata set ég þá neðst í skálina og nota þá sem eldri eru. Ég geymi kirsjuberja-, piccolo-, plómutómata og ”venjulega” íslenska tómata við þessar aðstæður, sumsé alla tómata. Þeir eru svo margfalt betri á bragðið fái þeir að þroskast og roðna við stofuhita. Það er svo alveg klassískt að nota basil í svona tegund af salati, ég geri það oftast en í þetta skiptið notaði ég glænýtt heimaræktað klettasalat sem mér finnst líka passa vel í salatið. Mér þykir svo best að hella yfir góðri jómfrúar ólífuolíu, balsamikediki og strá svo yfir sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Einfaldleikinn er oft svo dásamlegur!

min_IMG_3189Insalata caprese:

  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 vel þroskaðir fremur stórir tómatar
  • Nokkur blöð af klettasalati eða basil
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk balsamikedik
  • Sjávarsalt og pipar

Aðferð: Mozarella og tómatar skornir í jafn þykkar sneiðar. Klettasalatið lagt á disk, tómata og mozarellasneiðum raðað ofan á til skiptis. Ólífuolíu og balsamikediki sáldrað yfir ásamt pipar og salti. Borið fram strax. Stundum ber ég salatið fram sem fljótlega máltíð, þá hef ég gjarnan með því hráskinku og avacadosneiðar – það er líka mjög gott.min_IMG_3191

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfalt salat, Fljótlegur forréttur, Forréttur, Góðir smáréttir, Insalata caprese, Ítalskur matur, LKL uppskrift, Mozarella og tómatasalat, Smáréttur

Grilluð bruschetta caprese og eggja-beikon bollar

ágúst 9, 2013 by helenagunnarsd 11 Comments

min_IMG_3576Ég útbjó þennan ljúfa og einfalda bröns handa okkur fjölskyldunni á dögunum. Nú eru síðustu sumarfrísdagarnir að líða og við notum hvert tækifæri til að hafa það huggulegt og gera okkur dagamun áður en rútínan fer á fullt aftur. Mér finnst um bröns eða ”dögurð” (kann einhvernhveginn ekki við það orð) eins og svo margt annað, að einfalt er oftast best. Ef ég býð upp á bröns hlaðborð kýs ég allavega að bjóða upp á frekar fáar tegundir en vel eitthvað sem ég veit að er gómsætt og fellur í góðan jarðveg. min_IMG_3559Þar sem við vorum nú bara þrjú að borða í þetta skiptið lét ég þessar tvær tegundir duga og var með vínber og góðan appelsínusafa með. Ef ég fæ til mín gesti í bröns þá finnst mér gott að bæta til dæmis við nýbökuðum skonsum eins og þessum hér eða þessum og bera fram með þeim osta, álegg og lemoncurd. Ef þið eigið gasgrill þá mæli ég alveg eindregið með því að þið grillið brauðið fyrir bruschetturnar á því. Það kemur alveg ótrúlega gott grillbragð sem gerir alveg gæfumuninn, svo tekur bara 1-2 mínútur að grilla sneiðarnar á vel heitu grillinu. Það er bara hressandi að kveikja á grillinu svona í morgunsárið!

Grilluð bruschetta með tómötum og mozarella:

  • 1 snittubrauð
  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 eldrauðir tómatar
  • Nokkur blöð af ferskum basil
  • Góð ólífuolía
  • 1 msk nýkreistur sítrónusafi
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

min_IMG_3565Aðferð: Skerið snittubrauðið á ská í passlegar sneiðar. Dreypið smá ólífuolíu yfir sneiðarnar og sáldrið örlitlu sjávarsalti ofan á. Grillið við háan hita í stutta stund þar til brauðið hefur aðeins tekið lit. Raðið sneiðunum á disk. Saxið tómatana í litla teninga ásamt mozarella ostinum. Setjið í skál. Hellið 1-2 msk af ólífuolíu yfir, sítrónusafa, salti og pipar (smakkið ykkur áfram). Skerið basilið smátt og bætið saman við. Hrærið öllu saman og dreifið þessu jafnt yfir allar brauðsneiðarnar. Skreytið e.t.v með smá basil.

min_IMG_3582Eggja- beikon bollar:

  • 6 egg
  • 12 sneiðar gott beikon (ég notaði þykkar beikonsneiðar frá Ali)
  • 6 tsk sýrður rjómi með lauk og graslauk
  • Salt og pipar
  • Góð handfylli Rifinn ostur
  • Saxaður graslaukur

Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Raðið beikonsneiðunum á bökunarplötu og bakið í 8-10 mínútur eða þar til beikonið er eldað en ekki alveg orðið stökkt. Náið ykkur í möffinsform og raðið tveimur beikonsneiðum í hvert hólf.min_IMG_3548 Ég sett eina í hring og reif hina svo í tvennt og lagði í botninn. Brjótið eitt egg í hvert hólf og kryddið aðeins með salti og pipar. min_IMG_3550Setjið eina teskeið af sýrðum rjóma í hvert hólf og stráið svo osti yfir.min_IMG_3552 Bakið í 8-12 mínútur. min_IMG_3572Ef þið viljið hafa eggið linsoðið ættu 8 mínútur að duga, lengur ef þið viljið hafa rauðuna harðsoðna. Stráið söxuðum graslauk yfir og berið fram.

 

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bröns hlaðborð, Bröns uppskriftir, Bruschetta uppskrift, Egg og beikon, Hollar muffins, Hugmyndir að bröns, LKL uppskriftir, Tómata bruschetta

Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, avocado og parmesan osti

ágúst 7, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_3345Mér finnst alveg frábær tilbreyting frá grilltíð sem einkennist oft og tíðum af dálítið miklu kjöti, að sneiða hjá kjötmáltíðum og bera á borð kvöldmat sem inniheldur einungis grænmeti. Ég tala nú ekki um núna þegar fer að líða á ágúst mánuð og íslenskt grænmeti fer að fylla grænmetiskæla matvöruverslana. Ég get nú reyndar ekki státað mig af því að hafa notað eingöngu íslenskt grænmeti í þennan rétt, en góður var hann. Ég lét hann standa algjörlega einan og sér sem kvöldmat á dögunum og fannst avacado teningarnir alveg gera útslagið í að skila okkur mettandi og góðum kvöldverði. Ég hvet ykkur til að prófa að hafa grænmetisrétt á borðum allavega einu sinni í viku ef þið hafið ekki vanist því. Það er bæði hagstætt og ljúffengt og alltaf upplagt að nota til dæmis grænmetisafganga sem liggja óhreyfðir í grænmetisskúffunni í staðin fyrir að henda þeim. Ég notaði hreint kúskús í þennan rétt sem ég kryddaði sjálf. Það væri líka vel hægt að kaupa tilbúið kryddað kúskús. Prófið bara!

min_IMG_3347Bragðmikið kúskús salat með ofnbökuðu grænmeti, lárperu og parmesan osti (fyrir 3-4):

  • 200 gr hreint kúskús – kryddað með 1 tsk oregano, 1 tsk paprikukryddi, 1/4 tsk kanil, 1 tsk grófu sjávarsalti, 1/2 tsk svörtum pipar, 1/2 tsk cummin, 1/2 tsk kóríander og 1/4 tsk þurrkuðum chilliflögum (líka hægt að nota kryddað kúskús)
  • 1 -2 öskjur konfekt tómatar eða piccolo tómatar (magn fer þó eftir smekk)
  • 2 vænir rauðlaukar
  • 1 msk ólífuolía
  • 2 msk balsamikedik
  • 1 msk hunang
  • Sjávarsalt og pipar
  • Nokkrar sneiðar grilluð marineruð paprika úr krukku (líka hægt að nota t.d þistilhjörtu eða ólifur)
  • 2 lárperur
  • Rifinn ferskur parmesan ostur
  • Góð lúka fersk steinselja og graslaukur, smátt saxað
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð: Hitið ofn í 220 gráður. Byrjið á að setja kúskúsið í skál og krydda það. Blandið vel saman. Hellið sjóðandi vatni yfir kúskúsið. Ég mæli aldrei vatnið heldur helli þar til vatnið þekur alveg kúskúsið og nær ca. 1/2 cm yfir það. Leggið disk eða plastfilmu yfir skálina og látið standa í 10 mínútur eða á meðan þið gerið restina af réttinum. Skerið laukinn í tvennt og svo í dálítið þykkar sneiðar. Skerið tómatana í tvennt. Setjið laukinn og tómatana á bökunarplötu. Hellið ólífuolíu, balsamikediki og hunangi yfir, saltið og piprið og veltið grænmetinu vel uppúr. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til laukurinn hefur tekið lit og karamelliserast í hunangs-edik blöndunni. Skerið grilluðu paprikuna í strimla. Ýfið kúskúsið upp með gaffli og hellið því á fat. Setjið grænmetið yfir og blandið aðeins saman. Skerið lárperuna í teninga og dreifið yfir ásamt vel af rifnum parmesan osti og saxaðri steinselju og graslauk. Kreistið smá sítrónusafa yfir og berið fram með sítrónubátum. min_IMG_3340

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Avacado, Cous Cous recipe, Góður grænmetisréttur, Grænmetisréttur, Kúskús salat, Kúskús uppskrift, Ofnbakað grænmeti

Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu

júlí 31, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_3454Það eru sennilega til óteljandi útgáfur af þessum vinsæla og syndsamlega góða eftirrétti og það góða við hann (eitt af mörgu) er hvað hann er fljótlegur og einstaklega einfaldur í undirbúningi. Þennan mætti vel gera í tjaldi væri maður vopnaður potti, prímus og góðum písk til að þeyta rjómann. Útkoman er síðan svo hrikalega girnileg og flott að allir halda að maður hafi verið í nokkra klukkutíma að útbúa þessa dýrð þegar sannleikurinn er sá að maður þarf eiginlega ekki neina eldhúslega hæfileika til að geta gert þennan eftirrétt. Getur það orðið eitthvað betra?Það má vel nota hvaða sælgæti og ávexti sem er í réttinn. Ég prófaði nýlega nýju rjómasúkkulaðirúsínurnar frá Nóa siríus og finnst þær alveg tilvaldar í svona fínheit. Mæli með því að þið prófið þær – súkkulaðirúsínur hafa náð nýjum hæðum með tilkomu þeirra! Það er tilvalið að bjóða upp á þennan eftirrétt um verslunarmannahelgina hvort sem þið verðið heima, í bústað, útilegu eða bara hvar sem er. Mælieiningarnar eru ekki mjög nákvæmar í uppskriftinni enda er rétturinn þess eðlis að sköpunargáfan má vel njóta sín – hann verður bara betri fyrir vikið!

min_IMG_3457Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu:

  • 1 púðursykursmarengsbotn (ég kaupi tilbúinn botn t.d frá Myllunni)
  • 5 dl rjómi
  • 1 lítil dós vanilluskyr
  • 1 bakki íslensk jarðarber eða önnur ber
  • 1 banani
  • 1 poki rjómasúkkulaði rúsínur (150 gr)
  • 1 plata pipp súkkúlaði með karamellufyllingu (100 gr)

Aðferð: Brjótið marengsbotninn gróft í botninn á skál eða í eldfast mót. Bræðið pipp súkkulaðið í 1 dl af rjóma við vægan hita og kælið. Þeytið 4 dl af rjóma og hrærið vanilluskyrinu saman við. Skerið bananann og berin í litla bita en skiljið nokkur ber eftir til að skreyta með. Hrærið berjunum, banönunum og súkkulaðirúsínunum saman við rjóma blönduna og hellið henni yfir marengsinn. Skreytið með jarðarberjum, nokkrum súkkulaðirúsínum og hellið að lokum pipp sósunni yfir. Berið fram strax eða geymið í kæli í 1 klst.min_IMG_3449

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: eftirréttur, Eftirréttur með marengs, Einfaldur eftirréttur, Marengs bomba, Marengs eftirréttur, rjóma og skyri, Sumarlegur eftirréttur, Sælgætisbomba

Hunangs agúrku og tómatasalat með sýrðum rjóma og kryddjurtum

júlí 28, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_3504Ég fékk frábæra uppskrift að stórgóðu salati hjá henni mömmu í vikunni sem leið. Hún hafði borið það fram með grilluðum silungi og lofaði það í bak og fyrir. Hún mamma er ansi sniðug í að reka augun í eða láta sér detta í hug, nýjar uppskriftir sem hljóma kannski örlítið skringilega í fyrstu en eru svo alveg stórgóðar og fela í sér eitthvað alveg nýtt bragð og skemmtilega framsetningu. Þetta salat er einmitt svoleiðis. Lítur eiginlega út eins og kartöflusalat svona í fjarska en er svo bara alls ekkert kartöflusalat. Heldur fullt af agúrkum og tómötum, létt og gott en samt eitthvað svo rjómakennt. Ég hef sagt það áður og mun örugglega segja það aftur: þetta verðið þið að prófa, sérstaklega með grillmatnum! Bæði fljótlegt og ljúffengt. Mamma notaði basil og kóríander í salatið sitt, ég átti ekki til basil svo ég notaði steinselju í staðin og svo kóríander sem mér finnst eiginlega ómissandi. Það er alveg hægt að leika sér aðeins með kryddjurtinar eftir því hvað maður á til hverju sinni.min_IMG_3505

Hunangs gúrku og tómatasalat með sýrðum rjóma og ferskum kryddjurtum (passlegt meðlæti fyrir 2-3):

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 msk hunang
  • 1 msk hvítvínsedik
  • Fínsaxað ferskt kóríander og basil eða steinselja (lítil handfylli af hvor)
  • Smá salt og pipar
  • 1/2 agúrka, flysjuð og skorin í  teninga
  • 2-3 plómutómatar (ílangir) skornir í báta

Aðferð: Sýrði rjóminn hærður út, hunangi, edik og kryddjurtir hrært saman við. Smakkað til með salt og pipar. Agúrkunni og tómötunum hrært bætt saman við. Geymt í ísskáp þar til salatið er borið fram.IMG_3506

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Meðlæti, Meðlæti með grillmatu

Fimm mínútna súkkulaði- og perukaka

júlí 25, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

min_IMG_3366

Ég verð alveg ómöguleg ef ég næ ekki að setja hingað inn allavega eina uppskrift á viku. Það er alveg merkilegt hvað manni fer að þykja vænt um svona síðu og svo auðvitað fólkið sem kíkir inn á hverjum degi! 🙂 Það er alltaf leiðinlegt að kíkja á svona matarblogg og sjá ekki nýja uppskrift reglulega. En þessi uppskrift er alveg viðeigandi núna þar sem ég gef mér örlitla stund til að setjast niður við tölvuna og henda henni inn svona á milli sólbaða. Það tekur nefnilega bara örlitla stund að baka þessa köku. Skál og sleif, dósaopnari, bollamál, ein dós af perum og málið er dautt. Svona að mestu allavega. Það er alveg upplagt að skella sér inn í 5 mínútur í góða veðrinu og hræra í þessa köku til að bera fram með kaffinu eða sem eftirrétt. Það er svo alveg nauðsynlegt að bera hana fram volga með góðum vanilluís.min_IMG_3368

Fimm mínútna súkkulaðikaka með perum (Bollamálið sem ég nota er 2.4 dl – uppskriftin dugar vel sem eftirréttur fyrir 6 fullorðna):

  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 bolli sykur eða hrásykur
  • 1/2 bolli ósætt kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 stór egg
  • 1 stór dós niðursoðnar perur (safinn og allt)
  • 50 gr. 70% súkkulaði brotið í litla bita

Aðferð: Blandið þurrefnunum saman í skál, bætið eggjunum út í ásamt safanum af perunum og hrærið saman þar til deigið er komið saman. Notið sleif eða písk, rafmagnsgræjur eru óþarfar, passið þó að hræra ekki of lengi, bara rétt þannig að deigið sé að mestu slétt. Hellið perunum í smurt eldfast mót, ég skar þær í tvennt en þær mega alveg vera heilar. Hellið deiginu yfir og stingið súkkulaðimolunum jafnt yfir kökuna. Bakið við 160 gráður með blæstri í 30 mínútur. Hitinn og baksturstími fer þó alltaf eftir ofnum. Berið kökuna fram heita með vanilluís eða rjóma.min_IMG_3367

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur eftirréttur, Kaka í eldföstu móti, Kaka með niðursoðnum perum, Súkkulaði og perukaka, Súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka með perum

Laufléttar skonsur með osti og graslauk

júlí 19, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3410Þá er enn ein vikan liðin og helgi framundan. Verandi í hálfu sumarfríi eins og ég talaði um síðast, þá sé ég nú ekki mikinn mun á helgum og virkum dögum þessa dagana. Engu að síður er alltaf gaman að gera eitthvað sérstakt um helgar. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að bjóða fólki í bröns, nú eða vera boðin í bröns. Mér finnst alveg frábært að hóa fólki saman undir hádegi á frídögum, byrja daginn snemma, malla eitthvað auðvelt í eldhúsinu og eiga svo allan daginn eftir. Það verður eitthvað svo mikið úr svoleiðis dögum. Fyrir utan það hversu dásamlega ljúffengan mat hægt er að bera fram í svoleiðis matarboðum. Þessar skonsur til dæmis er upplagt að bera fram með áleggi á brönshlaðborði og maður minn, hvað þær eru góðar! Galdurinn við svona skonsur er að meðhöndla deigið eins lítið og maður mögulega getur. Bara rétt koma því saman og passa að smjörið sé ennþá í litlum bitum en ekki alveg samlagað hveitinu. Með þessu móti verða skonsurnar léttar og bráðna í munni. min_IMG_3401

Skonsur með osti og graslauk:

  • 5 dl hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 msk vínsteinslyftiduft (eða venjulegt)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk nýmalaður pipar
  • 125 gr kalt smjör, skorið í teninga
  • 3 dl rifinn bragðmikill ostur (Ég notaði Óðals ost og Maríbó til helminga, væri líka hægt að nota t.d cheddar ost)
  • 1/2 – 1 dl fínt saxaður graslaukur
  • 2 dl súrmjólk eða ab mjólk + 2 msk rjómi eða mjólk
  • 1 stórt egg + 1 egg til að pensla með

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 190 gráður. Rífið ostinn niður á grófu rifjárni, saxið graslaukinn smátt og skerið smjörið í teninga. min_IMG_3377Hrærið saman hveitið, lyftiduftið, matarsódann, salt og pipar. Setjið í hrærivélaskál og blandið köldu smjörinu saman við með hræraranum (K-inu) þar til smjörið hefur mulist aðeins saman við hveitið en er enn í bitum á stærð við baunir. Þetta má líka gera með höndunum, bara passa að bræða ekki smjörið með heitum höndum. Hellið ostinum og graslauknum út í og blandið létt saman. Hrærið saman, eggið,  ab mjólkina og rjómann og hellið saman við deigið. Hrærið þessu saman á hægum hraða í stutta stund þar til þetta er nokkurn veginn komið saman. Page_1Hellið deiginu á borð ýtið deiginu (ekki hnoða) saman þar til það er nokkuð slétt. Fletjið út í ca. 1,5 cm þykkt og stingið út hringi eða skerið með hníf. Ég fékk 12 skonsur úr þessari uppskrift. Raðið skonsunum á bökunarplötu og penslið með eggi.min_IMG_3391Bakið í 17-20 mínútur. min_IMG_3392min_IMG_3420

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bakaðar skonsur, breskar skonsur, Bröns uppskriftir, Scones, Skonsur, Skonsur með osti og graslauk

Mjúk amerísk súkkulaðiterta með ekta súkkulaðikremi

júlí 17, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3315Áður en þið lesið lengra er kannski best að ég vindi mér strax að umræðuefninu en það er að sjálfsögðu þessi dúnmjúka og unaðslega súkkulaðiterta. Og áður en þið lesið ennþá lengra er kannski best að ég láti ykkur vita strax að það er majónes í henni í staðin fyrir smjör eða olíu. Mér líður allavega strax betur, en ykkur? Málið er semsagt að þessi kaka er sennilega mýksta og besta súkkulaðikaka sem ég hef smakkað og hef ég marga fjöruna sopið í þeim efnum. Ekki hræðast majónesið, það er alveg óþarfi. Majónes hatarar munu aldrei finna bragðið af því og þið munuð gleyma orðinu majónes eftir fyrsta bitann.min_IMG_3327

Það virðast voða margir vera sífellt að leita að hinni fullkomnu súkkulaðiköku og er ég engin undantekning. Það skal meira að að segja viðurkennast hér með að á tímabili þóttu mér kökur búnar til úr tilbúnu kökumixi úr pakka sennilega bestu súkkulaðikökurnar. Alltaf eitthvað svo mjúkar og djúsí. En eftir smá grúsk á netinu datt ég niður á nokkrar gamaldags amerískar súkkulaðitertu uppskriftir og þar virtist vera mál málanna að notast við majónes, vilji menn mjúka köku sem ekki er þurr. Og það vilja menn auðvitað. Ég notaði ekta súkkulaðikrem ofan á kökuna, sem samanstendur af bræddu súkkulaði og rjóma eða ganache, sem er svo þeytt svo það verði svona loftkennt. Mér finnst stundum of sætt að setja flórsykurs-smjörkrem á svona tertur. Mér finnst svo alveg æðislegt að setja smá sultu á neðri botninn undir súkkulaðikremið. Maður finnur ekki beint fyrir henni en hún gerir alveg gæfumuninn. Þið verðið að prófa þessa köku, hreinlega verðið!min_IMG_3321

Mjúk amerísk súkkulaðiterta (Bollamálið sem ég nota er 2,4 dl):

  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 2/3 bolli ósætt kakóduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 3 egg
  • 1 og 2/3 bolli sykur eða hrásykur
  • 1 tsk vanillu extract
  • 1 bolli majónes
  • 1 og 1/3 bolli vatn

Ofan á og á milli:

  • 4 msk jarðarberja eða hindberjasulta
  • Þeytt súkkulaði canache krem – Búið til ganache krem, kælið í 1-2 klst í ísskáp, þar til kremið hefur stífnað aðeins. Þeytið svo með handþeytara eða í hrærivél í 1-2 mínútur þar til kremið verður létt og ljóst.  Ýtið hér til að sjá uppskriftina!

Aðferð: Byrjið á að hita ofn í 160 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Smyrjið tvö 24 cm kökuform og dustið þau með smá hveiti. Af því að ég var með lausbotna form og deigið er ansi fljótandi þykir mér betra að setja álpappír undir formin og upp með hliðunum, svo ekkert leki út. min_IMG_3266Sigtið saman hveitið, kakóduftið, matarsódann og lyftiduftið. min_IMG_3268Þeytið eggin, sykurinn og vanilluna á miklum hraða í 3-5 mínútur þar til blandan er orðin ljós og loftkennd. IMG_3272Bætið majónesinu út í og hrærið rólega á meðan. Hér dugar ekki eitthvað létt majónes, það verður að vera alvöru. min_IMG_3269Setjið þurrefnin og vatnið saman við til skiptis og passið að blanda deiginu vel saman án þess að þeyta það mikið. Deigið verður mjög fljótandi og það er allt í lagi.IMG_3274 Hellið deiginu í kökuformin tvö og bakið í 30 mínútur eða þar til tannstöngli sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn upp. min_IMG_3276Kælið botnana á grind a.m.k í 1 klst.min_IMG_3280Losið botnana þá úr formunum og leggið annan botninn á tertudisk.
min_IMG_3281Smyrjið sultunni og 1/3 af súkkulaðikreminu á neðri botninn.min_IMG_3297Leggið hinn botninn ofan á og smyrjið restinni af kreminu ofan á og á hliðarnar. Skreytið t.d með gamaldags kokteilberjum.min_IMG_3320Berið fram með bros á vör og njótið –min_IMG_3337min_IMG_3336

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Amerísk súkkulaðiterta, Besta súkkulaðikakan, Ekta súkkulaðikrem, Ekta súkkulaðiterta, Gamaldags súkkulaðikaka, Mjúk súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka með majónesi, Súkkulaðiterta uppskrift

Kjúklingaborgari með osti, beikoni og sinnepssósu

júlí 15, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3254Við fjölskyldan höfum nú siglt inn í langþráð sumarfrí. Eða að minnsta kosti Heimir og Gunnar Þór. Ég er svona með annan fótinn í fríi og hinn við tölvuna en stefni þó á að taka mér hressilegt, ósvikið og dásamlegt alvöru frí innan skamms. Þar sem þetta var formlega séð fyrsti sumarfrísdagurinn þótti mér feykigott tilefni til að hafa þennan gómsæta hamborgara sem er í miklu uppáhaldi hér á heimilinu. Fróðara fólk en ég myndi kannski kalla þetta samloku frekar en hamborgara. En þar sem ég er bara alls ekki svo vel að mér í hamborgarafræðum eða mikið að pirra mig almennt yfir ýmiskonar skilgreiningum á því hvað matur er kallaður þá er mér bara alveg sama hvað þetta er kallað. Gott er það og einstaklega fljótlegt í eldun, það er nóg fyrir mig. Mér finnst líka alveg upplagt að bera kjúklingaborgarann fram án brauðs og hef þá gjarnan eitt spælt egg með í staðin fyrir brauðið. Rétturinn getur því vel verið vænlegur fyrir þá sem vilja skera niður kolvetni eða brauðmeti í sínu mataræði.min_IMG_3257

Uppskriftin er nú ekki flókin en það eru svona nokkur atriði sem mér finnst ómissandi við gerð borgarans. Krydd lífsins frá Pottagöldrum finnst mér nauðsynlegt til að krydda kjúklingabringurnar með, það er ein af mínum uppáhalds alhliða kryddblöndum og alveg upplögð að nota þegar maður vill fá mikið bragð og smá svona steikhússtemmningu í matinn. Annað sem er ómissandi er að nota góðan ost ofan á herlegheitin og þá finnst mér Maríbo osturinn langsamlega bestur. Gott beikon, vel þroskað avocado, stökkur rauðlaukur og eldrauðir tómatar breyta þessu svo í veislumáltíð.min_IMG_3262

Beikon- kjúklingaborgari með osti og sinnepssósu (fyrir 4-5):

  • 3 kjúklingabringur
  • 12 sneiðar beikon
  • Góður ostur sneiddur í þykkar sneiðar – ég nota Maríbó ost
  • Krydd lífsins frá Pottagöldrum
  • Hamborgarabrauð eða spælt egg (eða bæði fyrir þá sem vilja það!)

Sinnepssósa:

  • 4 msk majónes
  • 2 msk ab mjólk eða hrein jógúrt
  • 1 msk grófkorna dijon sinnep
  • 1 msk hunangs dijon sinnep eða venjulegt dijon sinnep
  • Svartur pipar eftir smekk

Ofan á hamborgarann:

  • Gott íslenskt lambhagasalat eða salatblanda
  • 2 Eldrauðir tómatar skornir í sneiðar
  • 1 rauðlaukur skorinn í sneiðar
  • 1 vel þroskað avocado skorið í sneiðar

Aðferð: Byrjið á að setja beikonsneiðarnar á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið við 220 gráður í 10 mínútur eða þar til beikonið er stökkt. min_IMG_3233Hrærið öllu innihaldinu í sósuna saman.min_IMG_3242Skerið niður grænmetið sem bera á fram með borgaranum.min_IMG_3236Kljúfið kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina og kryddið. min_IMG_3232Hitið stóra pönnu og bræðið smá smjör á henni. min_IMG_3238Steikið bringurnar vel á báðum hliðum þar til næstum tilbúnar. min_IMG_3241Leggið tvær beikonsneiðar á hverja bringu. min_IMG_3244Setjið svo eina (eða tvær) væna ostsneið þar ofan á. min_IMG_3246Setjið lok á pönnuna, lækkið hitann og bíðið þar til osturinn bráðnar. min_IMG_3247Berið fram á hamborgarabrauði eða með spældu eggi, meðlætinu og sósunni og njótið.min_IMG_3257

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Beikonborgari, Hamborgari uppskrift, Heimagerður hamborgari, Kjúklingaborgari, Sinnepssósa, Sumarlegur matur

Grilluð bleikja með rjómabökuðu blómkáli og pikkluðu epla- fennelsalati

júlí 8, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3154Einn af uppáhalds veitingastöðum okkar Heimis í Reykjavík og þó víðar væri leitað er Fiskmarkaðurinn. Það eru komin þó nokkuð mörg ár síðan við fórum þangað fyrst og eftir það var hreinlega ekki aftur snúið. Höfum eiginlega farið vandræðalega oft út að borða þangað síðan og aldrei orðið fyrir vonbrigðum, sama hvað við pöntum. Eftir að Grillmarkaðurinn opnaði höfum við líka farið nokkrum sinnum þangað og það er sama sagan þar. Alltaf góður matur og bara allt gott svei mér þá. Fiskmarkaðurinn er samt algjörlega staðurinn okkar og alltaf pottþéttur ef okkur langar að eiga virkilega góða kvöldstund. Það má eiginlega segja að við höfum lært að meta góða fiskrétti og sushi eftir allar heimsóknir okkar á staðinn og einnig hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að fiskur sé nýr. Spriklandi nýr! Það er næstum því hálf fáránlegt að fiskistaður sé minn uppáhalds veitingastaður þar sem ég hef alls ekki verið mikill fiskiaðdáandi í gegnum tíðina. En fiskur á Fiskmarkaðnum er einfaldlega bara settur á annað plan, aldrei ofeldaður eða þurr og bragðið alltaf svo ótrúlega gott að maður skilur ekki hvað í ósköpunum þeir gera í eldhúsinu til að framkalla það.

Einn af réttunum á Fiskmarkaðnum er robata grillaður lax sem er meðal annars borinn fram með epla- og fennel salati. Laxinn er grillaður á sérstöku robata grilli en í því eru japönsk kol sem brenna við 1200 gráður í stað 600 gráða eins og venjuleg kol. Einn af göldrunum (held ég) við laxinn er sumsé að grilla hann snöggt við mjög, mjög háan hita og leyfa honum svo að jafna sig aðeins áður en hann er borðaður. Þannig verður fiskurinn fullkomlega eldaður og aldrei þurr. En jæja, undir áhrifum frá Fiskmarkaðnum, en án robata grills, ákvað ég í auðmýkt minni að elda bleikju hérna heima síðasta föstudagskvöld. Þó þetta hafi nú ekki verið nein Fiskmarkaðs bleikja var maturinn stórgóður. Bragðið af eilítið súrsætu og stökku epla- og fennel salatinu, rjómakenndu blómkálinu og grillaðri bleikjunni smell passaði saman. Með þessu drukkum við ítalskt Prosecco freyðivín, Santero Prosecco Craze. Okkur fannst það ofsalega gott með, en við höfum annars ekki hundsvit á hvaða vín passa með hvaða mat, öðruvísi en bara að smakka og athuga hvort okkur finnist það gott. Ég mæli alveg innilega með þessum rétti!

(Í þetta sinn fylgja óvenju fáar myndir með uppskriftinni þar sem myndavélin var eitthvað að stríða mér.)

Magnið sem ég gef upp er miðað fyrir 2-3 manneskjur.

Rjómabakað blómkál

  • 1 lítll blómkálshaus eða 1/2 stór (ég vigtaði ekki blómkálið)
  • 1 laukur
  • Nokkrir piccolo tómatar eða kirsuberjatómatar
  • 1,5 dl rjómi
  • Rifinn parmesan ostur
  • 1 msk Ólífuolía, salt og pipar

Aðferð: Allt skorið í hæfilega bita og sett í eldfast mót. Velt upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Rjómanum hellt yfir og vel af rifnum parmesan osti stráð yfir. Bakað við 200 gráður í 20 mínútur. (Á meðan restin af réttinum er útbúin)

Pikklað epla- og fennelsalat

  • 1 epli
  • 1 fennelhöfuð
  • 1 dl hvítvínsedik
  • 2 msk sykur (eða önnur sæta)
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð: Eplið og fennelið er skorið í frekar litla teninga og sett í skál. Edikið hitað í potti ásamt sykrinum þar til hann leysist upp (ekki sjóða edikið). Edikblöndunni hellt yfir eplið og fennelið og blandað vel saman. Kryddað með smá salti og pipar. Ef fennelið hefur falleg blöð er upplagt að nota dálítið af þeim með. Gefa gott bragð og eru falleg. Geymið við stofuhita á meðan bleikjan er grilluð.

Bleikjan

  • Tvö væn glæný bleikjuflök skorin í tvennt (samtals 550 gr)
  • Ólífuolía, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Aðferð: Hreinsið bleikjuna, beinhreinsið hana og skerið hvort flak í tvennt. Þerrið hana vel með eldhúspappír, penslið með ólífuolíu og kryddið með salti og pipar báðum megin. Hitið grill eða grillpönnu á hæsta mögulega styrk þar til fer að rjúka. Grillið bleikjuna í 1-2 mínútur á fiskihliðinni og snúið henni svo við og grillið í 2 mínútur á roðhliðinni áfram á hæsta styrk. Slökkvið undir og leyfið bleikjunni að jafna sig í 5-10 mínútur. Berið fram með rjómabakaða blómkálinu og setjið vel af epla- og fennel salatinu yfir bleikjuna. min_IMG_3156

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góð fiskuppskrift, Grillaður silungur, Grilluð bleikja, LKL, LKL fiskur, LKL meðlæti

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 12
  • Page 13
  • Page 14
  • Page 15
  • Page 16
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme