• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Eldhúsperlur

Kjötbollur í mildri chilli rjómasósu

febrúar 21, 2013 by helenagunnarsd 5 Comments

IMG_0930Ég er búin að vera með þennann rétt á heilanum síðan við komum heim úr sólinni á Tenerife og hef eiginlega ekki komist í almennilega ró fyrr en bara núna eftir að hafa eldað hann. Að koma úr 25 stiga hita og sól í 1 gráðu og Suðaustan sjö kallar á eitthvað eitthvað heitt og gott að borða, svona ekta spari þægindamat. Þetta er hugsanlega einn mesti þægindamaturinn hérna á síðunni og er liggur við of einfaldur til að gefa uppskrift af. Hann er líka þeim mun ljúffengari og upplagður þegar maður vill gera vel við sig og sína, jafnt fullorðna sem börn án mikillar fyrirhafnar. Enda enginn hollusturéttur, þetta er sko rjómasósa gott fólk! Þetta er ein af þeim sósum sem er ekki hægt að gera of mikið af því hún hverfur jafn harðan ofan í mannskapinn.

Það var því ekkert annað að gera en að bjóða nokkrum vel völdum í mat og gera réttinn. Ég fékk þennan rétt í fyrsta skiptið í matarboði hjá góðu fólki fyrir nokkuð löngu síðan og fékk uppskriftina á munnlegu formi svona eiginlega í dyragættinni á leiðinni út. Hef verið á leiðinni að elda hann síðan en ekki alveg vitað nákvæmlega hvað var í honum. Ég gerði því bara mína útgáfu sem var byggð á grunn upplýsingum frá eðal kokknum sem ég smakkaði hann hjá fyrst.

Myndirnar hefðu vel mátt verða fleiri og betri en gestirnir voru komnir og græðgin of mikil fyrir langar myndatökur. Ég mæli hins vegar óhikað með þessum rétti, ekki láta myndaleysi gabba ykkur 🙂

Kjötbollur í chilli rjómasósu (fyrir 6 fullorðna):

Kjötbollur

  • 2 bakkar (1kg) ungnautahakk
  • 1 pakki púrrulaukssúpa
  • 1 pakki Tuc kex, mulið smátt
  • 1 egg
  • 1 tsk nýmalaður svartur piparPage_1

Aðferð: Öllu blandað vel saman, ég set allt innihaldið í hrærivélaskál og læt vélina um erfiðið. Þegar allt er komið saman mótið bollur á stærð við golfkúlur úr hakkinu. Hitið örlitla olíu á pönnu og brúnið bollurnar við frekar háan hita. Færið þær svo yfir í stórt eldfast mót en hellið frá umfram fitunni sem kemur á pönnuna.

Sósan:

  • 3,5 dl rjómi
  • 1 flaska Heinz chilli sósa
  • 1 tsk karrý

Ofaná

  • 1 rauð paprika
  • 1 tsk hunang

Aðferð: Létt þeytið rjómann í skál. Blandið chilli sósunni og karrýinu saman við með sleif og hellið sósunni jafnt yfir bollurnar í eldfasta mótinu. Sneiðið paprikuna þá í frekar mjóa strimla og steikið á vel heitri pönnu. Þegar strimlarnir eru orðnir dálítið vel steiktir setjið þá hunangið á pönnuna þannig að paprikustrimlarnir verði vel hunangsgljáðir. Hellið yfir kjötbollurnar og sósuna og bakið í við 180 gráðu í 20 mínútur. Ég bar réttinn fram með taglietelle og góðu grænu salati.IMG_0935

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar kjötbollur, Kjötbollur, Kjötbollur í rjómasósu, Kjötbollur með chillisósu

Kjúklingur í satay sósu

febrúar 20, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_0949Ég er búin að vera í hálfgerðu sólarmóki síðan við komum heim frá Tenerife. Ferðin var alveg fullkomin í alla staði, sól og hiti alla daga og auðvitað bara eintóm huggulegheit. Eftir svona gott frí getur nú tekið smá tíma að koma sér af stað aftur og þrátt fyrir mikla löngun í góðan mat eftir heimkomuna hefur nennan ekki verið mikil í eldhúsinu. Er nú samt alveg búin að vera að elda mat en fljótlegheit hafa svolítið einkennt kvöldmatinn síðan við komum heim.

Ég skellti í þennann ljúffenga satay kjúklingarétt í gær. Ef hráefnið er til er sennilega fljótlegra að elda hann heldur en að keyra á næsta tælenska stað og kaupa eitthvað tilbúið. Sannarlega mætti notast við heimalagaða satay sósu í þessum rétti en ég var ekki á þeim buxunum í gær allavega, mér finnst líka fínt að kaupa tilbúna og bragðbæta hana aðeins. Við vorum mjög ánægð með útkomuna, stórir sem smáir og munum sannarlega elda þennan rétt aftur. IMG_0951

Kjúklingur í satay sósu (fyrir 3-4):

  • 3 kjúklingabringur, hver bringa skorin í þrennt eftir endilöngu
  • 1 msk sojasósa
  • 1 krukka satay sósa (ég notaði Blue Dragon)
  • 1 ferna kókosmjólk (eða 1/2 dós)
  • 1 dl vatn
  • 1 msk rifið eða smátt saxað engifer
  • 3 vorlaukar smátt saxaðir
  • 1 límóna
  • Smátt saxaður chilli pipar (má sleppa)

IMG_0937Aðferð: Skerið kjúklingabringurnar niður og veltið upp úr sojasósunni. Steikið kjúklingastrimlana á pönnu á báðum hliðum og takið svo af pönnunni. Hellið satay sósunni, kókosmjólkinni, vatninu og engifer á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með sojasósu, nýmöluðum pipar og safa úr 1/2 límónu. Setjið kjúklingastrimlana út í og látið malla þar til kjötið er eldað í gegn. IMG_0952Berið fram með límónubátum, söxuðum vorlauk og chillipipar og basmati hrísgrjónum.

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Kjúklingur í satay sósu, Satay kjúklingur, Satay sósa

Fylltar heimatilbúnar tacoskeljar

febrúar 7, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

ImageVið á heimilinu erum voða hrifin af mexíkóskum mat og kannski reyndar bara flestum mat ef því er að skipta.. Ég prófaði að gera þessar heimatilbúnu skeljar fyrir nokkru síðan og það er ekki hægt að líkja þeim við litlu tilbúnu taco skeljarnar sem fást í búðunum. Það er því alveg þess virði að dunda sér við að steikja sínar eigin skeljar og færa tacoveisluna upp á örlítið hærra plan.

Ég kaupi tilbúnar tortillakökur sem ég steiki upp úr olíu og sveigji saman þannig að þær myndi tacoskel, hljómar kannski flókið en er mjög einfalt! Það væri sennilega hægt að taka þetta alla leið og búa til sínar eigin tortillur frá grunni til að steikja en svona á venjulegum virkum degi er það nú kannski til of mikils mælst. Fyllingin sem ég notaði í þetta skiptið var mjög einföld en hrikalega góð, mér finnst oft betra að vera ekki með of mörg hráefni í gangi í einu og leyfa hverju fyrir sig að njóta sín.

Tacoskeljar:

  • 1 pakki tortilla kökur (ég notaði 8 litlar maís tortillur)
  • Olía til steikingar

Setjið olíu á pönnu þannig að hún þeki vel botninn á pönnunni og nái um 0.5 cm upp á kantana. Hitið olíuna og steikið eina tortilla köku í einu. Byrjið að steikja á annarri hliðinni, snúið henni svo við og beygið eins og tacoskel og steikið báðum megin þar til kakan er gyllt. Það er mjög gott að nota góða töng við þessa iðju, en tveir gafflar duga líka. Leggið skelina svo á eldhúspappír.

Það er gott að vera með lítið glas til að leggja inn í kökuna þar sem hún harðnar ekki fyrr en hún kólnar, svo hún leggist ekki saman. Gerið þetta við allar kökurnar. Leggið þær síðan hverja inn í aðra, tvær og tvær saman og setjið í 120 gráðu heitan ofn í 15 mínútur eða þar til þær eru alveg stökkar. Á meðan getið þið undirbúið fyllinguna.Image

Fylling

  • 600 grömm ungnautahakk
  • 1/2 krukka mild salsasósa
  • 2 tsk tómatpaste
  • 1 tsk hunang eða önnur sæta
  • Salt, pipar og reykt paprikuduft
  • 1 dl vatn

Kjötið brúnað á pönnu. Kryddað með salti, pipar og reyktri papriku. Salsasósu, hunangi, tómatpaste og vatni bætt út á. Látið malla í 10 mínútur við meðalhita þar til sósan þykknar.

Ofaná:

  • Græn salatblöð, smátt söxuð
  • 1/2 askja Kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 3-4 Vorlaukur, smátt saxaður
  • Rifinn cheddar ostur og Óðals ostur
  • Sýrður rjómi

Setjið kjötið neðst í tacoskelina, laukinn þar ofaná, því næst salatið, tómatana og ostinn efst. Toppið með smá sýrðum rjóma og njótið með nóg af eldhúspappír við hendina þar sem þetta er ekki snyrtilegasti matur sem hægt að borða. En líka þeim mun betri !

IMG_0688

Filed Under: Eldhúsperlur

Gómsætir gleðibitar með döðlukaramellu..

febrúar 6, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_0651Ég rakst á þessa uppskrift fyrir nokkru síðan og hef svona meira og minna verið með hana á heilanum síðan. Og Guð minn góður þar var ekki að ástæðulausu, þessir litlu bitar eru himneskir. Stökkur botninn, mjúk döðlukaramellumiðja og súkkulaði ofan á allt saman. Auðvitað er þetta ekkert Twix, ég veit það vel en sú sem ég fékk hugmyndina frá kallar þetta heimatilbúið Twix og hún flokkar þetta undir vegan. 

Hugmyndin er upphaflega komin frá síðu sem heitir Oh She Glows og er matarblogg sem fjallar um vegan mataræði. Fólk sem kýs vegan mataræði sneiðir ekki eingöngu hjá kjöti og fiski heldur sleppir það öllum afurðum úr dýraríkinu þ.m.t öllum mjólkurafurðum og eggjum. Ég hef stundum skoðað uppskriftir sem flokkast sem vegan (veit ekki íslenska orðið yfir þetta?) og það er oft margt sniðugt í gangi þar. Til dæmis ýmsar uppskriftir að svona agalega girnilegu sælgæti sem tekur frekar stuttan tíma að gera og þarfnast oft ekki baksturs. Maður þarf hinsvegar oftast að vera vopnaður töfrasprota, blandara eða matvinnsluvél og þá eru manni allir vegir færir.

IMG_0639Þó þetta nammi flokkist upphaflega sem vegan myndi ég ekki kalla þetta hollustufæði. Þetta er nammi og alveg hrikalega gott nammi. En það býr yfir þeim kosti að við vitum svona nokkurn veginn alveg hvaða hráefni það inniheldur. Ég notaði hnetusmjör í það en það væri ekki úr vegi að nota t.d möndlusmjör í staðin ef um hnetuofnæmi er að ræða. Bitana er best að geyma í ísskáp eða frysti.

Heimatilbúið Twix með döðlukaramellu

Botninn:

  • 2 1/2 bolli Rice Crispies eða annað blásið hrísmorgunkorn
  • 4 msk agave sýróp
  • 2 msk hunang
  • 2 msk hreint hnetusmjör
  • 1 tsk vanilluextraxt
  • Salt á hnífsoddi

Setjið bökunarpappír í form sem er ca. 20 x 30 cm (skúffukökustærð), leyfið pappírnum að ná upp með hliðunum. Allt nema rice crispies sett í pott og brætt saman við vægan hita þar til suðan kemur upp. Þá er þetta tekið af hitanum og rice crispies bætt út í. Hrært vel þar til þetta loðir saman. Hellið í formið með bökunarpappírnum og sléttið úr með rökum höndum þar til þetta fyllir út í formið. Ágætt að stinga lófunum af og til undir kalda vatnið til að sporna við klístri. Stingið botninum inn í frysti meðan karamellan er útbúin. Page_1

Döðlukaramella:

  • 450 gr steinalausar döðlur
  • 2 msk hreint hnetusmjör
  • 2 msk möndlumjólk eða vatn til að þynna karamelluna

Setjið döðlurnar í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir til að mýkja þær. Leyfið þessu að standa í ca. 10 mínútur. Hellið þá vatninu frá og setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt hnetusmjörinu og vökvanum. Vinnið saman þar til fínt mauk myndast sem er þó vel þykkt. Þetta væri líka hægt að gera með töfrasprota. Takið botninn úr frystinum og dreifið karamellunni jafnt yfir. Setjið aftur í frystinn á meðan súkkulaðið er brætt.

IMG_0630Ofaná:

  • 1 poki Siríus Konsum súkkulaðidropar (150 grömm)
  • 1 tsk kókosolía (má sleppa)

Brætt og hellt ofan á döðlukaramelluna. Sett aftur í frystinn og kælt þar til súkkulaðið er hart, a.m.k 30 mínútur. Skorið í litla bita. Best að geyma í frysti eða ísskáp. IMG_0628 2IMG_0634Gómsætir litlir gleðibitar 🙂 Verði ykkur að góðu!

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Döðlu rice crispies bitar, Döðlukaramella, Rice Crispies bitar, Rice crispies nammi

Rómverskur kjúklingaréttur með hráskinku

febrúar 5, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0542Ég tek eftir því þegar ég renni gegnum uppskriftirnar hér inni að oftar en ekki innihalda þær tómata, í einhverskonar formi. Þetta fer næstum því að vera vandræðalegt hversu mikið ég nota þá, bæði ferska og eins niðursoðna. En vitið þið ekki hvað tómatar eru hollir? (þetta er samt ekki neitt sérstakt heilsumatarblogg, höfum það alveg á hreinu) Fyrir utan það hvað þeir eru góðir. Eða það finnst mér að minnsta kosti og fjölskyldunni greinilega líka. Ég á alltaf til tómata, það er eitt af því sem ég verð alltaf að eiga. Ég ætla þó að reyna að koma líka einhverntímann inn með uppskriftir sem innihalda ekki tómata.. sjáum hvernig það tekst til.

IMG_0545Þessi uppskrift inniheldur líka tómata. Jú jú, og það eina krukku af góðum niðursoðnum lífrænum tómötum. Það er líka hægt að nota dósatómata í staðin og hefur mér reynst vel að kaupa niðursoðnu Euroshopper tómatana, finnast þeir oftast mjög rauðir og góðir enda koma þeir beint frá Ítalíu og innihalda fremur lítið af aukaefnum eins og sykri og salti. En ef ég er að bruðla vel ég alltaf þessa lífrænu í glerkrukkunum. Þeir eru voða góðir. Kjúklingarétturinn bragðaðist afar vel og var vel af honum látið af öllum fjölskyldumeðlimum. Sósan er bragðmikil og hráskinkan og capersið gefa réttinum einstaklega gott bragð.

IMG_0535Rómverskur kjúklingur (fyrir 4):

  • 4 Kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 1 gul paprika
  • 1 bréf hráskinka (5-6 sneiðar)
  • 2 dl hvítvín (má sleppa og nota vatn í staðin)
  • 1 krukka hakkaðir tómatar, eða 1 dós + 2 dl vatn
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 2-3 msk capers
  • Ólífuolía, salt og pipar og smávegis söxuð steinselja eða basil

Aðferð:

Ofn hitaður í 180 gráður. Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina þannig að úr einni bringu verða tvö frekar þunn stykki. Saltið og piprið bringurnar vel og brúnið á vel heitri pönnu á báðum hliðum. Takið bringurnar af og raðið í eldfast mót. Skerið paprikurnar í þunna strimla og hráskinkuna sömuleiðis. Steikið við frekar háan hita þar til skinkan verður stökk. Þá er víninu (eða vatni) hellt yfir og pannan skröpuð með spaða eða sleifinni svo allt losni af botninum. Soðið niður í um 1 mínútu.

Þá er tómötunum hellt yfir og krukkan svo skoluð að innan með ca. 2 dl af vatni og hellt yfir. Kryddað með pipar og kjúklingakraftinum og leyft að sjóða í 2-3 mínútur, passið að setja ekki of mikið salt þar sem skinkan er ansi sölt. Þá er sósunni hellt yfir bringurnar í eldfasta mótinu og capers að lokum stráð yfir. Bakað í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Stráið svo saxaðri steinselju yfir réttinn og berið fram með nýbökuðu brauði og sítrónubátum. Það væri sennilega líka gott að hafa hrísgrjón með réttinum þar sem sósan er bragðmikil og góð. Mér finnst hins vegar brauð oft passa betur með svona ítölskum sósum.IMG_0550

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingabringur með capers, Kjúklingabringur með hráskinku, Kjúklingabringur uppskrift, Ofnbakaðar kjúklingabringur, Ofnbakaður kjúklingaréttur

Einfaldar kotasælubollur með sesamfræjum

febrúar 3, 2013 by helenagunnarsd 8 Comments

IMG_0529Við erum öll í bollunum þessa dagana. Hingað kom gott fólk í ljómandi notalegt bollu afmæliskaffi í dag og gæddi sér á vatnsdeigsbollum gærdagsins, sem hafði auðvitað verið umbreytt í rjómabollur. Mér fannst nú ekki ganga að bjóða fólkinu eingöngu upp á rjóma og súkkulaði svo ég ákvað að halda mig við bolluþemað og var líka með þessar kotasælubollur á kaffiborðinu. Þær voru virkilega góðar og runnu jafnvel enn hraðar út en systur þeirra með rjómanum.

Það er mjög fljótlegt að skella í svona bollur og ekkert flóknara sem þarf til en skál og sleif og þær þurfa ekkert að lyfta sér. Það er mjög gott að bera fram með þeim t.d osta og niðurskorið grænmeti en einnig finnst mér þær mjög góðar sem meðlæti með súpu. IMG_0508

Kotasælubollur (12 bollur):

  • 5 dl spelt (Ég notaði 2 dl fínt og 3 dl gróft)
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (eða 2 tsk venjulegt lyftiduft)
  • 1 lítil dós kotasæla (u.þ.b 2 dl)
  • 1 dl ab mjólk
  • 2-2,5 dl sjóðandi heitt vatn (Setjið fyrst 1-2 dl og sjáið svo hvort það þurfi meira vatn þar sem mjöl tekur misvel við vökva)
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1 dl sesamfræ

IMG_0513Aðferð:

Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Öllu blandað saman í skál og hrært með sleif þar til rétt blandað saman. Gott getur verið að bæta vatninu smám saman við en ekki öllu í einu. Áferðin á deiginu á að vera eins og þykkur hafragrautur og klístrast við sleifina. Alls ekki hræra lengi.

Búið til 9 stærri eða 12 minni bollur með tveimur matskeiðum og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Ca 1 tsk af sesamfræjum stráð yfir hverja bollu. Þær stækka ekki það mikið að 12 bollur eiga vel að komast fyrir á einni plötu. Bakað í 20 mínútur. IMG_0526

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Brauðbollur, Kotasælubollur, Speltbollur, Speltbollur uppskrift, Súpubollur

Vatnsdeigsbollur

febrúar 2, 2013 by helenagunnarsd 8 Comments

IMG_0493Það er bara vika í bolludaginn svo ekki ráð nema í tíma sé tekið að fara að æfa sig að baka vatnsdeigsbollur. Við reyndar missum af bolludeginum í næstu viku svo ég ákvað að flýta honum um eina viku og slá afmæli eiginmannsins sem verður eftir helgi, saman við eitt stykki bollukaffi. Enda bolludagur sennilega skemmtilegasti dagur ársins og skandall að taka ekki þátt í þeim hátíðarhöldum sem fylgja því að fá sér eins og eina eða tvær rjómabollur.

Mér þykja heimabakaðar vatnsdeigsbollur alltaf svo langtum betri en keyptar í búð svo ég ákvað að skella í eina tilraunauppskrift í dag. Þær heppnuðust virkilega vel og það er einstaklega auðvelt að baka þessa litlu léttu bollur. Eina sem maður þarf að passa er að opna alls ekki ofninn fyrr en að bökunartímanum liðnum. Bollurnar þarf svo að sjálfsögðu að fylla með rjóma og tilheyrandi. Jarðarberjasulta, þeyttur rjómi og brætt súkkulaði ofan á eru mitt uppáhalds, einfalt og alltaf svo gott.

IMG_0505Vatnsdeigsbollur (ca. 25 stórar bollur eða um 40 smærri):

  • 4 dl vatn
  • 160 gr smjör
  • 250 gr hveiti eða hvítt spelt (ég notaði spelt)
  • 1/4 tsk lyftiduft
  • 6 egg

Aðferð:

Ofn hitaður í 190 gráður með blæstri. Vatnið og smjörið sett í meðalstóran pott. Suðunni hleypt upp og lækkað niður í meðalhita. Þegar smjörið er alveg bráðnað er hveitinu og lyftiduftinu hellt út í og hrært kröftuglega með sleif þar til deigið losnar frá köntunum. Ekki taka pottinn af hitanum fyrr en allt er komið vel saman. Þá er potturinn tekinn af hitanum og mesta hitanum leyft að rjúka úr deiginu, í ca. 10 mínútur.

Page_1Mér finnst ágætt að hræra aðeins í deiginu meðan það kólnar og dreifa úr því upp á kantana á pottinum. Svoleiðis gerir mamma það allavega alltaf með góðum árangri. Þá er eggjunum bætt út í einu í einu og hrært vel á milli. (Ef þið eruð sterk og getið hrært lengi með sleifinni er það alveg hægt. Ég hins vegar nota yfirleitt K-hrærarann í hrærivél fyrir þessa vinnu).

Deigið virkar á ákveðnum tímapunkti eins og það ætli að skilja sig og vilji ekki samlagast eggjunum. Það er eðlilegt og verður bara að hræra og hræra þar til allt er komið saman. Þá er deigið sett á tvær pappírsklæddar bökunarplötur með tveimur matskeiðum og bakað í 30-35 mínútur.

Ef þið viljið hafa bollurnar aðeins smærri er gott að nota tvær teskeiðar til að setja deigið á plötuna. Þá eru bollurnar bakaðar í um 25 mínútur. Alls ekki opna ofninn fyrr en að bökunartíma liðnum því annars er hætta á að þær falli. Ef þið viljið extra fínar og sléttar bollur er gott að dýfa fingri í kalt vatn og slétta úr bollunum ofan á með fingrinum og gera þær þannig meira kúlulaga.IMG_0504

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bestu vatnsdeigsbollurnar, Heimabakaðar vatnsdeigsbollur, Hvernig á að baka vatnsdeigsbollur?, Rjómabollu uppskrift, Rjómabollur, Uppskrift að vatnsdeigsbollum, Vatnsdeig uppskrift, Vatnsdeigsbollu uppskrift, Vatnsdeigsbollur

Gleðilegan febrúar og skál í grænni spínathressingu!

febrúar 1, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0475

Mikið var ég glöð í morgun yfir því að það væri kominn febrúar! Komandi mánuður á líka eftir að verða alveg einstaklega skemmtilegur hjá okkur fjölskyldunni, afmæli og ýmislegt fleira skemmtiegt á döfinni. Ég byrjaði daginn á þessum dásamlega græna drykk sem er í uppáhaldi hjá mér í augnablikinu. Fæ yfirleitt æði fyrir einhverjum einum drykk og blanda mér hann þá í einhverja mánuði áður en ég dett inn á einhvern nýjan til að fá æði fyrir.

Þessi drykkur stendur algjörlega fyrir sér sem máltið, í þessu tilfelli morgunmatur. Ég set í hann hreint mysuprótein sem ég kaupi í Lifandi markaði en það fæst örugglega í einhverjum öðrum heilsubúðum. Ég hef prófað að gera svona drykki án próteins en þá finnst mér þeir ekki geta staðið sem máltíð þar sem maður er oftast orðinn svangur aftur eftir klukkutíma. Það mætti alveg prófa að skipta mysupróteininu út fyrir t.d hreint skyr ef manni finnst það gott. Drykkurinn er allavega afar hressandi og sennilega líka flensufælandi.Page_1

Spínathressing:

  • 1-2 dl hreinn eplasafi
  • 1-2 dl kókosvatn eða vatn
  • 1 væn lúka skolað spínat
  • 2 dl frosið mangó
  • 1 tsk kókosolía
  • 2 msk hreint mysuprótein (eða skyr)
  • 2 tsk rifið engifer

Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt. Ef ykkur finnst drykkurinn of þykkur má bæta út í hann meiri vökva, það fer auðvitað bara eftir smekk.IMG_0476

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Boost uppskrift, Grænn drykkur, Spínatdrykkur

Spaghetti með risarækjum

janúar 31, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0464Litla fjögurra ára molanum á heimilinu þykir spaghetti alveg ofboðslega gott. Það gæti sennilega verið til skiptis, spaghetti, pylsubrauð og pizza með ananas alla daga og hann væri nokkuð sáttur. Hann er reyndar líka frekar mikill gúrmei maður og kann vel að meta hluti eins og bragðsterka osta (parmesan sérstaklega), rækjur, humar, ólívur og þar fram eftir götunum. En hann pantaði sumsé að hafa spaghetti í matinn í kvöld og varð að ósk sinni. Ég gat reyndar ekki hugsað mér í þetta skiptið að gera hefðbundna bolognese sósu þó hún sé góð og gild og ákvað því að gera létt og bragðmikið spaghetti með risarækjum. Rétturinn var mjög bragðgóður og var sá litli mjög hrifinn og borðaði vel ! Þetta er kannski dálítið sumarlegur réttur, en hvað er betra í mínus fjórum en þegar eldhúsið ilmar eins og veitingastaður um hásumar í ítölskum strandbæ?

Spaghetti með risarækjum: (fyrir 3-4)

  • 300-400 gr frosnar hráar risarækjur, hreinsaðar og skornar í tvennt langsum.
  • 2 skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 1-2 hvítlauksrif, smátt söxuð (má sleppa og nota bara skallottulaukinn)
  • 1 askja piccolo tómatar eða kirsuberjatómatar
  • 1 væn lúka fersk steinselja, smátt söxuð
  • Safi úr einni sítrónu
  • 400 gr Spaghetti
  • Ólífuolía, salt og pipar
  • 2-3 msk parmesan
  • Klettasalat og smátt saxaður chilli (má sleppa)

Page_1Aðferð:

Rækjurnar afþýddar, hreinsaðar og skornar í tvennt eftir endilöngu. Þerraðar á eldhúspappír og kryddaðar með salti og pipar. Spaghetti soðið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Á meðan það sýður eru laukurinn og hvítlaukinn steiktur á pönnu í ca. 3 msk af ólífuolíu við meðalhita í um 3-4 mínútur. Tómötunum bætt út á og hitinn hækkaður og rækjurnar settar á pönnuna. Steikt í 2-3 mínútur eða þar til rækjurnar eru orðnar bleikar. Tómatarnir kramdir aðeins með sleifinni eða spaðanum. Þá er sítrónusafanum bætt út á auk steinseljunnar. Saltað og piprað.

Page_1 2Sigtið vatnið frá spaghettíinu þegar það er al dente, en takið frá 1 bolla af soðvatninu. Spaghettíið sett á pönnuna og blandað saman við rækjurnar. Ég sett alveg 1 bolla af soðvatninu með og skreytti svo með steinselju og reif smá parmesan yfir. Munið svo að smakka til með salti og pipar. Ég bar spaghettíið fram með smá klettasalati og dreifði örlitlu af söxuðum chilli yfir fyrir fullorðna fólkið.

IMG_0452Það væri sennilega ekki úr vegi að drekka glas af ísköldu dálítíð þurru hvítvíni með þessum rétti..

IMG_0466

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótlegt spaghetti, Piccolo tómatar, Risarækjur uppskrift, Spaghetti með risarækjum, Spaghetti uppskrift

Sítrónumuffins með birkifræjum

janúar 30, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_0428Hér hefur ekki verið eldað mikið undanfarna daga. Svona af kvöldmat allavega. Varla neitt síðan bjórkjúklingurinn góði var eldaður (sem við erum reyndar enn að hugsa um og ætlum að elda aftur við fyrsta tækifæri). Við höfum verið dálítið út um hvippinn og hvappinn, fórum á þorrablót og matarboð og svona allskonar fínerí. Auk þess hefur verið mikið að gera í skólanum og almennt kvöldmatar andleysi gert vart við sig hjá mér. Hver kannast ekki við andlausa kokkinn? Sem betur fer stoppar hann nú yfirleitt stutt við hjá mér svo ég býst við að skella hingað inn einhverjum góðum kvöldmat vonandi á næstunni.

IMG_0417Okkur var jú einmitt boðið í matarboð í kvöld svo ég ákvað að nota tækifærið fyrst ég þurfti ekki að gera kvöldmat og baka þessar indælis muffins til að fara með í matarboðið, verandi komin í hálfgerð eldhús og blogg fráhvörf. Þessar kökur eru í miklu, miklu uppáhaldi á heimilinu, sérstaklega hjá eiginmanninum. Hann rifjar reglulega upp hversu góðar þær eru og hvort ég þurfi ekki bráðum að fara að baka þær aftur. Sem er kannski ekkert skrýtið því þær eru dásamlegar. Ofsalega mjúkar og góðar og afar fljótgerðar. Birkifræin gefa þeim svo alveg sérstaklega skemmtilega áferð og bragðið er ljúffengt. Ég mæli heilshugar með þessum svolítið öðruvísi muffins kökum.

Sítrónumuffins með birkifræjum:

  • 150 gr smjör
  • 3 egg
  • 100 gr hrein jógúrt
  • Hýðið af tveimur sítrónum rifið af með rifjárni (bara þetta gula)
  • 1 tsk vanilluextract
  • 150 gr hrásykur
  • 225 gr fínt spelt eða hveiti
  • 2 msk birkifræ
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft (eða venjulegt)
  • 1 tsk matarsódi

Page_1Aðferð:

Ofn hitaður í 180 gráður, eða 170 með blæstri. Smjörið brætt og aðeins leyft að kólna. Sykri, spelti, lyftidufti, matarsóda og birkifræjum blandað saman í skál. Egg, jógúrt, vanilla og sítrónuhýðið hrært vel saman. Eggjablöndunni svo blandað saman við þurrefnin og smjörinu svo bætt saman við. Hrært saman með sleif og sett í 12 pappírsklædd muffinsform. Bakað í 20 mínútur.

IMG_0408Glassúr:

  • Safi úr einni sítrónu
  • 3-4 dl flórsykur

Hrært saman þar til ákjósanlegri áferð er náð. Sítrónur eru misstórar og ég mældi ekki nákvæmlega hversu mikill flórsykur fór í glassúrinn. Byrjið á 3 dl af flórsykri og sítrónusafanum og bætið svo smám saman flórsykri út í þar til glassúrinn er dálítið þykkur en lekur samt af skeið. Þegar kökurnar hafa kólnað í u.þ.b 20 mínútur er sett um 1 tsk rúmlega af glassúr á hverja köku og dreift aðeins úr honum með skeiðinni. IMG_0430

IMG_0415

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar muffins, Muffins, Muffins með birkifræjum, Sítrónumuffins

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 18
  • Page 19
  • Page 20
  • Page 21
  • Page 22
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme